Til baka

Úlfarsá / Korpa

Úlfársá / Korpa

Eftir Júlíus Ásbjörnsson

Myndir Kristinn Magnússon og fleiri.

Þá meginreglu ætti að setja sér þegar veitt er í Korpu að fara með gætni! Áin er mjög tær en með því að fara varlega má komastí ótrúlegt návígi við laxa, og oft sjá menn tökuna frá upphafi til enda. Grímur Jónsson þekkir Korpu vel og hann segir okkur frá helstu veiðistöðum í ánni.

SJÁVARFOSS

Sjávarfoss er neðsti veiðistaðurinn í Korpu, rétt við sjávarmál. Þegar hásjávað er hverfur fossinn undir sjó, enda getur að líta skeljasand og þara upp eftir fjörunni beggja vegna hans. Fossinn fellur fram af klapparstalli norðan megin við veiðihúsið sem stendur uppi á kambinum ofan við ána, Korpúlfsstaðamegin. Ekið er þar fram hjá þegar farið er til veiða í Korpu neðanverðri. Í Sjávarfossi leggst laxinn aðallega við klapparhornið húsmegin þegar hann er að koma inn í ána af hafi. Gæta verður ýtrustu varúðar þegar gengið er þar fram á til þess að renna í fossstrenginn. Rétt er að taka mönnum vara fyrir því að renna ekki í fossinn fyrr en pallurinn fyrir ofan hefur verið reyndur rækilega, en frá honum segir í næsta kafla hér á eftir. Skynsamlegt er að laumast varlega fram eftir klöppinni og læða agninu í strenginn og menn má alls ekki bera við himin, því að þá er mikil hætta á að laxinn sjái veiðimanninn. Þarna er oft gott til fanga, ef varlega er farið.

PALLURINN (AFTÖKUPALLURINN)

Aftökupallurinn er næsti staður fyrir ofan Sjávarfossinn. Í raun er hér um að ræða strenginn sem áin myndar þegar hún þrengist og fellur ofan í fossinn sjálfan. Pallurinn eða Aftökupallurinn, eins og vanir Korpumenn kalla þennan veiðistað, er skæður. Þar veiðast oft margir laxar í beit, ef rétt er að farið. Þarna verða menn að fara mjög varlega, eins og reyndar í ánni allri, en fiskurinn stansar rétt ofan við fossbrúnina í göngu, fast við klöppina sem gengur úr landinu þeim megin sem komið er að ánni, þ.e.a.s. húsmegin. Þegar veitt er á Aftökupallinum standa veiðimenn gjarnan nokkuð fyrir ofan strenginn þar sem þeir vaða aðeins út í ána til þess að ná beinu rennsli með maðki. Ef rétt er að farið og fiskur er í göngu má ná þarna góðum afla. Þannig er haft fyrir satt að eiginkonur leigutaka hafi náð á annan tug laxa á hálfum degi í nokkrum af neðstu stöðum árinnar í fyrra. Stöngin á móti þeim fékk átta fiska á sömu slóðum, svo að segja má að líflegt hafi verið í kringum frúrnar daginn þann.

BERGHYLUR

Næsti staður fyrir ofan Pallinn er Berghylur. Í raun er hér um tvo hylji að ræða, eða tvær klapparskálar, sem blasa við veiðimönnum Þegar þeir ganga fáeina metra austur af veiðihúsinu og fara yfir girðinguna á þar til gerðri tröppu. Horfa menn þá nánast beint ofan í Berghylinn. Berghylurinn er í raun tvískiptur, en um miðjan hyl gengur klapparrani fram í ána og skiptir honum í miðju. Aðaltökustaðirnir í Berghyl eru tveir. Annars vegar efst í strengnum, niður með landinu undir klöppinni að austanverðu, og hins vegar fyrir framan stein sem er neðarlega í neðri hylnum, en sá staður er einkum virkur þegar fiskur er í göngu. Berghylurinn er mjög skemmilegur flugustaður og þar hafa margir reynt fluguna með góðum árangri. Rétt er að minna menn á að vegna þess hve áin er vatnslítil og viðkvæm, er vænlegra til árangurs að nota léttar línur og litlar flugur en þung veiðitæki, eins og algeng eru í öðrum ám.

