Laxá Nesjum

Laxá í Nesjum
Viðmælendur: Ólafur Vilhjálmsson og Guðjón Pétur Jónsson
"Laxá í Nesjum er um það bil 10 km frá Höfn í Hornafirði. Veiðihús er ekki við ána, en Edduhótel stutt frá og einnig töluvert framboð af bændagistingu í nágrenninu. Aðeins eru leyfðar 2 stangir í ánni og eingöngu fluga sem agn. Þetta er síðsumarslaxveiðiá með sjóbirting í bland. Fyrstu laxarnir eru að ganga um mánaðamótin júní/júlí. Við viljum meina að Laxá í Nesjum sé góður valkostur fyrir veiðimenn. Þetta er dragá svipuð að vatnsmagni og margar Dalaárnar (Fáskrúð, Laxá í Dölum) þar af leiðandi viðkvæm fyrir úrkomu (úrkomuleysi). Veiðisvæðið er 6-7 km með 23 merktum veiðistöðum. Við höfum verið að gutla við að sleppa í hana gönguseiðum allar götur síðan 1992 og þá í gegnum Stangaveiðifélag Hornafjarðar. Ég segi gutla við vegna þess að það var ekki staðið markvisst að málum. Eitt árið kannski sleppt 2000 seiðum, annað árið kannski 4000 og engu árið eftir. Þannig var staðið að hlutunum í 8 ár. Þrátt fyrir það var hún að skila 30-60 löxum á ári og þó nokkru af sjóbirtingi, staðbundnum urriða og örfáum bleikjum. Stangaveiðifélagið sleppti engum seiðum 1998 enda félagsleg deyfð búin að heltaka félagið. Samt skilaði áin 30 löxum á land sumarið 1999. Það var svo á vordögum 1999 sem við komum saman nokkrir félagar til að ræða framtíð Laxár. Niðurstaðan var sú að við hefðum trú á ánni og værum tilbúnir að láta á það reyna hverju hún gæti skilað ef virkilega vel væri að málum staðið.


Við stofnuðum síðan hlutafélagið Laxanes ehf. og leigðum ána til 10 ára, Við fengum Þröst Elliða til liðs við okkur og slepptum 7000 seiðum vorið 1999 og 10.000 árið 2000. Við skulum vona að fall sé fararheill, því sumarið 2000 var eitt hið skelfilegasta veiðisumar á Hornafjarðarsvæðinu. Það kom varla dropi úr lofti í júlí, ágúst og fram undir miðjan september. Það hafði veruleg áhrif á aflabrögð og niðurstaðan var 41 lax eftir sumarið. Það var samt forvitnilegt að 2/3 af aflanum veiddust á flugu þó allt agn væri leyfilegt. Við tókum því þá ákvörðun að eingöngu yrði leyft að veiða á flugu sumarið 2001 til reynslu. Það hafa verið deildar meiningar um þessa ákvörðun.“
Náttúruleg laxá?
„Því er ekki auðsvarað. Heitir hún Laxá vegna þess að kynslóðirnar á undan okkur gerðu ekki greinarmun á laxi og sjóbirtingi? Það hefur alla tíð gengið eitthvað af laxi í ána og komið sjóbirtingsskot í hana, sérstaklega í vatnavöxtum eftir 20. ágúst. Ég held að flest árin misfarist klakið hjá laxinum vegna þess að í miklum vatnavöxtum fer botninn meira og minna á hreyfingu. Lax frekar en sjóbirtingur? Ástæðan er fyrst og fremst fjárhagsleg. Lengri veiðitími í laxinum og fyrr á sumrinu. Þó að við ætlum okkur ekki að græða á þessu brölti, heldur fyrst og fremst að skapa okkur veiði í heimabyggð á skaplegu verði verður dæmið samt að ganga upp fjárhagslega. Við veðjum frekar á laxinn í því sambandi. Hins vegar erum við búnir að setja af stað könnun á því hvort hægt sé að hressa sjóbirtinginn við og jafnvel að fá hann til að ganga eitthvað fyrr. Horfum við þá til efra svæðis Laxár og Hoffellsár en þær hafa sameiginlegan ós. Hoffellsá er svipuð að vatnsmagni og Laxá en með sendnari botn. Hver veit nema við látum laxinn víkja fyrir sjóbirtingnum í framtíðinni.“
Veiðistaðalýsing
Ármótahylur
Feiknastór og mikill hylur, 70—100 m langur. Þar mætast Laxá og Hoffellsá og sameinast seinna Hornafjarðarfljótum á leið sinni út Hornafjarðarós. Í þessum hyl gætir flóðs og fjöru í stórstreymi. Fiskurinn stoppar gjarnan í þessum hyl fyrst eftir að hann kemur úr sjó ef lítið vatn er í ánni. Á það jafnt við um lax og sjóbirting. En hann æðir strax upp ef breyting verður á. Laxinn tekur illa agn á þessum stað en öðru máli gegnir með sjóbirtinginn ef menn hitta á hann þarna.
Næsti gjöfuli staðurinn er Grútarhólsklöppin en þar á milli eru 3 merktir veiðistaðir sem geta geymt fisk í göngu.
Grútarhólsklöpp
Ekki stór veiðistaður, með stríðum streng efst, klappir og skorur í botninum. Fyrsti alvöru stoppistaðurinn í ánni, geymir alltaf fisk.
Borgarhylur
Margbrotinn veiðistaður, allt að 50 m langur. Byrjar í flúðum, síðan streng og rennu milli kletta og endar í mikilli og djúpri breiðu. Í góðu vatni getur verið fiskur nánast um allan hyl. En í litlu og normal vatni heldur hann sig gjarnan í klettarennunni.
Hlöðubreiða
Einn gjöfulasti veiðistaður árinnar. Feikna falleg flugubreiða með hægum straumi. Í normal vatni er aðal tökustaðurinn fyrir miðri breiðu, þar eru stórir steinar í botninum. Þarna er alltaf fiskur ef hann á annað borð er í ánni. Á þessum stað hafa mörg ævintýri gerst gegnum árin, bæði í sjóbirtingi og laxi.

Akurneshylur
Mjög breytilegur hylur milli ára vegna malarframburðar á veturna. Oft mjög góður veiðistaður og hefur ósjaldan gefið fyrstu fiska sumarsins. Þarna var á árum áður oft dregið á fyrir sjóbirting meðan hann var og hét. Bæði voru menn að draga á sér til matar og einnig í klak sem stundað var í Hoffellsá.
Mótorhylur
Þessi staður lætur lítið yfir sér og dregur nafn sitt af gamalli bílvél sem er úti í miðjum hyl. Er aðaltökustaðurinn rétt fyrir neðan mótorinn og hefur reynst margri flugunni skeinuhættur. Þó staðurinn láti lítið yfir sér er hann ótrúlega sterkur í veiði.
Gljúfrin
Veiðisvæði árinnar endar í 2-300 m löngu gljúfri sem í eru fjórir merktir veiðistaðir; Gljúfrahylur, Rennur, Stikuhylur og Rimalækjarhylur. Það má segja að gljúfrið sé einn samfelldur veiðistaður, vegna þess að þar er mjög stutt á milli hinna fjölbreyttustu veiðistaða. Fiskgengur foss í góðu vatni, flúðir, stríðir strengir, ker, klettarennur og djúpir lygnir hyljir eru í gljúfrunum. Ásamt með Hlöðubreiðunni eru þetta gjöfulustu veiðistaðir árinnar.
