Til baka

Vatnsdalsá

Vatnsdalsá

Eftir Ásgeir Ingólfsson, Ingólf Ásgeirsson og Heimir Bárðarson

Vatnsdalsá á upptök sín í Forsæludalskvíslum á Auðkúlu- og Grímstunguheiði. Lengst og vatnsmest af þeim er Strangakvísl, sem kemur úr Krákshrauni á Stórasandi. Í ana falla margir lækir og kvíslar svo sem Öldumóðskvísl með Þjófakvísl, Hestlækur, Miðkvísl og Fellakvísl með Kólkukvísl. Eftir það heitir hún Vatnsdalsá. Á leið hennar til byggða falla síðan í hana nokkrir lækir. Þar sem áin rennur í gilinu fyrir framan Forsæludal eru í henni nokkrir háir og fallegir fossar, svo sem Skínandi, Rjúkandi og Dalfoss. Að honum kemst nú laxinn og hefur þá gengið um 45 km frá sjó.

Nokkrar þverár falla í Vatnsdalsá eftir að hún kemur í byggð og er Álka helst þeirra. Hún kemur af Grímstunguheiði. Tunguá fellur í ána milli Marðarnúps og Þórormstungu. Kornsá sameinast Vatnsdalsá rétt fyrir neðan Bakka. Eru þá enn ótaldir nokkrir lækir sem sameinast ánni á leið í Húnavatn. Vatnsdalsá sækir því vatn á stórt svæði og ber þess merki. Hún er allvatnsmikil og þolir þurrkatíð mun betur en margar aðrar ár án þess að vatnsleysi hái veiðinni.

Ingimundur gamli var fyrsti landnámsmaðurinn í Vatnsdal, en hann reisti sér bæ í miðjum dalnum og gaf nafnið Hof. Þar er enn búið og er bærinn steinsnar frá kunnum hyl, Vaðhvammi. Laxveiði í Vatnsdalsá er jafngömul búsetu í dalnum en á fyrri tíð var neðri hluti árinnar ólíkur því sem nú er. Atburðir árið 1720, nánar tiltekið nóttina milli 7. og 8. október það ár, urðu til þess að áin hætti að renna neðan Bjarnastaða. Þá féll mikil skriða úr fjallinu austanvert í dalnum, yfir bæinn og fórust þar sjö manns, þar með talinn bóndi og húsfreyja. Skriðan gekk þvert á dalinn og upp að hólunum vestanvert. Stíflaðist áin og varð ekki að gert. Myndaðist þá stöðuvatn sem fékk nafnið Flóðið. Það var síðan ekki fyrr en vatnið fór að vinna á skriðunni og braut sér loks leið í gegnum hana að Vatnsdalsá fór á ný að renna niður í Húnavatn. En þá var orðin mikil breyting á dalnum og ánni. Gamalt spakmæli er hins vegar á þá leið að fátt sé svo með öllu illt að ekki fylgi nokkuð gott og sannaðist það hér sem oftar. Þar sem skriðan féll og neðan hennar eru nú sumir fengsælustu og rómuðustu veiðistaðir í ánni.

Ekki fer sögum af laxveiði á stöng í Vatnsdalsá fyrr en á síðari hluta 19. aldar. Sumarið 1882 kom í Vatnsdal enskur maður, John Coles, og í frásögn hans af ferðum sínum hér segir hann frá því að hann hafi veitt á flugu í ánni. Hann lýsir jafnframt netaveiðinni og talar um 45 punda lax sem hafi ánetjast. Á fjórða áratug þessarar aldar var farið að leigja Vatnsdalsá út til stangaveiði og var allri netaveiði þá hætt. 1936 var stofnað veiðifélag um ána. Það ár tók Lionel S. Fortesque frá Cornwall ána á leigu og var hún á hans höndum fram til 1950. Hann hafði fyrst komið til Íslands árið 1912 og þekkti landið vel en kaus Vatnsdalsá.

A árunum 1951 til 1961 var Tryggvi Ófeigsson með ána á leigu en Guðmundur Ásgeirsson frá 1962 til 1963. Arið 1964 tók enski veiðimaðurinn og veiðibókahöfundurinn John Ashley-Cooper hana á leigu til tíu ára. Leigusamningurinn var síðar framlengdur um þrjú ár. Hann leyfði aðeins fluguveiði þann tíma sumars sem hann var sjálfur við veiðar. Er veiðifélagið gekk frá samningnum við hann var ákveðið að ráðast í byggingu glæsilegs veiðihúss sem var gefið nafnið Flóðvangur.