FOSS

Skammt fyrir ofan Berghylinn er Fossinn, einhver gjöfulasti veiðistaðurinn í Korpu. Þar liggur laxinn yfirleitt í fosshylnum sjálfum, undir klöppinni að vestanverðu, ofarlega, en einnig undir hvítfyssinu við stein sem er í ánni nær hinu landinu. Þangað flytur laxinn sig gjarnan þegar menn hafa styggt hann frá fyrrnefnda staðnum og leitar þá í skjól undir freyðanda árinnar. Einnig má fá laxa í rennunni niður af steininum. Grímur segist yfirleitt sakka vel þegar hann renni í Fossinn, en þó verða menn að gæta þess að hafa alltaf stjórn á agninu, því annars vill það fara í botn.

NEÐRI-RENNUR

Þegar fiskurinn fer upp úr Fossinum gengur hann upp mjóan stokk áleiðis upp í næsta veiðistað, svonefndar Neðri-Rennur. Þar fyrir ofan stansar laxinn á sjálfum veiðistaðnum. Neðan frá má þekkja staðinn af því að á vatninu myndast spegill, en þar undir er renna eða lítill skorningur í árbotninum. Rétt þar fyrir ofan fellur áin fram af litlum stalli og myndar klauf í bergið þar sem finna má aðra rennu í botninum. Einu nafni nefnast þessir tveir veiðistaðir Neðri- Rennur og þar hvílist laxinn gjarnan á leið sinni upp flauminn í neðsta hluta árinnar. Neðri-Rennur eru veiðistaður þar sem menn nota aðallega maðk og verður að fara sérstaklega gætilega að þessum stöðum til að fiskurinn verði mannsins ekki var.

EFRI-RENNUR

Fyrir ofan Neðri-Rennur beygir áin til austurs, þegar horft er upp eftir henni, en á milli þessara staða er svonefnt Hestavað. Efri-Rennur samanstanda af nokkrum djúpum pollum og strengjum þar sem óreyndum veiðimönnum getur reynst erfitt að athafna sig með agnið vegna hringstreymis í hyljunum. Best er að skyggna þessa veiðistaði varlega til að gæta að hvort þar liggi fiskar, en þarna má tíðum finna fisk, ekki síst á aðalgöngutíma laxins. Þá má yfirleitt ganga þarna að fiski sem vísum, líkt og á öðrum veiðistöðum í neðsta hluta árinnar. Ókunnugum til leiðsagnar má benda á að þegar horft er yfir Efri Rennurnar, ofan frá hæðinni á vesturbakkanum, má sjá þarna þrjá aðalstrengi, en rétt er að skoða rækilega alla polla og hávaða sem þarna eru, því að lax getur legið þarna um allt, ekki síst ef eitthvað af fiski er að ganga upp ána.

KOLLA

Fyrir ofan Efri-Rennur tekur við veiðistaður sem heitir Kolla, afar skemmtilegur flugustaður, þar sem fiskur heldur allt sumarið. Þegar kastað er með flugu á Kollu standa menn gjarnan að vestanverðu, eða húsmegin, en þegar rennt er maðki í hylinn er yfirleitt staðið ofan við. Í Kollu er aðaltökustaðurinn um miðjan hylinn og stundum má sjá laxinn elta fluguna um langan veg áður en hann hvolfir sér yfir hana rétt við fætur veiðimannsins.

