Svínafossá

Svínafossá á Skógarströnd
Svínafossá á Skógarströnd á upptök sín við rætur Rauðamelsheiðar og rennur um Heydalinn á Skógarströnd og niður í Hvammsfjörðinn. Svínafossá er afar stutt en umhverfið við ána er svo margbrotið og heillar fólk jafnan. Svínafossá er ekki vatnsmesta áin á Vesturlandi en í venjulegu sumri er vatnið þokkalegt. Yfir 30 merktir veiðistaðir eru í allri ánni og er þá talið með ófiskgenga svæðið sem er stærra. Ánni er skipt í þrjú svæði og á efsta svæðinu er einungis silungur fyrir þá sem kunna að meta hann. Á neðra svæðinu eru aðalstaðirnir þessir: Breiðan, Kistuhylur, Rennan, Kúlan, Tröllkonufoss og fleiri til. Á miðsvæðinu eru; Húshylur, Húskvörn, Kattarfoss, Stórlaxafoss, Vörðufellstrengur, Berghylur E, Flæðandi og Svínafoss.
Á efsta svæðinu má einungis finna fallegar flugubreiður og fjögur illa nýtt vötn en staðirnir eru: Beygjan, Kerið, Tröllavatn og Langavatn. Kúlan er sá hylur sem hvað mest kom á óvart í sumar og komu8 silungar og 6 laxar þar á land. Asgeir Asmundsson, leigutaki árinnar, var við veiðar um miðjan ágúst. Gott vatn var í ánni þennan dag þegar 6 punda hængur rauk á maðkinn í Tröllkonufossi. Þennan seinnipart föstudags var afskaplega rólegt við ána fyrir utan freyðfrusandi fossinn sem þrýsti vatnsskýjum út í loftið með ógnarkrafti. Það var svo um nóttina sem rigningin ógurlega byrjaði, allir smálækir urðu eins og sjálf áin í venjulegu rennsli. Seinkun varð á því að farið væri út um morguninn. Þegar út var komið var áin svo ógnvænleg að líkja hefði mátt henni við Haffjarðará í meðalrennsli.
Farið var í Kúluna þennan fyrripart dags, áin var nokkuð lituð. Eg læðist niður Tröllkonufossinn, sem er tvískiptur, og kasta í Kúluna. „Hann er á.“ Þetta var um 16 punda fiskur sem datt af í löndun. Næsti kom í næsta kasti, 6 punda, en svona gekk þetta þar til að fjórir komu á land í 7 köstum og 3 duttu af. En eftir þessi sjö köst var maðkurinn skyndilega búinn. Skömmu seinna fékk ég maðk en þá var eins og hendi væri veifað, aðeins var nartað í maðkinn um hálftíma eftir að veiðin hófst að nýju, ekkert eftir það. Þennan seinnipart dags sáust um 15 laxar eftir í hylnum. Rennan er mjög áhugaverður flugustaður sem kom á óvart hvað varðar fjölda fiska því 1996 komu nærri 20 laxar úr þessum eina hyl en 1997 urðu þeir aðeins 2.

Mörg dæmi voru um það í sumar að hreinlega kraumaði allt af uggum þegar stórar sjóbleikjutorfur komu upp og oft ansi vænar. Tröllkonufoss er mjög fallegur foss sem hefur í aldanna rás geymt drjúft af fiski sem virðist hverfa undir fossinn inn í stóran helli sem þar leynist. Frá fossinum, sem ekki er fiskgengur, er fiskur færður upp fyrir og tvískiptingin er notuð til þess eins að safna fiski saman og flytja hann upp. Flæðandi er foss og þótti afar erfiður. Laxinn tók afar illa þar en í honum sáust í allt sumar nokkrir laxar sem ekki hreyfðu við agninu. En skyndilega náði einn merkur veiðimaður að brjóta ísinn og náði þá 8 p hæng þar upp og 6 p sjóbirtingi.
Á efsta svæðinu kom sá hylur hvað mest á óvart er ég nefni Kerið. Hann er úr minni kvíslinni mjög ofarlega í ánni en þrátt fyrir vatnsmagnið var þarna um annan besta hylinn að ræða. 37 silungar sáust þarna og oftar en ekki vel yfir 50 fiskar í einu. Það sem heillaði menn hvað mest var að bleikjan var alveg brjáluð í þurrflugur og komu þær oft heilu fisklengdina á eftir flugunum. Hátt í fimm þúsund seiðum var sleppt í haust, um er að ræða blandaðan hóp sem gengur út annars vegar sumarið “98, þrjú þúsund seiði og restin sumarið “99 þegar laxinn úr sleppingunni “98 á að skila sér. Það verður því spennandi að fylgjast með veiðinni í framtíðinni.
