Laxá á Ásum ósasvæði

Laxá á Ásum ósavæðið
Eftir Odd Hjaltason
Frá landnámi hafa veiðar á laxfiskum verið mikilvæg hlunnindi fyrir landeigendur að veiðiám, í formi fæðuöflunar og í seinni tíð sem tómstundaiðja og ferðaþjónusta. Því skal engan undra þó að frá ómunatíð hafi staðið illvígar deilur milli veiðiréttarhafa um réttindi til veiða og skiptingu arðs. Deilur um laxveiðiréttindi má rekja aftur til landnáms. Í landnámssögu Vatnsdals kemur m.a. fram að Ingimundur „gamli“ landnámsmaður var orðinn gamall og hálfblindur þegar Hrolleifur felldi hann vegna deilna um laxveiði í Vatnsdalsá. Deilur nútímans markast fremur af illa gerðum lagagreinum um skiptingu arðs milli veiðiréttarhafa, huglægu mati matsnefndarmanna þar um og óhóflegum kostnaði við matsgerðir.

Veiði á ósasvæði Laxár á Ásum hófst vorið 2012 eftir rúmlega tveggja áratuga baráttu landeiganda við ríkisfyrirtæki og stjórnsýslu landsins um að fá að nýta veiðisvæðið. Umrædd veiðiperla er á móti neðsta hluta silungasvæðis Vatnsdalsár. Ósasvæðið afmarkast af tæplega 3 km gönguleið laxfiska, frá veiðimörkum Laxár á Ásum, í gegnum neðsta hluta Húnavatns, þaðan í Hólmakvísl, sem rennur út í Húnaós. Efsti hluti veiðisvæðisins, Húnavatn, afmarkast af litlum hólma við austurbakka vatnsins, rétt um 200 metrum neðan við ós Laxár á Ásum. Á efri hluta veiðisvæðisins í Húnavatni er mögulegt að veiða, bæði frá suðurbakka (grasbakka) og norðurbakka (sandeyrum). Á þessu svæði var sjósilungur áður fyrr veiddur í net, neðan við hólmann, þaðan niður með bakkanum og áfram niður fyrir Torfalæk sem rennur í Húnavatn en líklegt er að mesta veiðivonin á austurbakkanum sé í kring um Torfalæk.
Á miðhlutanum er samfellt veiðisvæði sjósilungs meðfram austurbakka Hjaltabakkahólma. Neðsti hluti veiðisvæðisins, austurbakki Hólmakvíslar, er samfellt veiðisvæði en þar er jafnframt mesta veiðin á ósasvæðinu. Á fjöru rennur Laxá á Ásum niður að Hjaltabakkahólma en á háflóði er þetta svæði vatn. Þar sem veiði á ósasvæði Laxár er fallskipt er veiði leyfð hvenær sem er, að degi eða nóttu, þó aldrei lengur en tólf klukkustundir á sólarhring.
Til þess að komast á veiðisvæðið er keyrt frá gamla veiðihúsinu niður á þjóðveg, þaðan yfir brú Laxár á Ásum og farið í gegnum fyrsta hliðið á vinstri hönd, þegar komið er yfir ána. Þá er keyrt eftir malarvegi meðfram Laxá á Ásum niður að sandbakka við neðsta hluta árinnar. Þegar komið er að nýrækt á vinstri hönd er keyrt eftir slóða sem er á hægri hönd og síðan áfram niður á ósasvæðið. Nauðsynlegt er að vera á fjólhjóladrifnum bíl á svæðinu, þar sem sandslóðar og brekka eru aðal farartálmarnir. Megin hluti aflans á ósasvæði Laxár veiðist í Hólmakvísl en fram til þessa hafa tilraunaveiðar aðallega beinst að kvíslinni en austurbakki ókannaður. Þó hafa laxar sést á grynningum við efsta hluta hólmans, rétt við veiðimörkin.
Ekki er ráðlagt að vaða út í Hjaltabakkahólma þar sem sandbleytur geta leynst víða. Grandi er efsti og jafnframt gjöfulasti veiðistaðurinn á austurbakka Hólmakvíslar. Reynsla síðustu ára sýnir að best er að byrja veiðar tveimur til þremur tímum ettir háflóð og hætta þegar komið er tvo tíma fram yfir fjöru. Grandi er fjölbreyttur veiðistaður og gjöfull. Fimmtán til tuttugu metrum ofan við hann er mikill malarkambur, sem liggur þvert á Hjaltabakkahólma. Þar liggja oft bleikjur í ætisleit, mest hlémegin við malarkambinn, en líka ofan við hann. Milli Granda og malarkambsins rennur strengur sem liggur meðfram Granda og niður í Hólmavík. Á vorin og fram í byrjun júlí er mikið um sjóbirting í strengnum, allt frá efsta hluta hans og niður að Hólmavík. Lax stoppar oft neðarlega og utarlega Í strengum á göngu upp í árnar.
Í Hólmavík, neðan við Granda, getur verið góð veiði, aðallega þegar sjóbleikja er á ferðinni, en einnig veiðist þar lax og sjóbirtingur. Veiðin er aðallega efst og neðst í víkinni. Neðst í víkinni er töluverð möl, sem endar með malarkambi og tengist Malareyrinni. Þar liggja laxfiskar oft fram yfir fjöru. Malareyrin tekur við af Hólmavík og í raun er um að ræða samfellt veiðisvæði frá Granda niður á Malareyri. Malareyrin byrjar við lítinn tanga þar sem áin fer að breiða úr sér. Efst á Malareyrinni er mikill malarkambur sem gengur þvert á ána út frá tanganum. Neðan við og í malarkambnum er oft mikið af sjóbleikju. Töluverður strengur myndast við land og þar stoppa sjóbirtingur og lax í stuttan tíma. Best er að byrja að veiða strenginn landmegin og færa sig síðan utar og veiða malarbreiðuna.

