Til baka

Ytri Rangá

Ytri Rangá

Eftir Jóhann Torfa Ólafsson

Ytri-Rangá er ein stærsta lindá landsins og á upptök sín í Rangárbotnum í um 200 m hæð yfir sjávarmáli. Hún sameinast Þverá og heitir vatnsfallið eftir það Hólsá. Frá ármótunum er veiðisvæðið 58 km langt upp eftir en 10 km eru þaðan niður að sjó. Laxveiðin í Ytri Rangá nær frá Borg í Hólsá og upp fyrir Gutlfoss en veiðisvæðum er skipt niður á tíu svæði með 50 merkta veiðistaði. Veitt er á 14 til 20 stangir á veiðitímabilinu sem nær frá 24. júní til 30. október. Mælst er til að Ytri Rangá sé veidd með tvíhendu, á sumum stöðum nægir að nota einhendu en veiðisvæðin eru af öllum stærðum og gerðum í ánni. Best þykir að nota flotlínu og mis-hraðsökkvandi sökkenda við veiðar. Fengsælar flugur í ánni eru Collie dog, Sunray shadow, Black and blue, Snældur í mismunandi litum, að ógleymdum þeim Frances-systrum (rauðri og svartri).

Veiðistaðalýsingin, sem fylgir hér, er skrifuð með veiðikort Ytri-Rangár í huga en allir veiðistaðir, sem fjallað er um, eru númeraðir eftir kortinu ásamt leiðarlýsingu að veiðisvæðum frá veiðihúsinu við Ytri- Rangá.

SVÆÐI 1

Fyrsta svæðið í ánni er í Hólsá, frá Borg og um Í km að ármótum Ytri-Rangár og Þverár. Á svæði eitt eru fjórir veiðistaðir merktir (1-4) sem eru misgjöfulir frá degi til dags en reyna má við þá alla. Til að komast að svæði 1 frá veiðihúsinu er ekið niður með ánni og beygt til vinstri 12—13 km neðar, þar sem skilti merkt Hólsá og Ástarbraut eru. Sá slóði er svo farinn að ánni á móts við veiðistaðinn Staurinn nr. 4 og er ekið niður með ánni að veiðistöðum 3, 2, og 1 Borg.

Veiðistaðurinn Borg einkennist af álum í botninum sem geta verið mismunandi eftir árum en Ytri-Rangá er þekkt fyrir að breytast yfir vetrarmánuðina vegna mikils sands og vikurs í botninum. Best er að veiða þessa ála með því að kasta yfir þá og venda línunni eins og hægt er til að hægja á reki flugunnar. Gott er að byrja frá landi en vaða svo aðeins út. Yfirleitt veiðist best í Ytri- Rangá með þessari aðferð þar sem laxinn tekur fluguna oftast á rekinu. Hægt er að veiða þessa ála sum árin alveg niður að ármótum við Hólsá en eins og áður segir eru þeir breytilegir milli ára.

Næsti veiðistaður, sem vert er að prófa, er Þvottaplanið. Hann er, eins og Borg, breytilegur, getur veiðst vel eitt árið en síðan dottið út annað árið en er þess virði að prófa ef tími gefst til. Lax getur haldið sig þar nálægt landi. Fyrir ofan Þvottaplanið er svo Straumey en sá veiðistaður gaf 267 laxa sumarið 2011. Best er veiða Straumey með því að vaða út í efri enda eyjunnar og ganga hana um það bil að miðju eða til móts við merkið á hinum bakkanum og kasta í áttina að landi en laxinn getur verið alveg uppi við bakkann. Er svo veitt niður að enda eyjunnar og veitt niður.

Staurinn er veiðistaðurinn sem tekur svo við af Straumey og er jafnframt efsti veiðistaður á svæði eitt. Staurinn getur haldið miklu af laxi, sérstaklega framan af sumri, en til að komast að veiðistaðnum er ekið yfir sleppitjörnina fyrir ofan Straumey og að rafmagnsstaurnum. Þegar mikið er af laxi er pott að byrja að veiða út frá staurnum og veiða sig niður en aðaltökustaðurinn er þó 20-30 metrum neðar. Eins og áður er best að byrja að kasta frá landi áður en vaðið er út í á.