J- Ashley Cooper kom fyrst í Vatnsdal árið 1962 og segir frá fyrstu reynslu sinni af veiðinni í bók sinni „A Salmon Fisher's Odyssey“. Hann var hálfan mánuð við veiðar þá en annar tveggja félaga hans fékk 17 laxa fyrir hádegi einn daginn. Hinn, sem hafði aldrei veitt lax, aðeins silung, fékk 50 laxa á þessum hálfa mánuði. Alls fengu þeir þremenningar 256 laxa. Í bókinni segir höfundur veiðina hafa verið stórkostlega. Meðalþyngd stórlaxins hafi verið ll pund en smálaxins 7 pund. Stærsti lax sem veiddist á leigutíma Coopers reyndist aftur vera 26 pund.

Á þeim tíma sem Cooper hafði ána á leigu veiddi þar meðal annarra frægur veiðimaður og veiðibókahöfundur frá Norður-Ameríku, Roderick Haig-Brown. Hann lýsti dvöl sinni hér í „American Sportsman“ og segir í lok langrar greinar um Vatnsdalsá að þegar hann sé spurður um veiðina þar geti hann aðeins svarað því til að hún geti ekki verið betri. Hann segist hafa séð hvern einasta lax sem hann hafi veitt rísa að flugunni en það telji hann merki um „hágæðalaxveiði“.

1978 til 1980 höfðu Ingimundur Sigfússon, Sverrir Sigfússon og Lýður Björnsson laxasvæðið á leigu. Lýður og Sverrir höfðu það síðan á leigu 1981 til 1984. Árin 1985 og 1986 var áin öll fram að Stekkjarfossi leigð þeim Brynjólfi Markússyni og Kristjáni Þórðarsyni en frá 1987 voru þeir Brynjólfur og Gestur Arnason leigutakar fram til þess er þeir Pétur Pétursson og Guy Geffroy tóku hana á leigu fyrir veiðitímann 1997. Þá urðu þær breytingar á veiðunum sem lýst er í innganginum en árið áður hafði verið „veitt og sleppt“ hluta sumars, að undirlagi manna sem lengi höfðu stundað veiðar í ánni, og fór þar þá fyrir bandaríski laxverndarsinninn Perry Bass. Höfundur þessarar umfjöllunar heimsótti Pétur Pétursson í apríl síðastliðnum til þess að fjalla nánar um þær og annað sem viðkemur rekstri árinnar eftir hinu breytta fyrirkomulagi.

Pétur hefur að vonum frá ýmsu að segja um undirbúning rekstursins og reynsluna af þessu fyrsta ári. Fyrir veiðitímann 1997 fóru fram umfangsmiklar lagfæringar á Flóðvangi, dvalarstað laxveiðimannanna. Þær stóðu lengi, „en ég held að öllum beri saman um að vel hafi tekist til,“ segir Pétur. „Ekkert var í raun til sparað og margt var endurnýjað. Enda tóku gamalkunnir veiðimenn í Vatnsdalsá umbótunum afar vel.“

Pétur vék síðan að hinu nýja fyrirkomulagi, því „að veiða og sleppa“. „Í raun má segja að aðdragandinn hafi verið margþættur. Í fyrsta lagi, og það skiptir mestu, er um að ræða framlag til þess að snúa við þróun sem hefur því miður sett um of svip sinn á laxveiðina hér á landi síðan 1978, en þá urðu þáttaskil. Stangaveiði hafði farið sívaxandi nær óslitið frá stríðslokum, en síðan hefur hún ekki náð því að vera það sem hún var þá. Reyndar er hér um að ræða hluta af alþjóðlegu vandamáli sem Norður-Atantshafslaxsjóðurinn, samtökin sem Orri Vigfússon er í fararbroddi fyrir, hefur varpað skýrara ljósi á en flestir aðrir. Á rúmum tuttugu árum hefur laxveiði í ánum við N-Atlantshafið dregist saman um rúm 80% en það er ótrúlegur samdráttur á svo skömmum tíma. Orsakanna er meðal annars leitað í sjávarveiði, netaveiði, mengun, erfðamengun og í sumum tilvikum ofveiði á stöng. Brugðist hefur verið við með ýmsum hætti, þar á meðal með víðtækum sleppingum dýrra gönguseiða en árangur er ekki í samræmi við tilkostnað og væntingar. Mér, félaga mínum Guy Getffroy og ýmsum öðrum þótti því rétt að gefa náttúrunni sjálfri tækifæri til að endurtaka það sem hún gerði með sóma fyrir tíma seiðaeldis, þar sem hún fékk tækifæri til þess.

