Norðurá

Norðurá
Eftir: Guðlaug Bergmann, Guðrúnu G. Bergmann, Halldór Þórðarson, Walter Lentz, Hermann Jónsson,
Jón G. Baldvinsson og Ólaf Hauk Ólafsson

Norðurá í Borgarfirði kemur úr Holtavörðuvatni. Vatn það er allt í Norðlendingafjórðungi. Sýslumörkin eru við Hæðarstein sem er spöl í vestur frá sæluhúsinu.Stendur það á hæð við vesturenda vatnsins sem heitir Sæluhúsahæð, enda hefur sæluhús verið þar lengi. Holtavörðuvatn er ekki stórt. Það er í lág á milli Snjófjalla og heiðarinnar. Allmikil bleikja er í því. Þarna er það sem Norðurá hefst og rennur um langa leið um fallegt hérað og kemur svo út í Hvítá langt fyrir neðan Holtavörðuheiðina.
Sportveiðiblaðinu þótti rétt að kíkja aðeins á Norðurá á þeim tímamótum sem eru á þessu sumri. Núna eru netin komin upp á bakka og fleiri laxar ættu að koma í ána, veiðimönnum til mikillar gleði. Í fyrsta skipti er allri Norðurá lýst í tímariti og það gerist auðvitað aðeins í Sportveiðiblaðinu. Við höfum fengið þá sem þekkja ána best til að lýsa fyrir okkur leyndardómum hennar. Við segjum góða veiði, beitan er komin út í hylinn. Skyldi fiskurinn taka? Verður þetta stórlax í þetta skiptið?
Ritstjórn Sportveiðiblaðsins hefur óskað eftir því við undirritaða að skrifa lýsingu á Norðurá í Borgarfirði. Er okkur bæði ljúft og skylt að verða við þeirri ósk en Norðurá hefur að geyma marga skemmtilega veiðistaði. Við hefjum lýsinguna við Króksfoss en fyrsta sprettinn lýsum við frá Króksfossi að Laxfossi. Best er að geta þess strax að við munum áttgreina ána með austur- og vesturbakka og er vesturbakkinn að sjálfsögðu þeim megin sem þjóðvegurinn liggur norður í land. Þó gengur laxinn mun lengra upp ána eins og öllum er kunnugt. Helstu veiðistaðir ofan Króksfoss eru Klapparhylur, Kattarhryggur, Olnbogi, Móhylur og Leitisfossar en þeir eru skammt fyrir norðan Fornahvamm. Mjög sjaldan er farið ofar með ánni til veiða en þó kemst lax auðveldlega alla leið upp í Holtavörðuvatn þegar vatnsmagn er nægilegt til göngunnar.
Króksfoss fellur í 2 fossunum niður í hylinn undir fossinum. Aðaltökustaðurinn er á brotinu, þar sem straumarnir mætast. Bestur er Króksfoss snemma morguns eða seint á daginn þegar sólin skín ekki á hylinn. Niður úr Króksfosshylnum rennur áin í stríðum streng, Króksstreng, og neðst í Króksstreng við vesturbakkann er hylur sem nefnist Poki. Þetta er viðkvæmur staður en fallegur og fer fluga mjög vel hér. Best er að veiða í strengnum frá eyrinni að austanverðu. U.þ.b. 100 metra fyrir neðan Poka fellur áin í smáfossi undir háum austurbakkanum og heitir hann Litli-Foss, þar er hægt að renna maðki en fara verður varlega. Skammt þar fyrir neðan fellur áin svo í Krókshylinn sem sumir hafa uppnefnt Brúarhyl. En Krókshylur er einmitt rétt ofan við brúna við bæinn Krók og raunverulega nær veiðistaðurinn undir brúna og langt niður á breitt brot fyrir neðan brúna. Krókshylur er stór og mjög fallegur veiðistaður en margir eyðileggja sína veiðimöguleika þar strax með því að skyggna hylinn af brúnni sem er einmitt mjög auðvelt. Laxinn getur verið um allan hylinn, alveg frá efsta bletti þar sem stríður strengurinn kemur í hylinn og niður á blá brotið fyrir neðan brúna en aðaltökustaðurinn er þar sem strengurinn deyr út skammt ofan við brúarstæðið. Þetta er frábærlega fallegur flugustaður en fara verður mjög varlega og standa helst langt frá ánni þegar kastað er. Af brúnni sér maður oft lax niðri á brotinu og hef ég meira að segja séð tvo laxa veidda á maðk þannig að rennt var af brúnni sjálfri langt niður á brot, síðan var hlaupið niður fyrir til að þreyta og landa.
Efri- Ferjuhylur er djúpur og lygn
Niður úr Krókshyl rennur áin í stríðum streng með vesturlandinu áður en hún rennur útí Efri-Ferjuhyl, þar hvílir sig gjarnan lax í göngu og ættu menn að renna þar áður en farið er niður í Efri-Ferjuhyl. Efri-Ferjuhylur er djúpur og lygn hylur og stendur lítill klettur ofarlega í miðjum hylnum. Aðaltökustaðurinn í Efri-Ferjuhyl er bletturinn efst þar sem strengurinn fellur í hylinn en einnig má fá lax austan undir klettinum og niðri á brotinu í góðu vatni. Neðri-Ferjuhylur tekur við strax neðan við brotið og fellur áin að meginhluta upp að bergi við vesturbakkann. Er laxa von allt frá því að bergið byrjar en aðaltökustaðurinn er þar sem straumurinn deyr út við bergodda sem skagar út í miðjan hylinn. Oft liggur lax langt niður á brotið fyrir neðan. Neðri-Ferjuhylur er sennilega jafngjöfulasti staðurinn á efsta hluta árinnar.
Úr Ferjuhylnum fellur áin að mestu með'austurlandinu og er þar blettur í ánni, sem heitirHornhylur, undir túnfætinum á Króki. Hér kvíslast áin yfir eyrina (Nauteyri) og slær sér yfir til vesturs og myndar þar tvo laglega veiðistaði, Efra- og Neðra-Skógarnef. En einmitt við Efra-Skógarnefið bætist Sanddalsá við Norðurá úr vestri. Í henni er hægt að fá lax í neðsta hlutanum þar sem eru nokkrir smáhyljir en síðan er lítil veiðivon fyrr en mjög ofarlega. Talsvert af laxi hrygnir í Sanddalsá og Mjódalsá, sem í hana rennur, og bjóða þær systur upp á eitt besta svæði árinnar til seiðauppeldis.
Skógarnefin eru fallegir staðir en nokkuð misjafnir frá ári til árs vegna þess hve áin breytir sér á þessu svæði og má þar kenna um jarðraski vegna vega- og brúarframkvæmda. Þó má segja að Neðra-Skógarnef gefi talsvert betri veiði. Á eyrunum ofan við Skógarnefin mætti auðveldlega sameina kvíslar og búa til fleiri og betri veiðistaði. U.þ.b. 300 metrum neðan við Skógarnefið sameinast kvíslarnar og falla sameiginlega niður í Beinhól.

Beinhóll einn sá besti á dalnum
Beinhóll er með betri veiðistöðum á dalnum og er alltaf að dýpka og um leið að batna sem veiðistaður. Áin fellur hér upp að austurlandinu meðfram hólnum en breiðir úr sér til vesturs ílygnum, djúpum hyl. Veiðivon er allt frá því efst í strengnum, við flata klöpp, þar sem aðalstraumurinn endar, og langt niður á brot, allt að 100 metrum neðar. Þó mun besti tökustaðurinn vera við og neðan við flötu klöppina. Úr Beinhól fellur áin í breiðum streng niður í Hvammshyl en hann hefur einnig verið að batna undanfarin ár eftir nokkurra ára hvíld. Aðaltökustaðurinn er ofarlega þar sem stórgrýtið á bakkanum er mest áberandi en laxavon er langt niður á dauða vatnið neðar í hylnum.
