Til baka

Laxá í Dölum

Laxá í Dölum

Eftir Hauk Helgason

Allt frá landnámi eru til heimildir um mikla laxagengd í þessari á þar sem hvert örnefni minnir á kynngimagnaða sögu þá sem skráð er í Laxdælu þar sem örlagþræðirnir ófust um hvert kennileiti. Í allmörg ár hef ég gengið til veiða á bökkum þessarar góðu laxveiðiár ásamt konu minni Sigrúnu Davíðsdóttur sem er veiðifélagi minn. Það var mér því ljúft að bregðast vel við þegar Gunnar Bender bað mig að segja sér frá kynnum mínum af ánni og veiðistöðum þar. Það skal þó tekið skýrt fram að afar margt á ég ólærtí þeim fræðum sem lúta að veiðiskap og á hverju ári kemur áin mér á óvart með nýrri útsetningu á þeirri miklu hljómkviðu sem hún kveður þeim veiðimönnum sem hennar vitja. Áin hefur öll einkenni dragár. Úrkoman á hverjum tíma ræður vatnsmagni hennar. Þess vegna getur það verið mjög breytilegt. Aðkoman að henni er yfirleitt mjög þægileg enda hefur hún verið löguð mikið síðustu ár. Veiðihúsið í Þrándargili er bæði rúmgott og vel búið þannig að vel fer um veiðimenn.

1. Efrasjávarfljót

Það er tilkomumikil sjón að sitja niðri við Sjávarfljót og sjá hverja laxatorfuna eftir aðra koma dansandi inn ósinn á flóðinu. Sjá hann vaða inn að Matarpolli og út aftur, koma svo á nýjan leik, hika en skella sér svo upp flúðirnar upp í Papa, eða fara út með fallinu enn á ný. Aðeins einu sinni hef ég reynt þarna við vaðandi laxinn enda hef ég enga trú á að hann taki við slíkar kringumstæður. Ég var með flugustöngina með mér og þegar ég hafði dáðst góða stund að dansi lífsins kastaði ég flugunni út í vöðuna. Ekki virtist það trufla á nokkurn hátt. Eftir nokkur köst tók fiskur. Gat þetta verið að kenningin um töku laxins væri röng? Snöggir kippir en ekki þungir sögðu mér að fiskurinn væri ekki einn af þeim stóru. Eftir nokkra stund lá hann á bakkanum, þriggja punda urriði. Skömmu seinna tók annar nokkru minni. Laxinn leit ekki við flugunni og. braut ekki þá kenningu sem gamlir veiðimenn höfðu sagt mér að ekki tæki hann þar á flóði.

2. Matarpollur

Hér stoppar laxinr. fyrst á göngu sinni upp ána. Fann er afar viðkvæmur og spes sítir að öllu saltbragði hefur verið sleppt. Því er best að fara að öllu með gát og láta sem minnst fyrir sér fara. Nokkrum malarrana hefur verið ýtt upp þar sem meginstraumur árinnar rennur meðfram. Í rennunni og alveg út í pollinn sjálfan er von á fiski. Ef ekki laxi þá silungi. Flesta laxa höfum við fengið þar sem straumurinn og lygnan mætast. Það er vissara að vera viðbúinn því þarna er bara nýrunninn lax, eldhress og sprækur og er ekki tilbúinn að láta fanga sig í upphafi ferðar.

3. Papinn

Fossinn, hylurinn og breiðan þar fyrir neðan er veiðistaður sem nefnist einu nafni Papinn. Þarna getur safnast saman mikið af fiski. Fer það eftir tíma og ástandi árinnar. Papafélagið sem var nokkur hópur veiðimanna hafði þarna veiðihús enda var þá ekki kominn akvegur nema stutt upp í Laxárdal. Óhemjumagn af laxi gat safnast þarna saman þegar fossinn var erfiður uppgöngu en nú hefur hann verið lagaður. Papinn er veiddur bæði af norður- og suðurbakka árinnar. Þegar staðið er uppi á brúnni og horft yfir Papann má oft sjá nokkra laxa bíða við endann á strengnum sem rennur niður Búðardalsmegin (norðan) Læðast þarf að honum og láta grjóthrygginn skýla sér. Frá þessum bakka reyna menn oft með því að kasta með kaststöng stórum túpum út í djúpið. Sunnan megin frá er byrjað að skyggna stóra rauða steininn efst á brúninni. Síðan er kerið strax fyrir neðan efstu brún. Þarna tóké ég einu sinni sex laxaí beit. Ég sá í sporðana Í í endanum á fryssinu. Skreið á maganum (hann er stór) og renndi agninu niðurí kerið, fiskur á, skreið til baka og teymdi hann út úr kerinu og landaði fyrir neðan. Þetta endurtók sig sex sinnum. Fyrir neðan þar sem aðalárstraumurinn fellur út í hylinn beygir áin í vinkil. Þarna fékk Kristín heitin kona Friðjóns Þórðarsonar oft lax á flugu þegar við vorum með þeim í veiðiferðum. Þegar komið er niður á klappirnar er hægt að kasta flugunni annað hvort upp í hylinn eða niður á breiðuna. Hvort tveggja getur gefið góða raun. Fer það eftir tíma og vatnsmagni í ánni reyndar eins og allt við þessa frábæru á. Ég hef séð þarna stórar laxatorfur hvort sem er snemmsumars eða um miðjan september.