Hugmyndin er ekki ný. Henni var hrundið í framkvæmd fyrir allmörgum árum í Kanada og er áin Miramichi gjarnan tekin sem dæmi um þann árangur sem ná má en eftir að tekið var að sleppa laxi þar þrefölduðust göngur í þessa miklu á og þverár hennar á rúmum áratug. Í raun er hugmyndafræðin afar einföld. Okkar eigin saga segir okkur að ár hafi verið fullar af laxi er menn námu hér land. Sama er að segja um N-Ameríku og nú síðast um Kólaskagann, hið nýfundna laxveiðihérað í Rússlandi, sem er á við heilt land. Þar sést hvers náttúran er megnug þegar hún fær að sýna getu sína. Á Kólaskaga hófst stangaveiði fyrir fáum árum og sums staðar var netaveiði nær engin eða engin fyrir. Og það er samdóma álit að hvergi á jarðarkringlunni sé nú meiri lax en á Kólaskaga. Í raun erum við því að loka hring. Við landnám hefði allt átt að vera laxlaust samkvæmt sumum kenningum en svo var ekki. Við viljum gefa Vatnsdalsá tækifæri til að sýna á ný hvað hún getur sjálf og það gleðilega er að yfirgnæfandi hluti þeirra veiðimanna, erlendra og innlendra, sem komu til veiða í fyrrasumar taka fúslega og af miklum áhuga þátt í því að hjálpa laxinum.“

Ég virði Pétur fyrir mér um stund og það er eins og hann skynji spurninguna sem er á vörum mér. „Já, ertu með í huga veiðimenn, einkum af eldri kynslóðinni, sem eru vanir því að fara heim með alla veiðina, mikla eða litla? Ég skal segja þér tvennt í þessu sambandi. Í fyrsta lagi hafa reyndir matmenn í hópi laxveiðimanna löngum vitað að mikið leginn haustlax er hvorki góður til suðu né í reyk. Hann er hættur að vera matvara. Hins vegar vísa ég til reynslu margra af haustveiðum almennt. Eftir að kunnáttusamir menn eru búnir að vera að veiðum í tvo mánuði eða meira vill það oft brenna við að lítið sé eftir af laxi síðustu vikurnar. Í Vatnsdalsá er nú veitt á flugu allt fram á síðasta dag tímabilsins. Ekki er um neina „maðkaopnun“ að ræða. Ollum laxi er sleppt nema særðum og nokkrum merktum löxum. Fjöldi laxa í ánni fer því vaxandi eftir því sem líður á göngutímann og það er mikill lax um alla á þegar henni er lokað í september. Það er því betri kostur nú en nokkru sinni áður að fara til veiða í Vatnsdalsá síðsumars eða á haustdögum. Þar er þá margur stórlaxinn, svo ekki sé minnst á hina smærri.

Mig langar í þessu sambandi að nefna að í gögnum um hlutfall stórlaxa og smálaxa á landinu kemur fram að hlutfall stórlaxa í aflanum á Norðvesturlandi er 42%. Og á árunum eftir 1952 hefur hlutur stórlaxa í heildarveiðinni í Vatnsdalsá oft farið yfir 50% og í einu tilviki að minnsta kosti í um 65%. Og í þeim hópi eru „boltarnir“, þessir stóru sem geta nálgast 30 pundin. Þannig veiddust einn og sama ágústdaginn 1987 tveir 29 punda laxar á flugu. Annan veiddi Gylfi Ingason og var hann 111 sm langur. Sjálfur veiddi ég og sleppti laxi sem gæti hafa verið stærsti lax sem veiddist á stöng á landinu í fyrra, en þarf þó ekki að vera það. Hann var 107 sm á lengd og úr Hnausastreng. Í því sambandi má geta þess að 111 sm langur lax úr Víðidalsá vó 32 pund. Laxar sem eru um 25 pund veiðast oft og einn 24 punda kom af silungasvæðinu í fyrra. Og enn stærri lax en þessir báðir kann að hafa tekið í fyrra en þar eð enginn leiðsögumaður var hjá Frökkunum tveimur sem glímdu við hann verður stærðin ekki staðfest og hann var ekki færður til bókar af því hann slapp úr höndunum á þeim. Þeir voru að mæla lengd hans er flugan losnaði úr honum og hann synti burt. Skömmu áður höfðu þeir náð í háf 20 punda laxi en þennan sögðu þeir ekki hafa komist í háfinn og því hefði hann sloppið.“