Rétt neðan við Hvammshyl fellur Litlaá í Norðurá úr vestri. Um 100 metrum neðar liggur símalína yfir ána og var þar Símastrengur áður en er horfinn eða hefur öllu heldur færst neðar þar sem áin fellur undir háa hlíð og klett við austurlandið. Neðan við símalínuna var sett stórgrýti i ána í fyrra og veiddist þá strax einn lax á þeim stað og verða vonandi fleiri í sumar. Þennan stað mætti t.d. nefna Háreksstaðastreng. Símastrengur er gjöfull og góður veiðistaður. Lax getur legið uppi í strengnum fyrir ofan klettinn sem liggur út í ána fyrir miðjum hylnum en aðaltökustaðurinn er þó á móts við og neðan við klettinn. Þó getur lax legið langt niður með grasbakkanum á austurbakkanum.
Niður úr Símastreng fellur áin í kvíslum yfir eyrar og slær sér að mestu yfir til vesturs. Á þessu svæði stendur nú yfir vegagerð og vonandi skilja þær framkvæmdir eftir sig veiðistaði þar sem engir voru fyrir. Næsti veiðistaður er Torfafit, sem er langt neðan við Símastreng og er við vesturlandið gegnt bænum að Hóli. Torfafit hefur verið ansi mistæk undanfarin ár en sl. sumar veiddist sæmilega þar og var þá tökustaðurinn neðarlega á eyrunum undir háum grasbakka. Úr Torfafit fellur áin þvert yfir dalinn til austurs á hólinn sem Hóll stendur á og myndar hún þar Hólshyl. Lax getur legið í Hólshyl efst uppi í strengnum þar sem áin kemur ofan af eyrunum en besti staðurinn er neðar í strengnum á móts við eyraroddann að vestanverðu. Í Hólshyl er einmitt mun betra að veiða frá þeim bakka. Úr Hólshyl fellur áin í breiðum streng með austurlandinu niður í Sandhólavað en það má þekkja á tveim sandhólum mitt á milli Hóls og Hafþórsstaða Veiðistaðurinn er beint fram af neðri sandhólnum og er þetta ágætur veiðistaður.
Hafþórsstaðahylur gefur oft góða veiði
Um 2-300 metrum neðar fellur áin ofan í Hafþórsstaðahyl sem liggur undir háum mel rétt fyrir neðan bæinn á Hafþórsstöðum. Hafþórsstaðahylur er einn besti veiðistaður á dalnum. Áin fellur í þröngri rás undir hámelnum og niður í djúpan hyl með sandi og möl í botni. Besti tökustaðurinn er efst í hylnum en lax getur tekið allt að því 100 metrum neðar á alveg steindauðu vatni. Mikill lax safnast jafnan saman í hylnum yfir sumarið en varlega skyldi farið því að hylurinn er lygn. Bestu skilyrði eru því þegar gárar á hylnum.
Neðan við Hafþórsstaðahyl tekur við kafli í ánni meðfram bænum Hreimsstöðum sem nokkuð erfitt er að lýsa. Það stafar af því að áin er ekki enn farin að renna um það svæði sem á að mynda veiðistaðina! Þetta stafar af miklum vegaframkvæmdum sem nú eiga sér stað á svæðinu allt niður að Bælisfljóti. En úr Hafþórsstaðahylnum á áin að renna með vesturlandinu upp að Snaga sem er klettur skammt ofan við Hreimsstaðabæinn og var hér á árum áður mjög gjöfull veiðistaður. Þaðan mun áin renna við túnfótinn á Hreimsstöðum eða undir veginum og vonandi mynda a.m.k. 2 veiðistaði að nýju, þ.e.a.s. Hreimsstaðahyljina efri og neðri. Þetta voru ágætir staðir áður en áin breytti sér og sló sér út á eyrina en nú verður vonandi breyting á til batnaðar.

Neðan við Hreimsstaði beygir áin til austurs meðfram Murunesinu, sem einnig var góður veiðistaður, og fellur niður á Vaðklöpp sem vonandi heldur áfram að vera gjöfull veiðistaður þrátt fyrir vegaframkvæmdirnar. Vaðklöpp er flöt klöpp, sem liggur út í ána frá austurlandinu og myndar góðan hyl fyrir neðan. Neðan við Vaðklöpp hefur verið sett stórgrýti í ána og er þar allsæmilegur veiðistaður sem nefndur hefur verið Pétur.
Um 200 metrum neðar rennur áin í djúpt og breitt fljót sem nefnist Bælisfljót. Þetta er stór og lygn veiðistaður en aðaltökustaðurinn er við flata klöpp sem liggur að austurbakkanum og hefur verið mjög gjöfull staður undanfarin ár. Neðan við fljótið kvíslast áin í nokkrar kvíslar sem nefnast Dreifingar og hafa lítið gefið undanfarin ár. Neðst í Dreifingum er Steinastrengur en hann hefur ekki gefið veiði í mörg ár. Heyvað heitir veiðistaður sem er undir vesturbakkanum á móts við gamla samkomuhúsið sem stendur við vegamótin í Dalsmynni. Þetta er lygn breiða og hefur verið sett grjót í bakkann tilað verja landið ágangi árinnar.
Mjög fallegur flugustrengur með Fitjabökkunum
Niður af bænum Skarðshömrum fellur áin síðan frá Heyvaðinu til austurs með Fitjabökkunum sem er mjög fallegur flugu strengur og beygir í breiðum streng til vesturs á ný og niður í Skarðshamarsfljót. Aðaltökustaðurinn í Fitjabökkum er einmitt staðurinn þar sem áin réttir úr sér til vesturs. Hérna ætti að nota flotlínu og fara varlega. Þetta er mjög fallegur staður sem endar á broti eftir að áin réttir úr sér. Neðan við brotið er nokkuð samfelldur veiðistaður niður fyrir ármót Bjarnardalsár en þar tekur Skarðshamarsfljót við.
Einn besti tökustaðurinn á þessum kafla er undir klettinum sem skagar út Í ána frá austurbakkanum, skammt ofan við ármótin.Skarðshamarsfljót var áður fyrr besti veiðistaðurinn í dalnum en hefur lítið sem ekkert gefið af veiði undanfarin ár. Má þar alfarið kenna um malartöku vegagerðarinnar við ármót Bjarnardalsár og skammsýni landeigenda sem væntanlega hafa gefið leyfi sitt til malartökunnar. Aðaltökustaðurinn í Skarðshamarsfljóti var efst í því við stóran stein sem stendur efst í fljótinu en laxinn veiddist niður með öllum bakkanum að austanverðu, allt að 100-200 metrum neðar. Því miður hefur lítið veiðst á þessum stað í nokkur ár. Vonandi tekst ánni sjálfri að bæta þar úr svo að þessi fallegi veiðistaður megi aftur ná fyrri reisn.