4. Brúarstrengur

Líti maður af brúnni upp ána blasir Brúarstrengurinn við sunnan megin. Nauðsynlegt er að byrja efst í strengnum og sakka vel. Ef fiskur er þarna tekur hann vel sé rétt að honum. farið. Mörgum sést yfir að neðst í strengnum liggja fiskar oft á milli tveggja steina eða í skjóli við þá og láta þá fljóta yfir þá. Taki fiskur þarna er vissara að koma honum sem fyrst á land eigi slagurinn að vinnast. Doddsnef Þegar fiskur er í göngu getur hann staldrað við hér. Er hann þá gjarnan alveg upp við nefið eða aðeins út af því. Ekki gefur nefið marga fiska yfir sumarið.

5. Neðri kista

Þar sem áin streymir meðfram þverhníptum hamraveggnum efst í kistunni má alltaf búast við fiski þegar hann er að ganga. Þá má búast við töku allan strenginn alveg að stórum steini sem er í kafi rétt þar sem áin byrjar að breiða úr sér en þar er helsti tökustaðurinn við venjulegar aðstæður. Oft má sjá fisk stökkva niður alla breiðu. Rétt er að vekja athygli nátturuunnenda á hrafnshreiðri uppi í berginu en flest árin er verpt í það. Þar má oft sjá skemmtilegan leik unganna þegar þeir eru að búa sig undir að yfirgefa laupinn. Þarna sátum við einu sinni í opnun vel á annan tíma með Herði Gunnars syni og Árna Bald og eiginkonum þeirra og fylgdumst með hvernig hrafnshjónin fengu ungana sína á stað úr hreiðrinu og út í hinn stóra heim. Veiðin er ekki allt. Góð veiðiferð byggist ekki síst á góðum veiðifélögum og þeirri umgjörð sem umlykur ána.

5. Efri kista

Áður en við snúum okkur að þessum veiðistað vil ég minna á pallinn milli kistanna. Þar leynist oft fiskur. Efri kista er magnaður veiðistaður. Þar hafa margir veiðimenn fengið sinn fyrsta lax í ánni. Hér kom ég í fyrsta sinn 23. ágúst 1983. Þá þurfti að ganga frá þjóðveginum. Klukkutími var eftir af veiðitímanum þegar upp eftir var komið. Gott vatn var í ánni svo ég valdi þann kostinn að láta maðk berast meðfram brotinu. Fljótlega tók fiskur, afar sprækur, nýgenginn, eftir nokkra stund annar og svo sá þriðji. Allir tóku þeir á brotinu. Sá fjórði tók, en æ, æ, línan slitnaði. Nýr öngull hnýttur á. Sá fimmti tók strax en línan slitnaði aftur. Skelfilegt að missa fisk með öngulinn í sér. Við nánari athugun kom í ljós að Postulínið hafði brotnað úr endalykkjunni og þar hafði línan skorist. Sá sem var á eftir mér kom með sex laxa. En nú hafði ég alveg gleymt mér. Lítill foss fellur ofan í kistuna. Þar er djúp hola sem oft gefur fisk. Síðan fryssast vatnið út milli klettann um leið og áin breiðir úr sér. Þar beint út af er steinn í kafi. Fyrir framan hann bíða þeir stóru. Þar tók konan mín sinn stærsta lax tæp 20 pund. Eftir mikla baráttu náði hún honum upp í grjótið. Stóra hættan felst í því að missa þá niður fyrir brotið. Fiskurinn liggur oft í strengnum meðfram berginu og tekur gjarnan þar. Ekki má gleyma holunni alveg fyrir ofan kistuna. Þar hvílir hann sig oft eftir að hafa stikað fossinn.

6. Krókur

Þessi veiðistaður er einn af þeim sem helst gefa fisk þegar hann er í göngu en þá verða menn að muna að fiskigöngur í Laxá eru yfir ansi breytt tímabil. Sjálfur hef ég aldrei náð laxi hér. Ýmsar veiðisögur hafa verið sagðar héðan. Sú frægasta mun vera úr opnuninni fyrir fjórum árum. Þá veiddi hollið vel yfir 40 laxa en sá allra snjallasti veiðimaður af guðs náð, Árni Baldursson, veiddi röskan helming laxanna. Hér uppi í Króki fékk hann 11 laxa. Hann tók þá í strengnum við suðurbakkann þar sem áin fellur niður í Krókinn. Tildrögin voru nokkuð sérstök og stenst ég ekki freistinguna að láta þau fylgja með. Það gerðist í opnuninni fyrir fáum árum að tveir veiðimenn sem voru saman um stöng voru að veiða íEfri-kistu. Fékk þá annar hugljómun og sagði að það væri örugglega fiskur uppi í Króki. Var þá þegar haldið þangað en svo illa vildi til að annar þeirra féll í ána og rennblotnaði. Þar.sem nokkuð kalt var og ekki var langt eftir af veiðitímanum ákváðu þeir að hverfa frá og halda heim í hús. Þá bar Árna að með sitt mikla veiðinef og fékk leyfi þeirra félaga til að renna í Króknum en þeir héldu heimleiðis. Hægt er að ímynda sér svipinn á þeim félögum þegar Árni kom skömmu seinn upp í hús og fór að tína úr bílnum hvern laxinn af öðrum, ellefu laxa hver um sig 11-19 pund.

