Miðfjarðará

Miðfjarðará
Eftir Guðjón Guðmundsson í fylgd Eyþórs Sigmundssonar
Myndir: Ragnar Axelsson og Árni Sæberg
Nú er komið að því að ljúka yfirreið um hið viðfeðma vatnakerfi sem kennt er við meginslagæðina Miðfjarðará. Áður hefur verið sagt frá Austurá neðan Kambsfoss, Vesturá og Núpsá. Eftir er Miðfjarðará sjálf, Austurá neðan ármóta Núpsár og Austurá ofan Kambsfoss. Fylgdarmaður okkar er Eyþór Sigmundsson, sá hinn sami og leiddi okkur í allan sannleika um Núpsá. Austurá lýkur ekki skeiði sínu við Núpsármótin. Áin heitir Austurá allt þar tilað Vesturá rennur til hennar skammt neðan Laxahvamms. Við byrjum rétt neðan Núpsármóta en svæðið þaðan og niður að Vesturármótum var ekki sérstaklega gjöfult á síðasta sumri. Eyþór segir þó að á svæðinu séu mjög góðir veiðistaðir og sumir þeirra leyni verulega á sér. „Þetta er svæði sem gefur mönnum stundum eina laxinn í fiskleysi. Vegna þess hve það hefur verið dauft í seinni tíð þá er það að sama skapi æ minna stundað og þarna á milli er samasemmerki. Þegar ekki hefur verið farið á svæðið svo að einhverjum dögum skiptir verður það eitrað því þarna er lax undir og aldrei er betra að egna fyrir hann heldur en þegar búið er að hvíla svæði vel,“ segir kokkurinn.
Fyrstu staðirnir fyrir neðan ármótin eru Speni, Spenastrengur og Klettapollur. Þetta eru oft mjög góðir veiðistaðir og þeir geyma lax. „Einu sinni hafði ég verið í ánni í þrjá daga og veitt mjög vel. Hermann Jónsson úrsmiður kom svo einn á stöng í næsta holli og spurði mig hvort ég hefði tök á því að vera áfram og deila með sér leyfinu. Það stóð vel á þannig að ég sló til og fiskaði með Hermanni. Við veiddum mjög vel og alveg sérstaklega í Spenastreng. Þar var óhemja af laxi og ég man ekki hvað við drógum þar marga en það var hrúga,“ segir Eyþór.

Það er ekki langt í næsta veiðistað sem er mjög þekktur á svæðinu, Landamerkjafljót heitir hann. „Staðurinn hefur ekki nýst sem skyldi hin seinni ár en er alveg dæmigerður fyrir svæðið að því leyti að það er ótrúlega oft hægt að koma þarna og bjarga túrnum í fiskleysi. Á þessum slóðum eru fleiri veiðistaðir eins og sjá má á kortinu, Eyrarhylur, Steinbjarnarvað og Kvarneyrarhylur eru þar markverðastir. Þarna er alls staðar veiðivon og það er einkum þegar fiskur er að ganga eftir miðjan júlí að hann fer að veiðast þarna.
Næst kemur klasi veiðistaða niður undir veiðihúsinu Laxahvammi og þar niður með. Á þessu svæði, sem nær niður undir ármót Vesturár, eru ekki nafntogaðir veiðistaðir og sannast sagna er svæðið lítið stundað þar af leiðandi. Það gildir í Miðfjarðará eins og annars staðar að það er rík tilhneiging veiðimanna til að standa yfir tiltölulega fáum hyljum þar sem fiskur sýnir sig mikið og berja þá sundur og saman heilu sumrin. Eyþór segir okkur hins vegar að hann viti fátt skemmtilegra en að fá einhvern veiðifélagann til að aka sér þarna eitthvað upp með og síðan rölti hann niður með á og reyni hvarvetna. Á einni vakt geti hann veitt sig niður fyrir Brekkulækjarstrengi og jafnvel niður í Grjóthyl en við komum að þeim stöðum seinna. „Það verður að fara varlega að þessum stöðum, ekki að aka fram á bakka á þessum stóru jeppum, laxinn er næmari á titringinn heldur en margan grunar. Með því að fara nógu hægt og rólega gengur dæmið oftast upp.