Neðan Skarðshamarsfljóts rennur áin undir háum hamri sem Stóri-Hamar nefnist og niður í Hesthólma sem var áður góður staður en hefur fyllst af möl. Áin rennur nú á löngum kafla undir brattri hlíð að austanverðu. Um hálfan kílómetra neðan við Hesthólma er kominn nýr veiðistaður sem hefur hlotið nafnið Landamerkjafljót. Lítill lækur rennur úr gili að austanverðu og er aðaltökustaðurinn við stóran stein skammt ofan við lækjarmótin. Þetta hefur reynst mjög góður staður á seinni árum og fer flugan sérstaklega vel í Landamerkjafljóti.
Neðan við Landamerkjafljótið beygir áin lítillega til vesturs upp að Kerlingarhólma en þar má stundum reka í lax en heldur mun þessi staður vera lítið stundaður. Neðan við hólmann slær áin sér aftur upp að hlíðinni sem nú heitir Strönd. Neðarlega við hlíðina eru Strandarstrengur og Nautastrengur, fallegir strengir sem hafa verið nokkuð mistækir undanfarin ár. Besti tökustaðurinn í Nautastreng er beint út af girðingunni sem liggur fram á bakkanum ofarlega og niður með bakkanum þar sem einmitt er búið að setja mikið grjót til að verja bakkann. Úr Nautastreng rennur áin svolítið til vesturs upp að háum grasbakka. Er þar góður staður sem nefnist Bakkastrengur. Besti tökustaðurinn er rétt neðan við miðjan streng. Þetta er djúpur og góður strengur sem geymir mikið af laxi þegar líða tekur á sumarið.

Úr Bakkastreng fellur áin yfir brot (vað), sem reyndar hefur stundum gefið lax, og beint ofan í djúpan hyl sem liggur þvert undir Landengjaoddanum efst. Þessi hylur heitir Bakkahylur. Djúpur hylur sem oft geymir mikið af laxi en gefur ekki mjög mikla veiði. Er þar sennilega um að kenna miklu dýpi, yfirborðsstraumi og hringiðu. Úr Bakkahyl rennur áin í vestur með norðurbakka Landengjaoddans yfir brot neðst við oddann sem nefnist Björnsbrot og gefur lax og lax og þaðan niður í djúpan hyl og lygnan sem heitir Oddahylur.
Oddahylur geymir oft mikið af laxi
Oddahylur er langur og mjög djúpur hylur sem oft geymir mikið af laxi en er erfitt að veiða sökum straumleysis og dýpis, helsta vonin er að veiða með spæni í Oddahyl þegar hann verður leyfður. Þegar Landengjaoddanum sleppir rennur áin meðfram túnunum á Glitstöðum en skiptir sér skammt neðan við bæinn og rennur um Hrauney í 2 kvíslum, austur- og vesturkvísl, þar til þær sameinast skammt ofan við Kríuhólma.
Það veiðist oft vel kringum Glitstaði
Glitstaðahyljir heita staðir undir háum moldarbakka í Deseynni, skammt ofan við Glitstaðabæinn. Rétt neðan við bæinn skiptir áin sér svo í austur og vesturkvísl um Hrauney, eins og áður sagði. Í austurkvíslinni er fyrsti veiðistaðurinn neðan við brúna og er sá staður jafnan nefndur Glitstaðabrú eystri. Þetta er gjöfull og skemmtilegur veiðistaður. Jafnan sjást fyrstu laxarnir á dalnum á þessum stað eftir að lax er genginn upp fyrir Glanna. Þetta er besti staðurinn í austurkvíslinni og með betri veiðistöðum á dalnum. Góður tökustaður er skammt neðan við brúna og annar u.þ.b. 30 metrum neðar á broti eða palli þar sem áin rennur yfir hrauntungu í botni. Þessi neðri tökustaður er beint út af veiðikofunum sem þarna standa og þjónað hafa veiðimönnum við Norðurá nokkur undanfarin ár. Síðan fellur áin í breiðu lygnu fljóti um eins kílómetra kafla þar til hún þrengist aftur og myndar Hraunbollana.
Brotið ofan við efsta Hraunbollann geymir oft lax en neðan við það brot fellur áin að hraunhólma í ánni. Ofan við hólmann og niður með honum að austan er sæmilegur veiðistaður en mjög viðkvæmur. Áin kemur síðan saman neðan við hólmann og fellur að öðrum hólma og skiptir sér um hann. Er veiðivon beggja megin við þennan hólma en þó betri að vestanverðu. Nú rennur áin í einni kvísl upp að háum hraunkambi og myndar þar ágætan veiðistað og besta Hraunbollann en varlega verður að fara og best er að standa í eynni við veiðarnar. Eftir þetta rennur austurkvíslin nokkurn spöl áður en hún sameinast vesturkvíslinni en ekki er kunnugt um neina afmarkaða veiðistaði á þessu svæði.
Nú förum við aftur upp fyrir brýr og lýsum vesturkvíslinni nánar. Á miðri Desey gengur stokkur út í vesturkvíslina frá norðri/austri. Beint fram af stokknum er veiðistaður sem heitir Stokkur og er lítið stundaður. Ekki er kunnungt um veiðistað aftur fyrr en kemur að brúnni sem venjulega er kölluð Glitstaðabrú vestri. Þetta er frábær veiðistaður og liggur lax frá því skammt ofan við brúna, niður allan strenginn, neðan við hana og niður á mikla breiðu þar sem strengnum sleppir. Besti tökustaðurinn er þó neðst í strengnum, rétt ofan við breiðuna. Nú rennur vestur- kvíslin í lygnri breiðu niður í fyrsta hylinn í Brekkuþrengslum, en svo heitir svæðið allt þar til kvíslarnar koma saman á ný.
Fyrsti hylurinn er undir litlum fossi eftir að áin hefur beygt svolítið til austurs fyrir ofan. Á brotinu ofan við fossinn stoppar oft lax en aðaltökustaðurinn er þar sem strengurinn skiptir sér í tvær kvíslar neðan við fossinn. Þetta er gjöfull staður og fallegur eins og öll Brekkuþrengslin eru þar sem áin brýst í gegnum hrauntunguna. Neðan við efsta bollann skiptir áin sér um hraunhólma og er foss í vestari kvíslinni sem er góður tökustaður og alveg við landið að vestanverðu er besti staðurinn, enda er þar gönguleiðin upp fossinn. Neðan við hólmann fellur áin upp að háum kletti á vesturbakkanum og undir honum er ágætur veiðistaður. Þar niður af fellur áin síðan að öðrum háum kletti að austanverðu og er þar enn góður veiðistaður.
Skammt hér fyrir neðan renna kvíslarnar saman og rennur Norðurá nú í einni kvísl það sem eftir er. Eftir að áin kemur saman rennur hún fljótlega um Kríuhólma. Rétt ofan við Kríuhólma er girðing á vesturbakkanum niður að ánni. Við girðingarendann og þar niður af getur legið fiskur en aðalveiðistaðurinn er neðan við Kríuhólmann. Nú rennur áin niður í Svartagilsstrengi sem eru fallegir flugustaðir. Liggur lax helst á brotunum að ofanverðu en einnig í neðsta strengnum. Nú beygir áin til vesturs í breiðu, lygnu fljóti og heitir þar Víðinesfljót. Þarna safnast gjarnan lax síðsumars en erfitt er að ná til hans úr landi og myndi veiði örugglega aukast í Víðinesfljóti ef bátur væri við fljótið.
Niður úr fljótinu þrengist áin aftur og fellur nú í Víðinesstreng sem eiginlega eru tveir strengir. Efstí efri strengnum er klapparsker og góður tökustaður beggja megin við skerið og á brotinu þar niður af og sundum ofan við skerið. Neðan við brotið fellur áin í hinn eiginlega Víðinesstreng sem er langur strengur og breiðir úr sér Í stóra lygnu með stórgrýti í botni. Þetta er mjög góður veiðistaður sem ævinlega geymir mikið af stórlaxi þegar líða tekur á sumarið. Best er að veiða Víðinesstreng frá austurlandinu vegna hás grasbakka við vesturlandið.