BLIKI

Næsti staður heitir auðvitað Bliki, enda óvanalegt að blikinn sé langt frá Kollunni! Þarna heldur lax sig meira eða minna allt sumarið og veiðimenn geta gengið að honum vísum í Blika. Aðaltökustaður laxins er í hylnum neðanverðum, undir austurlandinu, en þar má sjá töluverðan sefgróður þegar kemur fram á sumar og á móts við sefið er einmitt best til fanga í Blika. Bliki er mjög skemmtilegur fluguveiðistaður og þar hafa margir fiskar fallið fyrir flugum veiðimanna, sem best er að hafa smáar, í samræmi við stærð árinnar. Nokkru fyrir ofan Blika má sjá hvar sefgróður teygir sig út í ána með landinu að austanverðu og þar má oft setja í lax, en staðurinn er ómerktur og hefur þar af leiðandi ekkert nafn, enn sem komið er a.m.k. Þarna er nokkuð dýpi undir og staðurinn leynir á sér og betra er að fara að öllu með gát þegar menn nálgast hann. Þarna reyna yfírleitt ekki aðrir en þeir sem eru þaulkunnugir Korpu. Óvanir menn í ánni ganga yfirleitt þarna fram hjá, enda staðurinn ómerktur eins og áður gat og lætur lítið yfir sér. Því má oft koma að fiski þarna óstyggðum.

TUNHYLUR

Eins og áður segir er ánni skipt í þrjú svæði. Neðan við Blika eru neðri svæðin tvö, sem veiðimenn koma sér saman um skiptingu á, annaðhvort af eigin rammleik eða styðjast við tillögur um það efni sem finna má í veiðihúsinu eða hjá veiðiverði, sem tekur við veiðileyfum í upphafi veiðidags. Ofan við Blika er Túnhylur, sem er í raun neðsti veiðistaðurinn á frjálsa svæðinu. Ofan frá má sjá að í hylnum er sprunginn móbergsbotn og þarna stansar fiskurinn aðallega í göngu. Neðst í hylnum, á brotinu, hefur verið gerð fyrirstaða í ána til þess að hækka vatnið í hylnum og hefur sú ráðstöfun orðið til mikilla bóta. Alltaf koma nokkrir fiskar upp úr Túnhyl á hverju sumri, þótt vart geti hann talist til helstu veiðistaða árinnar. Þó skal öllum ráðið frá því að ganga fram hjá Túnhyl án þess að reyna þar tvær eða þrjár flugur. Næst göngum við fyrir beygju á ánni og upp að næsta stað fyrir ofan, Breiðunni, sem er mjög skemmtilegur veiðistaður.

BREIÐAN

Nokkur spotti er upp að Breiðunni. Skammt ofan við hana stendur hús frammi á bakkanum, en undir húsinu er næsti hylur fyrir ofan, Göngubrúarhylur. Ekki virðist húsið eða umgangur við það styggja laxinn á Breiðunni fremur en í Göngubrúarhyl. „Breiðan er skemmtilegur flugustaður og oft er mikill fiskur í henni,“ segir Grímur. Nokkur gróður er við bakkann að vestanverðu, þaðan sem veitt er frá, en fiskurinn virðist einkum liggja undir hinu landinu.

GÖNGUBRÚARHYLUR

Snertispöl fyrir ofan Breiðuna er Göngubrúarhylur, nánast undir veggnum á títtnefndri byggingu sem hýsir eina af rannsóknarstofum Háskólans. Þar rennur áin undir allháum moldarbakka.

BRÚARHYLUR

Skammt ofan við Göngubrúarhyl er Brúarhylurinn sjálfur, en þar er gömul brú á ánni og er lítils háttar bílaumferð um hana. Þessi staður hefur stundum verið einhver besti hylurinn í ánni. Á síðasta áratug stóðu félagar í veiðifélaginu Á stöng fyrir talsverðum endurbótum á ánni. Tókust þær víða mjög vel og ekki hvað síst í Brúarhyl.

EN HVERNIG VAR ÁIN LAGFÆRÐ?