Á svæðinu niður að Vesturármótum eru nefndir nokkrir staðir, eins og Bæjarpollar, Hólmapollar, Grundarásbreiða, Kýrhólsstrengir, Eyrarpollur, Bugða, Réttarpollur, Réttarstrengir og fleiri. Eyþór minnist Bugðu með bros á vör, þar hefur hann oft fengið „ágætisveiði“ og hann minnist veiðifélaga sem dró þar sex laxa í beit er flestir fengu lítið annars staðar og voru heldur vonlitlir og rislágir í vaktarlok.
„Réttarpollur og Réttarstrengur eru frægir veiðistaðir þótt þeir hafi verið slakir hin seinni ár. Sumir veiðimenn hafa haft það í sér að geta gengið að þessum stöðum og fengið í þeim veiði þótt slíkt hafi ekki verið öllum gefið. Má nefna að sögn Eyþórs þá Hauk heitinn Óskarsson rakara og Hauk Jacobsen. Sá fyrrnefndi var fjölhæfur veiðikappi sem gat veitt um alla á en sá síðarnefndi veiddi helst ekki nema í þessum stöðum og átti það til að fá þrjá til sex laxa á vakt er hann átti þetta svæði á annað borð. Þetta lék hann aftur og aftur og engu breytti þótt vatn væri lítið og veiði í hollinu almennt lítil og léleg. Oft er Vesturárósinn hinn ágætasti veiðistaður og er stundum að gefa lax allt sumarið en þess á milli einkum framan af veiðitíma. Stundum er þó staðurinn lélegur og fer nokkuð eftir rennsli árinnar en frá og með þessu svæði má segja að Miðfjarðaráin eigi það til að breyta sér mikið.
Já, hér eftir heitir áin Miðfjarðará. Í ósnum er talað um Hornið og Austurós en Eyþór lýsir staðnum þannig að lax geti farið að taka alveg frá horninu fyrir ofan vatnamótin, þar er djúp rás sem lax fer stundum ofan í. Síðan getur fiskur tekið fljótið á enda. Næstu veiðistaðir í Miðfjarðará eru ef til vill þeir nafntoguðustu, sjálfir Brekkulækjarstrengirnir, sem teljast vera þrír talsins. Fyrir um áratug voru strengirnir mun nær bænum að Brekkulæk en áin var farin að höggva svo stór skörð í landið að rennsli hennar var breytt. Fellur hún nú niður eyrarnar en nokkrir grasbakkar á þeim slóðum tryggja að laxinn eigi þarna kjörstaði. „Það rokveiddist þarna í gamla daga og ég man eftir því að hafa tekið tvo grálúsuga fiska á stuttri kvöldstund þarna eitt sumarið, átján og nítján punda hæng og hrygnu. Ég stóð bara á grasbakkanum og horfði á þá skríða inn í hylinn, fyrst annan, svo hinn. Það var ekkert annað en að renna fyrir þá og þeir tóku báðir fljótt.
Eins og Brekkulækjarstrengirnir eru nú er miðstrengurinn þeirra langsamlega fengsælastur en menn vita að slíkt getur verið fljótt að breytast þar sem áin er síbreytileg. Við byrjum efst. „Einn veiðifélaga minna, hann Walter Lentz, er alveg einstaklega laginn að ná laxi úr efsta strengnum og það eru oft boltafiskar sem þar nást. Hann sakkar þungt efst í strengnum, laumast á grasbakkanum og rennir með honum niður fyrir sig. Þetta hefur furðu oft gefið honum fisk. Miðstrengurinn er þarna skammt fyrir neðan og mikil paradís fluguveiðimannsins. Hann er bókstaflega nákvæmlega eins og fluguveiðistaðir eiga að vera. Oft tekur nýrunninn fiskur efst Í strengnum, fiskur sem hafði ætlað sér einhverja hreyfingu þó svo að hann ætlaði sér ekki beinlínis upp á bakkann. Síðan er veiðivon um það bil frá miðjum bakka og langt niður á breiðu. Þegar einna neðst er komið, um það bil er malarbotn þrýtur og leirkenndur botn tekur við, má auk þess alltaf búast við því að sjóbleikjutorfa taki við af laxinum. Það er væn bleikja, rétt eins og laxinn. Það eru engir stubbar sem eru að velta sér á breiðunni.