7. Þegjandi

Hann er ekki allra. Hér fellur áin í tveim strengjum fram af svo lítilli klettabrún. Áin er greiðari til uppgöngu fyrir fiskinn að norðan. Veiðistaðurinn er gyrtur klettum til beggja handa „urberget“, þessum gömlu sem búa yfir kynngimagni sköpunarinnar. Ef komið er sunnan megin í logni og gengið er fram á bergið má sjá að á botninum eru tvö stór björg og það fremra sýnu stærra. Undan því standa hausar af stórlöxum því þarna á hann gott skjól. Og þó, það var einmitt þaðan sem hinn snjalli veiðimaður Hannes Pálsson lokkaði verðlaunalaxinn 25 punda í ágústlok sumarið 1990. Stundum er laxinn á fleygiferð um allan hylinn og upp í rennuna norðan megin en oftast liggur megintorfan út af neðri stóra steininum í botninum þar sem fer að grynnka. Þarna er ýmist hægt að standa undir klettunum eða vaða upp malareyri sem oft myndast neðst í hylnum. Eitt sinn er við komum þarna og vel var í ánni notaði konan þá aðferð að kasta maðki upp í rennuna með floti og löngum taumi. Laxinn tók í þann mund sem flotið rann út úr rennunni. Ellefu laxar á einum og hálfum tíma. Það var þung byrði að bera til baka upp að bíl.

Ef farið er Búðardalsmegin finnst mér best að vaða yfir lænuna og út í skerið. Fara niður af því 2-4 m og standa þar á svolitlum malarbletti. Þá er auðvelt að ná til allra átta. Beint fyrir framan er svolítil geil með hringstraumi í. Þar tekur iðulega fiskur láti maður fluguna leika lausum taumi. Skáhallt niður af heldur aðaltorfan sig og síðan er auðvelt með lengri köstum að kanna allt svæðið niður á brot. Ef staðið er þarna og þörf er á að ná landi með fisk þá er eins gott að fara varlega því botninn er illur yfirferðar. Þar sem Þegjandinn er uppáhaldsstaður okkar ætla ég að leyfa mér að hafa hérna með svolítinn kafla úr frásögn frá þessum stað úr veiðibókinni okkar frá 28.ágúst 1992

Komið var á veiðistað rétt upp úr kl. 10.00. Þetta. var lokadagur og því ekki veitt lengur en til kl. 12.00. Byrjað var sunnan megin árinnar. Það reyndist gagnslaust hversu girnilega maðka Sigrún sýndi honum og því var haldið yfir á hinn bakkann. Strekkings vindur var niður ána og vatnið örlítið skolugt. Eftir að hafa sett intermedium línu á og rauðan Frances nr. 6 óð ég út á malarblettinn fyrir neðan skerið. Ég náði löngum köstum 45 gráður á strauminn. Línan leið hægt nokkru fyrir ofan brotin. Ekki skipti nokkrum togum að þegar línan var komin í 60-65 gráðurnar þá tók lax. Þegar það gerðist var kl. 11:05 Nú hófst baráttan við að ná landi með fiskinn. Illa grýttur botn á kafla og nokkuð þungur straumur í strenginn. Það tókst þó að ná landi og landa fiskinum. Þar sem stutt lifði veiðitímans var strax vaðið út að nýju, farið nákvæmlega eins að og sagan endurtók sig fimm sinnum nákvæmlega eins. Línan flaug út, hvarf undir yfirborðið, sveif hægt í boga og á nákvæmlega sama stað tók hann aftur og aftur. Þegar fimmta laxinum hafði verið landað voru enn 8 mín. eftir en nú var komið nóg. Sæl og glöð öxluðum við pokann með þessum fallegu fiskum, hverjum um sig 6-11 pund. Tveim veiðidögum var lokið og fengurinn 21 lax. Já, Þegjandinn getur gefið stórt en líka haldið fast í sína þegna og vill þá ekki sjá af neinum.

8. Þegjandastrengur

Áin fellur í tveim strengjum úr kvörninni. Þar sem strengirnir mætast er helst von að ná fiski eða niðri á brúninni. Anna, kona Einars Sigfússonar, veiddi hér og í Þegjandanum einu sinni 13 laxa sem voru 12-19 pund hver. Þetta var í þá daga þegar ekki var hægt að aka niður eftir en bíllinn var skilinn eftir á hæðinni fyrir ofan Mjóhyl. Það var þung byrði og erfið að bera þessa miklu veiði upp eftir, ekki síst af því að pokinn gleymdist í bílnum.

9. Þegjandakvörn

Þar getur allsstaðar leynst lax. Strengur fellur niður í kvörnina, síðan breiðir áin úr sér með nokkuð háum bökkum að norðan en malareyri að sunnan. Einu sinni vitjaði ég þarna kunningja míns sem var að koma að ánni í fyrsta sinn. Ég stóð á eyrinni en hann var uppi á bökkunum á móti með kíki og var að skyggna kvörnina. Frekar lítið var í ánni svo kvörnin var frekar grunn. Eftir nokkra stund kallaði hann til mín að ekki kvikindi væri þarna. Hann sæi botninn afar vel. Ég bað hann þá að koma niður og vaða yfir til mín, hvað hann og gerði. Er skemmst frá því að segja að við svo til hvert skref sem hann tók spratt upp fiskur. Var hann orðinn snakillur þegar yfir var komið og sakaði mig um að láta hann fæla allan fiskinn. Honum rann fljótt reiðin og höfum við oft gantast með þetta. Sannleikurinn er sá að þarna á laxinn afar gott með að leynast fyrir veiðimönnum.