Glanna lýsum við ekki, enda bannað að veiða á fosssvæðinu öllu
Neðan við Víðinesstreng þrengist áin aftur og fellur nú í stríðum streng, Klettahólmastreng, framhjá fögrum klettahólma niður í Klettahólmshyl. Þar má eingöngu veiða efst í hylnum vegna þess að nú erum við stödd rétt ofan við Glanna, sem er fiskvegur, og veiði bönnuð 50 metra ofan við hann. Á þessu svæði er helst laxavon efst í Klettahólmastreng en þar er ágætur veiðistaður.
Niður úr Glanna rennur áin undir háu standbergi að vestanverðu og heitir þar Berghylur. Berghylsbrot er fyrsti löglegi veiðistaðurinn neðan Glanna. Þetta er viðkvæmur en mjög gjöfull veiðistaður. Stór steinn liggur í fjöruborðinu á austurbakkanum og liggjur gjarnan lax út af og rétt neðan við steininn en besti tökustaðurinn á Berghylsbroti er í fallandanum neðan við áðurnefndan stein. Góð regla fyrir veiðimenn er að fara ekki niður fyrir steininn þar eð laxinn sér veiðimanninn um leið og hann kemur niður fyrir steininn og þá er búið að fæla laxinn og engin veiðivon fyrr en kyrrð kemst á að nýju.
Niður úr Berghylsbroti rennur áin niður í Réttarhyl, sem er eins og Berghylur, langur hylur undir háu bergi að vestanverðu við ána. Oft er hægt að setja í lax efst í Réttarhyl þar sem fellur niður í hylinn úr Berghylsbroti. Þar svamlar laxinn gjarnan áður en hann gengur upp á Berghylsbrotið. Einnig er tökustaður í Réttarhyl u.þ.b. 20 metrum neðan við hávaðann fast við austurlandið þar sem strengurinn deyr út en aðaltökustaðurinn og einn besti veiðistaðurinn á milli fossa er Réttarhylsbrotið og er það þó sýnu betra að austanverðu þó einnig sé hægt að fá lax að vestanverðu.

Laxinn liggur mest fyrir miðju brotinu og alveg niður í austurræsið. Hér fer flugan frábærlega, enda er þetta með betri veiðistöðum í Norðurá. Varast skyldi þó að taka fluguna of fljótt upp við austurlandið því að laxinn liggur iðulega mjög nálægt landi þar og langt niður í ræsinu við landið. Aðalstrengurinn úr Réttarholtsbroti rennur þétt við austurlandið niður í Kýrgrófarhyl. Þar sem aðalstrengurinn kemur í Kýrgrófarhyl myndast öfugstreymi í ánni undir kletti við austurlandið. Í öfugstreyminu liggur oft lax sem auðvelt er að renna á maðki en sjaldan veiðist þó lax í sjálfum hylnum. Aftur á móti er Kýrgrófarhylsbrotið mjög fallegur veiðistaður og með betri veiðistöðum á milli fossa.
Eitt fallegasta veiðisvæði í heimi á milli fossa
Auk þess er allt þetta svæði mjög fallegt og frá náttúrunnar hendi. Fallegir hraunklettar og ilmandi birkilundir á vesturbakkanum gefa svæðinu öllu mjög sérstakan svip. Laxinn getur legið um allt brotið en veiðist meira að austanverðu þegar hátt eru í ánni. Venjulega liggur laxinn mest Í miðri ánni og getur verið mjög neðarlega á brotinu. Þetta er eins og Réttarhylsbrotið, alveg frábær fluguveiðistaður og ætti ekki að bera annað agn í ána á þessum stað.
Út úr Kýrgrófarhylsbroti fellur áin í stríðum streng niður í Grjótin sem er 200-300 metra langur veiðistaður. Frábær fluguveiðistaður og vel veiðanlegur frá báðum bökkum. Erfitt er að lýsa á prenti helstu tökustöðum í Grjótunum en þó má segja að efst þar sem straumnum frá Kýrgrófarhylsbroti sleppir og síðan þar sem grasbakkanum að
Margir hafa fengið rosaveiði í Grjótunum
Í Grjótunum þarf að veiða vel og láta helst fluguna fara ofan og neðan við hvern stein á þessum langa veiðistað og þar eru margir steinar. Margir hafa fengið rosaveiði þarna, enda voru þau einhver besti veiðistaður í ánni áður en Glannastiginn var byggður en hafa ekki sýnt sitt rétta andlit undanfarin ár, því miður. Vonandi verður hægt að fá laxinn til að stoppa meira á þessu svæði með breyttum seiðasleppingum. Niður úr Grjótunum fellur áin í stríðum hvítfyssandi streng niður í Veiðilækjarkvörn.
Lax liggur gjarnan í Veiðilækjarkvörn efst undir háa klettinum, sem slagar út í hylinn að austanverðu, en aðaltökustaðurinn er brotið út úr hylnum. Brotið er frábær fluguveiðistaður og vel veiðanlegt frá báðum bökkum. Þó finnst undirrituðum ólíkt betra og skemmtilegra að veiða Veiðilækjarkvörn frá vesturbakkanum, enda aðstaða tilfluguveiða ólíkt þægilegri frá þeim bakkanum. Laxinn tekur fluguna einkar skemmtilega á þessum stað þar sem flugan slæst yfir brotið á talsverðri ferð sökum straumlagsins.
Úr Veiðilækjarkvörn rennur áin í stríðum streng niður í Breiðuna sem raunar er frekar flói eða stöðuvatn. Mjög sjaldan veiðist lax á þessu svæði en þó er helst laxavon í strengnum sjálfum og þar sem honum sleppir. Bátur er staðsettur á eyrinni neðan við Veiðilækjarkvörn fyrir veiðimenn sem ætla að veiða á svæðinu frá austurlandinu. En varlega skyldi farið á bátnum yfir strenginn sem er talsvert stríður. Breiðan er lygnusvæði, nokkuð langt, sem ekki gefur veiði fyrr en um einum kílómetra neðar þegar áin Þrengist út úr Breiðunni og myndar Svuntuna sem er brotið ofan við Þrengslin.

Svuntan er ágætur fluguveiðistaður
Svuntan er lygnt brot sem er ágætur flugquveiðistaður en viðkvæmur. Í Svuntunnni má veiða frá báðum bökkum og getur laxinn legið mjög neðarlega á brotinu. Út úr Svuntunni, sem stundum er nefnd Lygnan, rennur áin í stríðum straumi niður í Dynjanda (Þrengsli) sem er um 300 metra langur veiðistaður í fallegu lágu gljúfri. Tökustaðir eru margir í Þrengslum en þeir helstu kannske þrír, þ.e. á fyrstu lygnu eftir að strengnum efst sleppir, síðan á brotinu ofan við Leggjarbrjót, sem er strengur með austurlandinu, neðarlega í Þrengslunum, og síðast en ekki síst Leggjarbrjóturinn sjálfur.