Sumir hafa gaman af að sjá hvort bleikja er undir í miðstrengnum. Þegar menn eru komnir á slóðir hennar og finna fyrir töku gerist það oft með þeim hætti að það er eins og rétt sé nartað í fluguna. Ef Frances er undir er bleikjan oft að narta Í skottið. Sama gildir um straumflugurnar. Þegar menn verða þess varir er málið að smækka flugurnar og oftar en ekki tekur bleikjan. Margt af henni er tveggja til fjögurra punda og ekki er óalgengt að fimm til sex punda sjóbleikjur veiðist í ánni. Eyþór segir að hann hafi alltaf skemmt sér vel að sjá til vinar síns, Sigurðar Valdemarssonar, í miðstrengnum. Sigurður hafi verið búinn að læra svo vel á veiðistaðinn að hann taldi sig alveg öruggan með lax þar og það hafi ekki verið oft sem það brást. „Sigurður fór öðruvísi að en aðrir sem þarna veiða. Hann fór yfir á grasbakkann og renndi maðki fast við hann, langt uppi í streng. Þannig hélt hann agninu fyrir framan nasirnar á löxum sem sáu eftil vill aðeins flugu flugumannsins svona rétt Í svipinn og maðkveiðimenn, sem stóðu á eyrinni, gátu heldur ekki skilað agninu svo vel til laxins.
Það hefur lítið verið minnst á neðsta Brekkulækjarstrenginn, enda er hann afgerandi lakastur. Hann gefur þó fisk og fisk og fer það að mestu eftir vatnshæð hvort þar er veiðivon eða ekki.

Nú kemur klasi veiðistaða sem Eyþór setur undir sama hatt með þeim orðum að allir geti þeir gefið fisk og fisk ef varlega er að farið. Þá á kokkurinn við að aka ekki of nálægt ánni. „Vatnið leiðir svo vel titringinn af þessum stóru jeppum,“ áréttar hann. Þeir staðir, sem um er að ræða hér, eru Hornpollur, Stekkjarfljót, Leirhöfðafljót og Klapparpollur. En við Grjóthyl vill Eyþór staldra aðeins við. „„Grjóthylur er meiri háttar veiðistaður, langur, með mörgum tökublettum. það fer eftir vatnshæð og tíma dags hvar laxinn tekur helst. Þessi staður er mikið barinn, hann er því bestur á morgnana en þrumugóður í ljósaskiptunum ef menn hafa vit á að hvíla hann vel fyrst eftir hlé. Efst í Grjóthyl standa stórir steinar upp úr og marka þeir efsta hlutann. Þar fellur áin í djúpa breiðu með jöfnum og þungum straumi og getur laxinn tekið á stóru svæði langt niður úr öllu. Og þarna eru oft stórir laxar og alltaf lax, veiðitímann á enda,“ segir Eyþór.
Og enn koma margir veiðistaðir sem kokkurinn telur góða valkosti þótt ekki sé hægt að segja að um afgerandi veiðistaði sé að ræða. Hann nefnir Melabreiðu, sem gefur oft drjúgvel er hausta tekur, Ilamóafljót, sem hefur gefið hörkuveiði í gegnum tíðina en hefur grynnst verulega. Samt gaf það nokkra laxa síðasta sumar. Merkjapollur, Garðshylur, Fleða, Veiðihylur, Bakki, Merkjahylur og Rafveitustrengir, allir geta þeir gefið lax og í flestum er einnig ágætisbleikjuvon. „Hérna gengur laxinn rólega Í gegn og menn hitta oft á hann,“ segir Eyþór og bætir við að stundum séu þessir veiðistaðir kallaðir Staðarbakkastrengir.
Eyþór bætti einu litlu gullkorni við um þessa veiðistaði. Þarna rennur smááin Urriðaá í Miðfjarðará en seiðum hefur verið sleppt í sprænuna til að nýta beitina. Borið hefur á því að heimtur hafi skilað sér og sé fiskur oft að snudda í Garðshyl og Fleðu og þó aðallega í þeim fyrrnefnda.