Út af eyrinni ofan til er nokkru dýpra og þar er fiskur oft: Einnig meðfram smáklettum norðan megin og upp í strengnum ef hann er að færa sig. Það fer nokkuð eftir árferði hvernig áin hleður upp eyrinni og grefur sig meðfram henni. Frómt frá sagt er hægt að eiga von á töku á stóru svæði þarna. Ekki get ég skilið við þennan ágæta veiðistað án þess að minnast þess er góður veiðifélagi var hér með konu sína. Hún var með flot og maðk og lét dóla eftir kvörninni. Allt í einu hverfur flotið. „Æ, æ það er fast,“ kallar hún og fer að toga. Kemur þá stærðarfiskur æðandi upp úr vatninu og fer stórum. Hefst nú hörð glíma. Fiskurinn æðir fram og til baka um vatnið og tekur mikil stökk en allt í einu er allt laust. Fiskurinn farinn og endinn kemur flotlaus í land.

Mikla hryggð setti nú að konunni og vefur maður hennar hana örmum til hughreystingar. Gekk það um nokkra stund því konan var harmislegin yfir þessum óförum og að fiskurinn skildi vera með öngulinn í sér. Nú er eiginmanninum litið út á vatnið og sér þá flot sigla á móti straumnum. Skiptir það engum togum að hann fleygir frá sér eiginkonunni, grípur stöngina sína og byrjar að kasta að flotinu og eftir nokkrar tilraunir festir hann í nælu sem hékk við flotið. Hófst nú glíman við fiskinn í annað sinn sem lauk með því að 17 punda lax lá á bakkanum og tóku nú bæði gleði sína að nýju.

10. Mjóhylur

Undir háum malar- og leirbakka þrengir áin sér milli klettaskorninga og hefur grafið alldjúpan hyl. Á fyrrihluta veiðitímans getur hann virtst bláleitur ofan af hæðinni þegar nýrunninn laxinn safnast þar fyrir. Mjóhyl þarf að nálgast af mikilli varúð. Best er að koma ofan með ánni og láta klettinn skýla sér eða vaða yfir ána t.d. vel fyrir neðan hylinn og veiða þeim megin frá. Nokkur vandi er að stýra agninu þarna og meta að öðru jöfnu hvar fiskurinn liggur. Án styggðar er hann venjulega neðar í hylnum þar sem vatnið fer að róast en getur svo legið djúpt og þá frekar með berginu norðanmegin. Í malar og leirbökkunum fyrir neðan hylinn má finna skeljar frá þeim tíma er stór hluti Laxárdals var sjávarbotn.

11. Höskuldsstaðastrengir

Höskuldur sonur Dala-Kolls tók við föðurleifð sinni og búi. Er sá bær við hann kenndur og kallaður æ síðan á Höskuldsstöðum. Eins og svo margir veiðistaðir draga strengirnir nafn af bænum sem veiðistaðurinn tilheyrir. Vart verður gengið niður móana að strengjunum án þess að hugurinn leiti til einhverra þeirra sögufrægu einstaklinga sem hér slitu barnsskónum, eins og t.d. Hallgerðar Langbrókar Höskuldsdótturí Njálu eða Ólafs Pá Höskuldssonarí Laxdælu sögu sem bæði ólust upp á Höskuldsstöðum. Sonur Ólafs var Kjartan er Veginn var af fóstbróður sínum Bolla en örlagavaldur þeirra var Guðríður Ósvífursdóttir, eiginkona Bolla og fyrrum unnusta Kjartans, er mælti þau fleygu orð á gamals aldri: „Þeim var ég verst er ég unni mest.“ Í dag eru engir skógar í Laxárdal. Vart tré að sjá. Kirkjustaðurinn Hjarðarholt er hinum megin árinnar en þar byggði Ólafur Pá bú sitt. Um tilurð þess segir í Laxdælu. „Voru þar og skógar miklir nokkru ofar en Höskuldsstaðir eru fyrir norðan Laxá. Þar var höggvið rjóður í skóginum og þar nálega til gers að ganga að þar safnaðist saman fé Ólafs hvort sem veður voru betri eða verri.“ Í fornu máli þýddi holt skógur eins og fram kemur í spakmælinu „Oft er í holti heyrandi nær.“ Látum nú söguskoðun lokið í bili.

Strengirnir skiptast í þrjá palla og getur lax verið á þeim öllum. Þó eru meiri líkur að setja í fisk á neðsta og efsta en miðpallinum. Á efsta er svolítill klettur vel úti í miðri á. Á ská niður af honum nær suðurbakkanum eru tveir steinar venjulega í kafi. Á þessu svæði eru góðar líkur á fiski, sérstaklega ef vatn er gott. Einnig er fiskur oft niður undir brotinu. Hér er afar gott að athafna sig með flugu. Á neðsta palli liggur fiskurinn oft rétt niður af fryssinu eða jafnvel upp undir grjótinu. Fiskur leggst á breiðuna þegar fer að líða á sumar.