Besti staðurinn finnst mörgum þó brotið ofan við Leggjabrjót. Í Þrengslum er auðvelt að ná þeirri tilfinningu að vera einn í heiminum. Svæðið er nokkuð vel einangrað frá allri umferð og náttúrufegurð mikil. Þrengslin eru frábær síðsumarsveiðistaður eins og Ketilbrot, sem er neðsti staðurinn þar, þ.e.a.s. brotið áður en áin fellur ofan í Ketilinn sem er lygnan ofan við Laxfoss. Á Ketilbroti er veiðivon jafnt uppi á brotinu og niðri í strengnum út úr brotinu. Ketillinn er síðan langt dauðahaf sem endar á Fossvaði ofan við Laxfoss.
Oft safnast mikið af laxi á Fossvaðið seinni hluta sumars
Fossvað er aðallega síðsumarveiðistaður en oft safnast mikið af laxi þar fyrir síðari hluta sumars. Aðaltökustaðurinn er austan við miðja á, við stóran stein sem þar stendur upp úr ánni. Í miklu vatni liggur lax ekki síður við vesturbakkann en þar er fallegur strengur með landinu. Er nú lokið lýsingu á svæðinu frá Króksfossi að Laxfossi. Þetta svæði sýnir það vel að þarna má fá góða veiði.
Leiðsögnin um svæðið við Laxfoss byrjar á Fossvaðinu sem er brotið rétt fyrir ofan fossinn. Best er að veiða austanmegin frá og eru tökustaðirnir í straumröstunum tveimur næst landi. Þar eru smágjár og steinar og getur laxinn legið þar alls staðar alveg niðri á lygnu. Ekki má veiða fyrr en 30m fyrir ofan stigann. Þetta er ótrúlega lúmskur veiðistaður og reyna hann alltof fáir.

Svæðið fyrir neðan fossa
Næst snúum við okkur að svæðinu fyrir neðan fossinn. Þar eru fjölmargir veiðistaðir en fyrst skal byrjað á Drottningunni. Þar er langoftast veitt rangsælis, þ.e. í straumröstinni sem myndast þegar vatnið skellur á berginu og rennur næst landi. Best er að klifra niður og veiða úr skútanum. Þessi veiðistaður er bestur í miklu vatni og gildi hans minnkar eftir því sem vatnsborðið lækkar. Gott er að kasta út þar sem áin fellur hvítfyssandi og láta agnið falla í strauminn. Best er að byrja frekar aftarlega og fikra sig nær fossinum.
Klingeberg er veiðistaður húsmegin við klettinn sem er vinstra megin í fossinum þegar horft er upp eftir ánni. Þessi staður er ekki veiðanlegur nema í tiltölulega eðlilegu vatni. Þá þarf að vaða yfir Konungsstreng efst og svo upp með Krossholunni og upp að klettinum. Varast þarf að vaða of nærri veiðistaðnum því að fiskurinn liggur neðst í raufinni.
Í Nikulásarkeri má ekki veiða
Krossholan liggur beint niður af Nikulásarkeri sem er fyrir neðan laxastigann. Í Nikulásarkeri má ekki veiða. Krossholan er svona 56 metra löng og er erfitt að skilja af hverju hún dregur nafn. Flestir kalla alla rásina, sem beygir niður að Gaflhyl, þessu nafni. Þarna er stundum þónokkuð af fiski og verður að fara mjög varlega að honum. Þegar hreyfing kemur á fiskinn fer hann upp í Krossholuna og er þá oft gott að vera á staðnum.
Konungsstrengur er vestan megin í ánni. Hann rennur úr Drottningunni. Í honum er oft mikið af fiski í eðlilegu vatni og getur hann legið um allan strenginn, þó oftast nokkuð ofarlega og síðan neðst í djúpinu út af efra Skerinu. Best er að byrja ofarlega og veiða niður eftir. Skerin nefnast veiðistaðirnir sem eru út af samnefndum tveimur Skerjum fyrir neðan Laxfoss. Í miklu vatni veiðist milli Skerja og lands og þá oft mjög nálægt landi. Í eðlilegu vatni veiðist út af Skerjunum, þ.e.a.s. í bárunum út af neðri parti efra Skersins og í bárunum og strengnum sem myndast niður frá neðra Skerinu.

Það tekur áraraðir að læra á Brotið
Það tekur áraraðir að kanna Brotið. Þar getur laxinn verið á mörgum stöðum og er best að þreifa sig áfram eftir að Skerjunum sleppir og niður á blábrotið. Einnig er gott að skyggna Brotið af klettinum ofan við það til að gera sér grein fyrir hvar laxinn liggur. Það eru grænar skellur í botninum og laxinn liggur oft á þeim eða í kantinum á þeim. Varast ber að vaða út á klöppina, sem gengur út Í ána rétt fyrir ofan Brotið, húsmegin, því laxinn getur legið alveg út af endanum á henni. Botninn þarna er auðveldur yfirferðar með mosavöxnum klöppum sem eru frekar sléttar.
Í Gaflhyl er veitt austanmegin frá. Hann er alveg upp við klöppina þar sem dýpið byrjar. Best er að vaða út frá klettinum fyrir ofan Eyrina út á klappirnar og renna í straumkantinn Eyrarmegin. Fiskurinn liggur alveg efst ef hann er þarna. Þarna þarf að koma agninu djúpt að. Varast skal miklar festur. Fyrir ofan Gaflhylinn undir fossinum hefur myndast djúpur bolli í berginu og í vatnavöxtum getur farið þangað töluvert af laxi. Þarna veiðist einstaka sinnum lax en vegna óvarfærni er hann oftar styggður upp. Ráðlegast er, þegar farið er til veiða undir fossinum, í Krossholuna og Gaflhyl, að byrja á þessum stað, taka síðan Gaflhylinn og síðast Krossholuna.
Á Eyrinni er einnig veitt austanmegin frá. Hún er einhver þekktasti veiðistaðurinn í ánni. Best er að byrja ofarlega eða um það bil þar sem straumurinn hættir að mynda hringiður. Varast ber að vaða of langt út í þarna því að laxinn liggur oft mjög nálægt landi þar sem Eyrin nær lengst út í ána. Tökustaðirnir eru í dýpinu efst, rétt út af Eyraroddanum og alveg niður á blábrot. Reynið að taka eftir báru sem myndast skáhallt niður af Eyraroddanum. Þar er góður tökustaður.
Prófessorsstrengur er líka austan megin og myndast með landi þar sem áin rennur út af Eyrinni. Þessi staður breytist með ári hverju eftir framburði árinnar. Best er að reyna fyrir sér niður strenginn en fara varlega. Næst fyrir neðan svæðið undir Laxfossi tekur við Almenningur en hann ákvarðast af stórum steinum úti í ánni, flestum við austurlandið en líka úti í ánni miðri og stöku steinn er allt út undir vesturlandið. Við þessa steina er ávallt lax í göngu og getur verið fram eftir sumri og ef veiða á á þessu svæði er nauðsynlegt að vaða þarna mikið og reyna allt svæðið, fet fyrir fet. Jafnt uppundir landi sem úti í miðri á og þetta gildir frá báðum bökkum.
Ef við höldum síðan áfram frá þessum steinaklasa, sem er á Almenningnum, þá er ca. 30-50 metrum neðar stór steinn úti í miðri á. Hann er gjarnan upp úr, Þegar fer að minnka í ánni en í vorvatni og fram eftir sumri, þegar vatnsyfirborðið er yfirleitt hærra en í meðallagi, er þessi steinn á kafi. Við hann liggur gjarnan töluvert af laxi og það sem meira er, þarna eru oft stórir laxar. Þeir geta legið þarna allt sumarið, alveg fram á haust. Þeir stóru veiðast oft síðustu dagana í ágúst þegar verið er að loka Norðuránni.
