Til baka

Straumfjarðará

Straumfjarðará

Eftir Ástþór Jóhannsson

Hér er snæfellsku prinsessunni rétt lýst.

Þegar veiðivertíðin síðastliðið sumar hófst voru allar væntingar hófstilltar, eftir einstaklega erfiða vertíð árið á undan, að minnsta kosti víðast hvar. Það átti einnig við hér í Straumfjarðará vestur á Snæfellsnesi. Líkt og flestar ár á Vesturlandi hafði hún verið langt frá sínu besta þetta sérkennilega sumar 2012. Staðarhaldarar við ána til margra ára voru að vonum þrælskúffaðir fyrir sína hönd og þeirra er heimsóttu ána þetta hörmungarár og áhyggjufullur með framhaldið, þar sem engar óyggjandi skýringar lágu fyrir um hvað hafði í raun gerst með laxagöngur sumarsins. Þeir vonuðu svo sannarlega að komandi ár yrði með allt öðru sniði og reyndar spáðu þeir metveiði á vertíðinni 2013. Um spánna má lesa á fésbókarsíðu árinnar, strax þá um haustið. Spá sína byggðu þeir á eðlislægri bjartsýni veiðimanna og þeim rannsóknum á seiðastöðu árinnar er sýndu góða hrygningu undanfarin ár og sterka árganga er enn voru að alast upp í ánni og kæmu til með að bera uppi veiðina næstu árin. Það væri fjandakornið ómögulegt að sams konar slys, eins og sumarið 2012 var, endurtæki sig . Ef það gerðist væru miklir óvissutímar framundan í laxveiði og væri hreint ekki nokkur leið að sjá hvernig myndi lykta.

Skemmst er frá að segja að spáin um góða veiðivertíð gekk eftir og sumarið 2013 endaði með metveiði, 786 löxum á stangirnar fjórar. Þetta var besta árið frá því að dagleg skráning hófst í þar til gerðar veiðibækur. Í Straumfjarðará hefur verið haldið gott veiðibókhald allt frá 1962 og ágætar heimildir aðrar eru til allt aftur undir miðja síðustu öld. Þar sést að á þeim rúmu fimmtíu árum, sem hægt er að bera saman að öllu leyti, má búast við slíkri metveiði einu sinni á áratug og oftast nær fínni veiði þess á milli. Síðustu tíu árin hefur veiði verið að aukast og stangirnar að skila rétt tæplega 500 löxum á veiðitímabilinu. Síðustu sextán ár hefur veiði hafist 20. júní og frá miðjum september hefur laxinn fengið næði til að snúa sér eingöngu að hrygningunni, laus við áreiti veiðimanna. Því má alveg halda fram að veiðiálag sé hóflegt.

Í huga þeirra er annast hafa ána er engin spurning að þetta hefur haft sitt að segja um bætta hrygningu, auk þess að eingöngu hefur verið veitt með flugu frá sama tíma. Síðustu átta ár hefur verið skylt að sleppa öllum laxi yfir 70 cm aftur í ána. Daglegur veiðikvóti í ánni hefur verið þrír laxar á vakt, sem mörgum þykir vera í ríflegra lagi miðað við þá þróun sem verið hefur undanfarin ár í sjálfbærum ám. Það er ákveðið að engar stórar breytingar verða á því fyrirkomulagi sem verið hefur, að minnsta kosti ekki á næstu vertíð.

En nú er rétt að sjá sig í anda með stöng í hönd á göngu ofan frá glæsilegu og vel búnu veiðihúsi og niður í Foss á heimasvæðinu, sem nefndur er Dalsfoss og er fyrsti veiðistaðurinn á leiðinni þegar áin er veidd frá veiðihúsinu og niður úr, alla leið suður undir holtið við þjóðveginn, sem liggur vestur fyrir Snæfellsjökul og síðan áfram niður í ós. Fyrir rúmum áratug var laxastigi reistur til hliðar við fossinn, sem hafði fram að því verið farartálmi. Með tilkomu stigans greiddist úr för laxa á efri svæðin, sem verður vikið að síðar. Eftir að stiginn var reistur fækkaði mjög á „biðstöðunni“ neðan við fossinn, því að lax flýtir nú för og gengur greiðlega upp stigann. Því er í seinni tíð fáa laxa að hafa þar á breiðunni en þegar varlega er farið má setja í fisk við útfallið á breiðunni, neðst ofan við þrenginguna, rétt framan við þar sem áin sveigist ofan í stokkinn fyrir neðan. Hins vegar er auðvelt að styggja laxinn frá sér ef verið er að glenna sig fram á klappirnar og kíkja. Staðurinn er lítill og því þarf ekki að gá að neinu: þarna eru nánast alltaf fáeinir fiskar allt frá upphafi veiðitíma og fram í lok hans. Vel hefur reynst að fara laumulega og strauja með gárutúpu á spegilinn rétt ofan við brotið.