Nú er smáspölur ofan í Trumbu sem er langur veiðistaður og mjög góður, að sögn Eyþórs. „Laxinn getur verið þarna víða en það eru einkum þrír legublettir þar sem mesta grjótið er í botninum. Þessi staður getur virst laxlaus, það er erfitt að rýna í hann og ég hef vitað menn vera að vaða hann tilað skyggna eftir að þeir renndu þar. Þeir hafa ekkert séð en svo hefur lax allt í einu stokkið við nefið á þeim. Laxinn hefur mjög gott skjól í þessu botngrjóti,“ segir Eyþór. Flugan fer sérstaklega vel í Trumbu og þetta er einn af þeim stöðum í ánni sem alltaf má búast við því að lax sé undir.
Hornpollur er nefndur sérstakur veiðistaður rétt fyrir ofan Trumbu en Eyþór segir marga Miðfjarðarárkarla varla draga þarna mörk á milli, þeir byrji efst í Hornpolli og ljúki yfirferð neðst í Trumbu. „Hornpollurinn hefur ekki alltaf þetta rétta rennsli en þegar það er í lagi er þetta mjög góður veiðistaður,“ segir leiðsögumaður okkar. Næsti veiðistaður neðan Trumbu er einnig mjög góður, Teigahúshylur. „Þetta er þekktur og skemmtilegur veiðistaður. Þetta er djúpur strengur með vesturbakkanum en hann er ekki harðari en svo að flugan fer þar mjög vel. Teigahúshylur gefur oft mjög vel framan af sumri en á það til að slappast þegar á tímabilið líður. Þó geta ævintýrin alltaf gerst þar og menn ættu ekki að ganga fram hjá þessum stað þó komið sé fram yfir mitt sumar,“ segir Eyþór.
„Hér fyrir neðan er áin ein í dag og önnur á morgun. Hún veltur þar til og frá um eyrar og stundum hafa komið upp stórveiðistaðir sem hafa svo verið grynningar einar sumarið eftir. Eyþór lýsir þessu: „Við getum nefnt Stekkjarfljótið. Eitt sumarið var Sverrir Kristinsson, Sveddi, þar á ferð og fann mikið magn af laxi og veiddi einhver ósköp á einni vakt. Þá fóru menn að stunda staðinn og hann var með þeim hærri á svæðinu í vertíðarlok. Höfðastrengur kom upp með sama hætti eitt sumarið, hann er rétt neðan hornsins á skólabyggingunni á Laugarbakka. Hann er mikill og fallegur og þetta sumar rótuðu margir upp laxi þar en hann hefur ekki verið góður síðan. Þá var lengi einn blettur rétt fyrir ofan þar sem gamla brúin var. Ég veiddi oft með Hermanni úrsmið í Miðfirðinum og við stunduðum það mjög að reikna út hvenær félli að en á háflæði kom oft nýrunninn lax inn á þennan blett fyrir ofan brúna. Við sáum til þeirra, biðum rólegir og þegar fór að falla frá köstuðum við og laxinn tók vel. En hann stoppaði þarna aldrei nema stutta stund.
Og sumarið sem nýja brúin var fyrst í notkun stoppaði mikill lax á breiðunni þar rétt fyrir ofan og lá þar allt sumarið. Það var heilmikið verið að vinna við brúna allt sumarið og mér finnst þetta sýna hvað laxinn er gríðarlega forvitinn. Þetta er ekki einsdæmi og aldrei síðan hef ég vitað að lax hafi legið á þessum stað í Miðfjarðará. Fyrir neðan nýju brúna tekur við nokkur hundruð metra langt silungasvæði þar sem nefndir eru nokkrir veiðistaðir. Þarna er oft gnótt af vænni sjóbleikju. Fyrir kemur að menn hitta í lax og eru dæmi um mikla laxveiði þarna þó það sé frekar undantekning. En silungasvæðinu verður gerð sérstök skil síðar

Við endum þessa umfjöllun á smáyfirreið um hið nýja svæði í Austurá, fyrir ofan nýja laxastigann í Kambafossi, en nýliðið sumar var hið fyrsta sem það svæði er virkt heilt veiðitímabil. Um er að ræða 11 kílómetra og stöngum var ekki fjölgað á svæðinu. Því verður veiðiálag að teljast hafa verið lítið þar sem sjaldnast var nema ein dagsstöng að veiða á svæðinu á hverri vakt og stundum engin þar sem samgöngur með nýja svæðinu leyfðu ekki akstur venjulegra fólksbíla. Svo var Austurá ill- eða óveiðandi nær samfellt síðasta mánuð veiðitímans vegna vonskuveðurs en í langvarandi hvassviðri gruggast upp tjarnir sem áin rennur í gegn um á Arnarvatnsheiði og áin tekur lit af þeim. Samt gaf þetta nýja svæði yfir 100 laxa sem verður að öllu athuguðu að teljast afburðagott.