Á ferð okkar niður ána er best að taka næst vesturbakkann. Þvert af þessum steini, sem var áður nefndur í miðri ánni, kemur grænn grasbakki fram í hana en neðan við hann tekur við klapparruðningur. Fram af þessum klapparruðningi byrja Bryggjur. Þær hafa verið tölusettar sem þrjár en virka sem miklu meiri klapparklasi. Þó getum við nú kannski sagt að þeir þrír klapparrindar sem Bryggjurnar eru taldar eftir skagi mest út í ána. En fram af þessum Bryggjum, jafnvel úti í miðri á, getur legið töluvert af laxi og þetta svæði verður maður að veiða alveg frá efstu Bryggju og niður á þá neðstu, sem ákvarðast af klapparhorni, sem skagar fram í ána og síðan klapparrinda fram af því og er það kölluð neðsta Bryggja. Fram af neðstu Bryggjunni liggur gjarnan töluvert af laxi og hann getur legið þar fram eftir öllu sumri. Það er nokkuð djúpt við endann á þessari Bryggju og er oft vænn lax þar. En þegar við tölum um að veiða Bryggjurnar skal það gert eiginlega samfellt frá efstu að neðstu, eins og áður sagði. Fólk skyldi vara sig á því að þegar líður fram á sumarið eru klappirnar, sem vaðið er á þarna, orðnar flughálar og talið æskilegt að menn séu á filtsólum eða noti vaðstaf sér til stuðnings.

Oft getur leynst lax í Engjalæknum
Fyrir neðan Bryggjurnar er Engjalækurinn en hann dregur nafn af lítilli lækjarsitru sem kemur ofan hlíðina. Í læknum er töluverð mýrarrauða og eru því steinarnir þar sem hann rennur fram rauðari en aðrir í umhverfinu. Ofan við þessa lækjarsitru kemur grasbakki fram að ánni og skáhalt upp af læknum er ljósgrænn flekkur í botninum á ánni. Í kringum þennan flekk liggur oft á tíðum töluvert mikið af laxi ef gott vatn er í ánni. Hann getur verið þarna, bæði ofan og neðan við flekkinn og svo fram með honum báðum megin. Þetta svæði þarf að veiða mjög vel en síðan tekur við brot þar fyrir framan og er laxinn sjaldan neðan við það brot þó menn hitti einstaka sinnum á að fá fisk þar.
Ef farið er yfir á austurbakkann er venjulega byrjað að veiða á móti efstu Bryggju. Þar er Kaupamannapollur. Hann er hægt að merkja á tveimur grastám sem skaga fram í ána. Á milli þessara táa í vikinu er Kaupamannapollur. Út frá efri tánni liggur malarruðningur skáhallt fram og utan í þessum ruðningi liggur laxinn gjarnan, bæði austan og vestan megin. Þetta er það svæði þar sem veitt er þegar talað er um að veiða í Kaupamannapolli. Í Kaupamannapollinum sjálfum er lítið veitt. Þar er töluvert mikið dýpi. Aftur á móti er veitt þar sem rennur fram úr pollinum. Þar rennur áin fram á milli nokkurra steina sem standa upp úr eða brýtur á eftir vatnshæð. Þarna á þessu broti er oft lax og er þetta mjög skemmtilegt svæði til fluguveiða. Þar fyrir neðan tekur við sléttur grasbakki niður eftir ánni og í miklu vatni liggur oft lax meðfram þessum bakka og niður úr. Rétt er fyrir veiðimenn, sem veiða frá austurlandinu að veiða á þessum kafla öllum, alveg niður að Tvíburum.
Tvíburarnir standa úti í miðri ánni, þó heldur meira til austurlandsins. Þetta eru tveir stórir steinar sem standa mismikið upp úr vatni eftir vatnshæð. Ofan við þessa steina eru rásir sem erfitt getur verið að merkja en menn verða oft varir við þegar þeir vaða yfir ána. Þarna er ágætt vað þegar fer að minnka í ánni. Í þessum rásum liggur oft lax fram eftir sumri og í göngu. Þetta er sérstaklega góður staður í göngu og veiðist oft feiknavel upp af Tvíburunum. Því miður reyna margir veiðimenn ekki þetta svæði.
Oft laxar við Einbúa
Ef haldið er frá Tvíburunum er fyrir neðan okkur niður undir Myrkhyl stórt bjarg úti í ánni sem sumir kalla Einbúa en heitir Bjarnarklettur. Við þennan stein liggur oft lax, sérstaklega austanvert við hann, þó hann geti verið beggja vegna og ofan við hann. Þarna er aðeins um stað fyrir göngufisk að ræða en það er samt vel þess virði að kasta maðki þarna á. Óhætt er að segja að þetta sé ekki flugustaður. Þessi stóri klettur úti í ánni skiptir henni í tvo strengi þar sem hún fellur ofan í Myrkhylinn. Í þessum strengjum liggur oft töluvert af laxi og fyrir þá sem eru góðir maðkamenn er upplagt að renna þarna. Ef við köllum þennan stað efri Myrkhyl getum við sagt að neðri Myrkhylur sé þar sem áin beygir aðeins til austurs og grynnkar og rennur í djúpum klapparrásum. Í rásunum er oft töluvert af fiski og liggur þarna oft stór fiskur fram eftir öllu sumri. Oft er hægt að sjá hann þar sem hann liggur í rásunum og er þá betur hægt að fylgjast með viðbrögðum hans gagnvart agninu. Á þessum stað er hægt að veiða beggja vegna frá. Margir og að því er virðist flestir vilja veiða frá austurlandinu en það er auðvitað einstaklingsbundið.
Neðan við þessar rásir tekur við flöt klöpp í botninum við austurlandið. Á þessari klöpp liggur oft fiskur og stundum mikið af honum. Er ráðlegt að kasta agni yfir þetta svæði áður en sagt er skilið við Myrkhylinn.
Áin hefur ýmsa leyndardóma að geyma
Norðurá er ein af þeim ám sem þekkja þarf í mörgum mismunandi vatnshæðum vegna þess hversu fljótt vatnavextir hafa áhrif á hana og einnig vegna þess hversu fljótt vatnsborðið er að jafna sig eftir flóð. Í Myrkhylsrennunum er stundum veitt alveg upp undir bakka þegar mjög mikið vatn er Í ánni og þá jafnvel alveg við grasbakkann, langt fyrir ofan bryggjurnar sem myndast ofarlega í Rennunum. Þegar vatnið fer að minnka fer laxinn að fara á eðlilega staði. Þá er hann í miðri ánni þar sem steinar (bryggjur) eru beggja vegna og renna myndast í miðjunni. Hann getur legið frá því efst í rennunni og niður eftir henni. Síðan, ef vatnið minnkar enn meira, fer laxinn alveg niður á blábrotið. Hann getur líka verið uppi á breiðunni á lygnunni sem myndast neðst í Myrkhylnum áður en áin fellur fram af brotinu. Þar má reikna með laxi á nokkuð breiðu svæði.
Næst er komið að Laugarkvörninni. Þar getur laxinn verið á mjög stóru svæði, aðallega laugarmegin við ána, bæði ofarlega og neðarlega og þarf það ekki endilega að vera bundið vatnshæð. Veiðin húsmegin er ekki eins mikil og veiðist þar aðallega á vorin. Þeim megin er tekið mið af stórum steini úti í miðri ánni, frekar ofarlega í kvörninni, og í miklu vatni er oft lax niður af honum. Þá þarf að vaða nokkuð vel út. Í enn meira vatni getur laxinn verið alveg uppundir landi húsmegin og þá eiginlega alveg neðst á brotinu. Þar myndast hálfgert ker og þar liggur hann í miklu vatni. Laugarmegin má oft fá góða veiði alveg efst, bara rétt fyrir neðan Myrkhylsrennurnar. Þetta er í raun millistaður milli Myrkhylsrenna og Laugakvarnar. Þá þarf að fara alveg upp á klappirnar fyrir neðan Rennurnar og renna í svelginn sem myndast þar.