Neðan fossins tekur við laglegur klapparstokkur er kallast Litli foss. Þar tekur lax ofan við steininn efst í stokknum, sérstaklega í litlu vatni og síðan niður allan stokkinn. Laxinn liggur þar í skjóli klappanna er halda ánni í farvegi sínum. Um þennan stað má segja að hann sé einna bestur í lágri vatnsstöðu, því að í miklu vatni breytist hann í kraumandi ólgu og þá sakkar fiskurinn sér niður á breiðuna neðan við háklappirnar. Best er að geta þess hér í upphafi að sjálfsagt er að veiða alla veiðistaði í Straumfjarðará frá báðum bökkunum, þar sem því verður við komið. Ef það er haft í huga má bæta veiði sína verulega, eins og mörg dæmi hafa sannað.

Veiðistaðurinn þar sem áin breiðir úr sér í djúpum katli neðan við klappirnar kallast Lygnihylur. Í góðu skyggni sést laxinn vel þar sem hann liggur jafnan út af vestara klapparhorninu, hinum megin þegar komið er frá veiðihúsinu, eins og oftast er gert. Þessi staður er einnig þekktur undir nafninu „President“, því að sagan segir að þar hafi verið uppáhaldsstaður Ásgeirs Ásgeirssonar forseta, er veiddi í Straumfjarðará margsinnis á sinni tíð. Þegar straumþunginn eykst með auknu vatni gildir það sama hér og

annars staðar, að fiskurinn leitar í lygnuna. Þegar einhverjum þykir áin vera orðin óveiðanleg vegna vatnavaxta í haustrigningunum er gjarnan að lax bunkast alveg undir grastóna austan megin og tekur þar grimmt, ef svo ber við. Lygnihylur var einn af helstu veiðistöðum árinnar fyrir daga stigans, því að þá bunkaði sig lax í tugavís þar í dýpinu og settist niður á brotin í vatnavöxtum.

Stundum hefur komið til orðaskipta í veiðihúsinu þegar það uppgötvast að engar númeraðar merkingar eða spjöld eru við veiðistaði árinnar. Þetta markast af nokkrum skýringum. Í fyrsta lagi hefur þetta alltaf verið svona. Eins og það sé einhver skýring? Jú, sama fólkið hefur veitt í ánni árum og áratugum saman og upp úr því þróaðist einhver samantekin sérviska, þar sem allir þekktu allt á staðnum og ekki þurfti að merkja veiðistaði sérstaklega. Fyrir þá sem nýir koma er það þó jafnslæmt, má spyrja. Jú, það er rétt. En greinargott kort fylgir með veiðistaðalýsingum og segjum við í gríni að hægt sé að mála eftir númerum en ekki veiða. Annað hefur einnig markað þá ákvörðun að halda í þessa sérvisku. Þannig háttar til að Straumfjarðará er hvorki stór né löng og því er auðvelt að rata um hana og veiðistaðirnir eru nokkuð auðlesnir, með veiðikortið með í för. Hins vegar kemur eitt af einkennum árinnar gestum hennar á óvart í hvert skipti — það að hún svarar vel öllum vatnsbreytingum. Við venjulegar vatnsaðstæður heldur fiskurinn sig á hefðbundnum veiðistöðum en eins og háttaði til síðasta sumar, svo að dæmi sé tekið, var mikið vatn í ánni og veiðimenn bjuggu við draumaskilyrði nánast allt sumarið. Þá sýndi prinsessan að hún er alsett tökustöðum. Það var nánast sama hvar var kastað á streng eða breiðu, alls staðar var lax. Segja má að í góðu vatni verður Straumfjarðará nánast einn samfeldur veiðistaður og gerir það hana einstaklega spennandi og um leið að krefjandi veiðiá, þótt ekki þurfi að aka á milli héraða til að komast á sitt svæði. Því er hægt að eyða mestum tíma Í veiði en minnstum tíma í langan og þreytandi akstur á milli veiðistaða. Það teljum við vera mikinn kost. Hvar sem á er litið eru veiðistaðir í stuttu göngufæri.