Ég renni mynd af Steinkoti, veiðihúsinu austanvert við ána, verustað silungsveiðimannanna, yfir borðið til Péturs og bíð þess að hann taki upp nýjan þráð. „Vatnsdalsáin er 45 km löng frá ósi Húnavatns að Dalsfossi. 20 km eru silungsveiðisvæði, þar sem mest er um bleikju, en þar veiðist einnig urriði og nokkuð af sjóbirtingi, svo óminnst sé á 60-70 laxa eða jafnvel fleiri sem silungsveiðimennirnir fá árlega. Þeir búa í Steinkoti, þar sem er svefnaðstaða í sérherbergjum, hreinlætisaðstaða með sturtum, eldhús með aðgangi að tveim ísskápum, borðstofa og setustofuskáli og verönd með útsýni yfir Flóðið og dalinn sem „háir hólar fylla“.

A silungsveiðisvæðinu eru milli 40 og 50 þekktir veiðistaðir og það er að jafnaði í hópi þriggja til fjögurra gjöfulustu svæða á landinu. Alls veiddust hjá okkur 2360 silungar í fyrrasumar, sem var þó ekki besta sumarið, og sumar bleikjurnar voru 5-6 pund, nýgengnar og silfurfagrar. Svæðið er mikið sótt af sama fólkinu ár eftir ár, oft fjölskyldum, vina- og starfshópum, sem hafa tekið tryggð við ána og kunna að meta aðstöðuna. Silungasvæðið skiptist í tvennt. Neðra svæðið nær frá Hnausabrú og niður að ósum Húnavatns, sem veiða má beggja vegna frá, og svo er aðeins stunduð silungsveiði á löngum kafla frá Flóðinu og upp á móts við Undirfellskirkju, nokkru ofan við Kornsárós. Við höfum unnið að vegabótum við ána vestanverða, við Flögu. Þá er nú hægt að aka með ánni að austanverðu frá því nokkru sunnan við Eyjólfsstaði, að Ferjuhyl og þar niður með ánni.

Þessi árin standa yfir rannsóknir á bleikjunni, gönguleiðum hennar, vexti og viðgangi en stefnan er sú að skapa sem best skilyrði fyrir silungsveiði á komandi árum.“ Við Pétur fáum okkur einn kaffibolla enn, rifjum upp nokkur stórlaxaævintýri og svo kveðjumst við.

Ég stóð við Stekkjarfoss nokkrum klukkustundum eftir að veiðitíminn hófst í fyrra. Þar sá ég þá stórlax sem hafði komið sér fyrir á þægilegum stað nokkru fyrir neðan laxastigann sem opnaði svæðið upp að Dalsfossi fyrir rúmum hálfum öðrum áratug. Ég rifjaði nú upp þessa stund. Svo fylgdi ég þeim Ingó og Heimi í huganum niður með ánni en báðir hafa þeir verið rúmlega tíu sumur við leiðsögu og búa yfir mikilli reynslu.

„Það má ekki veiða Stekkjarfossinn, lögum samkvæmt, nema laxastiginn sé lokaður en nú er hann lengst af opinn. Það safnast hins vegar oft mikill lax saman í honum og megi kasta á hann er það gert ofan af klettinum að austanverðu, þá gjarnan með tvíhendu.

Nónhylurinn er fyrir neðan gljúfrin sem áin fellur um af Stekkjarfossbreiðunni. Í júlí í fyrra safnaðist saman lax í honum neðst, fyrir ofan stóra steininn sem fer ekki fram hjá neinum sem kemur niður hæðina á austurbakkann, en af honum er veitt. Það skiptir miklu að fara varlega niður brekkuna og fæla ekki laxinn. Mér reyndist þessi hylur næstum því óbrigðull í júlí, þá strax á morgnana. Veiðin minnkaði hins vegar þegar kom fram í ágúst.