En snúum okkur að Laugakvörninni. Í venjulegu vatni liggur laxinn rétt fyrir ofan hverinn. Þar í botninum er stór steinn og laxinn liggur út af honum. Og í minna vatni er hann alveg niðri í rennunni sem myndast þegar áin fellur fram af brotinu. Stundum kemur fyrir að lax veiðist á milli Laugakvarnar og kláfsins húsmegin í mjög miklu vatni í vorveiði en það er frekar sjaldgætt.

Stokkhylsbrotið gefur flesta laxa
Næsti veiðistaður er Stokkhylsbrotið sjálft en samkvæmt skýrslum gefur þessi veiðistaður flesta laxa úr ánni. Þarna ráðast veiðistaðir eftir vatnshæð eins og annars staðar í ánni. Í miklu vatni er fiskurinn á breiðunni frekar ofarlega og hægt að veiða hann af báðum bökkum árinnar. Þegar vatnið minnkar liggur laxinn gjarnan við grænu skellurnar sem eru rétt neðan við eyrina sem vaðið er út á á miðju brotinu. Í enn minna vatni liggur laxinn í straumkantinum niður af steinunum sem eru úti á brotinu, þó nær bakkanum húsmegin og niður í ljósu skellurnar í botninum sem eru dálítið fyrir neðan brotið. Þá er bara að vaða út og renna í 'ann eða kasta fyrir hann. Í miklu vatni myndast rangsæli húsmegin ofarlega á breiðunni og eru dæmi þess að lax veiðist þar. Einnig er laxinn þá alveg upp við grasbakkann hinum megin í hylnum og ekki má gleyma að hann getur verið úti á miðri breiðunni í miklu vatni. Þar er oft hægt að veiða vel í júní. Þegar líður fram á sumarið er laxinn á hefðbundnu stöðunum en getur jafnframt í mjög litlu vatni legið neðst á neðra brotinu húsmegin.
Klettakvörn er strax fyrir neðan Stokkhylsbrotið húsmegin. Þarna er ekki oft rennt því að oftast nær þegar búið er að afgreiða Stokkhylsbrotið er farið beint niður á Hvararhylsbrot. Á svæðið þarna á milli er kastað svona meira til málamynda til að gera skyldu sína og reyna en sárasjaldan fæst fiskur. Næsti veiðistaður þarna fyrir neðan er Hvararhylur. Einstaka sinnum veiðist fiskur í honum húsmegin. Sumir veiða hann af klapparbryggjunni sem gengur þarna út í ána. Í miklu vatni veiðist stundum fiskur fyrir ofan þessa klettabryggju við grasbakkann sem þar er en það er þá aðallega á vorin.
Ef við tökum svo ána á bakkanum hinum megin er fyrsti veiðistaður Árhverinn þegar gengið er niður frá Stokkhylsbrotinu. Þar veiðist helst lax í göngu á vorin. Þá reynist best að renna rétt fyrir ofan þar sem hverinn fellur út í og þar liggur laxinn. Einnig er oft hægt að fá góða veiði á Árhversbrotinu sjálfu á vorin. Hvararhylinn er líka hægt að veiða frá þessum bakka. Það þarf að brölta yfir mikið stórgrýti til að komast þarna út og þá er best að kasta á strenginn sem myndast fyrir neðan klapparbryggjuna og síðan alveg niður í hylinn. Þarna veiðist ekki oft en margir segja að þarna liggi stærstu laxarnir í ánni.
Hvararhylsbrotið er skemmtilegur veiðistaður
Næsti veiðistaður er Hvararhylsbrotið þar sem hægt er að veiða beggja vegna frá. Þetta er afar skemmtilegur staður. Í miklu vatni er laxinn ofarlega á breiðunni beggja vegna en í venjulegu vatni er hann fyrir ofan og Í kringum steinana sem brýtur á úti á brotinu húsmegin og áfram niður straumkantinn sem myndast þarna. Best er að kasta þetta eða renna vel niður því að hann getur verið nálægt landi þarna upp við grasbakkann í lítilli hvilft sem myndast út frá tré á bakkanum. Hinum megin myndar straumurinn vaff og í báðum köntunum á þessu vaffi þar sem eru steinar á víð og dreif og alveg niður á blábrotið er hægt að fá lax. Hann liggur þarna mikið með landinu. Vatnshæðin ræður því gersamlega þarna eins og annars staðar hvar laxinn liggur.

Húsmegin myndast stundum veiðistaðir í ákveðnu vatni neðst á brotinu þar sem hávaðinn byrjar. Það þarf að vaða þarna dálítið útí og helst tveir menn saman út af straumnum. Þessum stað er erfitt að lýsa en þarna myndast bollar sem laxinn getur verið í. Í Hræsvelgnum er sjaldnast veitt húsmegin en stundum er laxinn svona til hliðar við hann með landinu í miklu vatni. En hinum megin er best að byrja að veiða á horninu á beygjunni sem verður á ánni fyrir neðan Hvararhylsbrotið. Þarna eru nokkrir pyttir með landinu sem gefa fisk í göngu og er sjálfsagt að veiða áfram niður strenginn með landinu. Ef mikið vatn er og ekki hægt að komast út í Hræsvelginn sjálfan er laxinn venjulegast á breiðunni út af honum nær landinu. Margir gera sér ekki grein fyrir hvar hinn eiginlegi Hræsvelgur er. Helsta kennileitið sem hægt er að fara eftir er að svelgurinn er fyrir neðan þann stað þar sem grasið vex alveg niður í vatnsborð í berginu á móti. Þarna er oft erfitt að vaða út og best ef tveir menn eru saman. Við klöppina myndast hyldýpi og þar í kantinum liggur laxinn.
Aðeins fyrir ofan þennan stað myndast rennur í klapparraufarnar og þar er oft hægt að taka lax í göngu. Þess vegna er um að gera að byrja frekar ofarlega. Fyrir neðan Hræsvelg húsmegin eru nokkrir pyttir niður undir veiðimörk við Stekk þar sem oft er hægt að fá lax. Stekkjarstrengurinn sjálfur, sem er á veiðimörkunum, er mjög merkilegur staður. Það myndast hvilft upp við landið fyrir laxinn og síðan úti Í strengnum ef vaðið er vel út. Við stóra steina sem þar eru er mjög gott að renna og þessi staður gefur oft fisk. Þetta er alveg ekta maðkastaður.
Hnúífill er neðsti veiðistaðurinn austan megin við ána. Hann er við stóra steininn sem gnæfir þarna upp úr ánni. Þar var stundum veitt á árum áður en ekki fara miklar sögur af veiði þar á síðari árum. Norðurá hefur verið talin fegurst áa og er Stekkurinn þar engin undantekning, þar er undurfagurt og margir gjöfulirveiðistaðir. Efsti veiðistaðurinn þar er Hornbreiðan. Hún er ekki merkt á Norðurárkortinu en er aftur á móti merkt við ána. Þarna skagar lítið klettanef út í ána og niður af því, svona 20 metra, eru steinar í ánni nálægt landi. Þarna veiðist fyrst og fremst í góðu vorvatni því að eftir að komið er eðlilegt sumarvatn í ána er þarna of grunnt til að lax doki eitthvað við á göngu sinni upp hana. Aðaltökustaðurinn er oft beint út af skiltinu. Best er að vaða dálítið út í ofan við tvo steina, annar þeirra er mjög hyrndur, og kasta á sléttan flöt er myndast fyrir utan og neðan þessa steina.