Og þá erum við komin að Bænhúshyl, einum af djásnum prinsessunnar. Sá veiðistaður er staðsettur neðan við heimatúnin við bæinn Dal. Lax tekur þar frá því efst í klapparstokknum og niður á brotin við útfall breiðunnar, tæpum hundrað metrum neðar. Svæðið þar á milli getur verið einn samfelldur veiðistaður en helstu tökustaðir eru þó að öllu jöfnu undir símalínu sem strengd er yfir miðjan stokkinn. Síðan er annar góður staður út af klöppinni vestan megin árinnar, þar sem breiðan byrjar og nánast hvar sem er niður breiðuna en helst út af stóru stöku grjóttaki, sem nær því ekki að vera bjarg en lagar til straumlagið þar fyrir laxa til að liggja í. Hér, eins og annars staðar í ánni, færir fiskurinn sig af breiðunum, út í strengina og ofan í stokkarhylina, eftir breytingum á vatnsstöðunni. Í góðu vatni myndast önnur gjöful breiða, neðan við þá efri, og gefur hún nokkra veiði á hverju sumri. Bænhúshylur er að öllu jöfnu virkur upp úr mánaðarmótunum júní/ júlí og helst virkur fram í lok veiðitíma og telst í hópi með betri veiðistöðum árinnar. Saga örnefna við veiðistaði er mjög áhugaverð stúdía og gefur aukna dýpt í viðveruna. Nafn þessa staðar vísar til þess tíma er áin var Í eigu Helgafellsklausturs á miðöldum og stunduðu þá munkar laxveiðar í ánni og bænahald, einmitt þarna við hylinn sem er gjöfull og fallegur.

Steinsnar neðan við Bænhúsabreiðuna taka við lágar klettaborgir, þar sem áin rennur um móana beggja vegna við og þar tekur við veiðistaður sem nefnist Smáfossar. Þar

er klasi af veiðistöðum sem eru misgjöfulir eftir aðstæðum í vatni og veiðitíma. Tveir þeirra eru mest áberandi og gjöfulastir. Hylirnir tveir eru stórir grágrýtiskatlar sem myndast hafa í hörðum farvegi árinnar og eru einkennandi fyrir efri hluta Straumfjarðarár, þar sem hún rennur um vatnssorfnar klappir. Þessir staðir halda ágætlega laxi í litlu vatni þar sem í kötlunum er nokkurt dýpi. Efri hylurinn liggur með vesturbakkanum og endar í lítilli breiðu, sem er tökustaður. Neðan við hann breiðir áin úr sér í ker þar

sem skiptist á ólga og lygna. Laxinn tekur í straumskilunum við efri flúðirnar og niður á brotið þar sem áin svelgist úr hylnum niður á enn aðrar smærri flúðir sem mynda langan breiðan streng meðfram klöppinni lágu, við bakkann, veiðihúsamegin. Í góðu vatni er þar tökustaður, sérstaklega á fyrri hluta veiðitímans, þegar lax er að ganga. Smáfossarnir eru staður sem stundum fá minni athygli veiðimanna og ekki alltaf auðlesnir en þarna er fiskur allt sumarið og með smá rannsóknarvinnu á staðnum, því það getur verið breytilegt frá einum tíma til annars hvar best er að standa og kasta, eru Smáfossar laundrjúgir.

Það sama verður ekki sagt um næsta stað, eða kannski þó. Móhylur nefnist veiðistaðurinn sem flestir veiðimenn horfa á af bílaplaninu við Svartabakka. Fæstir nenna þó í hann. Þetta er staðurinn í ánni þar sem fólk veiðir, ef gleymist að segja því að það veiðist aldrei neitt í Móhyl. Ekki er hann nú ólaglegur staður og í stokknum ofan við flúðirnar, vestan megin árinnar, slæðist alltaf einn og einn lax á fluguna. Hann er þó einn best hvíldi veiðistaður árinnar, að öllu jöfnu.