Hundahylurinn er veiddur af vesturbakkanum. Í honum er oft þó nokkuð af laxi og tel ég staðinn vanmetinn. Rétt er að byrja að kasta fyrir ofan klettinn og veiða alveg niður á breiðuna.

Krubban er einn lykilhyljanna á þriðja svæðinu. Í hann safnast jafnt og þétt fyrir lax er líður á sumarið. Byrja skal að veiða ofarlega að vestanverðunni, rétt ofan við klettinn á austurbakkanum. Beint út af honum, í miðri ánni, er efri tökustaðurinn. Laxinn liggur djúpt þarna en kemur upp úr strengnum og sækir fluguna. Annar tökustaður er neðar, þar sem straumkastið er við það að enda og hylurinn verður lygn. Þar tekur laxinn einnig oftast í miðri á. Þarna borgar sig þó að draga fluguna vel inn því laxinn eltir stundum alveg upp að landi.

Torfhvammshylurinn er frægasti veiðistaðurinn á þessu svæði og tvímælalaust sá gjöfulasti. Hann er veiddur af austurbakkanum. Byrjað er efst, beint út af steini sem stendur upp úr í miðri á. Efsti tökustaðurinn er í straumröstum, beggja vegna grjóts sem brýtur á ofarlega í hylnum. Hér þarf stutt köst. Best er að vaða sem minnst, sérstaklega á morgnana. Næsti tökustaður er meðfram berginu að vestanverðu. Hér þarf löng köst og jafnvel að vaða. Þriðji og neðsti tökustaðurinn er neðarlega við stórt grjót sem er á kafi nær austurbakkanum. Laxinn liggur beint framan við grjótið en einnig í straumröstinni austanvert við það. Hér borgar sig að draga fluguna vel inn.

Grettishylur er fyrir neðan Sunnuhlíð og er veiddur af austurbakkanum. Kastað er að klettinum að vestanverðu og flugan látin berast út á miðja ána. Þar er smábrot, þar sem laxinn tekur gjarnan. Nokkru neðar grynnkar áin en dýpkar svo aftur. Þar tekur við 60-70 m löng breiða og á henni getur lax legið alveg niður undir brotið þar sem áin skiptir sér.

Hamarshylurinn er veiddur af vesturbakkanum og er þar sem áin kemur saman aftur. Best er að byrja efst og kasta niður hylinn.Hér liggur laxinn í miðri ánni. Neðst í hylnum er klettur á austurbakkanum og tekur lax aðeins ofan við hann, alveg við bakkann.

Neðri Hamarshylur er í raun ónefndur staður sem fékk þetta nafn í fyrra. Þar fellur áin með grasbakka og tekur svo sveig til norðurs. Þarna er 5060 m löng breiða sem gaf góða veiði í fyrrasumar. Staðið er á malareyrinni að austan og kastað að grasbakkanum við vesturlandið. Rétt er að veiða alveg niður á brot.

Stekkjarhylurinn er veiddur af vesturbakkanum. Hér liggur laxinn fyrir miðjum hyl við nokkra steina sem brýtur örlítið á og tekur þar. Annar tökustaður er alveg neðst í hylnum, við austurbakkann. Þar þarf löng köst. Þetta er góður síðsumarsstaður.

Birgishylur er veiddur af austurbakkanum. Um 30 m langur malargarður einkennir hylinn. Rétt er að byrja þar sem áin fellur á hann og veiða niður með honum. Þessi hylur gaf góða veiði í júlí í fyrra.

Bleikjufljótið er langur og lygn hylur sem veiddur er af austurbakkanum. Þetta er síðsumarsstaður og gefur frekar smálax en stórlax. Grjót liggur í ánni við vesturbakkann með nokkuð jöfnu millibili niður hylinn og myndar straumrastir. Við þær liggur laxinn. Neðst í þessum langa hyl er grjóthrúga við vesturbakkann. Þar getur laxinn tekið vel er líður á haustið.

Hraunhylur var í raun ekki til í fyrra því áin breytti sér þarna eftir flóð. Stefnt er að því að koma þessum gamla og góða veiðistað aftur í rétt horf fyrir sumarið í sumar.

Grímshylur er veiddur af vesturbakkanum. Hann einkennist af malarbakka þeim megin og grasbakka á móti. Þetta er síðsumarsstaður. Laxinn tekur oft alveg neðst á brotinu.