Frá Hornbreiðunni að Stekkjarfljóti er víða hægt að renna en yfirleitt er þar um lax í göngu að ræða. Stekkjarfljótið gefur alltaf eitthvað af laxi Stekkjarfljótið er skemmtilegur veiðistaður sem gefur alltaf eitthvað af laxi, misjafnt eftir árum. Á vorin og snemmsumars þegar mikið vatn er í ánni er veiðin helst upp við stóru steinana, hlémegin við strauminn. Það er ekki fyrr en vatnið fer að minnka í ánni að aðaltökustaðirnir komast í gagnið en þá er líka um að gera að vaða yfir ána á þessum stað. Lax getur legið mjög víða í grjótinu þarna neðst í hávaðanum en þó mest í kringum stóran stein sem brýtur á neðarlega í strengnum sem stefnir út á Hornhyl. Það má ekki vera djúpt á þennan stein til þess að þarna sé gott að veiða.
Annar afmarkaður strengur, mun minni, er við austurlandið en hann gefur líka oft lax. Neðan við Stekkjarfljótið beygir áin til vesturs. Í beygjunni er Hornhylurinn. Ekki er vitað til að í honum hafi veiðst nokkuð að ráði. Eftir að beygjunni sleppir grynnkar Hornhylurinn og áin þrengist aðeins og fellur að lokum fram af lágum stalli. Ofan við þessa flúð er Breiðan (sem sumir kalla Spegilinn), afar fallegur og gjöfull veiðistaður. Aðaltökustaðirnir eru neðst á Breiðunni rétt ofan við flúðina. Þar liggur laxinn í rennu í klapparbotninum. Í litlu vatni liggur hann alveg fram á blábrún en ofar í miklu vatni.
Neðan við flúðina er Þrepið, lítill veiðistaður austan megin árinnar þar sem gott er að renna fyrir göngulax. Vestan megin fyrir neðan flúðina sveigir hluti af strengnum að landinu og myndar öfugstreymi og heitir þar Lækjarhylur. Þar er gott að veiða í miklu vatni.

Skeifan getur verið alger paradís við rétt skilyrði
Nú beygir áin aftur til suðurs og síðan suðausturs. Nánast öll sú beygja er kölluð Skeifan og byrjar tökusvæðið á móts við vatnsmælinn. Best er að veiða frá austurlandinu en það vel hægt frá vesturlandinu. Veiðisvæðið er alveg niður að þeim stað þar sem áin rennur fram af stalli niður í Kálfhyl. Skeifan gefur ekki lax nema í eðlilegu sumarvatni en þegar skilyrðin eru rétt getur þetta verið alger paradís. Eins og áður segir rennur áin fram af smástalli og myndar enn eina flúð. Neðan við þessa flúð opnast stór og mikill hylur sem heitir Kálfhylur. Í honum liggur lax allt sumarið og hann er jafnframt talinn stórlaxastaður þó ekki hafi fengist úr honum neinir boltar síðustu árin. Í efri hluta Kálfhyls má veiða báðum megin frá en þó er betra að vera austan megin því að erfitt er að fóta sig Í missprunginni klöppinni að vestanverðu. Í neðri hlutanum er tvímælalaust betra að veiða frá austurlandinu því að miklu hægara er að ná góðum köstum þeim megin frá. Laxinn liggur í strengnum frá flúðinni alveg þangað til hann deyr út og jafnvel á nánast dauðu vatni niður undir berghamrinum.
Næst beygir áin til suðvesturs og þar fyrir neðan er Kálfhylsbrotið. Þetta er stór breiða sem lætur ekki mikið yfir sér. Á Kálfhylsbrotinu er yfirleitt veitt frá vesturlandinu. Á vorin í miklu vatni getur lax verið alveg í harða landi og þá er best að vera ekkert að vaða útí. Þessi veiðistaður er þó bestur þegar kemur fram í ágúst og þá þarf að vaða dálítið út í ána til þess að geta lagt agnið alveg fast við hinn bakkann. Laxinn liggur aðallega frá rúmlega miðri ánni og fast að bakkanum. Frá Kálfhylsbroti og niður að Munaðarnessvæðinu eru ekki neinir sérstakir veiðistaðir en sjálfsagt að reyna ef menn verða varir við lax.
Munaðarnessvæðið gott snemma sumars
Munaðarnessvæðið er afar skemmtilegt meðan laxinn er í göngu. Efst á svæðinu er strengd vatnsleiðsla þvert yfir ána og hefur veiðistaðurinn undir og neðan við hana dregið nafn sitt af leiðslunni og verið kallaður Vatnslína. Þarna liggur lax nokkuð víða þó að nokkrir blettir skeri sig úr, eins og t.d. rétt við vesturbakkann, aðeins neðan við vatnsleiðsluna, úti á miðjunni, nánast beint undir leiðslunni, og í álnum við austurlandið. Síðan liggur lax niður með öllum klettinum að austanverðu, þó sérstaklega í kringum steininn sem er úti í ánni beint út af háklettinum.
Ef haldið er niður með ánni kvíslast hún um stóra eyri. Ofan við þessa eyri liggur lax með báðum löndum, sérstaklega í miklu og skoluðu vatni. Ef áin er vatnslítil á göngutíma má fá góða veiði í vesturkvíslinni en í henni eru þrír góðir tökustaðir og er best að veiða af eyrinni. Sá efsti er jafnframt sá stærsti og besti en hann er undir klettahorninu þar sem kvíslin skellur á Hábrekkunum. Þar myndast dálítill hylur og strengur ofan í hann. Næsti veiðistaður er spölkorn neðar þar sem er dálítið brot í kvíslinni og straumurinn harðnar. Laxinn liggur útundir vesturbakkanum í smáál sem þar myndast. Neðsti og sísti veiðistaðurinn í kvíslinni er í beygjunni spölkorn ofan við þar sem kvíslarnar sameinast á nýjan leik.
Fleiri ættu að kanna Flóðatangasvæðið
Flóðatangaveiðarnar hafa verið stundaðar í mörg ár og kannski ekki bara með stöng heldur neti. Aðalveiðistaðurinn á þessu svæði er Kastalahylurinn sem er rétt fyrir neðan Stafholt. Þarna var áður fyrr dregið á á haustin og veiddist oft mikil af laxi í þessum veiðistað. Við gömlu brúna á Norðurá er þokkalegur veiðistaður, rétt fyrir ofan þá nýju. En veiði er á víð og dreif á svæðinu. Bleikja og sjóbirtingur veiðist þarna oft á þessu svæði. Bleikjuveiði í gegnum ís hefur verið þónokkur þarna á svæðinu í desember, janúar og febrúar. Má oft sjá veiðimenn liggja þarna yfir vök og bíða eftir að bleikjan taki agnið.
„Ég hef oft veitt á þessu Flóðatangasvæði og fengið stundum góða veiði en þetta er mjög dagaskipt,“ sagði veiðimaður sem nokkrum sinnum hefur veitt þarna og lætur vel af svæðinu. Þarna er góð silungsveiði og alltaf von á laxi, sérstaklega í júní og júlí.