Krossá á Skarðsströnd

Krossá á Skarðsströnd
Krossá er sjálfbær laxveiðiá sem hefur verið rannsóknarverkefni hjá Veiðimálastofnun frá 1986. Teljari var settur í ána 1998 og hefur hann veitt mikilvægar upplýsingar um laxagöngur Í ána. Hér um ræðir litla tveggja stanga á, mjög viðkvæma en með fjölbreyttum veiðistöðum. Áin hentar öllum, bæði ungum og öldnum og má beita maðki og flugu. Aðgengi að ánni er mjög gott. Hún er vel merkt og góðir veiðivegir eru að henni og færir flestum bílum. Vöðin geta þó verið varasöm ef mikið vatn er í ánni. Árleg meðalveiði í Krossá síðastliðin ár hefur verið 235 laxar. Við byrjum veiðistaðalýsingu á ánni á efsta veiðistað of færum okkur niður með ánni.
405 Lúmskur
Lúmskur er nýr veiðistaður, djúpur og fallegur sem vert er að reyna. Hér liggur fiskur oftast ofarlega í strengnum eða undir móbakkanum en getur einnig legið undir bakkanum langleiðina niður að vaði.
400 Bytta
Bytta er djúpur og fallegur hylur sem betra er að veiða sunnan megin. Hann er sérlega flottur flugustaður en lítið hefur þó veiðst þar síðustu ár.
390 Lygn
Lygn hefur verið einn gjöfulasti veiðistaðurinn Í ánni mörg undanfarin ár. Hann er djúpur, mjög viðkvæmur og lygn veiðistaður með miklum holbökkum, sem reyndar hrundu nokkuð í júlí 2014. Hér á í hlut góður fluguveiðistaður sem helst þarf að skríða að til að fæla ekki fiskinn. Veiðimenn mega alls ekki byrja á að kíkja eftir fiski áður en rennt er. Fiskur getur legið um allan hylinn.

380 Falskur
Falskur er mjög breytilegur milli ára en vert er að reyna að kasta þar því að maður veit aldrei hver staðan er hverju sinni.
370 Kotfljót
Í Kotfljóti, líkt og í Lygn, getur fiskur legið um allan hyl. Best er að byrja á að renna frá veiðistaðamerki og niður strenginn. Fiskur tekur oft neðst í strengnum í beygjunni. Nauðsynlegt er að kasta flugu alla leiðina niður að vaði.
360 Skolli og 350 Krókar
Veiðistaðir þessir geyma ekki fisk nema í miklu vatni snemma sumars.
340 Merkjastrengur
Hér skal byrja á að renna vel fyrir ofan ármótin. Hér liggur fiskur í strengnum Krossdalsármegin og heldur staðurinn laxi í meðalvatni.
330 Hríslufljót
Í Hríslufljóti er hægt að hitta á fisk Í göngu og vert er að kasta flugu á þessum stað.
320 Kolflúð
Hér getur fiskur legið undir bökkum og steinum í flestum strengjum niður að Trausta, nr. 317.
317 Trausti
Hér á í hlut nýr veiðistaður, sem Trausti Bjarnason bjó til 2012. Hann er djúpur pyttur með góðum streng. Hér getur fiskurinn legið efst í strengnum og niður með bakkanum sunnan megin.
315 Bakki
Á Bakka er alltaf fiskur sem liggur niður með og undir bakkanum. Byrja skal við veiðistaðarmerkið og vinna sig Í rólegheitum niður allan hylinn, alveg niður að vaði. Bakki er flottur flugustaður, þó mjög viðkvæmur og betra að veiða hann norðan megin.
312 Eyri
Eyri er nýr staður, gerður 2012, og líklegur til að skila veiði í góðu vatni.
310 Veitustrengur
Á þessum stað er yfirleitt alltaf fiskur en margir felustaðir eru undir stórgrýtinu. Best er að veiða með flugu sunnan megin af eyrinni, byrja efst í strengnum og vinna sig niður hylinn. Einnig má veiða norðan megin og nota þá maðk. Frekar erfiður straumur er í hylnum.
300 Tröllakvíar
Vert er að prófa Tröllakvíar með því að veiða strenginn alveg niður á lygnuna, byrja Í strengnum norðan megin áður en syðri strengurinn er prófaður alveg niður á lygnuna.
290 Hornið
Hornið er fjölbreyttur veiðistaður. Laxinn getur legið víða og fer það eftir vatni. Hér er ráðlegt að byrja að veiða með flugu.

280 Rennur
Rennur er góður fluqveiðistaður, laxinn liggur víða í holum og við steina. Hér er mælt með að reyna Portlandsbragðið/Gára.
270 Steinfljót
Hér er best að byrja að veiða andstreymis, frá eyrinni norðan megin og muna að renna yfir allan hylinn. Laxinn liggur milli steina á dýpinu sunnan til í hylnum. Hér hefur veiðst þokkalega síðastliðin ár.
260 Stekkfoss
Stekkfoss er erfiður staður með miklum festum en þar er alltaf fiskur.
250 Tindafoss
Tindafoss er erfiður veiðistaður. Hylurinn er mjög djúpur og þar er mikill straumur og erfiður.
240 Holan
Holan er mestmegnis maðkastaður. Hér liggur fiskurinn á miklu dýpi við grjótið í miðjum hylnum og undir klettinum að norðan verðu.

