Til baka

Skjálfandafljót

Skjálfandafljót

Eftir Stefán Sigurðsson

Skjálfandafljót hefur verið nefnt eitt best geymda leyndarmálið í laxveiðinni á Íslandi. Tröllvaxin náttura með gljúfrum, fossum og miklum breiðum situr helst í huga manns eftir góða veiðiferð í Skjálfandafljót. Meðalveiðin síðastliðin ár eru um 600 laxar á ári á aðeins 6-7 laxastangir sem þykir ansi gott í samanburði við flestar laxveiðiár landsins. Skjálfandafljót er fjórða lengsta á landsins og kemur úr Vonarskarði en rennur norður í Skjálfandaflóa. Jökulkvíslar leggjast til þess að sumarlagi undan kögurjöklum og Bárðarbungu og gefur það Fljótinu lit. Liturinn í ánni getur verið breytilegur á milli daga en suma daga er betra að veiða á maðk en aðra á flugu.

Aðalveiðisvæði fljótsins nær frá Barnafossi og niður að sjó. Hér má sjá veiðistaðalýsingu á því svæði. Í gegnum árin hefur verið erfitt að fá veiðileyfi keypt í Skjálfandafljót en hópur veiðimanna fyrir norðan hefur leigt fljótið síðustu áratugi og skipt á milli sín öllum veiðidögunum. Lítið hefur verið selt af veiðileyfum þar til almennings fyrr en nú. Iceland Outfitters gerði nýlega samning um sölu veiðileyfa í Skjálfandafljóti næstu þrjú veiðitímabil og geta áhugasamir nú kynnt sér þessa mögnuðu laxveiðiá. Bæði lax og silungur veiðast í Skjálfandafljóti.

Ánni er skipt í þrjú megin svæði: Laxveiðisvæði, sem er efsti hluti fljótsins, laxa- og silungasvæði sem er miðsvæðis og silungasvæði sem er neðsti hluti fljótsins. Laxasvæði Skjálfandafljóts skiptist í fjögur, eins til tveggja stanga veiðisvæði.

- Austurbakki Efri (Þingey). Þar er veitt með tveimur stöngum allt tímabilið.

- Austurbakki Neðri (skipapollur). Þar er veitt með 1-2 stöngum eftir tímabilum.

- Barnafell. Þar er eingöngu veitt með einni stöng.

- Vesturbakki en það er veitt með 2 stöngum allt tímabilið.

Það er mikið ævintýri að veiða í Skjálfandafljóti og menn finna auðveldlega til smæðar sinnar í þessari tröllvöxnu náttúru sem umlykur fljótið. Laxveiðisvæðin fjögur eru ólík og hvert með sinn karakter en flestir veiðimenn eiga sér uppáhalds veiðisvæði sitt í fljótinu.

Austurbakki Efri (Þingey) - 2 stangir.

Að veiða í Þingey er mikil upplifun. Almennur veiðidagur hefst á því að koma sér fyrir í bát sem stendur við Skipapoll og er svo róið yfir samnefnt lón yfir í Þingey sem Þingeyjarsýsla er einmitt kennd við. Mikið er af náttúruminjum Í Þingey svo að eingöngu er heimilt að ganga um þessa miklu eyju. Það tekur um 10 mínútur að ganga upp að gljúfukjafti sem er fyrsti veiðistaður á veiðisvæðinu. Flestir ganga beint uppá Pálsbreiðu sem er nokkuð stór, kasta mæðinni og byrja þar en þó nokkrir veiðistaðir eru í kringum breiðuna. Laxinn getur verið allsstaðar á Pálsbreiðu, alveg frá efstu flúð og neðar en menn geta grunað en þar eru nokkur grjót sem laxinum líkar vel að liggja við.

Ofan við Pálsbreiðu eru nokkur vik og hylir (Sandhylur) sem er eiginlega skylda að kasta á en lax á göngu getur legið allsstaðar í þessum pollum og vikum. Það tekur um það bil 10 mínútur að ganga upp í Fosspoll en þar eru margir samliggjandi veiðistaðir eins og Litlabreiða, Tótaklöpp og Fosspollur sem eru allir lykilveiðistaðir og þar er oftar en ekki laxí tökustuði. Fosspollurinn er veiddur beggja megin frá og er mismunadi eftir vatninu í Skjálfandafljóti hvorum megin hann liggur. Oftast liggur hann við grjótin sem brýtur á norðan megin og sunnan megin nálægt landinu frá fossi og niður úr.

