Laxá á Ásum

Laxá á Ásum
Eftir Odd Hjaltason
Myndir Sigurjón Ragnarsson, Matt Harris o.fl.
Laxá á Ásum hefur verið ein af bestu veiðiám landsins allt frá landnámi Þorbjörns kolku (kólku) á Kolkumýrum (Kólkumýrum) fram til dagsins í dag. Kolkumýrar kalla menn syðri hluta Kúluheiðar og Kolkuhól. Hvoru tveggja er dregið af viðurnefni Þorbjarnar. Laxá dregur nafn sitt af sveitinni sem hún rennur um, sem nú kallast Ásar en var til forna hluti af Kolkumýrum (eða Kolgumýrum) þar sem Þorbjörn kolka nam land og bjó þar meðan hann lifði.

Máni hinn kristni bjó að Holti við Laxá á Ásum og eru þrír veiðistaðir nefndir í höfuðið á honum: Mánafossstrengur, Mánafoss og Mánaskál. Máni reisti kirkju að Holti þar sem hann þjónaði Guði með helgum bænum og ölmusugjöfum til fátækra. Máni hafði næga veiði í hylnum en gaf hann að lokum undir kirkjuna í Holti. Netaveiði var stunduð í Laxá rétt eftir landnám og fram til ársins 1941 en þá var áin fyrst leigð út til stangaveiði. Stofnfundur Veiði- og fiskiræktarfélags Laxár á Ásum var haldinn á Hjaltabakka 12. september 1935 og fyrstu stjórn félagsins skipuðu Þórarinn Jónsson formaður, alþingismaður og hreppsstjóri frá Hjaltabakka ásamt meðstjórnendunum Guðmundi Guðmundssyni bónda í Holti og Jóni Benediktssyni bónda á Húnsstöðum. Tilgangur félagsins var að stuðla að auknum göngum laxa með friðun og ræktun. Fiskirækt var þó aldrei stunduð í Laxá og síðustu áratugina er stefna félagsins óbreytt um að Laxá sé sjálfbær.
Í upphafi voru 3 eða 4 stangir nýttar til stangaveiða. Dræma veiði á þeim tíma má aðallega rekja til reksturs Laxárvatnsvirkjunar að því leyti að ekki var staðið við ákvæði samninga um lágmarks vatnsrennsli í efri hluta árinnar og þess að smíði laxastiga við Laxárvatn mistókst í byrjun. Í þurrkasumrum var áin oft vatnslítil frá rafveituskurði og upp að stíflu við Laxárvatn, þar sem Laxárvatnsvirkjun nýtti a.m.k. 2/3 hluta af vatninu úr Laxá til rafmagnsframleiðslu. Árið 1946 ákvað veiðifélagið að grípa til friðunaraðgerða. Þær byggðust á að fækka stöngum úr fjórum í tvær, veiða 5 daga vikunnar og leyfa enga veiði í Langhyl eftir 20. ágúst. Frá þeim tíma jókst veiðin hægt g sígandi og árið 1966 fór áin í fyrsta skipti yfir 1000 laxa á ári.
Næstu þrjá áratugina var undantekning ef veiðitalan fór niður fyrir 1000 laxa á ári og hæst var hún árið 1975, eða 1881 lax. Laxá á Ásum hefur í ómunatíð borið höfuð og herðar yfir aðrar sjálfbærar laxveiðiár á Íslandi, þó að tíu ára niðursveifla hafi sett mark sitt á aflatölur rétt eftir síðustu aldamót. Áin er fræg fyrir mikla dagsveiði á stöng, tökugleði, sterkan og náttúrulegan laxastofn. Laxá hefur verið sjálfbær frá landnámi og er ein af fáum íslenskum laxveiðiám sem hafa ekki orðið fyrir mannrænum áhrifum hvað varðar seiðasleppingar eða hrognagröft. Meðalveiði áranna 1974 til 2018 er um 1000 laxar. Laxá er að ná fyrri hæðum eftir tveggja áratuga niðursveiflu og síðustu sex árin er árleg meðalveiði um 1100 laxar. Í júní árið 2016 gaf Orkustofnun formlegt leyfi til að leggja niður Laxárvatnsvirkjun og unnið er að úreldingu hennar. Raforkuframleiðslu var hætt árið 2014 og árið 2015 var komið fullt rennsli á efri hluta Laxár. Vatnsrennsli þrefaldaðist í efri hluta Laxár á 6,5 km löngum kafla eftir að virkjunin var lögð niður. Aukið vatnsmagn á þessum kafla varð til þess að veiði jókst í efri hluta árinnar, nýir veiðistaðir litu dagsins ljós og búsvæði seiða urðu mun betri.