230 Holustrengur
Strenginn er best að veiða andstreymis og strippa niður hann eða renna maðki. Hér sér maður yfirleitt ekki laxinn í hylnum.
220 Þristur
Þessi staður hefur gefið vel undanfarin ár. Best er að veiða undir klettinum að sunnanverðu og sakka beitunni vel. Hér getur fiskur legið í öllum fossunum og fært sig niður á breiðuna fyrir neðan þegar mikið vatn er í ánni. Tilvalið er að kasta flugu á breiðurnar fyrir neðan Í miklu vatni.

210 Mjóstrengur
Hér liggur laxinn gjarnan undir frussinu og er mælt með að byrja að kasta andstreymis áður en gripið er til maðksins.
200 Kista
Þetta er mjög dyntóttur staður en þar er yfirleitt fiskur neðarlega í straumkastinu, hann sést vel af klettabrúninni norðan megin ef hann liggur á breiðunni fyrir neðan.
190 Stiklufossar
Í Stiklufossum er stórgrýtt og mikið um festur og því ráðlegt byrja á að kasta flugu yfir allan hylinn.
180 Tvistur
Tvistur er tilvalinn flugustaður. Hér getur laxinn legið undir hvítfrissinu og niður með klettinum sunnan megin.
170 Húsahvammsflúðir og 160 Ármót
Hér eru á ferð tveir mjög fallegir staðir sem hafa þó gefið lítið undanfarin ár mest þó í göngu. Hafa ber í huga að það getur margborgað sig að sleppa ekki veiðistöðum, fiskurinn er dyntóttur og getur leitað nýrra staða.
150 Berghylur
Hér er best að byrja að kasta flugu af eyrinni sunnan megin en maðki að norðanverðu. Laxinn liggur oft í strengnum efst í beygjunni eða í miðjum hylnum úti af klettanefinu. Lax getur legið niður fyrir stóra steininn neðarlega í hylnum.
140 Efrihvammsstrengur 130 Barnaklettar 120 Jósepsstrengur
Þessa þrjá staði borgar sig að reyna við, einkum þegar fiskur er að ganga. Hér veiðist oft í júlí og byrjun ágúst.
110 Efrifoss
Efrifoss geymir alltaf fisk. Best er að byrja undir hvítfrissinu sunnan megin og færa sig síðan yfir í strenginn að norðanverðu. Hér þarf að sakka vel.
100 Neðrifoss
Við Neðrifoss er vert að reyna fluguna á undan maðkinum. Fiskurinn getur verið um allan hylinn sem er mjög djúpur. Hægt er að veiða beggja megin frá.
90 Kerið 80 Kvörn 70 Kvarnastrengur 60 Tíðavað
Þessa fjóra staði er hægt að veiða beggja megin frá. Fiskur stoppar yfirleitt stutt við og liggur víða við steina og í strengjum.
50 Kvíastrengur
Hér er á ferð flottur fluguveiðistaður. Gott er að byrja við girðinguna sem liggur yfir ána og vinna allan hylinn niður á brotið. Hér getur fiskur leynst víða, þó yfirleitt norðan megin í strengnum.
40 Völkufljót
Þessi fornfrægi veiðistaður hefur gefið vel undanfarin sumur. Staðurinn er viðkvæmur og gott að byrja að renna í strenginn ofan við merkið. Lax getur legið níður að teljaragrindum. Gott er að fara með fluguna yfir neðri hlutann þar sem straumurinn er hægari. Oft liggur lax í pyttinum neðan við grindurnar
30 Klapparstrengur
Á þessum stað stoppar oft fiskur í göngu, þó helst út frá grjótgarðinum norðan megin.
25 Hlöðufljót
Í Hlöðufljóti er yfirleitt lax að finna í júlímánuði þegar fiskur er í göngu. Laxinn liggur yfirleitt í strengnum úti af klöppinni og niður á milli grjótsins að norðanverðu, einnig fyrir neðan stóra grjótið sunnan megin. Þessi staður hentar vel bæði fyrir flugu og maðk.
20 Bakkafljót
Í Bakkafljóti skal byrja efst í strengnum og reyna síðan alveg niður á brot. Þessi hylur er mjög breytilegur milli ára en gefur yfirleitt ágætlega.
11 Tilraun
Þessi staður hefur gefið ágætlega. Hér stoppar laxinn stutt á göngu sinni. Fiskurinn liggur yfirleitt í strengnum sunnan megin og síðan í dýpinu neðst í hylnum.
10 Vonarskarð
Vonarskarð er neðsti staðurinn í ánni. Þar getur fiskur legið frá beygjunni ofan við merkið og alveg níður fyrir grjótið neðst í hylnum. Í hylnum er sjóbleikjuvon og getur hún legið niður rennuna vel fyrir neðan grjótið.