Þegar ekið er til veiða ofan úr húsi og ferðinni er heitið á stað er nefnist Svartibakki er beygt út af þjóðveginum mitt á milli Dalsafleggjarans og Vegamóta, haldið til vesturs inn á vel markaðan slóða eða reiðgötu sem lögð var yfir mýrina. Slóðin nær alla leið niður á holtsendann, nærri þjóðveginum. Af reiðslóðanum er mikil samgöngubót, því að þarna er foraðsmýri og mógrafir sem reyndust veiðimönnum erfiðar yfirferðar fyrr á árum. Svartibakki er bæði gjöfull og auðlesinn veiðistaður. Hann er einstaklega notalegur og undir hábakkanum er skjólsæld með fögru útsýni yfir á hrossaræktina í Hrísdal og upp í Elliðatindana, með laxi í tökustuði víða á breiðunni. Eðalveiðistaður. Út

af klöppunum í efrihlutanum er myndarlegur steinn sem þrengir að straumnum. Neðan við hann og alla leið niður breiðuna er tökustaður laxa og ræður vatnsmagnið því hversu ofarlega laxinn tekur. Í miklu vatni tekur hann út frá steininum neðarlega og framan við vestari klappirnar. Í verulega kröftugu veiðivatni verður svo til enn annar strengur nokkru neðar, út af langri eyri, þar sem áin sveigir farveg sinn til vesturs.

Nýja brú heitir veiðistaðurinn undir brúnni á Ólafsvíkurveginum vestur á Nes. Þarna safnast oft fyrir mikið af laxi en straumlagið við brúna gerir það stundum að verkum að fiskurinn tekur illa flugu, ekki síst í litlu vatni þegar hann liggur í hringstreymi á dýpinu. Að jafnaði er helsti tökustaðurinn í strengnum ofan við brúna. Í kröftugu vatni, þegar straumurinn hefur fært laxana niður á breiðuna og brotin, verður staðurinn einkar skemmtilegur. Nýja brú er einn af betri veiðistöðum árinnar og hefur hlutur hennar vaxið mjög í veiðinni undanfarin ár. Þegar nýr vegur var lagður vestur á nes fyrir aldarfjórðungi var áin færð úr gamla farvegi sínum og hleypt að nýju undir brúna, sem reist var utan hins gamla. Síðan þá hefur áin verið í svolitlu basli með að finna sig og rótar sífellt til jarðvegi á veturna, því að þarna fyrir ofan vill myndast klakastífla og hefur framburðurinn á straumlagið og legustaðina. Síðasta vetur settist myndarleg malareyri undir brúna og þrengdi að straumnum og veiðistaðurinn batnaði mikið.

Rétt neðan við brúarbreiðuna er stuttur strengur og falleg breiða undir háspennulínu, sem gefur veiðistaðnum nafn, Rafstrengur. Hann varð til við vegaframkvæmdirnar og brúargerðina. Þessi veiðistaður virkar svona eins og lítill pöbb í námunda við vinsælan skemmtistað. Þar er aldrei neitt að gera fyrr en allt er orðið yfirfullt á vinsæla staðnum. Rafstrengur er eins konar útibú frá Nýju brúnni og hrekkur í gang í miklu vatni þegar líður á vertíðina og laxar sakka úr brúarfljótinu þangað niður eftir í rólegheitin. Rafstrengur er skemmtilegur veiðistaður í réttum aðstæðum sem gaman er að kasta á, því að í góðu vatni fær laxinn rými og leikurinn við veiðimanninn getur borist víða um breiðuna. Í Rafstrengnum safnast stundum sjóbirtingur þegar líður á sumarið.

Gamla brú er næsti veiðistaðurinn nær því sem áin rennur til sjávarog dregur nafn sitt af staðsetningunni við brúna er liggur við aflagða þjóðveginn vesturúr. Þessi staður er einnig kallaður Gissurarvallafljót. Fyrir tæpum áratug gaf brúin sig og síðan þá hefur þurft að aka niður á neðsta hluta árinnar, er hér tekur við, eftir gamla þjóðveginum.

Best er að hefja veiðina ofan við stein sem situr kyrfilega efst í strengnum ofan við brúna. Þar tekur laxinn út af klöppunum framan við og niður fyrir brúna. Í mjög miklu vatni getur lax einnig gefið sig neðst á brúarbreiðunni. Við norðurstólpa brúarinnar er rauðmálað strik. Það er hættumerki. Þegar haldið er niður á staðina á neðsta svæðinu sem framundan er, þarf að þvera ána á fáeinum stöðum. Að öllu jöfnu eru vöðin í Straumfjarðará meinlaus sé ekið varlega og flestir fjórhjóladrifnir jepplingar komast þar leiðar sinnar í eðlilegri vatnsstöðu. Þegar rauða strikið hverfur í vatnflaum í vatnavöxtum er ekki fært niður ána nema í vel búnum fjallabílum.

