Til baka

Laugardalsá

Laugardalsá

Laugardalsá í Ísafjarðardjúpi hefur löngum verið talin besta laxveiðiá Vestfjarða. Ekki þarf að deila um það ef skoðuð er meðalveiði síðustu ára á hverja stöng. Laugardalsá fellur um samnefndan dal til sjávar í Mjóafjörð að vestanverðu. Áin er alls 16 km að lengd og vatnasvið hennar spannar 56 ferkílómetra. Hún er dragá en stöðuvötnin Laugarbólsvatn og Efstadalsvatn hækka hitastig og auka frjómagn. Frá Laugarbólsvatni að sjó er 6 km bakkalengd og 18 merktir veiðistaðir en á göngutíma er víða hægt að rekast á lax í nokkrum ómerktum strengjum og holum. Þegar líður á eru Dagmálafljót og Blámýrarfljót helstu staðirnir og geta þessir hylir geymt ótrúlegt magn af laxi.

Algengt er að menn sitji fastir tímunum saman vitandi af þessu mikla magni og stöðuga lífi. Laxinn í Laugardalsá er að megninu til smálax en þó nokkuð veiðist af stórlaxi í ánni í bland við hinn smáa. Síðastliðið sumar var stærsti laxinn 103 cm. Laxinn í ánni er rennilegur og afar sprækur og talinn afspyrnu tökuglaður. Mikið er af silungi á svæðinu og veiðast hann jafn í ánni og vötnunum. Nýir leigutakar ákváðu að eingöngu yrði veitt á flugu og skal öllum laxiyfir 70 cm að lengd sleppt aftur en veiðimenn mega taka einn smálax á dag á hverja stöng. Þetta er mikil breyting frá fyrri árum þar sem 99% af veiddum laxi endaði í líkkistu.

Fyrst mun laxaseiðum hafa verið sleppt í Laugardalsá árið 1936 og var þar Jón Baldvinsson að verki. Forystumaður Laugdælinga í veiðimálum var Samúel á Hrafnabjörgum og síðar tók Sigurjón sonur hans við en hann varð síðar formaður veiðifélagsins. Árið 1941 var ráðist í umbætur á Einarsfossi og reynt að gera hann laxgengan en hann er skammt frá sjó. Frekari umbætur voru síðan gerðar 10 árum síðar. Árangurinn af þessum framkvæmdum var undir væntingum en árið 1969 var fullkominn laxastigi settur upp í Einarsfossi og hefur hann gefið ákaflega góða raun. Þarna er eitt besta dæmið um vel heppnaða fiskrækt hérlendis en áin var fiskilaus allt þar til að fiskvegur var sprengdur í Einarsfoss.

Laxveiði í Laugardalsá hefur verið nokkuð brottgeng. Minnst komu 111 laxar á land 1996 og mest 703 laxar 1978 en meðalveiðin á þessari öld er um 350 laxar. Mest má veiða á þrjár stangir samtímis frá 1. júlí til 20. ágúst.

Veiðistaðir:

Brúarstrengur er neðsti veiðistaðurinn Í Laugardalsá og þar gætir flóðs og fjöru. Laxinn liggur oftast við grjót í miðjum hyl og heldur sig þar uns fjarar út. Best er að fara varlega og auðvelt er að styggja lax með því að ganga yfir brúnna.

Í Svörtuloftum stoppar fiskurinn í holum fyrir ofan og neðan steininn. Gott er að taka hraða umferð með litlum Sunray Shadow því að laxinn hvelltekur ef hann stoppar á þessum stað. Hér er laxinn nýgenginn, gott er að læðast aftan að honum austanmegin og veiða hann andstreymis með litlum þungum cone, einnig er hægt að pikka hann upp hér þegar hann er í göngu.

Berghylur: Í meðalvatni liggur fiskurinn í miðjum hyl. Hérna er gárutúpan sterk.

Nef (4a): Best er að fara niður Strandaselsmegin og veiða brúnna, ganga varlega upp með kletti sem er ofan við eyrina. Gott getur líka verið að veiða þennan stað andstreymis til að styggja ekki laxinn. Þarna stoppar laxinn stutt við

Skáfoss (4B): Best er að fara niður Strandaselsmeginn við brúnna og ganga varlega upp með klettinum. Ef menn hafa séð lax er gott að taka nokkur köst andstreymis til að styggja ekki fiskinn. Þegar laxinn er í göngu geta menn veitt ótrúlega í gilunum, menn hafa séð þau blá af laxi.

Langifoss er fyrsti veiðistaður ofan stiga og er hann veiddur Strandaselsmegin. Gott getur verið að nota hitch-túpur á þessum stað. Laxinn liggur þétt í bakkanum þeim megin sem staðið er og skal leyfa flugunni að berast alla leið að bakkanum. Óheimilt er að veiða á breiðunni sem er rétt fyrir ofan stigann.

Hagakotsfoss er fallegur veiðistaður en er því miður meira fyrir augað, þó er þess virði að reyna að setja í göngulax. Staðurinn er veiddur veiðihússmegin og gjöfulast er að veiða hvítfrissið niður og í fjær hlið straumsins, gott er að klára að veiða niður fyrir grjótið.

Sigurjónshylur var búinn til fyrir nokkrum árum en hefur ekki verið neitt sérlega gjöfull. Kannski spilar inn í að töluverður göngutúr er í þennan stað. Oftar en ekki lenda menn í svakalegri urriðaveiði á þessum stað.