„Við hækkuðum vatnsborðið í hylnum með því að setja fyrirstöður neðst í hann og einnig breyttum við útfallinu þannig að vatnið rann úr honum austan megin við eyjuna,“ segir Grímur. „Við þessar framkvæmdir myndaðist einhvers konar hringstreymi í hylnum sem hafði þær afleiðingar að fiskurinn stansaði þarna í miklu meira mæli en hann hafði áður gert. Menn veiða þennan stað frá báðum löndum og þetta hefur reynst mér bæði geysiskemmtilegur og fengsæll veiðistaður, einkum þegar veitt er að vestanverðu,“ segir Grímur einnig. Besti tökustaðurinn í Brúarhyl er á móts við vik í austurbakkanum, rétt ofan við miðjan hylinn. Þar heldur sig mikið af laxi allt sumarið, ekki síst eftir hinar velheppnuðu breytingar þeirra félaga á hylnum.

SÍMASTRENGUR

Símastrengur, sem er næsti veiðistaður fyrir ofan Brúarhylinn, geymir oft talsvert af fiski. Hylurinn er í raun í beygju á ánni þar sem hún sveigir frá norðri til vesturs. Ofarlega í hylnum rennur áin yfir móbergsklöpp, sem sést greinilega þegar hylurinn er skyggndur af bakkanum austan megin ár. Rétt er þó að taka mönnum vara fyrir því að vera að gína þar yfir hylnum, því að fiskurinn getur auðveldlega séð veiðimanninn, standi hann þar og beri við loft. Tveir aðaltökustaðir eru í hylnum, annars vegar ofarlega, á móts við hvilftina sem myndast í bakkann rétt neðan við móbergsklöppina, en hins vegar neðarlega þar sem grjót standa úti í ánni með austurlandinu, skammt ofan við útfallið úr hylnum. Þar heldur laxinn sig gjarnan ofan við torfuhnaus sem stendur á brotinu í ánni. En fiskur getur leynst víðar en þar. Segist Grími Jónssyni þannig frá, að eitt sinn, þegar hann var búinn að fullreyna báða hina hefðbundnu tökustaði í Símastreng, hafi hann gengið upp með hylnum á bakkanum að austan og þegar hann horfði yfir miðbik hylsins þar sem áin beygir, hafi hann séð botninn í kverkinni, þar sem hylurinn er hvað dýpstur, hreinlega synda af stað. Slík var laxamergðin í hylnum daginn þann.

TÚNHYLJIR

Túnhyljir heita einu nafni nokkrir veiðistaðir sem eru í beygjunni þar sem áin sveigir frá Hornhyl og niður að Símastreng. Ef horft er upp ána frá Símastrengnum þar sem við stöldruðum síðast við, má sjá hólma úti í ánni þar nokkurn spöl ofan við, en þar eru liggur laxinn gjarnan. Er sá staður hinn neðsti af Túnhyljum. Allir eru Túnhyljirnir veiðistaðir sem myndast þar sem áin rennur fremur lygn á milli grasbakkanna. Hyljir þessir eru ekki djúpir og verða því veiðimenn að gæta ýtrustu varúðar þegar farið er þarna um, því að auðvelt er að sjá til mannaferða á bakkanum, ef óvarlega er gengið um.

HORNHYLUR

Hornhylurinn, sem nú tekur við, er mjög góður veiðistaður, einn af þeim bestu í ánni og geymir hann þar af leiðandi jafnan mikið af fiski. Þarna er helst að finna laxinn með grasbakkanum að austanverðu og er rétt að benda mönnum á að byrja ofarlega, alveg uppi í beygjunni, og reyna með flugunni eftir hylnum öllum og fram á blábrotið. Hornhylurinn er mjög skemmtilegur veiðistaður og þar sjá menn oft mikið líf, fiska stökkva og skvetta sér. Hér, eins og víðast annars staðar í Korpu, er veitt af vesturbakka árinnar. Eitt fylgsnanna, sem áður greindi frá, var einmitt sett niður í Hornhyl, neðarlega, á móts við hríslurnar tvær sem eru á árbakkanum austanmegin. Þar bunkaði laxinn sig undir og verður að teljast líklegt að svo fari einnig næsta sumar. Ef fiskurinn í Hornhyl verður fyrir styggð, flytur hann sig yfirleitt upp fyrir beygjuna efst í hylnum og leggst undir bakkana fyrir ofan hornið. Þegar veiðimenn telja fullreynt í Hornhyl, ganga þeir upp með ánni í átt að Þjófahyl. Best er að fara varlega á göngunni og láta ekki Þjófahylinn, sem nú hefur fengið andlitslyftingu, glepja sér sýn, því að á leiðinni upp eftir hafa félagar í veiðifélaginu Á stöng látið gera djúpar rennur í árbotninn með landinu að vestanverðu og þar stansar fiskur tíðum. Hafa rennurnar nú verið gerðar enn fýsilegri fyrir fiskinn en áður var.