Áin gengur ekki lengur niður í grjót á kaflanum ofan við rafveituskurð, jafnvel þegar slæm þurrkasumur ganga í garð og má þar einnig þakka náttúrulegri miðlun Svínavatns í Fremri Laxá og Laxárvatns í Laxá á Ásum. Núverandi stjórn félagsins taldi að breyttar aðstæður kölluðu á nýtt fyrirkomulag og félagsfundur samþykkti tillögu um að fjölga stöngum úr tveimur í fjórar, eins og var í upphafi eftir stofnun veiðifélagsins, ásamt því að byggja nýtt veiðihús sem fékk nafnið Ásgarður. Reynsla af þessari breytingu er góð og að sögn Sturlu Birgissonar rekstraraðila er hending ef veiðimenn komast yfir allt veiðisvæðið á einum degi.
Fiskifræðingarnir Jón Kristjánsson og Tumi Tómasson hafa rannsakað Laxá í áratugi og eru á einu máli um að úrelding Laxárvatnsvirkjunar sé veruleg bót fyrir Laxá. Jón Kristjánsson hefur séð um mælingar á seiðamagni og ráðgjöf fyrir veiðifélagið síðustu árin. Góð veiði í Laxá á Ásum skýrist m.a. af því að mikill hluti niðurgönguseiða í neðri hluta árinnar fer út í sjó þegar seiðin eru tveggja ára, ásamt því að umhverfis- og uppeldisskilyrði eru afar góð í ánni, einkum í efri hluta hennar. Eftir breytingar félagsins á veiðiaðferðum og úreldingu Laxárvatnsvirkjunar hefur seiðafjöldi aukist með hverju ári og var t.d. mun meira af seiðum í öllum stærðarflokkum árið 2016 en árin þar á undan. Eitt af því sem gerir Laxá á Ásum að einni skemmtilegustu veiðiá landsins eru yfirgengileg tökugleði laxa, sterkur og ómengaður laxastofn, margir og fjölbreytilegir veiðistaðir og fallegt umhverfi.
Ásgarður
Nýtt veiðihús við Laxá á Ásum minnir einna helst á lítið sveitasetur og er staðsett Blönduósmegin fyrir miðri ánni. Í aðalbyggingunni eru sex gistirými með baðherbergjum, fjögur rúmgóð tveggja manna herbergi og tvær tveggja manna svítur, rúmgóð setustofa, borðstofa og vöðlugeymsla. Fyrir þá sem vilja slaka á eftir góðan veiðidag er ágætis saunaklefi. Húsin eru byggð í ósnortnu umhverfi og í næsta nágrenni eru tveir af betri veiðistöðum Laxár: Krókhylur („Homepool“) rétt neðan við Ásgarð og Sauðaneskvörn er í göngufæri. Fyrri áfangi Ásgarðs var reistur árin 2011 og 2012. Árin 2016-2017 var húsið stækkað og sérstök bygging reist fyrir starfsfólk.

Sturla Birgisson og stjórn Veiðifélags Laxár á Ásum hafa sett háleitt markmið um að aðstaða og fæði fyrir veiðimenn sé á við 5* hótel, enda sæmir það veiðimönnum sem veiða í 5* veiðiá. Frá 2017 hafa hjónin Sturla Birgisson meistarakokkur og Freyja Kjartansdóttir yfirþjónn séð um rekstur árinnar og þjónustu við veiðimenn. Sturla er vel þekktur sem veiðimaður, leiðsögumaður og ekki síst fyrir afburða matargerð. Hann hefur í mörg ár séð um leiðsögn fyrir Eric Clapton, einn þekktasta tónlistarmann síðustu aldar.