SVÆÐI 2

Á svæði tvö eru sjö merktir veiðistaðir (5-12). Fyrsti veiðistaður er Djúpósnef, svo kemur Djúpós sem er aflahæsti veiðistaður síðustu ára á svæðinu. Til að komast að veiðistaðnum frá veiðihúsi er afleggjari tekinn til vinstri, um 10 km neðar, en best er að átta sig á veginum að veiðistað á minnisvarðanum sem er á flóðgarðinum miðjum.

Djúpós var lengi einn af aflahæstu veiðistöðum í Ytri- Rangá. Hann hefur verið slakari síðustu árin en á þó alltaf sína spretti á hverju sumri. Best er veiðin þegar lax er að ganga en Djúpós getur haldið miklu af laxi þegar góð ganga fer í gegn. Oft er hægt að sjá þegar lax rennir sér inn í hylinn en hann afar djúpur og liggur alveg upp að flóðgarðinum. Oft vaða menn út hjá klakkistunni fyrir ofan hylinn og kasta út í þar sem hann byrjar og vinna sig niður að garðinum. Þar er haldið áfram efst í garðinum og kastað um 6-7 metra út frá bakka en mikilvægt er að vera duglegur að venda línunni og veiða djúpt þegar veitt er niður. Er svo veitt niður að minnisvarðanum sem er litlu neðar og greinilegur.

Línustrengur er fyrir ofan Djúpós og tilvalið að reyna hann ef tími gefst til. Staðurinn tekur nafn sitt augljóslega af háspennulínu sem þverar ána efst í veiðistaðnum. Er hægt er að aka alveg upp að staurnum en annars er einungis nokkurra mínútna gangur þangað frá Djúpósi. Gott er að vaða hann beint út af háspennustaurnum og byrja þar efst en veiða sig svo niður allan moldargarðinn sem liggur niður með ánni. Línustrengur getur geymt mikið af laxi og er hann oftar en ekki að stökkva þar. Einnig veiðist stundum ofar, í eystri strengnum sem sameinast landstraumnum við háspennulínuna. Þetta eru helstu veiðistaðir á svæði tvö en ef tími gefst til má reyna Hólmabreiðuna og Húsabakka sem eru ofar og nær endimörkum á svæðinu.

SVÆÐI 3

Á svæði þrjú eru fimm merktir veiðistaðir (12—17) og er tilvalið að reyna fyrst við veiðistaðinn Hrafntóftir. Hann var áður albesti veiðistaður í Ytri Rangá og gat gefið þriðjung veiðinnar í ánni þegar hann var upp á sitt besta. Afleggjarinn að veiðistaðnum er litlu neðar en bærinn, sem hann heitir eftir, en hann er um 5 km frá veiðihúsinu. Gallinn við veiðistaðinn er sá að vegna vikursins í botninum eru Hrafntóftir aldrei eins milli ára. Síðastliðin tvö ár hefur besti tökustaðurinn verið 30 metra fyrir ofan sleppitjörnina og er þá veitt niður strenginn sem liggur meðfram bakka sleppitjarnarinnar. Hrafntóftirnar mega samt eiga það að þær hafa alltaf verið gjöfular.

Gunnugilsbreiða er næsti veiðistaður fyrir ofan Hrafntóttir. Nokkur vegalengd er á milli veiðistaðanna og aka menn yfirleitt á milli þeirra. Veiðisvæðið er á hægri hönd við bílastæðin og er vaðið út í hólma en hann er veiddur frá enda og niður eftir, um 40 metra.

17a hefur verið besti veiðistaðurinn á þessu svæði síðastliðin ár en hann gaf 414 laxa sumarið 2011. Hann er þó ekki merktur veiðistaður á veiðikorti Ytri Rangár en hann fannst ekki fyrr en 2008. Staðurinn, sem er við skilin á svæði þrjú og fjögur, hefur einnig verið nefndur Jóhannesarbreiða, í höfuðið á Jóhannesi Hinrikssyni leiðsögumanni sem uppgötvaði veiðistaðinn þegar hann sá lax bylta sér beint fyrir neðan Neðrahorn á svæði 4. Best er að byrja að veiða við skiltið sem skilur svæðin að og niður eftir breiðunni, alveg niður á sandhóla sem eru um 200 metra neðar, en tökustaðir geta verið á ýmsum stöðum á breiðunni.