Grjóthrúgukvörnin er neðsti veiðistaðurinn á þriðja svæði, rétt fyrir neðan brúna. Hylurinn er haganlega gerður af mannahöndum. Þarna hefur göngulax viðdvöl og á göngutíma er það regla frekar en undantekning að þar fáist morgunveiði. Oft er gott að kasta í hann tvisvar á hverjum hálfum degi. Kastað er að grjóthrúgunni að vestanverðu af grasbakkanum að austan. Laxinn tekur meðfram grjótgarðinum en einnig við stein sem er í botninum í miðri á og alveg niður á brot. Þetta er ævintýrastaður sem gefur oft lúsugan fisk.

Efri-Ármót eru efsti staðurinn á öðru svæði, næst ofan við þar sem fyrsta kvíslin í Alku fellur í Vatnsdalsána. Betra er að kasta af vesturlandinu og upp að grasbakkanum á móti. Tökulíkurnar aukast eftir því sem neðar kemur. Hylurinn nær niður að kvíslarmótunum.

Neðri-Ármót eru fyrir neðan þar sem neðsta kvíslin úr Alku kemur í ána en hún var aðalkvíslin í fyrrasumar. Þarna geta stundum orðið nokkrar breytingar milli ára. Veitt er af austurbakkanum. Þetta er einn alskemmtilegasti veiðistaðurinn í allri Vatnsdalsá. Byrjað er efst við kvíslina og veitt niður undir brot. Staðurinn er einn af þeim gjöfulustu í ánni og mjög fallegur flugustaður. Hann gefur allan veiðitímann.

Rofabakkinn er veiddur af malareyri austanvert við hylinn. Þetta er dulmagnaður stórlaxastaður, glæsilegur og vettvangur ævintýra. Laxinn getur tekið víða í hylnum.

Saurbæjarhylur er við bæinn sem hann dregur nafn af. Hann er ein samfelld, falleg breiða, 60-70 m löng en ekki eins gjöful og ætla mætti. Rétt er að kasta á hana alla.

Ásbrekkuhylur er fallegur staður undir hlíð. Hann er veiddur af austurbakkanum, en vestanvert er smáklettur. Byrjað er að kasta ofan við hann. Laxinn tekur gjarnan við hann. Neðan við Asbrekkuhyl taka við nokkrir hyljir sem hafa breytt sér frá ári til árs og má nefna Hólmahyl og Forsetahyl. Þeir gáfu ekki mikið í fyrra. Norðan við bæinn Asbrekku hefur áin breytt sér mikið síðustu ár og er stundum óþekkjanleg frá því sem áður var.

Búbót er gjöfull hylur þótt hann hafi gerbreyst, skipt um farveg og stað frá því sem var. Byrjað er að kasta í beygjunni fyrir ofan hylinn og veitt að vestanverðu. Áin fellur í austur og sveigir síðan til norðurs. Veiða skal alla þá beygju en bestu tökustaðirnir eru neðarlega í henni, við grastóftir í botninum. Þegar komið er niður fyrir beygjuna er rétt að fara hratt yfir en kasta vel á lítið brot sem gaf vel í fyrra. Það er rétt fyrir ofan þar sem áin fellur í dýpið, í hina eiginlegu Búbót. Þar geta laxar tekið bakka á milli. Þarna er rétt að vanda til kastanna og hafa þau þétt. Portlands-bragðið gefur vel á þessum stað. Síðan fellur áin í dýpið en sveigir svo til austurs en þá tekur við það sem nú er almennt kallað Búbót. Þarna er best að kasta af malareyrinni að austanverðu en stundum má þó veiða af grasbakkanum ef menn láta sig ekki bera við himin. Straumurinn er óreglulegur í Búbót og ljóst að staðurinn er enn í mótun eftir breytingarnar. Lax getur legið niður alla breiðuna að þeim stað þar sem áin margkvíslast. Þrátt fyrir breytingarnar rís Búbót enn fyllilega undir nafni.

Áshylur. Hann má veiða beggja vegna frá en er ekki gjöfull.