Veiðistaðalýsing
Laxá á Ásum er rúmlega 14 km löng bergvatnsá sem rennur úr Laxárvatni í Húnavatn og þaðan í Hólmakvísl sem er neðsti hluti af ósasvæði Laxár og Vatnsdalsár. Ósasvæðið er 3 km langt svæði, þannig að heildarveiðisvæði Laxár er um 17 km langt. Veiðistaðir dreifast nokkuð jafnt upp með allri ánni og er bílfært að þeim flestum. Í ánni eru 74 virkir veiðistaðir og að auki níu veiðistaðir á ósasvæði hennar, bæði í Húnavatni og Hólmakvísl. Veiði var lítið stunduð á neðsta svæði árinnar fyrir neðan Klapparstreng þegar veitt var á tvær stangir, enda er ógerlegt að komast yfir alla ána á einum degi. Í laxagöngum og seinni hluta sumars er hægt að gera góða veiði neðst í ánni, einkum í Húnstaðahorni, Kóka, Húnastrengjum og Breiðavaði. Til einföldunar fyrir lesandann kalla ég norðurbakka árinnar þann bakka sem er Blönduósmegin við Laxá og suðurbakka þann sem er Reykjavíkurmegin.
Sumir veiðistaðir eru vel varðir fyrir veðri og vindum. Má þar helst nefna Langhyl, Tuma, Nautafljót, Sauðaneskvörn, Krókhyl, Móhyl og Fluguhyl. Í norðanátt getur verið töluverður vindur við neðri hluta árinnar en þegar komið er í Nautafljót dregur oft verulega úr vindi. Langhylur er vel varinn fyrir norðanátt, bæði þar sem hann er í smá lægð og einnig fer vindurinn í háloftum yfir hylnum. Ráðlagt er að nota litlar dökkar flugur, hitch, grannar línur og langan taum þegar lítil s gára er á yfirborði þessara veiðistaða og mikil birta.
Flugur
Smáar flugur henta vel í lygnum hyljum, logni eða smá gjólu. Dökkar flugur, tvíkrækjur 12-14 eða þríkrækjur 14-18 hafa reynst vel í Laxá, t.d. Evening Black Brahan og svartur og rauður Frances. Aðrar flugur sem vert er að nefna eru White Wing, Undertaker, Night Hawk og Silver Wilkinsson. Blue Charm, ein af betri flugum í Laxá, er sterk fyrri part sumars og í björtu verðri, en Hairy Mary Brown kemur sterkari inn í dumbungi og þegar líða fer að hausti. Þá má ekki gleyma Black and Blue sem virkar vel einkum í ljósaskiptum og snemma að morgni. White Wing er vanmetin fluga í Laxá. Oft má veiða vel með White Wing og ef hún er ekki með í farteskinu má einnig nota FFF (Fjallfríðu Fjólu), sem er svartur Frances með hvítum væng. Black Eyed Prawn, forveri rauðs Frances, hefur einnig skilað góðri veiði í Laxá.
Stærri flugur og litlar túpur gefa vel í strengjum og þegar sterkur vindur gárar yfirborð vatnsins, t.d. í Langhyl og Nautafljóti. Á flestum stöðum er áin það grunn að best er að nota flottúpur og þar fer Sunray Shadow fremst í flokki. Bismó með bláum og svörtum væng er einnig góð og hefur gefið bestu silungsveiðina á ósasvæðinu. Litlar hitch túpur eru bestar þar sem saman fer hægur strengur og lygn hylur þar fyrir neðan, t.d. í Krókhyl. Fyrir rúmum tveimur áratugum hringdi Pétur Pétursson fyrir franskan blaðamann sem eingöngu veiðir á eigin flugur og vantaði leiðsögn í Laxá á Ásum. Ég ákvað að slá til og mér til ,,huggunar“ taldi Pétur líklegt að hann kæmi sjálfur seinni daginn og leysti mig af. Ég hitti blaðamanninn í hádegismat á Hótel Blönduósi rétt áður en veiðin hófst. Ég settist niður hjá honum og við fengum okkur kaffi. Ekki byrjaði samtalið vel, þar sem hann kunni varla stakt orð í ensku. Þá reyndi ég að tala við hann á þýsku án árangurs. Samtölin fóru því fram á ensku með tilheyrandi handapati.