Fyrir ofan Fosspoll er Geirahola. Hún er ekki öllum fær en holan er mjög gjöful en líka hættuleg svo að menn eru beðnir að fara að öllu með gát. Geirahola er efsti veiðistaðurinn fyrir neðan Barnafoss og er lítið straumvik við landið þar sem myndast smá hlé frá aðalstraumnum en þar liggur laxinn. Oftar en ekki er fiskur þar. Sumir veiðistaðir á efri austurbakka eru ekki mjög aðgengilegir og styðjast skal við kaðla.

Það tekur um 30 mínútur að ganga frá bát upp á efsta veiðistað og best er að veiða alla veiðistaði nokkrum sinnum yfir veiðidaginn því að Laxinn virðist vera mikið á hreyfingu í gljúfrinu. Oft er það þannig að maður getur lent í veislu á stöðum sem maður var nýbúin að veiða og varð ekkert var fyrr um daginn. Veiðimönnum býðst að sleppa hvíldinni og veiða sína 12 tíma ef menn vilja í Þingey. Flestir taka með sér nesti fyrir daginn og sleppa hléinu. Það er upplifun að veiða í Þingey og skemmtilegur gangur.

Austurbakki neðri (Skipapollur) 1-2 stangir

Ósjaldan hefur maður upplifað skemmtilega daga við Skipapoll, alveg fara fyrir neðan Grænhylina og vaða yfir á austurlandið og veiða hylina þeim megin sem hefur oft gefið mjög vel. Vesturbakkinn er mikið hrygningarsvæði fyrir laxinn í Skjálfandafljóti og getur legið lax nánast allsstaðar þegar líður á sumarið. Áin breiðir mikið úr sér á þessum kafla og víðast hvar þar sem vatn nær upp í hné getur laxinn legið. Einnig er töluvert af silungi á þessum slóðum sem gerir veiðina enn skemmtilegri.

Bestu veiðistaðir: Stóri og Litli Grænhylur bæði vestan og austan megin, Ytrifellselspollur, Syðrifellselspollur og Votulagarpollar.

Silungasvæði með laxavon

Fyrir neðan laxveiðisvæðin eru tvö veiðisvæði þar sem bæði veiðist lax og silungur. Tvær stangir eru á hvorum bakka. Þetta eru ódýr og mjög góður kostur og er aðgengi bærilegt. Austanmegin er veiðisvæðið Austurbakki Lax og Sil (Vaðseyja) en þar eru nokkrir góðir veiðistaðir eins og Séniver, Vaðseyja og Vaðseyjarendi, þar er mjög oft lax og töluvert af silungi.

Vestanmegin, eða beint á móti, er svæði sem heitir Vesturbakki Lax og sil. Þar eru helstu veiðistaðirnir Meleyrarpollur, Skriðubreiða, Skriðurhorn, Skógarbreiða og Moldarbakki. Áin kvíslast mikið á þessum slóðum og myndast sífellt nýir staðir og fyrir duglega menn er auðvelt að finna nýja veiðistaði daglega.

Silungasvæðin Ós-Brú

Silungasvæðin eru tvö, fyrir neðan þjóðvegsbrú á milli Akureyrar og Húsavíkur. Mikil silungsveiði er í Skjálfandafljóti og hafa verið skráðir allt að 1000 veiddir silungar árlega og þykir það ekkert slor. Besta silungasvæðið í ánni er án efa Vesturbakki Ós-Brú en þar kemur mikið af ferskvatni niður af kinnafjöllunum niður í Skjálfandafljót og eru helstu veiðistaðirnir í vatnamótum ferskvatnsánna og Fljótsins. Þar má nefna vatnamót Leikskálaár og Skjálfandafljóts og Vatnamót Nýpár og Fljóts.

Austurbakki Ós-Brú er ekki eins þekktur en undirritaður hefur oft fengið mjög fína veiði á kvíslinni en þar blandast töluvert af mýrarvatni við Skjálfandafljót. Einnig kemur töluvert af vatni undan Aðaldalshrauninu og rennur í Skjálfandafljót og þar eru oft staðir sem leyna á sér eins og Hraunkotskvíslin.

Sjá allar lýsingar
Sjá allar lýsingar