11 Hornsteinar

Fyrir nokkrum árum var settur grjótgarður þarna í ána og hefur þessi staður gefið drjúga veiði síðan. Ofan hans er leirbotn með örsmáum skeljum úr sjávarsetlögum. Auðvelt er að veiða staðinn beggja megin frá og líkar mönnum sitt á hvað. Fiskurinn getur legið allt frá garðinum og vel niður á breiðuna. Einhvern veginn finnst mér veiðilegra þegar verið er við svona garða að tilla sér niður á þá til þess að láta minna á sér bera sé því komið við. Einu sinni sat ég þarna úti og var að skipta um flugu og heyrði þá mikinn þyt í lofti. Er ég lít upp sé ég tvo smyrla eltast við þúfutittling. Í dalnum virðist vera mikið um smyrla og veiða þeir gjarnan saman tveir og jafnvel fleiri. Reyndi sá litli að skjótast fimlega undan þeim en í fá skjól að leita. Allt í einu skellir hann sér niður að vatnsfletinum, svífur rétt yfir honum að mér og sest á næsta stein við mig. Ovinirnir lögðu ekki til atlögu og hurfu á braut. Mér létti stórum við að geta veitt lítilmagnanum lið en gleymdi því að ég, 230 pundarinn, var nýbúinn að leggja 6 punda bleikju að velli. Það er eins gott að líta í eigin barm áður en farið er að býsnast yfir öðrum.

12. Leiðólfsstaðakvörn

Kvörnina er auðvelt að veiða frá hvoru landinu sem er. Efst í henni er stór strýtulagaður steinn. Frá honum og töluvert langt niður getur fiskur haldið sig. Við hann er dálítil hola. Niður af honum eru steinar sem fiskur felur sig við. Skáhallt út og niður af horninu sunnan megin er svo sjálf kvörnin. Við vöðum gjarnan yfir ána nokkuð fyrir ofan strýtuna og veiðum frá eyrinni Búðardalsmegin. Hér er meiri von á fiski er líða tekur á sumar.

13. Nesbakki

Lítið hefur veiðst við Nesbakka nú seinni árin. Má vera að hann verði meira út undan vegna tveggja góðra veiðistaða fyrir ofan en einnig hefur áin breytt sér verulega þarna, að sögn kunnugra. Í minnum er haft að eitt haustið safnaðist þarna saman mikið af laxi.

14. Gíslakvörn

Þegar komið er að kvörninni er rétt að gera sér grein fyrir að hún krefst verulegrar yfirferðar. Allt frá efstu steinum og langt niður með túnkantinum að sjálfri kvörninni og niður fyrir hana er von á töku. Auk kvarnarinnar er grastóin á móts við hornið á girðingunni hinum megin árinnar góðir viðmiðunarstaðir. Kvörnin er svona um það bil 15-20 m niður með túninu, 8-10 m frá landi eftir vatnsmagni. Eitt sumarið sá ég hér meiri lax en ég hef séð á nokkrum stað í ánni en eins og á fleiri veiðistöðum geta verið veruleg áraskipti.

15. Kristnipollur

Sagt er að þessi staður dragi nafn sitt af því að við kristnitöku árið 1000 hafi Dalamenn ekki viljað skírast fyrr en þeir væru aftur komnir vestur í Dali og fór skírnin fram í Kristnapolli. Úr Þrándargili fellur lækur Í pollinn. Fiskifræðingur, sem einu sinni var þarna við athuganir, sagði mér og sýndi hversu ótrúlega mikill seiðabúskapur væri í læknum. Má vera að það ráði nokkru um að enginn veiðistaður hefur gefið fleiri fiska en Kristnipollur til viðbótar við þá helgi sem yfir staðnum hvílir. Hér stekkur fiskur mikið þegar það stuðið er á honum og er þá gjarnan veruleg hreyfing á fiski fram og til baka. Í annan tíma getur hann látið lítið  sér bera þó nóg sé af fiski. Neðst er stór steinn úti Í miðri ánni. Allt frá honum og töluvert upp eftir heldur fiskur sig. Út af steini þar sem lækurinn fellur í ána er töluvert dýpi. Best er að byrja töluvert fyrir ofan lækinn og með löngum köstum kemba pollinn. Alveg við bakkann hinu meginn má greina all stóran stein í kafi. Við hann var og er löngum drýgsti tökustaðurinn. En hér eins og víða gilda orð Páls postula; „reynið allt“. Ágætir veiðifélagar okkar, Hörður Gunnarsson og kona hans Hrönn, voru hér einu sinni við veiðar er við komum til þeirra. Höfðu þau reynt flest en engan fisk fengið. Eftir notalegt spjall ákvað Hrönn að gera eina tilraun enn. Fór hún að læknum og kastaði upp ána og lét sökkva vel. Fljótt varð hún vör við fisk og innan stundar lá vænn lax á bakkanum. Hún lét ekki þar með staðar numið en endurtók leikinn og hafði tvo væna laxa með því að beita þessari aðferð. Eg verð að víkja aftur að orðum Páls postula, enda er það við hæfi á þessum stað. Góður kunningi minn, sem var um tíma ölkær í meira lagi, tók sér þessi orð oft í munn en lauk aldrei setningunni en hún hljóðar þannig í heild „reynið allt en látið ekkert ná valdi á yður“

16. Kotbakki

Ekki skyldu menn fara fram hjá Kotbakka án þess að reyna þegar líða tekur á sumarið og vatn er í góðu meðallagi. Settir hafa verið niður stórir steinar. Við þá og vel niður af er oft fiskur við réttar aðstæður. Einnig er tökustaður töluvert langt fyrir neðan grjótið.