„Fáir staðir hafa fengið nöfn á þessum slóðum og því fer fjarri að allir veiðistaðir séu fundnir en þarna er að finna nokkra afburða fallega veiðistaði og við skulum aðeins líta á það sem fyrir liggur. Efstur er Valsfoss. Hann er ólaxgengur og ekki spennandi veiðistaður þótt þar hafi þeir veiðst nokkrir síðasta sumar. Walter Lentz missti þar m.a. fullþreyttan lax í 20 punda klassanum Erfitt er um vik að landa laxi þarna og veiðifélagi Walters hafði náð taki á laxinum en misst hann úr höndum sér. Slitnaði við það línan.
Fyrir neðan Valsfoss kemur stutt og Þröngt gljúfur og þar sem það opnast aðeins er lítil nett breiða sem geymdi nokkra laxa. Frábær staður er þar hins vegar ögn neðar, á móts við rauða kletta í berginu að vestanverðu. Þarna hittu menn fyrir viljuga laxa og flugan fer mjög vel í hylnum. Þarna fyrir neðan er fremur lítt kannað svæði, áin er nokkuð fjarri slóðanum og í grunnum gljúfrum. Þar sem gljúfrið þrýtur er ekið niður háa brekku og blasir þá við í gljúfurmunnanum stór og fallegur hylur. Hann er ónefndur en verður það varla lengi því þetta reyndist góður veiðistaður og í haust mátti sjá fægða bletti í botninum víða.
Hér fyrir neðan liggur vegurinn nærri ánni um hríð en hún rennur um eyrar. Á köflum virðist hún lítt veiðileg en það leynast þó möguleikar. Fyrir neðan gamlar bæjartóftir, sem eru uppi í brekku að vestanverðu, eru til dæmis nokkrar laglegar strengholur sem gáfu nokkra laxa í sumar og rétt fyrir ofan eyðibýlið Aðalból er mjög fallegur veiðistaður með löngum grasbakka. Bakkinn er að austan en veitt er af eyri að vestan og þarna var talsvert af laxi. Vegurinn er þarna svo nærri að við liggur að teygja megi stöngina útum gluggann. Því ættu menn að varast að aka of nálægt áður en þeir hefja veiðarnar.
„Rétt neðan Aðalbóls er brú yfir ána og er slóð niður með henni að vestanverðu sem liggur að afar fallegum veiðistað sem var nefndur Svarthamar. Þar veiddist vel í sumar en á leiðinni niður að honum eru nokkrir líklegir staðir. Eyþór sagði okkur að er hann var þarna með félaga sínum hafi hann farið niður fyrir Svarthamar og náð laxi í lítilli kvörn en þegar félagi hans sá hann koma arkandi upp með á með feng sinn hafi hann sjálfur rennt Í aðra litla kvörn rétt ofan Svarthamars og tekið þar annan lax.
„Önnur brú er drjúgan spöl neðar en svæðið frá Svarthamri niður að neðri brúnni er lítt skoðað. Vegurinn um neðri brúna liggur að býlinu Skarastöðum en undir og niður af brúarstöplinum að vestanverðu er góður veiðistaður. Þarna sá Böðvar á Barði fyrstu laxana fyrir ofan Kambsfoss í lok ágúst 1991. Þarna slapp annar 20-pundari með skrekkinn í sumar. Sigurður Valdemarsson hafði þreytt hann undir löndun en á síðustu andartökunum slitnaði línan við hnútinn. „Frá Skarastaðabrúnni og niður í Kambsfoss er drjúgur spölur og vegurinn liggur þar vel fjarri ánni lengst af. Svæðið er því lítt kannað. Einn sem gekk leiðina síðla í ágúst sagðist þó hafa séð nokkra veiðilega staði en hann var orðinn tímabundinn og gat ekki rennt í þá sem skyldi. Hann kom þó að einum laxi í dauðafæri, renndi á hann maðki og laxinn tók eins og skot. Á þessu svæði eru því lítt kannaðir veiðimöguleikar.