Fram eftir sumri er efri hluti Laxár betri seinni part dags en að morgni er neðri hluti árinnar betri, ekki síst þegar miklar laxagöngur eru í ánni. Fyrsti stoppistaður með hinum franska var því Sauðaneskvörnin. Þegar þangað var komið eftir tíu mínútna göngu settist sá franski niður lafmóður, rétti fram stórt flugubox og bað mig um að velja flugu. Þegar ég opnaði boxið var mér illa brugðið og við lá að kalla þyrfti eftir áfallahjálp. Sýnin sem blasti við var ótrúleg. Appelsínugullitaðar, rauðar og gular sjóbirtingsflugur, flestar stórar straumflugur, en fáar minni en nr. 4 og hnýttar af honum. Nú voru góð ráð dýr.
Ég sagði honum, á mjög kurteislegan hátt, að þessar flugur væru of stórar og spurði hvort hann ætti ekki til minni flugur. Hann horfði á mig með skelfingu, tók fluguboxið af mér og valdi flugu. Þegar ég var að hnýta fluguna á tauminn sá ég að flugulínan, líklega gerð úr kattagörnum, var 30-40 ára gömul rétt eins og bambusstöngin. Töluvert líf var í Sauðaneskvörn þegar við komum að ánni. Eftir fyrstu köstin var eins og skrúfað væri fyrir útvarpið og líklega hafa laxarnir allir lagst á árbotninn furðu lostnir þegar þeir sáu fyrstu bredduna sigla í yfirborðinu eins og freygátu í ólgusjó. Karlinn skipti svo um flugu og ég lá á árbakkanum meðan hann kastaði, hugsaði um orð Péturs og velti fyrir mér hvernig hægt væri að fá hann til að nota aðrar flugur.

Eftir stanslausa árás veiðimannsins á hylinn gekk ég til hans með fluguboxið mitt, sýndi honum flugurnar mínar, brosti til hans og sagði ,,my Fly“, enda haldinn að hluta sömu kenjum um að veiða helst á eigin flugur. Eftir miklar fortölur og handapat tókst að fá hann til að velja flugu. Hann valdi Brynhildi tvíkrækju nr. 10 og byrjaði að kasta. Lífvana hylurinn fór allur á ið en ekki tók laxinn. Þá setti ég minni flugu á nr. 12 og eftir þrjú köst var fyrsti laxinn á og þegar hann landaði loks sjö punda hrygnu ætlaði ég að sleppa henni. Þá setti hann puttann að hálsinum og dró þvert yfir og hrópaði „kill, kill“. Ég tók sérstaklega eftir því að það færðist ekki einu sinni bros yfir veðurbarið andlitið, þrátt fyrir að hann væri búinn að landa fyrsta laxinum. Hann kastar aftur og í fyrsta kasti tekur sex punda hrygna fluguna. Sama sagan endurtók sig en nú sagði hann með hægum og skipandi tón: ,,KILL“.
Þegar við vorum búnir að landa öðrum laxinum og ganga frá honum tekur hann fluguna, ber hana við himininn, horfir á hana og klippir hana af með vanþóknunarsvip, sagði "puff“ með áherslu og stakk flugunni í brjóstvasann. Hann setti þá eigin flugu á, appelsínugula straumflugu nr. 4. Sama sagan endurtók sig og Sauðaneskvörnin virtist vera laxlaus. Ég lagðist á árbakkann og eftir smá stund fékk ég hann til að skipta um stað. Ég ætlaði að ganga upp eftir ánni með karlinn en þegar hann sá að við þurftum að ganga, hristi hann hausinn og benti á bílinn. Ég skildi sneiðina. Við gengum niður að bílnum og ég keyrði hann í niðuránna. Það var um klukkutími eftir af veiðitímanum þegar við komum að ónefndum hyl neðan við Ullarstreng. Ég bað hann um að sýna mér flugurnar sínar og þá færðist bros yfir veðurbarið andlitið. Eftir mikla leit fannst minnsta flugan, líklega sú eina sem ekki var appelsínugul, rauð eða gul. Þetta var straumfluga nr. 6, bláleit og svört. Hann kastar á hylinn og ég labbaði upp í bíl til að seðja hungrið, enda vonlaus um að hann myndi veiða á þessa flugu. Þegar ég kem aftur er karlinn með kengbogna stöngina og brosir út í eitt. Eftir tíu mínútur var búið að landa sex punda hæng. Þegar ég var búinn að losa laxinn af og drepa gengur hann til mín, treður flugunni upp að trýninu á mér og segir skælbrosandi ,,My fly, my fly“ og veiðitúrinn var fullkomnaður ef dæma mátti af brosinu sem virtist aldrei ætla af barnslega veðurbarna andlitinu.