Grímhólshylur er einn af mínum uppáhaldsstöðum, hér hef ég séð svakalega fiska. Fiskur liggur á þessum stað allt tímabilið og finnst mér að menn vanmeti þennan stað gríðarlega mikið. Staðurinn er veiddur frá báðum bökkum, gott er að byrja efst í grjótinu því að fiskurinn getur legið mjög ofarlega í hylnum. Ég byrja alltaf á því að hitsa þennan stað.

Skriðufljót er enn af betri veiðistöðum í ánni. Fiskur er hér allt tímabilið. Staðurinn er frábær fluguveiðistaður, hér heldur fiskurinn sig ofarlega í straumnum og mjög nálægt bakkanum hússmegin. Þar sem grjótið er úti í ánni byrjar hylurinn þar sem eru tveir straumar og oftast tekur fiskurinn í nærstraumnum ofarlega en hægt er að reka í fisk alla leið niður hylinn. Það getur verið frábært að læðast niður með ánni og upp með bakkanum og kasta litlum coneflugum upp í strenginn

Lambatangafljót Fiskur virðist ekki stoppa í þessum hyl, ég hef allavega ekki séð lax á þessum stað, heldur aðeins einhverja urriðatitti.

Blámýrarfljót er einn af betri veiðistöðum í ánni og getur hann geymt gríðarlegt magn af laxi en einnig verið erfiður viðureignar. Menn eyða heilu dögunum á þessum stað enda er hann þægilegur veiðistaður og frábær með flugu. Eins og oftast er langbest að nota litlar flugur í Laugardalsá, 14-18 og micro hitch. Best er að koma að staðnum hvíldum því að mikið álag er á þessum veiðistað. Fínt er að byrja á að nota hitch efst í hvítfrissinu, oftar en ekki stekkur laxinn strax á hitchið. Gott er að byrja að veiða strauminn sem er með landinu til hægri og læðast út að steinunum en mikilvægt er að vera á hnjánum og alls ekki standa því að það getur styggt laxinn.

Ponta er vanmetinn veiðistaður því að lítið ber á honum, hvort sem menn halda að hann sé ekki veiðilegur og þá sérstaklega í litlu vatni. Staðreyndin er hins vegar sú að oftast leynist lax á þessum stað og hef ég lent þar Í algjörum ævintýrum, sérstaklega með hitchið — hann er sennilega skemmtilegasti hitch-staðurinn í ánni. Oft eru menn að flýta sér á Dagmálafljótið og gefa sér ekki nægan tíma til að veiða þennan stað. Mín reynsla er að hér getur laxinn verið út um allt og þá sérstaklega í göngu, oftast er hann að elta hitch alveg upp við land og getur tekið alveg fáránlega nálægt manni.

Símastrengur: Fáir fiskar veiðast úr þessum hyl en þeir sem nenna að reyna hann geta gert gott mót. Ég hef ég séð þennan stað krauma af laxi og hann beggja vegna, enda er hann helsti tökustaðurinn í V-inu

Dagmálafljótið er talið besti staðurinn í ánni að margra mati og getur hann geymt gríðarlegt magn af fiski. Staðurinn er yfirleitt veiddur á bakkanum sem menn koma að staðnum, gott er að fara á hnén og láta lítið fara fyrir sér og kasta efst í hylinn. Oftar en ekki stekkur laxinn á fluguna í fyrstu köstunum. Hann getur legið klesstur við bakkann hinum megin og þá sérstaklega í miklu vatni, síðan er hægt að fá lax um alla breiðuna. Besti tökustaðurinn er við grjótið í miðjunni. Hér ættu allir að ná að setja Í lax.

Hólmastrengur gefur alltaf eitthvað af laxi á hverju ári. Merkti staðurinn gefur fáa laxa en nokkrar holur eru í kringum eyjuna sem er þess virði að kasta á. Laxinn virðist frekar stoppa í þessum holum en merkta staðnum en ekki veit ég ástæðuna á því.

Ruðningur er fljótveiddur staður sem gefur oft lax og þá sérstaklega í göngu. Við höfum lent í moki á þessum stað. Þetta er lítill strengur og tekur laxinn oftast hægra megin í honum.

Affallið er efsti veiðistaðurinn í neðri ánni og jafnframt sá gjöfulasti. Affallið er í raun nokkrir veiðistaðir og geta þeir geymt svakalegt magn af laxi. Í logni er gríðarlega erfitt að fá hann til að taka, um leið og það gárar eða hvessir hleyp ég upp í Affall og næ yfirleitt að setja Í nokkra fiska. Einnig er mikið magn af urriða á þessum stað og geta þeir verið vænir. Hér gildir að fara varlega eins og á öllum veiðistöðum í ánni.

Þá er búið að stikla á stóru varðandi helstu veiðistaðina í ánni. Veiðitímabilið stendur yfir frá 15. júní til 15. september. Meðalþyngd síðustu ára er um 5 pund. Aðgengi að veiðistöðum er mjög gott. Veitt er á tvær stangir í ánni að undanskildum júlímánuði og fram til 21, ágúst en þá er veitt á 3 stangir. Áin er í um 345 km. fjarlægð frá Reykjavík. Áin er nokkuð nett og passar ágætlega aðveiða á 9 feta einhendur fyrir línuþyngd 5-7 og þægilegast að nota flotlínu.

Sjá allar lýsingar
Sjá allar lýsingar