17. Lambastaðakvörn

Hálfbróðir Ólafs Höskuldssonar Melkorku Mýrkjartansdóttur hins írska var Lambi Þorbjörnsson. Hann var garpur mikill og hafði mikið fé. Þannig greinir Laxdæla frá honum. Leiða má líkum að því að bærinn Lambastaðir dragi nafn sitt af Lamba Þorbjarnarsyni. Nú hefur mikill grjótgarður verið lagður þvert yfir ána þar sem hún þrengir sér milli tveggja barða. Við það breyttist öll aðstaða til veiða á þessum stað. Hin eiginlega kvörn er töluvert neðar nær norðurbakkanum en þar er nú sjaldan veitt. Hér stoppar verulegt magn af fiski og veiðist allt frá opnun fram á síðasta dag. Fiskur tekur alveg frá grjóthryggnum og langt niður á breiðu. Einu sinni varð ég vitni að því að veiðimaður sem hafði reynt um stund en ekki orðið var setti undir hraðsökkvandi enda, kastaði meðfram grjótinu og dró hratt. Þannig tók hann fjóra fiska í röð.

Aðeins um flugur og náttúru þeirra

Oft eru veiðimenn spurðir hvaða flugu eigi að nota hér eða þar við þessi skilyrði eða hin. Eins og ég sagði í upphafi þá á ég afar margt ólært í þessari listgrein svo þú, lesandi góður skalt ekki taka orð mín sem neinn stórasannleika. Ég fer samt eftir einni meginreglu, ef hann tekur ekki fluguna sem ég sýni honum fyrst þá set ég aðra á, ef ekki hana þá næstu og þannig koll af kolli. Ef flotlína dugar ekki þá skipti ég um línu. Á að draga hratt, hægt eða láta hana fljóta frjálst? Á að kasta þvert, niður eða jafnvel upp ána? Að kunna að lesa vatnið er mikil hjálp. Að átta sig á botninum, straumi og dýpi er leið að góðum árangri. Snillingarnir segja margt af viti í bókum sínum og fengur er af því að fara í smiðju til þeirra. En orð Páls potula, sem rifjuð voru upp hér að framan, eru í fullu gildi í veiðiskap sem öðru. Eitt fyrsta skipti sem ég kom í Laxá veiddi ég marga laxa á Dentist straumflugu. Ég hef reynt hana á hverju ári síðan en aldrei fengið lax á hana. Góður veiðifélagi okkar og bráðsnjall veiðimaður, Þórir Lárusson, kom eitt sinn til okkar þegar við vorum að ljúka veiði í Þegjandanum og hann að taka við. eins og góðum veiðifélögum sæmir sesttums við niður og farið var yfir það sem reynt hafði verið en margar flugur höfðu verið reyndar án árangurs. Hann ákvað að setja Black Ghost á. Við héldum á næsta veiðistað. Þegar komið var upp í hús að loknum veiðidegi voru Þórir og kona hans Þórunn að tína hvern laxinn af öðrum út úr bílnum sem allir höfðu fengist á svarta drauginn í Þegjandanum. Hvað hér réði mestu, flugan, tíminn eða snilli Þóris er ekki gott að segja en kenning mín er afar einföld: „Þegar eitt gefst ekki reyndu þá annað"

18. Svarfhólsgrjót

Eftir Kristnapolli gaf þessi veiðistaður flesta fiska hér áður fyrr. Þá var helsti tökustaðurinn niðurundan stóra steininum sem er uppi í bakkanum þar sem komið er fyrst að. Töluverð breyting hefur orðið á, síðustu sumur hefur helsti tökustaðurinn verið neðarlega við malareyri þar sem fífan grær. Fiskigengd hefur mér virst minni eftir að Lambastaðakvörn varð virkari. Samt er rétt að gera ráð fyrir töku allt frá beygju og vel niður fyrir Fífueyri. Bæði er að töluverð hreyfing getur verið á fiskinum og hitt að víða eru góðir felustaðir við steina og í gróðri í botninum á þessari stóru breiðu. Eitt sinn kom ég þarna að veiðifélaga mínum sem er mjög snjall silungsveiðimaður en var í sinni fyrstu laxveiðiferð. Hann hafði sett í góðan lax niður við eyrina á flugu. Fiskurinn tók strax strikið upp ána en vegna þess að hann var ekki vanur að glíma við laxa stóð veiðimaðurinn kjur í stað þess að hlaupa með og halda stönginni hátt. Línan var orðin föst. Ég óð út með henni og í ljós kom að sá silfraði hafði vafið hana um tvo steina. Þegar búið var að losa um fyrri steininn og komið var að þeim seinni sá ég að fiskurinn var enn á en hann sá mig líka og náði að rykkja sig lausan áður en tókst að losa línuna. Laxinn reynir æði oft að festa línuna við grjót eða gróður. Svarfhólsgrjót eru höfuðból lómsins. Hann getur spáð rigningu eins og menn vita. Rétt er því að leggja hlustirnar við þegar hann kveður sér hljóðs.

19. Dísubakki

Þar sem áin fellur að bakkanum hefur hún grafið allbreiðan hyl, ekki djúpan en grýttan, í botninum. Síðan breiðir áin úr sér og grynnkar. Verulega stórir fiskar hafa oft verið í hylnum en minni fiskar gjarnan tekið neðar. Árangursríkt hefur þá reynst að kasta alveg upp undir bakkann á móti. Dísubakki er einn af uppáhaldsstöðum konu minnar því hér hefur hún náð mörgum löxum.