SVÆÐI 4

Um svæði fjögur má segja að það sé einn samfelldur góður veiðistaður, allt frá Ægissíðufossi og niður á Neðrahorn, en alls eru þetta þrír veiðistaðir (18, 21-22). Austurbakki fossins tilheyrir svæði níu (19—20). Til að komast á svæði fjögur er beygt niður afleggjara merktan Ægissíðufossi en hann er um þrjá km frá veiðihúsi þegar ekið er niður Þykkvabæjarveginn. Frá bílastæðinu þarf að ganga stuttan spöl niður í gilið. Neðrahorn og Klöppin eru fyrstu veiðistaðirnir en þeir liggja saman og mynda einn skemmtilegasta veiðistaðinn í ánni. Þegar veitt er á Klöppinni er mikilvægt að vaða sem minnst og helst ekkert því að laxinn er styggur þarna en hann getur legið alveg við landið. Gott er að byrja 100 metra fyrir ofan Klöppina sem sést augljóslega úti í miðri á og vinna sig alveg niður að Neðrahorni. Oft hefur reynst vel að nota litlar flugur og strippa hratt yfir því að mikið fjör er á laxinum á þessum stað og geta þeir tekið hver á fætur öðrum.

Ægissíðufoss er án efa einn af fallegri veiðistöðum landsins og tekur við af Klöppinni. Í Ægissíðufossi er teljari og laxastigi og er hægt að sjá laxana hreinlega bíða í biðröð eftir því að fara stigann. Yfirleitt er byrjað að veiða um 15 metra fyrir neðan foss og veitt niður í átt að Klöppinni. Margir veiðimenn fá góða veiði þegar þeir vaða tvo metra út frá stærsta trénu sem er á miðri Fossbreiðu, kasta út á breiðuna og venda línuna og láta hana reka alveg að landi en þar liggur oft lax. Ægissíðufossinn er straumharður og mikilfenglegur og því gott að nota þunga hraðsökkvandi tauma.

SVÆÐI 5

Svæði fimm er eitt af skemmtilegri svæðum í Ytri Rangá þó að það sé ekki það gjöfulasta en þar eru sjö merktir veiðistaðir (23— 29). Þarna skiptir áin sér í tvennt fyrir ofan Ægissíðufoss og er frábært einhendusvæði. Aflahæstu veiðistaðirnir eru Hornið, en þar stoppar lax eftir að hafa farið upp fossinn, Svartistokkur og Kvíslapollar en mælt er með að ganga allt veiðisvæðið og kasta á álitlega staði því að oft á tíðum fást laxar á ómerktum veiðistöðum. Ef tími gefst er gott að ganga svæðið aftur því að laxinn er á göngu gegnum svæðið og gæti verið mættur á veiðistaðina. Áin vestan megin gefur yfirleitt betri veiði. Til að komast að veiðistöðunum er annaðhvort hægt að leggja hjá bílastæðinu að Ægissíðufossi og byrja á Horninu og vinna sig upp ána eða að leggja fyrir neðan Veiðihúsið og veiða niður eftir en þá byrja menn á Kvíslarpollum.

SVÆÐI 6

Á svæði sex eru fjórir merktir veiðistaðir (3033). Fyrsti veiðistaður á svæði sex er einn skemmtilegasti og eftirsóttasti veiðistaðurinn í ánni en hann er Rangárflúðirnar sem eru fyrir neðan veiðihús Ytri Rangár. Flúðirnar bera vel tvær stangir og eru veiddar bæði af austur- og vesturbakkanum. Þegar veitt er austan megin er vaðið yfir ána og er þá miðað við norðurenda veiðihúsins þegar vaðið er yfir. Samt ber að gæta að því að áin getur breytt sér milli ára og þar með vaðið einnig og er mælst til að menn fái upplýsingar hjá yfirleiðsögumanni eða veiðiverði hvar sé best að vaða. Gott er að kasta niður að broti um leið og vaðið er yfir því að lax getur haldið sig bak við brotið og þá sérstaklega ef búið er að kasta mikið á breiðuna fyrir neðan brot. Þegar á austurbakkann er komið er hægt að veiða beint af bakkanum eða vaða 2-4 metra út og kasta út á breiðu. Þegar veitt er af vesturbakkanum er gott að byrja að veiða af landi áður en vaðið er út á brotið en laxinn getur verið nálægt landi eða jafnvel alveg uppi við bakkann. Best er að vaða brotið sjálft og kasta niður brotið eða út á breiðu.