Flugan kom betur út.
Það kom ekki á óvart í sumar hve vel veiddist af silungi á flugu eða í kringum 60%. Var mest veitt á rauðan Nobler eða 38 fiskar. Meðalþyngdin á silungnum var 1,8 p á flugu og 1,9 p á maðk en 5,2 p af laxinum sem er 2 p slakara en árið áður. Laxveiðin var sú slakasta í manna minnum eða innan við 20 laxar. Veiðin hefur farið í tæpa 70 laxa og von er á að mun betri veiði verði en það, enda virtist seiðaárgangurinn, sem fór út síðasta sumar vera afar góður. Gott veiðihús er við ána. Vegir verða bættir að ánni fyrir næsta sumar. Fyrsti laxinn veiddist í Brúarstreng 3. júlí og var sá lax afar grimmur við að berjast við veiðimanninn, því báðir börðust þeir. Kringum 30 fiska torfa kom í Rennuna í ágúst og voru veiðimenn á fyrsta svæði að skipta þegar allt varð vitlaust, því gífurleg stórfiskatorfa kom upp en þá vaknaði sú spurning hvort um lax væri að ræða. Veiðimennirnir, sem komu af öðru svæði, byrjuðu að kasta og kasta flugu en ekkert gekk því fiskurinn var orðinn alveg ljónstyggur. Skömmu seinna veiddust margir boltasjóbirtingar, frá 3-7 pund, en nokkrum dögum áður veiddust 5 laxar svo menn veltu því mikið fyrir sér hvort þetta hefði verið blandaður hópur sem hefði safnast saman fyrir neðan.
Ósinn
Ósarsvæðið við Svínafossá er mjög skemmtilegt veiðisvæði. Á liðnu sumri var svæðið lítið nýtt og komu því 16 silungar þar á land, sem ekki telst mikið þar sem mikil sjóbleikja er. Leyfilegt er að veiða á spinner í ósnum. Þegar veitt er á svæðinu á fjöru er gott að kasta flugu á brotin og grynningarnar. Á flóði er gott að veiða frá klettatungunni vinstra megin við ána. Heldur hefur fiskurinn verið smár hér, 0,5-1,5 p.
Breiðan
Breiðan var fimmti fengsælasti hylurinn á liðnu sumri og gaf 21 silung á flugu. Breiðan getur verið erfið ef veiðimenn eru að gá að fiski áður en farið er að veiða. Bleikjan liggur á brotinu eða á grynningum milli staða en lítið á dýpinu í hylnum. Laxinn stoppar mjög lítið á breiðunni. Stærð fisksins er svipuð og í ósnum.

Kistuhylur
Kistuhylur er mjög fallegur hylur og þar virðist silungurinn safnast oft mikið saman. Hægt er að veiða frá öllum bökkum en menn verða að byrja á því að veiða í frussinu sem fellur í Kistuhylinn. Laxinn liggur oft undir klettinum sem fellur út í ána eða í djúpri rennunni sem er við steininn í miðjum hyl. Kistuhylurinn var fjórði besti hylurinn á liðnu sumri með 25 silunga og 2 laxa. Meira bar á góðum silungi í kistuhylnum eða frá 1,5—-3 p.
Rennan
Rennan gaf flesta silunga á liðnu sumri eða um 39 og 2 laxa. Þessir tveir laxar úr þessum stóra og fallega hyl urðu vonbrigði sumarsins, þar sem hann hefur alltaf verið að gefa mun meira en nú eða yfir 20 laxa. Aðaltökustaðurinn er í strengnum frá Kúlunni, hylnum að ofan, og niður með klettinum og beygjunni. Silungurinn liggur um allan hyl en mest vinstra megin við landið á mölinni. Nauðsynlegt er að vaða yfir ána fyrir ofan foss og fara niður grasbakkann vinstra megin. Seinnipart ágústmánaðar kom stór torfa af 3-8 p styggum fiski sem menn héldu að væri lax. Nokkrum dögum síðar veiddust 9 fiskar, frá 3-6 p, allt sjóbirtingar. Rennan gaf mikið af boltasilungum og veiddust átta 4 p sjóbleikjur. Mest bar á 2-4 p silungi.
Kúlan
Kúlan er lítill djúpur hylur með nokkrum litlum holum og stórum steini í sem laxinn fer bak við. Við mikið vatn bunkast laxinn úr fossinum oft í Kúlunni og eða í Rennunni. Best er að fara mjög rólega niður tvískiptinguna á Tröllkonufossi og renna vel við holurnar. Kúlan gaf á liðnu sumri 8 silunga og 6 laxa. Laxinn heldur sig ekki mikið í Kúlunni fyrr en fer að rigna. Fiskur sem gengur upp í tvískiptingunni er færður upp fyrir foss.