19 A. Bakki

Nokkru fyrir ofan Dísubakka er veiðistaður sem fyrst var kallaður Efri-Dísubakki en nú seinni árin verið nefndur bara Bakki og vil ég halda mig við það. Þarna eru stórir steinar á bakkanum og út í miðri ánni. Þeir eru ýmist alveg í kafi eða tylla kollinum aðeins upp úr eftir vatnsmagni í ánni. Veruleg áraskipti eru í veiði þarna. Komið hafa sumur þegar mokveiði hefur verið en síðan önnur þegar lítið eða ekkert hefur veiðst. Þegar fiskur gefur sig þarna hefur hann helst viljað taka við steinana og í kvörninni sem er aðeins fyrir neðan þá. Eitt sumarið kom ég þarna að félaga mínum þeim hinum sama og segir frá hér á undan í Svarfhólsgrjótum en nú lágu sex fagrir laxar á bakkanum og hann ljómaði eins og sól í heiði. Hann var orðinn reynslunni ríkari.

20. Leirmúli

Áin rennur hér meðfram bökkum og hefur Leirmúli ekki geymt mikinn fisk á seinni árum en engu að síður er vert að reyna því áin breytir sér frá einu sumri til annars. Frá Drykkjarhyl að Grafarbakka. Á þessu svæði geymir áin ýmsar matarholur sem veiðimenn ættu ekki að ganga fram hjá en þar sem farartæki mitt hefur ekki leyft mér að vitja þeirra eins og skyldi ætla ég ekki að falla í þá freistni að lýsa því er ég þekki ekki af eigin raun.

24. Höfðafljót

Aðkoman er brött og nauðsynlegt er að fara yfir ána og veiða frá eyrunum. Á kortinu yfir ána eru tveir punktar merktir Höfðafljóti. Efri staðurinn var alldjúpur hylur sem lax stoppaði stundum í á árum áður. Nú hefur áin borið í hann möl og breytt sér svo ekki er hann samur og áður enda vart fengist þar fiskur hin síðari ár. Neðri punkturinn vísar á svæðið þar sem höfðanum sleppir og niður með bökkunum. Lax getur verið alveg upp að beygju og all langt niður en aðalstaðurinn er þar sem grjót er í bakkanum á móti og þar niður með. Höfðafljót er síðsumarsstaður og veruleg áraskipti geta verið að fiski þar. Sum sumur safnast verulegt magn af silungi þar.

25. Björnskvörn

Langan tíma hefur tekið mig að átta mig á þessum veiðistað. Björnskvörn er stórt og margbreytilegt svæði en enga kvörn hef ég fundið þar eins og á öðrum veiðistöðum sem bera það nafn í ánni. Efst er breiða en síðan fellur áin með all stífu rennsli niður í stórgrýti með nokkrum pottum en rennur síðan hægar út á milli enn meira stórgrýtis. Í hverjum potti og við hvert grjót getur leynst fiskur ef vatn er nægjanlegt. Á breiðunni leggst líka oft fiskur. Það er ekki fyrr en núna alveg síðustu sumur sem við höfum náð fiski í Björnskvörn. Vafalaust skorti þolinmæði. Rétt fyrir ofan rennur áin allbreið. Eitt af fyrstu sumrum mínum við ána ákvað ég að reyna þar. Áin var vatnslítil, rúmt fet, á þessu svæði. Ég hafði heyrt eða lesið um veiðimennina miklu sem enginn fiskur sleppur frá. Aðferðin var sú að vaða ána miðja með maðk á flotlínu svona 5-10 m úti, láta línuna leika til beggja handa og vaða rólega áfram. Þetta gæti enginn lax staðist. Er ég hafði leikið þetta nokkra stund lyftist allt í einu upp vatnið fyrir framan mig. Gríðarlegur haus gapti við mér augnablik sem síðan var fylgt eftir af heljarinnar skrokk sem sveigðist hægt niður ána og hvarf þegar hann kom niður á dýpra vatn. Eg varð svo undrandi að ég óð í land, settist á bakkann og var lengi að ná mér. Í mínum huga er þetta langstærsti lax sem ég hef nokkru sinni augum litið. Þetta var örugglega konungur árinnar. Aðferðina hef ég aldrei reynt síðan og ef ég á leið þarna fram hjá hneigi ég mig djúpt í áttina þar sem konungurinn sýndi sig því hann er örugglega þarna enn þá og stjórnar öllu í ánni.

26. Dönustaðagrjót

Þegar stigið er út úr bílnum við brúna og horft er upp með ánni blasa við stórar eyrar litaðar af þúsundum eyrarrósa. Þegar áin hefur lokið rennsli sínu eftir eyrunum þrengir hún sér fram hjá björgum og stórgrýti í stríðum streng en hægir ögn á sér í hylnum undir brúnni. Þar bíða laxarnir ef allt er með felldu, tveir, þrír eða nokkrir tugir allt eftir árferði og tíma. Þeir geta legið djúpt upp í straumnum og allt niður fyrir brúna. Margir veiðimenn skyggna ana þarna í byrjun veiðiferðar til að meta veiðilíkur. Eftir að áin hefur aðeins hægt á sér við brúna hraðar hún för sinni að nýju og strýkur nú stríðum strokum stórgrýti og björg. Er hallinn minnkar að nýju koma smábreiður eða stillur. Veiðisvæðið nær langt niður fyrir brú og endar við mikinn hvalbaks stein rétt áður en áin beygir í átt að Björnskvörn. Allt frá klettinum þar sem áin kveður eyrarnar og niður að hvalbakssteininum er fiskivon þó mestar líkurnar séu við brúna. Komið hef ég að ánni þegar hægt var að skyggna þetta svæði vel og það var með ólíkindum hve víða fiskur lá undir steini.