Gaddstaðabreiða er litlu ofar en Rangár flúðir og er hún veidd af austurbakkanum. Er þá vaðið yfir fyrir ofan Rangárflúðir. Best er að byrja að veiða á móts við enda eyjunnar sem er úti Í miðri á og vinna sig niður að Rangárflúðunum.

SVÆÐI 7

Á svæði 7 eru fimm merktir veiðistaðir (34—39) en helstu veiðistaðir eru Tjarnabreiða og Hellisey. Til að komast að veiðistöðunum frá veiðihúsinu er ekið til hægri og ekið í átt að Hellu. Rétt áður en farið er yfir brúna er beygt niður til hægri en þar eru bílastæði. Hellisey er fyrsti veiðistaður hjá brúnni en Tjarnabreiða neðar. Tjarnabreiðu er hægt að veiða á tvo vegu. Fyrst má veiða frá landi og byrja þar sem vatn rennur úr sleppitjörn og í ána. Þar er svo bakkinn veiddur niður eftir og alveg að mörkum svæða sex og sjö. Önnur leið er svo að vaða út í ána fyrir ofan rennslið úr sleppitjörninni og kasta síðan í átt að landi Þannig að flugan skelli á bakkanum á móti en lax getur haldið sig alveg uppi við landið. Tjarnabreiðan er þó frábrugðin flestum öðrum stöðum í Ytri-Rangá að því leyti að ekki þarf að veiða mjög djúpt og því er betra að nota þyngdar túpur eða létta sökkenda.

Hellisey er, eins og áður segir, fyrsti veiðistaður við bílastæðin hjá brúnni og byrja veiðimenn vanalega að veiða þennan veiðistað beint út frá bílastæðunum. Þaðan er veitt niður bakkann og kastað í átt að eyjunni en neðri hluti eyjunnar er helsti tökustaðurinn.

SVÆÐI 8

Svæði átta er með þrjá merkta veiðistaði (40-42) og er misgott eftir árum. Svæðið getur gefið góða veiði og þá helst veiðistaðurinn Stallmýrarfljót en svæðið er fyrir ofan brú og er veitt af vesturbakkanum. Heiðarbrún er fyrsti veiðistaður á svæði átta. Þegar ekið er að veiðistaðnum frá veiðihúsi er farið upp á þjóðveg og beygt til vinstri í átt að Reykjavík og svo strax aftur til hægri upp Árbæjarveg. Sá afleggjari er ekinn um 1 km og beygt til hægri áður en komið er að bænum Heiðarbrún. Ekið er eftir veginum út á enda og svo genginn smáspölur niður að veiðistaðnum.

Heiðarbrún er langur og lygn veiðistaður og gefur stundum góða veiði síðsumars. Eins og áður segir er best að veiða af vesturbakkanum og byrja efst þar sem hann er merktur og vinna sig niður. Er þá kastað af bakka áður en vaðið er út í því að lax getur haldið sig við árbakkann. Eins og áður er línan venduð eftir fremsta megni eftir kastið.

Stallmýrarfljót er besti veiðistaðurinn á svæði átta. Til að komast að staðnum er farið sömu leið og á Heiðarbrún en ekið lengra og beygt til hægri rétt fyrir neðan Árbæjarhjáleigu. Er sá vegur svo ekinn niður að sleppitjörn sem er við veiðistaðinn en þar getur safnast töluvert af laxi. Best er að byrja rétt fyrir ofan sleppitjörnina og labba rólega og kasta alveg niður með hylnum sem er þó nokkuð langur. Einnig er hægt að vaða út í eyju sem er í miðri ánni. Er þá best að vaða frá sleppitjörninni og að norðurenda eyjunnar. Frá eyjunni er svo veitt frá enda og niður. Gott er að vaða aðeins út í til að ná yfir á bakkann hinum megin en laxinn getur verið alveg uppi við land. Best er að nota tvíhendu ef vaðið er út í eyju.