ÞJÓFAHYLUR

Þjófahylur var lagfærður og var gerður heljarmikill grjótgarður með vesturlandinu og liggur hann niður með beygjunni allri. Garðurinn er einkum gerður í því skyni að vernda árbakkann sem orðið hefur fyrir áníðslu árinnar, en einnig verður hann til þess að fegra umhverfið. Neðst í hylnum hefur síðan verið gerð fyrirstaða til þess að halda uppi vatnsborðinu í hylnum og virðist sú framkvæmd hafa tekist með ágætum. Þjófahylur er sem sagt afskaplega veiðilegur hylur eftir þær framkvæmdir sem á honum hafa verið gerðar. En fyrst við erum á ferð upp eftir ánni er rétt að benda mönnum strax á að neðan við útfallið úr hylnum hefur myndast alldjúpur pottur eða kvörn. Þar eru tveir stórir steinar í botninum sem laxinn tekur sér bólfestu við. Þessi kvörn er einn af tilbúnu veiðistöðunum í Korpu, en þeir eru orðnir allmargir, auk þess sem náttúrulegir staðir hafa verið endurbættir verulega Í Þjófahyl getur laxinn legið með allri beygjunni og þar eru víða steinar í botninum þar sem fiskur stansar og tekur sér bólfestu um lengri eða skemmri tíma. Með framkvæmdunum við Þjófahyl er hylurinn orðinn dýpri en áður var. Hann ætti því að halda fiski vel og lækkun vatnsborðs árinnar mun væntanlega hafa minni áhrif. Rétt ofan við grjótgarðinn má sjá grastó í bakkanum handan árinnar, en þar liggur stundum lax. Vart er hægt að telja þennan veiðistað með Þjófahylnum sjálfum og ekki heldur til Leyninganna, næst fyrir ofan, þannig að þetta verður að teljast ómerktur veiðistaður. En hvað um það. Þarna við grasbakkann er svolítill pyttur þar sem lax hefur legið og nú í vor var hann dýpkaður og grjót sett í hann, svo að laxinn geti haft þar meira skjól en áður.

LEYNINGAR

Næsti merkti veiðistaður fyrir ofan Þjófahylinn er Leyningar, sem er samheiti yfir þrjá strengi sem eru í ánni nokkru neðan við stíflumannvirkið, þar sem Áburðarverksmiðjan tók vatn úr ánni. Þegar staðið er neðan við stífluhúsið sjást þrír speglar á ánni með nokkurra tuga metra millibili og heita þeir Leyningar einu nafni. Reyndar má sjá fleiri holur og pytti á þessu svæði og sjálfsagt er að reyna þá alla, þótt hyljirnir þrír séu aðaltökustaðirnir á þessu svæði. (EN

GRJÓT

Grjótin eru síðan fyrir ofan Leyningana en þar getur að líta tvo stóra steina úti í ánni, í streng sem myndast neðan við litla flúð. Við þessa steina tekur laxinn aðallega. Rétt ofan flúðarinnar er síðan lítið vik í bakkanum og þar liggur laxinn gjarnan líka. Veiðimerki er þar á bakkanum, beint upp af vikinu, svo að veiðimenn ættu varla að geta farið á mis við þennan stað.