27. Svartfoss

Þarna fossar áin fram af lágum klettum, rennur síðan um all djúpa rennu nokkuð langa en fletur sig síðan út yfir stóra breiðu. Hægt er að veiða beggja vegna frá. Ef ró er yfir virðist mér fiskurinn halda sig neðarlega í rennunni, þ .e.a.s. þeir sem þar eru, en ekki er síður von á fiski á breiðunni. Þar er bæði silungur og lax. Breiðan er kjörin fyrir fluguveiði. Þar eru djúpir pollar þar sem þeir stóru blunda og bíða tíma ástarleikja. Eitt sinn er við vorum þarna og búin að reyna margt án árangurs setti ég 8 p taum á og lítinn rauðan Frances. Það mátti þó alltaf reyna við silunginn. Við þriðja kast lyftist vatnið upp fyrir neðan fluguna og eins og rák eftir tundurskeyti mótaðist í vatnið að flugunni, síðan viðsnúningur og all varð kjurrt. Ain leið jafnlygn fram og áður. En nú var allt fast og taumurinn bara 8 p og flugan örsmá. Laxinn hafði örugglega komið upp úr eihverjum pollinum og var nú lagstur þangað aftur. Nú var spurningin um þolinmæði og lempni. Eftir drykklanga stund lyftist vatnið að nýju og eins og tundurskeyti æddi hann upp í rennu og alveg að fossinum. Hlaup og aftur hlaup því hann þaut niður á breiðu. Æ, æ bara að hann fari ekki niður fyrir brotið, þá er leikurinn tapaður. Nei hann sneri við og lagðist aftur eins og steinn. Upp að nýju, nýjar rokur og svo áfram. Eftir gott meira en klst. lá 19'/2 p lax á bakkanum. Í dag held ég að ég mundi sleppa slíkum fiski ef komið væri fram á sumar. Fiskurinn á það skilið eftir jafnfrábæran leik. En nú gleymdi ég mér. Ég ætlaði að minna á steinana neðst á breiðunni norðan megin, þar tekur oft fiskur.

Silungabreiða

Nokkru fyrir ofan Svartfoss er allstór breiða þar sem áin rennur upp að moldarbökkum. Þar má oft fá góðan silung og stöku sinnum líka lax.

28 Hamarsfljót

Hér er komið svo ofarlega í dalinn að áin er farin að draga til sín mun minna vatn. Eins og áður er getið er Laxá í Dölum einkennandi fyrir dragár og verður lítil í þurrkatíð en bólgnar upp á svipstundu þegar rignir hressilega. Fiskurinn kúrir gjarnan við steina neðarlega.

29 Helgabakki

Áin rennur upp að grasbala og grefur sig nokkuð niður við endann á honum. Það fer mikið eftir rennsli árinnar hvernig þessi staður er frá ári til árs. Hér er þörf á að fara með gát, fara ekki of nærri en nota heldur löng köst eða langt rennsli.

30 Helluhylur

Eftir að áin hefur safnað í sig súrefni við fallið í Sólheimafossi og fryss á flúðum niður ána fellur hún í rólegum boga að berginu í Helluhyl og lekur hægt út í hylinn sem oft er spegilsléttur því skjól er þarna gott. Á ýmsan hátt bera menn sig að hér við veiði. Sumir sitja á berginu og renna frá því. Aðrir vaða yfir ána og veiða þeim meigin frá. Hvor leiðin sem er valin er vissara að láta lítið fara fyrir sér. Mér hefur virst fiskur ekki síður vera úti í hylnum en við bergið.

Hyljir

Þegar gott vatn er í ánni leitar fiskur stundum úr fossinum í hyljina.

31 Sólheimafoss

Óhemjumagn af fiski getur safnast í fossinn og hyl hans. Ræður þar mestu að lengra kemst laxinn ekki og um alllangt skeið hefur laxaseiðum verið sleppt í vötnin fyrir ofan. Langflestir veiða fossinn norðan megin frá. Þá er gjarnan vaðið yfir ána vel fyrir ofan fossinn, gengið niður á sillu við hann og rennt þaðan. Ég verð að játa að það meitlaðist nokkuð fast í mig það sem gamall veiðimaður sagði við mig í árdaga: „Eyddu ekki miklum tíma við fossa, það borgar sig ekki.“ Hvort sem það eru þessi orð eða að staðurinn heillar mig ekki mikið til veiða þá höfum við ekki eytt miklum tíma við Sólheimafoss. Þá fiska sem ég hef fengið þar hef ég veitt þannig að ég fer við endann á klettunum og kasta flugu upp í hylinn. Það skal tekið fram að hér hefur margur veiðimaðurinn fengið góðan drátt.

Lýkur þar með lauslegri yfirferð um veiðistaði Laxár í Dölum.

Sjá allar lýsingar
Sjá allar lýsingar