Bjarnasteinn er fyrir neðan þar sem áin sveigir úr austurátt í norður. Veitt er af vesturbakkanum. Efsti tökustaðurinn er beint út af gömlum veðruðum girðingarstaur á austurbakkanum. Tökubletturinn er um það bil 15 metrum ofan við stóran stein sem brýtur á og hylurinn dregur nafn sitt af. Laxinn liggur þarna í miðri ánni. Næsti tökustaður er framan við þennan stein og beggja vegna við hann. Þriðji tökustaðurinn er mjög neðarlega, við lítinn læk sem skoppar niður hlíðina austanvert. Þarna þarf að vaða út í miðja á, því lónbúinn liggur undir austurbakkanum.

Hlíðarfljót er langur og mikill strengur en ekki mikið stundaður og vanmetinn. Neðan hans tekur áin sveig til vesturs.

Kötlustaðahylur tekur við neðan beygjunnar. Hann er veiddur að vestanverðu. Hylurinn er stór, vatnsmikill og vel fallinn til fluguveiði en ekki að sama skapi gjöfull. Efst í honum sér í stóra steina í botninum og tekur laxinn við þá, sem og 20-30 metrum neðar.

Vaðhvammur er stór, mikill og glæsilegur hylur fram undan bænum Hofi. Veiða má af báðum bökkum og ber gamalreyndum veiðimönnum ekki saman um hvor bakkinn sé hentugri. Stórir steinar eru í botninum við vesturlandið og hefur laxinn um marga legustaði að velja. Telja verður þetta síðsumarsstað. Varast ber að hætta að kasta of snemma og eru dæmi um að þeir sem það hafa gert og farið laxlausir hafi séð aðra koma rétt á eftir, kasta á neðsta hluta hylsins og draga þar tvo til þrjá laxa. Hylurinn var ekki gjöfull í fyrrasumar.

Nokkrir staðir eru fyrir neðan Vaðhvamminn, en fæstir mikið stundaðir og því að öllum líkindum vanmetnir, þótt ýmislegt bendi til að þeir séu ekki jafngóðir allt sumarið.

Hólakvörnin. Þá er komið að fyrsta svæðinu, því neðsta, fyrir neðan Flóðið. Um 30 metra fyrir neðan þetta grunna stöðuvatn er lygn strengur með landinu vestanverðu. Það er Hólakvörnin. Hún er veidd úr landi þeim megin. Kvörnin markast að ofan af steinnefi. Byrjað skal að kasta nokkru fyrir ofan það. Hafa skal köstin stutt og veiða alveg niður strenginn. Hann er viðkvæmur en ótrúlega gjöfull við réttar aðstæður en gári verður að vera á honum svo laxi taki. Þetta er síðasti viðkomustaður laxins áður en hann gengur inn í Flóðið og áfram upp ána. Þarna safnast því oft mikill lax fyrir. Hylurinn er. gjöfulastur fyrri hluta sumars, en síðsumars getur slý safnast fyrir í honum en þá er göngutími reyndar að mestu liðinn. Sumir telja þetta einn skemmtilegasta staðinn í allri ánni.

Skriðuvað er um 150 metra neðan við Hólakvörnina. Það er lítið áberandi staður fyrir miðri á. Hann er í raun skál, aðeins nokkrir fermetrar á stærð. Erfitt getur verið að greina hann vegna straums í miklu vatni en hann sést betur í miðlungsvatni. Vaðið er út í miðja ána fyrir ofan skálina og við venjulegar aðstæður er vatn þá um hnédjúpt. Neðst í skálinni er lítið brot. Þetta er sterkur staður á göngutíma og ef til vill sá í allri Vatnsdalsá þar sem Portlands-bragðið gefur besta raun. Hylurinn er stórlega vanmetinn. En þótt þarna sé sett í lax er það oft sýnd veiði en ekki gefin. Laxinn getur strikað langar leiðir, jafnvel niður í Hnausastreng.