Húshylur eða Hylstapakvörn hefur löngum verið aðgengilegur, vinsæll og fengsæll veiðistaður. Hann er oft seinn í gang á sumrin en þegar líður nær verslunarmannahelgi er hann einn af fjörlegri stöðunum og þar er alltaf mikið af laxi alveg fram í vertíðarlok. Í meðalvatni tekur laxinn niður af grjótinu sem raðað hefur verið við bakkann til þrengingar, efst í strengnum. Einnig getur lax legið úti af litla hólmanum, ofan við þrenginguna. Í kröftugu vatni myndast fleiri strengir niður alla breiðuna og laxinn dreifist betur um hylinn, leggst í nýjar holur sem nú halda fiski og fer að taka út af klöppunum sem skaga út úr holtinu á bakkanum þeim megin sem litla húsið stendur, á kambinum austan við hylinn. Húshylur er einn af þeim veiðistöðum sem margborgar sig að veiða frá báðum bökkum.

Þegar komið er yfir fyrsta vaðið á ánni er efsti hluti næsta veiðistaðar á vinstri hönd. Litli bakki lætur ekki mikið yfir sér og er svolítið breytilegur á milli ára og aðstæðna. Að öllu jöfnu er þetta staður sem krefst þess að gott vatn sé í ánni og við þær aðstæður liggur lax þar víða í breiðum og strengjum. Efst undir móbarðinu, ofan við mýrarvikið, er fyrsti tökustaðurinn og síðan er annar eftir að komið er yfir næsta vað, rétt neðar. Sá staður er lagleg breiða, þar sem tökustaðurinn markast af nokkrum steyptum einingum, sem settar voru þarna í fyrndinni til að halda ánni í farvegi sínum, og gulum stikum sem standa sitt hvorum megin á bakkanum. Í góðu vatni, þegar líður á veiðitímann, getur þessi hluti staðarins gefið talsvert af laxi en dottið niður þegar vatnsborð lækkar og þá flytur fiskurinn sig upp í Húshyl og veiðist þar.

Það sem einkennir þennan hluta Straumfjarðarár er að hér rennur áin um malareyrar og lágholt. Það er því breytilegt eftir árferði hvernig veiðist og hvar fiskur heldur sig. Á þessu svæði eru engir djúpir hyljir, en þeim mun meira af flottum breiðum sem halda fiski og bjóða upp á skemmtileg átök í góðu vatni þegar laxinn dreifir sér vel um ána og út á breiðurnar. Miðmundarholtskvörn eða Nónhylur nefnist staðurinn við holtið neðan við beygjuna, þar sem áin sveigir til austurs. Gamalfrægur staður sem gaf mikla veiði fyrr á tímum og gefur enn árlega nokkra laxa. Einstaklega skemmtileg breiða í réttum aðstæðum.

Grænistrengur er í sama flokki. Löng breiða í hvarfi á bak við lágt gróið holt á móts við bæinn Straumfjarðartungu. Kemur í ljós þegar farið er niður ána. Fiskur tekur helst neðan við grjótið efst Í strengnum og aftur nokkru neðar, út af grjóti þar sem annar strengur tekur við. Síðsumarsstaður.

Það kallast Neðri Ármót þar sem árnar Fáskrúð og Grímsá bætast í vatnakerfi Straumfjarðarár. Hér liggur lax efst í strengnum rétt neðan vatnamótanna og það má sjá laxa stökkva langt niður úr öllu. Einnig getur legið fiskur í strengnum sem liggur með eyrinni ofan við aðalstaðinn. Ármótin þarf að veiða frá báðum bökkum árinnar, til að hann sé fullreyndur og veiða þau nógu neðarlega. Hér getur lax legið á lygna vatninu því hérna er góður straumur, mikið vatn og þægilegt dýpi. Rétt ofan við Ármótaslóðann er ekið yfir yfirfallsárfarveg árinnar og upp hvarf í bakkanum á móti. Þar liggur vegslóðinn áfram eina 500 m, að stæði sem hægt er að leggja.