Breiðavík byrjar neðan við strenginn í Malareyrinni. Veiði er fremur lítil á þessum stað en sjóbleikja getur verið þarna á útfallinu. Húnastrengur er rétt fyrir ofan skurð, sem hefur myndast þegar vatn flæðir yfir bakka Húnavatns. Sjóbleikja eða sjóbirtingur stoppa þar stundum í ætisleit. Best er að veiða strenginn sem myndast þarna á útfallinu. Húnaós er neðsti staðurinn í Hólmakvísl. Hann færist oft til á milli ára og staðurinn breytist mikið sem veiðistaður. Í einstaka tilvikum er illmögulegt að veiða þar vegna straumþunga.
Leigutaki ósasvæðisins er Salmon Tails, sem sér jafnframt um sölu veiðileyfa í Laxá á Ásum og Fremri Laxá. Að sögn Arnars Jóns Agnarssonar hjá Salmon Tails kaupa erlendir veiðimenn oft ósasvæðið með Laxá á Ásum og dæmi eru um að þeir eyði jafnvel meiri tíma þar. Fegurðin á sumarkvöldum hefur gert marga veiðimenn orðlausan þegar horft er á „„húnagullið“ við sólarlag. Sama á við um laxfiskana sem þarna veiðast. Besta tímabilið til að veiða silung á Ósasvæðinu er frá miðjum maí fram í miðjan júlí. Eftir miðjan júlí er lítið um silung á svæðinu en lax gengur þá jöfnum höndum um svæðið allt fram í byrjun september. Seinnipartinn í ágúst byrja göngur af sjóbirtingi og f fram í miðjan september. Þá er best að veiða í ljósaskiptum, einkum á morgnana. Eftir þriggja ára tilraunaveiði er ljóst að margir veiðimenn telja ósasvæði Laxár á Ásum eitt skemmtilegasta ósasvæði landsins.