Hnausastrengur er neðsti veiðistaðurinn á laxasvæðinu. Hann er ótrúlega gjöfull og hefur gefið allt að 40% af sumarveiðinni. Í venjulegu ári gefur hann milli 200 og 300 laxa. Hylnum má skipta í tvennt, efri og neðri hluta. Hann er gjarnan veiddur með tveimur stöngum og ber þær vel. Efri hlutann skal veiða þannig að vaðið er út að miðri á af vesturbakkanum, um 20 m fyrir ofan stein sem ýmist brýtur eða örlar á. Kastað er svo á strenginn með um 40 gráða köstum, alveg niður að háa grasbakkanum og svo niður með honum að fyrstu grjóthrúgunni. Þar hægir á rennslinu og gefst oft vel að draga fluguna hratt á þeim kafla. Varast skal að vaða of langt. Laxinn liggur oft á tiltölulega grunnu vatni. Neðri mörk efri hluta Hnausastrengs eru rétt neðan við fyrstu grjóthrúguna. Þverari köst þarf eftir því sem neðar dregur og jafnframt þarf að auka hraðann á flugunni. Ávallt ber að halda sig vestanvert við steininn. Til að veiða neðri hluta strengsins þarf að fara í land vegna dýpis fyrir neðan efstu grjóthrúguna. Þegar gengið hefur verið upp á vesturbakkann er vaðið út aftur milli annarrar og þriðju grjóthrúgu. Vaðið er rétt út fyrir miðja á uns staðið er í vatni næstum upp í mitti. Þá er vaðið upp ána uns komið er á móts við aðra grjóthrúgu eða rétt upp fyrir hana ef vatn leyfir. Síðan er kastað að grjóthrúgunni og köstin höfð nokkuð þver. Þarna tekur laxinn 1-2 m frá austurlandinu. Frá annarri grjóthrúgunni er kastað skref fyrir skref að þeirri þriðju sem er besti tökustaðurinn í öllum Hnausastreng. Hvítir steinar einkenna hana. Köstin þarna þurfa að vera á ' þvert og þétt. Flugan er „strippuð“ eða hraðdregin en þó ekki alltaf jafnhratt. Laxinn tekur út af hrúgunni en getur sótt fluguna nokkuð langt út á ána. Tökurnar eru oft ofsafengnar. Stórlaxar kokgleypa fluguna. Bugurinn undan þeim kallar á að taugarnar séu í lagi. Í Hnausastreng veiðast stundum 10-15 laxar á einum morgni. Veiði lýkur neðan þriðju grjóthrúgu. Sjaldgæft er að þar fáist lax. Hnausastrengur þolir mikið álag. Stundum virðist þó sem hann geri það ekki og fyrir hefur komið að menn hafa verið að gefast upp eftir þrjá klukkutíma en þá hefur taka skyndilega hafist.“

Fram kom í fyrrasumar að veiðimenn, erlendir sem innlendir, tóku ótrúlega vel því nýja fyrirkomulagi sem komið hafði verið á. Strax í opnuninni sleppti innlent úrvalsfólk öllum löxunum nema einum sem blóðgaðist. Vatnsdalsá er oft gjöful í upphafi veiðitímans og veiðibækur sýna 53 laxa á fyrstu þremur dögunum 1996. Af þeim var aðeins einn 10 punda, sá minnsti. Hinir voru allir á bilinu 12-22 pund.

Með það í huga hve snemmgengni laxinn er talinn hafa mikla þýðingu fyrir árstofninn eru sleppingarnar í upphafi veiðitímans mikið framlag til þess viðreisnarstarfs sem hafið er. Hver 10 punda hrygna geymir allt að 10.000 hrogn og þau seiði sem komast á legg í harðri náttúrunni og ná til sjávar eiga að vera vel undir það búin, eftir það náttúruval sem átt hefur sér stað, að bjarga sér í óravíddum Atlantshafsins. Það verða alltaf einhverjir til að leggjast gegn aðgerðum af þessu tagi, en ég bendi á að í nýlegu hefti breska tímaritsins „Trout and Salmon“ kom fram í skoðanakönnun að tugir samtaka, sem berjast fyrir vexti og viðgangi laxastofnanna, hafa lýst fylgi sínu við „að veiða og sleppa“, sem og ýmsir frammámanna í hópi laxveiðimanna og verndunarsinna. Við bíðum því áranna þegar afrakstur sleppinganna fer að sýna sig í auknum göngum.

Bók um Vatnsdalsá, sem áreigendur gáfu út, lýkur með ljóði Davíðs Stefánssonar, Vatnsdalur, en það orti hann í upphafi sjöunda áratugarins. Mig langar að lokum að koma áleiðis til lesenda tveim vísum sem mér finnst að lýsi ýmsum þeim tilfinningum sem hafa fylgt því að kynnast því starfi sem unnið er nú við ána og því að fá að vera þar í nokkra daga í fyrrasumar. Í raun gæti ljóðið hafa verið ort í gær.

Gleðilegt sumar.

Sjá allar lýsingar
Sjá allar lýsingar