Eftir það er á fótinn suður í Sjávarfoss, fáeinna mínútna gangur. Frá fyrsta veiðidegi og fram i fyrri hluta ágústmánaðar er Sjávarfoss gjöfulasti staðurinn í ánni. Reyndar er hann gjöfulasti einstaki veiðistaðurinn í ánni á hverri vertíð, svo langt sem heimildir herma. Laxinn í göngu stöðvast um tíma neðan við vestanverðan fossinn. Og með gárutúpu undir, á göngutíma í Sjávarfossi er hreint ólýsanlegt ævintýri. Hér er helsti tökustaðurinn út af klöppinni sem marar í kafi, þar sem hvítfext ólgan endar. Reyndar liggur laxinn og tekur alveg niður úr breiðunni og niður fyrir brotin. Einnig er lax sem gefur sig Í eystri strengnum. En þá er vaðið neðan við brot og einn og einn ofurhugi vill

veiða ofan á fossbrotinu. Þar þarf hinsvegar að fara varlega því þar geta legið laxar, sérstaklega á fyrri hluta veiðivertíðarinnar. Uppáhaldsstaður margra, enda inningarnar þaðan efni í heila bók.

Fljótið sem liggur niður með langaholtinu handan við Sjávarfossinn kallast Snasi. Tökustaðir eru víða í Snasa frá miðju holtinu og niður undir klappirnar sem skaga eins og goggur út úr holtsendanum. Snasi er misjafnlega gjöfull eftir árum einhverra hluta vegna, en einn fiskur úr Snasa er veiðiferðarinnar virði. Sannkallaður draumastaður. Í Snasa er hins vegar oft svolítið af vænni bleikju, sérstaklega fyrri hluta sumars, en hún gengur upp Í Sjávarfossinn.

Þegar horft er niður ána úr brekkunni ofan við Sjávarfoss sjást þeir þrír neðstu veiðistaðirnir Efri og Neðri Nethamrarnir og Sökkur. Þangað niður eftir í neðsta stað er um korters gangur. Þarna gætir sjávarfalla, ekki síst í stórstraumsflóði og þarna eru kjörlendur sjógengna silungsins, bleikjunnar og birtingsins, sem helga sér neðstu staðina í ánni að miklu leyti. Þarna veiðist þó alltaf eitthvað af laxi á göngutíma og sérstaklega ef áin hefur skorðað sig vel í farveginum veturinn á undan. Helst er von á fiski á breiðunni ofan við neðsta holtið, en framan við þetta holt er

djúpur pyttur sem stundum verður eins og fiskabúr eftir að flæðir út og fiskurinn sem er að ganga inn á flóðinu er að tínast upp úr. Og þarna getur verið mjög lífleg sjóbleikja þegar svo ber við. Þegar komið er hingað niður eftir er ekkert að aðhafast frekar, en áin hverfur út í gríðarmikið ósasvæði. Á flóði hverfa Sökkur, neðsti veiðistaðurinn og kemur ekki í ljós aftur fyrr en að fellur út á ný og þá gefur bleikjan sig helst þarna

Nú er haldið að nýju heim í veiðihús og eftir hressingu er haldið upp á dal og kannaðir veiðistaðirnir á efsta hluta laxgenga svæðis árinnar. Áður en nýja veiðihúsið var byggt árið 2006 svo ekki sé talað um tímann fyrir daga laxastigans þegar efsta svæði árinnar var hálfgert frísvæði, var næsti veiðistaður ofan við Dalsfoss, sem nú er stofuprýði út um gluggana í setustofu veiðihússins.

Hýrupollur nefnist hann þessi veiðistaður. Djúpur stuttur hylur, þar sem Þarna er straumiða mikil og erfitt að ná flugunni niður. Í dýpinu safnast laxinn fyrir, þaðan kemur hann upp úr / myrkhylnum og tekur fluguna þegar hún dansar í fryssinu . Í | litlu vatni liggur lax í strengnum ofan við þrenginguna, en í miklu