Tröllkonufoss
Tröllkonufoss er hár og mjög fallegur stoppfoss sem ekki er fiskgengur en fiskurinn fer upp skiptinguna sem rennur í Kúluna í rigningum. Gott er að fara yfir ána fyrir ofan foss og niður grasbrekkuna við Rennuna og fara upp með kúlunni og upp á syllu þar við. Þá er hægt að renna fossinn með straumi en ekki á móti straumi eins og gert er þegar veitt er frá Kúlunni. Fossinn skiptist í tvö ker. Við efra kerið er frussið mikið og teygir sig niður í það neðra. Í efra kerinu er stór hellir sem laxinn virðist fara mikið í en kemur þó niður við rigningar. Veiðimenn veiddu ofan af fossinum, sem er ekki ráðlagt, og sáu mikinn fisk fyrir neðan sig. Ekki leið á löngu áður en stór leginn hængur tók maðkinn. Viðureignin stóð ekki lengi því fiskurinn tók á rás og niður í rennu og var þá ljóst hvað yrði af þeim fiski. Fallegir stuðlabergshryggir, sem brjóta vatnið í háan foss og fegra umhverfið, urðu martröð dagsins þegar sá stóri tók á rás niður og sleit. Á liðnu sumri gaf fossinn 37 silunga og 4 laxa.

Húshylur og Kvörn
Húshylur og Húskvörn er afar fallegt svæði, þar sem flugan kemur mjög vel fyrir. Gott er að vera fyrir neðan hylinn og kasta upp í hann og láta fluguna síga hægt niður hylinn. Í botninum liggja oft stórir fallegir silungar sem eiga það til að hrella veiðimenn. Húskvörnin er fyrir ofan frussið og þar liggur fiskurinn um allt. Á liðnu sumri komu 17 silungar hér og flestir voru yfir 2 p. Það virtist vera meira af fiski hér framan af í maí og fram að mánaðamótum júlí /ágúst.
Kattarfoss
Kattarfoss er smár foss sem geymir oft mikið af fiski. Hægt er að veiða í öllum hylnum. Fiskurinn liggur oft fyrir neðan frussið og einnig í hringiðunni sem myndast út frá straumnum en í allt sumar var laxinn í hringiðunni sem er alveg við land og óðu menn því alltaf fram hjá laxinum. Á liðnu sumri veiddust 7 silungar og 3 laxar og sáust ætíð nokkrir laxar hér í einu.
Stórlaxafoss
Stórlaxafoss er mjög erfiður hylur. Fiskurinn liggur þar víða vegna mikillar breiðu sem fossinn hefur að geyma. Á liðnu sumri veiddust 5 silungar og misstu menn oft alveg boltableikjur sem þeir líktu við stórlaxa.
Berghylur Neðri
Berghylirnir eru taldir af veiðimönnum þeir fallegust í ánni þar sem flugan ætti að vera aðalbeitan. Fiskurinn liggur mjög víða í hylnum sem er mjög djúpur og langur og því hægsökkvandi taumur oft nauðsynlegur. Aðeins komu á liðnu sumri 6 silungar en mjög lítið var veitt í Berghyljunum.
Berghylur Efri
Berghylur efri er svipaður og sá neðri, fallegur flugustaður og liggur fiskurinn oft í lygnunni við klettinn. Á liðnu sumri gaf hylurinn 8 fiska.
Flæðandi
Flæðandi er tvískiptur foss og er víðast djúpur. Maðkurinn er sterkur hér. Fiskurinn liggur við bergið hægra megin eða á brotinu. Á liðnu sumri gaf fossinn 14 silunga og flesta á maðk. Svínafoss er frekar grunnur hylur með klöpp í botninum. Hægra megin við fossinn og niður með frussinu liggur fiskurinn oftast. Gott er að vera með fluguna hér, standa undir fossinum vinstra megin og kasta yfir og láta strauminn taka línuna niður hylinn. Á liðnu sumri gaf fossinn 11 silunga.
Kerið
Kerið er sá hylur sem lætur hvað minnst yfir sér, enda minni kvíslin afar ofarlega í ánni þar sem vatnið er ekki mikið. Gott er að komast að ánni hérna en fáir lögðu þó þetta svæði undir sig, ekki fyrr en leið á sumarið, í ágúst, og sögur fóru af þessum skemmtilega hyl. Á liðnu sumri gaf kerið um 37 fiska og margar alveg gríðarvænar bleikjur. Það vakti mikla athygli hversu góð veiði var á þurrflugu í kerinu og komu oft gríðarvænar bleikjur á eftir flugunum, jafnvel heilu fisklengdirnar á eftir (að sögn kunns veiðimanns).