STÍFLUHYLUR

Nú göngum við áfram upp með ánni og förum upp fyrir stífluna, en við hana hefur verið gerður laxastigi, svo að fiskurinn komist leiðar sinnar fram dalinn. Ekki er leyfilegt að veiða fyrir neðan stíflu og að grjótum. Ofan stíflunnar er laglegur hylur og er þar leyfilegt að veiða niður undir miðjan hyl. Þarna hvílir laxinn sig eftir ferðina upp Leyningana, Grjótin og laxastigann og þarna bunkar sig gjarnan mikið af laxi. Stífluhylurinn er kjörinn veiðistaður með flugu. Eins og áður hefur verið nefnt er einkum mælt með litlum flugum í hyljum Korpu og er Stífluhylurinn engin undantekning þar frá.

STOKKAR

Stokkarnir byrja á að giska hundrað metrum ofan við hitaveitustokkana sem liggja yfir ána rétt ofan þjóðvegarins. Þarna eru stokkar eða djúpar rennur í árbotninum og sefgróður er víða með landinu, en eyður á milli. Í þessum hyljum hafa menn oft fengið geysigóða veiði, einkum þegar líða tekur á sumarið, enda bunkar laxinn sig þarna í dýpinu. Flugan hefur yfirleitt gefið best á þessum stað, en einnig hafa ýmsir veiðimenn náð góðum árangri með maðki og þá með flotholti ofan við tveggja metra taum. Annar góður veiðistaður er á móts við hitaveituskúrinn nokkuð þarna fyrir ofan. Segir Grímur Jónsson að sá staður hafi oft gefið góða veiði. Þar hefur m.a. veiðst mjög vel síðustu daga veiðitímabils. Menn hafa sett í allt að þrettán laxa á þessu svæði á hálfum þriðja klukkutíma og í það skiptið voru veiðimennirnir búnir afar léttum fluguveiðitækjum og smáum flugum. Ofan við Stokkana taka við allmargir veiðistaðir, sem margir hverjir hafa orðið að lúta í lægra haldi fyrir duttlungum Korpu, og því spillst til veiða. Dæmi um slíka staði eru næstu veiðistaðir fyrir ofan.

FOSSAR, FLÓÐ, FLÓÐAHYLJIR OG HELGUNEFSVAÐ.

Fossarnir eru í raun smáflúðir og strengir sem gefa stundum fiska, einkum þegar lax er í göngu og stansar þar til að hvílast. Ekki tefur laxinn sig lengi í Flóðinu á förinni fram dalinn og lítið er um að fiskur sjáist í Flóðahyljum eða á Helgunefsvaði. En áður en við yfirgefum þetta svæði endanlega er rétt að nefna til sögunnar ómerktan stað sem fáum er kunnugt um, en sá er út af og rétt neðan við gróðurhúsið á Úlfarsá. Þarna er lítil rás í árbotninum, nokkurs konar smækkuð mynd af Stokkunum fyrir neðan, og þarna leynist stundum talsvert af fiski og þá ekki hvað síst við sefið sem teygir sig út í ána frá báðum löndum. Þarna getur laxinn leynst og ýmsir þeir, sem vita um þennan stað, hafa fengið þar fiska.

HELGUNEFSHYLUR OG HELGUNEF

Við stöldrum ekki lengur við þetta svæði, heldur færum okkur skamman spöl upp eftir ánni og komum þá að Helgunefshyl og aðeins ofar að Helgunefi. Ekki er undirrituðum kunnugt um hvort, og þá eftir hvaða manneskju hyljir þessir eru nefndir, en ljóst má vera að ef veiðistaðirnir draga nafn sitt af kvenmannsnafninu Helga, hefur sú hin sama verið bæði stórnefjuð með afbrigðum og aukinheldur með heiftarlegt nefrennsli! En hvað um það. Frá Helgunefi og niður í Helgunefsvað er eiginlega einn samfelldur veiðistaður og liggur laxinn í djúpum stokkum í árbotninum, þar sem hann finnur sér ákjósanlegt skjól. Bæði er reynandi þarna með maðki og flugu, en sjálfsagt er að gefa flugunni fyrsta tækifærið, því þarna eiga sér oft stað óvæntar tökur og skemmtilegar. Þá er og rétt að benda veiðimönnum á, að í litlum pytti, rétt ofan við Helgunefið, fæst fiskur oft til að taka maðk, sé honum rennt að laxinum með varfærnislegum hætti. Samkvæmt kortinu taka næst við veiðistaðirnir Móvað og Skógarvað, en báðir þessir veiðistaðir eru grunnir og þar stansar fiskurinn sjaldan. Við gefum þessum stöðum því lítinn gaum, en höldum áfram sem leið liggur upp eftir ánni og nálgumst nú Hafravatnið óðfluga.