vatni niður á brotinu og út af vesturbakkanum. Nafn sitt dregur staðurinn af þeirri sögu að einhvern tímann fyrir margt löngu hafði veiðimaður nokkur verið við veiðar en lítið gengið fyrr en hann kom að þessum stað. Þar setur hann í ógnarflykki og svo glaður varð veiðimaðurinn laxinum að í lok | baráttunnar f ór hann í innan á vasann, því að þetta var á þeim árum þegar menn veiddu uppáklæddir í jakkafötum, dró fram veskið tók úr því fimmhundruð króna seðil og stakk upp í laxinn sem hann síðan aðstoðaði við að komast út í hylinn á ný. Þetta var sem sé greiðslan fyrir skemmtunina og þaðan kom nafnið á veiðistaðnum, þar sem laxinn fékk hýruna sína. Það er nærri því hægt að kasta áin fellur um klapparþrengingu. yfir á næsta stað svo stutt er á milli. Olnbogi er yfirlætislaus veiðistaður í klapparskál, sem gefur helst lax í litlu vatni. Í miklu vatni fer að ólga í hylnum og þá rennir laxinn sér neðar og tekur í strengjunum sem eru neðan klapparskálarnar, allt niður undir Hýrupoll.

Grænibakki kallast breiðan þarna rétt ofar. Lax liggur gjarnan í strengnum efst við klöppina sem skiptir ánni og síðan alla leið niður á brotin. Einnig er tökustaður í kerinu ofan við klöppina, austan við. Þar er auðvelt að styggja laxinn þegar komið er fram á bakkann svo best er að veiða kerholuna vestan frá. Þarna veiðist lax upp úr júlí og út veiðitímann ef vatn er í góðu meðallagi.

Þar sem Straumfjarðará ofan úr vötnum mætir Köldukvísl úr skarðinu heitir Kvíslaroddi eða Efri Ármót Hér liggur laxinn í djúpu og þröngu fosskeri og er erfiður viðfangs. Áin fellur þá niður flúð og myndar stutta breiðu en þynnist síðan út í grunna strengi. Það er helst að fá lax í hylnum þar neðan við, Efri Ármót þar sem Kaldakvísl sameinast Straumfjarðará.

Fyrr á árum var svæðið ofan við Kvíslarodda friðað og engin veiði þar leyfð fyrr en upp úr 1990. Þá opnaðist veiðimönnum einstaklega fallegt veiðisvæði sem að hluta til rennur um gljúfur og gil. Bræðrastrengur kallast þröngur og djúpur klapparstokkur, nokkuð vandveiddur. Staðurinn er einn af þeim sem auðvelt er að styggja fisk ef ekki er farið með hægð. Best er að kasta á hann að vestanverðu, í skjóli af klettinum er þrengir að staðnum. Þarna safnast oft saman nokkuð af laxi þegar líður á sumarið. Eftir að fiskur fór að ganga um laxastigann er hann kominn hingað upp úr og í efstu staði strax í fyrstu viku veiðitímans. Í miklu vatni sakkar laxinn sér niður úr hylnum og leggst í strenginn rétt neðan við brotið og tekur þar.

Gíslakvörn er jafnan gjöfulasti veiðistaðurinn í efsta hluta árinnar. Eins og víðar um ána þarf að gæta að sér því auðvelt er að styggja laxinn í hyljunum. Þannig er betra að koma ofan frá fossinum og niður í gljúfrið. Fiskur getur legið og tekið í strengjunum þar sem gljúfrið er þrengst og alveg niður á brotin þar sem breiðan endar. Í litlu vatni er betra að veiða strenginn vestan frá.

Efsti laxgengi veiðistaður árinnar heitir Rjúkandi. Fyrir utan að þar er einn stæðilegasti fossinn á Nesinu þá er þetta efsti laxgengi veiðistaðurinn í Straumfjarðará. Hér safnast lax saman í kerinu undir fossinum. Best er að kasta á hann uppstreymis og draga línuna hratt að sér þegar hún berst með straumnum yfir fiskinn sem þarna liggur. Með þeirri aðferð er minni hætta á að styggja laxinn. Í góðu vatni liggur lax í strengnum rétt fyrir neðan fossinn og allt niður á brotin neðan við klappirnar að vestanverðu. Frá veiðistaðnum Rjúkanda er einnig hægt að veiða sig niður í hús og það er alveg víst að það er fiskur í hverjum veiðistað á leiðinni.

Þá höfum við Straumfjarðarána alla fyrir framan okkur. Tólf kílómetra af laxgengu vatni. Fjölbreytta, aðgengilega og glettilega góða laxveiðiá, eins og segir í bókinni um Vötn og ár á Vesturlandi. Í þægilegri fjarlægð frá höfuðborginni, með alla aðstöðu til fyrirmyndar, þar sem vel er búið að gestum.

Sjá allar lýsingar
Sjá allar lýsingar