Til baka

Brúará

Brúará

Eftir Árna Kristinn Skúlason

Brúará er ein af þeim perlum sem menn eiga til að vanmeta þar sem erfitt getur reynst að ná tengingu við hana. Bleikjan er þó þekkt fyrir að vera dyntótt og leiðinleg en með réttri tækni er auðvelt að læra hvernig hægt er að veiða hana. Veiðisvæðið er afar fjölbreytt, allt frá straumhörðum strengjum yfir í lygnar og fallegar breiður. Bakkinn er afar gróðurmikill og iðandi af fuglalífi.

Langþekktasta svæðið í ánni er án efa fyrir landi Spóastaða. Þar er gott aðgengi að ánni og veiðisvæðið mikið stundað. Á vesturbakkanum er hinsvegar land Sels, þar sem ég byrjaði ungur að veiða með pabba mínum. Ánna þekki ég jafnvel og handarbakið á mér, hverja beygju og hvern streng. Þar er þó enginn vegur né slóði meðfram bakkanum svo að veiðimenn verða að fara gætilega og ganga vel um.

Bestu veiðistaðirnir í landi Sels eru eftirfarandi:
Staurinn og beygjan þar fyrir neðan

Fyrir neðan brúna var stór staur við bakkann. Þar útfrá var oft bunki af bleikjum, og oft vænum. Fyrstu minningar mínar af veiði voru með pabba mínum við þennan staur. Hann stóð við hann og sjónkastaði á bleikjurnar. Þegar þær tóku fluguna tók ég við, þreytti þær og landaði þeim, en þetta var áður en nýja brúin kom. Við komu hennar grynnkaði áin og straumurinn jókst. Hins vegar kom malareyri upp aðeins neðar og við hana myndaðist hylur. Þar liggur alltaf bleikja, bæði stór og lítil. Þar tók ég fyrsta flugufiskinn minn, reyndist hann 58 sm bleikja sem tók rauðan Killer #14. Við hita og sólarljós er bókað mál að bleikjan liggur þar í grynningunum. Best er að veiða hylinn með því að vaða yfir ána út frá tré sem er við bakkann og kasta í átt að Seli. Strengur liggur meðfram bakkanum og er best að kast í strauminn þar.

Mógrafir

Ekki er mikill lax í Brúará nú til dags en ef þegar svo er liggur hann pottþétt í Mógröfunum. Þar eru tveir stórir steinar úti Í ánni og liggur laxinn fyrir aftan þá. Erfitt er að veiða hylinn með flugu, best væri að brúka þar tvíhendu. Um 100 metrum fyrir ofan steinana er hylur með bakstraum í ánni. Þar liggja oft bleikjur en þær liggja djúpt og erfitt að ná þeim.

Hrafnaklettar

Hrafnaklettar eru einn frægasti veiðistaðurinn í ánni. Lygnan er falleg og djúp, fiskurinn liggur oft alveg uppi við bakkann og best er að læðast að honum til þess að styggja fiskinn sem minnst. Áin er gríðarlega djúp á móts við stærsta klettinn. Þar liggur alltaf fiskur, sól og hitastig ræður oftast hvar hann liggur í honum. Við hita og lygnu liggur fiskurinn oft í sandbotninum við bakkann en ef það er kalt og hvasst er hann oftast í djúpinu.

Fossbotninn

Fossbotninn er einn besti veiðistaður í ánni og geymir alltaf fisk. Staðurinn er gríðarlega grunnur og botninn ber klöpp. Þar er gott að stytta tauminn í um einn og hálfan metra. Ég nota oftast stangarlengd af taum en færi tökuvara eftir vild. Fiskurinn liggur út um allt í hylnum en erfitt er að veiða þar vegna straums. Gott er að halda stönginni hátt uppi, hafa eins litla flugulínu á vatninu og hægt er til að hún láti strauminn ekki taka sig hraðar en fluguna. Gott er að standa fyrir neðan klettinn og kasta í frysstungurnar í fossinum, láta fluguna reka niður og vera með tilbúinn að bregða við stönginni þegar bleikjan tekur.

Vatnsmælirinn

Fyrir landi Spóastaða er lítill hvítur kofi sem er vatnsmælir. Á móts við hann og upp að beygjunni er mjög góður staður. Neðst er hann hyldjúpur en grynnkar til muna þegar ofar dregur. Svipað gildir með hann og Hrafnakletta, þegar sólin skín og heitt er í veðri liggur fiskurinn ofar í grynningunum en í kulda og skýjuðu veðri liggur hann neðar í dýpinu. Efst er hylurinn lygn og auðveldur að veiða en neðar eykst straumurinn.

Felgan

Góðan kílómetra fyrir ofan fossinn er veiðistaður sem ég kalla Felguna. Þar liggur fiskurinn oft í harðalandi. Þar hef ég séð stærstu bleikjurnar úr Brúará, þær sem taka ekki neitt og sitja bara fyrir framan mann og stríða manni. Aftur á móti er mikið af 2-3 punda fiskum þarna og eru oftar en ekki í tökustuði vegna hve lítið veiðistaðurinn er stundaður. Þrír kílómetrar eru meðfram ánni á þýftum árbakkanum og er fjarlægðin ekki það skemmtilegasta. Felgan er meðaldjúpur staður, straumurinn er venjulegur og ekki er mikið um festur. Einnig eru stórir urriðar inn á milli bleikjanna í Felgunni.

Ég veiði ekki jafn mikið í ánni fyrir landi Spóastaða eins og í landi Sels en þegar ég fer þangað kýs ég að veiða staðina sem minnst eru barðir. Ég veiði mig upp frá bílastæðinu við Dynjanda upp að Markalæk og vinn mig svo niður. Þar er kannski ekki mikið af fiski en hann er oft vænn þegar maður hittir á hann. Síðan veiði ég mig niður eftir Hrafnaklettum, þar er oft gríðarlega mikið af fiski og skemmtilegt að renna fyrir honum. Ekki margir leggja í að labba meðfram klettunum og því fá margir sem fara þangað góða veiði. Þar nota ég nákvæmlega sömu tækni og í landi Sels, köst meðfram bökkum og passa rekið vel.

Fyrir Brúará mæli ég með:

Flugur: Mobuto, Krókurinn, Peacock, Alma-Rún, Buzzerar, Langskeggur, Pheasant Tail og flest allar litlar svartar, brúnar og rauðar flugur. Smá appelsínugult skemmir líka ekki fyrir. Mjög árangursríkt er að veiða með svokallaðan Dropper þar sem tvær eða þrjár púpur eru notaðar. Stangir #4-7, skemmtilegt að veiða ánna á litlar stangir vegna hve stutt þarf að kasta.

Hvet ég alla veiðimenn sem eiga leið í ánna að sleppa allri bleikju yfir 50 cm til þess að ýta undir styrkingu stofnsins.

Sjá allar lýsingar
Sjá allar lýsingar