SVÆÐI 9

Svæði níu er frábrugðið flestum öðrum veiðistöðum en þar er best að veiða af austurbakka Ytri-Rangár. Til nýbreytni var austurbakka Ægissíðufoss bætt við svæðið en með þeim stöðum eru alls sex merktir veiðistaðir (19-20, 43-46). Til að komast á efra svæðið frá veiðihúsinu er ekið upp að þjóðvegi og beygt til hægri í gegnum Hellu. Afleggjari að Gunnarsholti er tekinn til vinstri (Rangárvallavegur) og hann ekinn um kílómetra leið áður en beygt er til vinstri. Sá slóði er ekinn um annan kílómetra og beygt aftur fyrstu beygju til vinstri til að komast að Árbæjarkvísl en næsti vegur tekinn til að komast að Árbæjarfossi og Árbæjarbreiðu. Til að komast að austurbakka Ægissíðufoss er ekið yfir brúna og rétt áður en farið er út úr bænum er beygt til hægri og ekið niður veg sem er merktur Gaddstaðaflatir. Hann er svo ekinn nokkur hundruð metra, þá er beygt aftur til vinstri og sá slóði ekinn til enda.

Árbæjarkvísl er best veidd af austurbakkanum. Oft gefur kvíslin góða veiði en hefur þó verið döpur síðustu ár. Best er að byrja að veiða kvíslina mitt á milli bílastæðanna og árinnar og veiða sig svo niður eftir að klakkistunum en besti tökustaðurinn er rétt við kisturnar. Árbæjarfoss er einnig veiddur af austurbakka en best veiðist ef kastað er út í hvítfyssið með hraðsökkvandi enda og þungum túpum og veiða sig aðeins niður úr.

Árbæjarbreiðu er hægt að veiða vestan megin en hún hefur yfirleitt gefið betri veiði af austurbakkanum. Til að byrja með er breiðan djúp en svo grynnkar við endann. Oft heldur lax sig við grunna endann en vert er að veiða dýpri breiðuna einnig. Austurbakka Ægissíðufoss var bætt við svæði níu til að auka veiðimöguleika á svæðinu. Best er að veiða Fossbreiðuna en þá þarf að fara varlega þegar komið er að veiðistaðnum. Lax getur legið í grunnu vatni nálægt bakkanum. Þá er byrjað að kasta örlítið af bakka og svo unnið sig niður að veiðistaðnum Bleikjuvaði. Þar er svo sama regla og unnið sig niður að mörkum svæðis þrjú og fjögur.

SVÆÐI 10

Svæði tíu er með þrjá merkta veiðistaði (47—50) og eru þeir fyrir ofan Árbæjarfoss og ofan Gutlfoss. Það sama gildir á svæði tíu og níu að veitt er af austurbakkanum en helstu veiðistaðirnir eru Mælabreiða og Gutlfossbreiða. Til að komast á veiðistaðina er farið sömu leið og á svæði níu nema ekið aðeins lengra vegarslóðann af Rangárvallavegi.

Mælabreiða er fyrir ofan laxastigann í Árbæjarfossi. Hún er best veidd frá broti um 200 metra fyrir ofan stiga og svo veidd niður 150 metra. Helsti tökustaðurinn er þó nær laxastiganum þar sem lax hvílir sig eftir átökin.

Gutlfossbreiða er veidd eins og Mælabreiða að mörgu leyti. Þar er best að fara rétt fyrir ofan sleppitjörnina sem er á móti bílastæðunum og veiða sig svo niður eftir. Lax heldur sig meðfram bakkanum alla leið niður að laxastiga við Gutlfoss. Gott er að byrja að veiða frá landi og láta fluguna reka alveg að bakkanum áður en vaðið er út í. Hér, eins og alls staðar annars staðar í Ytri-Rangá, skiptir máli að venda línuna eins og hægt er.

Sjá allar lýsingar
Sjá allar lýsingar