Slóðar og aðkoma að ánni
Tveir slóðar liggja með Laxá frá þjóðvegi 1, niður neðsta hluta árinnar. Slóðinn sunnanmegin, í landi Húnstaða, liggur að Dulsum, Brúarstreng og Klapparkvörn. Slóðinn norðan megin við ána nær frá þjóðveginum niður að gamalli nýrækt á móts við Húnastrengi en þar skiptist hann í tvo slóða. Slóðinn til hægri liggur niður að ósasvæði árinnar en sá til vinstri liggur niður að Húnstaðahorni og þaðan eru Hjaltabakki og Kóki í göngufæri. Frá Húnstaðahorni er hægt að aka slóðann sem liggur upp með árbakkanum að Húnastrengjum og Breiðavaði.
Best er að veiða ána norðanmegin neðan við þjóðveginn, fyrir utan Klapparstreng og Kóka, þó að hægt sé að veiða þá frá báðum bökkum. Við báða staðina er auðvelt að fæla laxa ef veitt er norðanmegin árinnar. Bílnum er lagt norðanmegin við Stekkjarstreng og þegar veiði er lokið þar er gjarnan gengið niður í Dulsa. Að veiði lokinni í Dulsum geta röskir menn vaðið yfir ána fyrir neðan Neðri Dulsa og gengið niður í Klapparstreng en einnig er hægt að aka niður slóðann að sunnanverðu í landi Húnstaða.
Norðan við brúna á þjóðvegi 1 liggur slóði meðfram ánni alla leið upp að Ásgarði. Einnig er hægt að keyra inn á slóðann sem liggur frá þjóðvegi 1 við Hjaltabakka að brúnni yfir Laxá við Laxholtsbreiðu. Allir veiðistaðir á þessu svæði eru veiddir norðanmegin við ána, upp að Krókhyl. Enginn slóði liggur með ánni frá Krókhyl og upp að rafveituskurði. Krókhylur, Sauðaneskvörn og staðirnir milli þeirra eru veiddir frá suðurbakkanum.
Til að komast á efra svæðið er ekið frá Ásgarði suður Svínvetningabraut og beygt inn á afleggjarann sem liggur að rafstöðinni. Þar er ekið yfir steypta brú sem er áföst við rafstöðina og síðan er ekið niður með skurðinum. Eftir örstuttan spöl er komið að vegamótum. Slóðinn sem liggur niður með skurðinum liggur að Ausuhvammi en sá sem beygir til vinstri liggur frá Mánafossi upp að bílastæðinu neðst við Langhyl. Áform eru um að leggja nýjan slóða meðfram Langhyl og tengja saman vegslóðann sem liggur upp að stíflunni við útfall Laxár úr Laxárvatni. Til að komast á slóðann sem liggur að stíflunni í Laxárvatni er ekið upp að Sauðanesi, beygt til hægri inn á slóðann á milli íbúðarhússins og útihúsanna. Eftir smá spöl er komið að öðrum gatnamótum. Slóðinn til vinstri liggur upp að Langhyl og stíflunni en slóðinn til hægri liggur að rafstöðinni.