STEKKJARHYLUR

Næst tekur við Stekkjarhylur sem getur gefið góða veiði, því að þar virðist laxinn kunna betur að meta aðstæður en í hyljunum næst fyrir neðan. Þessi staður er ákjósanlegur hylur til fluguveiða, en best er þar til fanga þegar vindurinn brýtur yfirborð hylsins með léttum gárum.  „Einu sinni tók ég fimm laxa þarna í beit, en þá voru aðstæðurnar líka góðar, vindgára á vatninu og talsvert af fiski í hylnum,“ segir Grímur og nefnir þessu til viðbótar að hylurinn gefi einkum góðan afla síðsumars. Það kemur reyndar tíðindamanni talsvert á óvart þegar Grímur upplýsir að hann hafi veitt fiskana á maðk, en ekki flugu, því Stekkjarhylurinn er fallegur flugustaður. En hann bendir á að oft sé gott að ljúka viðverunni við hylinn með því að beita maðki og láta þá agnið berast niður hylinn sökkulaust. Einnig hafa menn notað flotholt og maðk þarna með ágætisárangri.

Þegar haldið er upp eftir ánni koma menn næst að Stekkjarvaði, Ósstokkum og Óskvörn. Þessir staðir eru lítið reyndir, en þó má hitta þar á lax og iðulega hafa menn fengið allvæna silunga á þessum veiðistöðum. Þannig hefur Grímur veitt urriða, allt upp í þriggja punda þunga, á þessum slóðum og það eru sannarlega skemmtilegir fiskar á æri, ekki síst ef notuð eru létt veiðarfæri. Grímur er reyndar einn fárra Íslendinga sem notar iðulega stöng og línu af léttustu gerð, númer 1 og á slík veiðarfæri verða miðlungsstórir fiskar á við 30 pundara og smálaxar á við rígvæna laxa. Enda er Grímur ákafur talsmaður notkunar léttra veiðitækja. En nú er ferð okkar upp með Korpu að ljúka, aðeins einn veiðistaður er eftir fram undan, en það er Ósvaðið, rétt neðan við upptök árinnar í Hafravatni.

ÓSVAÐ

Ósvaðið er efsti veiðistaðurinn í Korpu og hefur oft gefið góða veiði og þá einkum ef egnt er fyrir lónbúann með flugu. Þessi staður er fast upp undir vatninu, en í árósnum er vatnsmiðlun, svo að þaðan má stjórna rennsli árinnar. Yfirleitt er töluvert af fiski þarna þegar líða fer á sumarið og þarna er oft hægt að fá rífandi veiði. Aðallegustaður laxanna er við grasbakkann að vestan verðu, og þar segist Grímur hafa tekið 6 laxa eitt sumarið og nú alla á flugu. „Ég kom að ánni að vestanverðu,“ segir Grímur, „en fór yfir á hinn bakkann, því laxinn liggur einkum með vesturlandinu. Um miðbik hylsins er stór steinn í ánni og þar er yfirleitt mest af fiskinum, enda er hylurinn dýpstur þar,“ segir hann. Allir laxarnir, sem Grímur veiddi í þetta skiptið, tóku við steininn og var nóg af laxi eftir í hylnum Þegar Grímur hafði tekið sinn skammt.

Sjá allar lýsingar
Sjá allar lýsingar