Ósasvæði Laxár
Neðsta svæðið er sameiginlegt ósasvæði Laxár á Ásum og Vatnsdalsár. Austurbakkinn tilheyrir veiðisvæði Laxár en vesturbakkinn Vatnsdalsá. Á vorin, fram í byrjun júlí, er svæðið nýtt sem silungasvæði en í byrjun júlí sameinast það laxasvæði Laxár. Helsta laxavonin er efst á veiðistað nr. 6 sem heitir Grandi, eftir sandeyrunum við austurbakkann. Það er mikið sjónarspil að horfa á göngulaxa við Granda. Þeir stoppa þar oft í dágóða stund, yfirleitt 2-3 tímum eftir stórstraum, meðan þeir eru að átta sig á strengnum sem er að myndast í Húnavatni ofan við Granda. Einnig synda þeir í lygnunni austanmegin við Granda. Veiði á sjóbleikju og sjóbirtingi er mest frá Granda niður í sjó. Rétt ofan við Granda móti Hjaltabakkahólma er malarkambur sem sést móta fyrir rétt fyrir fjöru. Sjóbleikja leitar töluvert í mölina, enda þar mikið af marflóm. Töluverð möl er einnig meðfram Granda og í Malareyri er langur malarkambur sem liggur niður miðja ána. Grandi og Malareyri eru almennt bestu veiðistaðirnir á ósasvæðinu en oft má gera góða veiði frá Malareyri niður í Húnaós.
10. Hjaltabakki
Hjaltabakki er neðsti veiðistaðurinn á laxasvæði árinnar, rétt neðan við Húnstaðahorn. Þetta er nýr veiðistaður undir háa bakkanum sem liggur að Blönduósi. Allt fram til ársins 2011 var bannað að veiða neðan við Húnstaðahorn og niður í Húnaós. Veiðimenn urðu fyrst varir við lax þarna haustið 2015. Þá veiddust tæpir 100 laxar en lítil veiði var árin 2016 til 2018. Hjaltabakki er veiddur frá suðurbakkanum. Rétt er að byrja efst í strengnum og veiða alveg niður að útfalli þriggja kvísla úr hylnum. Lax getur legið um allan hylinn en helsti tökustaðurinn er í neðri hluta hylsins út frá norðurbakkanum, frá grastorfunni við norðurbakkann þar sem áin byrjar að breiða úr sér.
11. Húnstaðahorn
Ofan við Hjaltabakka er Húnstaðahorn sem má þekkja af stórum steini í ánni móts við suðurbakkann. Hægt er að aka niður að hylnum á slóða og þaðan í Húnastrengi og Breiðavað. Nauðsynlegt er að vera á jeppa þegar ekið er að Húnastrengjum og Breiðavaði. Veiðivon neðan við þjóðveg er mest á morgnana og í göngum 2-4 tímum eftir útfallið úr Húnavatni, fram eftir miðju sumri. Lax liggur mest neðan við stóra steininn í strengnum en getur legið alla leið niður að brotinu við útfallið úr hylnum.

12. Kóki
Kóki er rúmlega hundrað metrum ofan við Húnstaðahorn. Göngulax stoppar þarna dágóða stund, oft fram undir hádegi. Gengið er yfir á suðurbakka árinnar og síðan efst á hólmann sem er landmegin við suðurbakkann. Flugunni er kastað efst í strenginn, þétt að norðurbakkanum, og alla leið niður fyrir lænuna sem aðskilur tvo hólma við norðurbakkann. Lax getur tekið fluguna í öllum strengnum en mesta veiðivonin er á móts við lygnuna norðanmegin í strengnum þar sem grasbakkinn endar.
13. Húnastrengir
Frá Kóka er ekið að Húnastrengjum. Þrír staðir eru merktir á veiðikortum og eru tveir efstu virkir í dag. Efsta staðinn má veiða frá báðum bökkum en löndunaraðstaða er betri á eyrunum við suðurbakkann. Laxar liggja í miðjum strengnum. Neðri veiðistaðurinn er sunnanmegin við hólmann sem sést á miðri myndinni. Þar er hraður og djúpur hylur og laxar liggja rétt neðan við stóra steininn sem er þar í kafi. Góðir staðir fyrir hitch- og flottúpur.
14. Breiðavað
Frá Húnastrengjum er keyrt upp að Breiðavaði en slóðinn endar rétt neðan við Breiðavað. Neðst í Breiðavaði er grjótgarður sem var settur neðst í norðurkvíslina þar sem hólminn milli Gilfljóts og Breiðavaðs endar. Flestir veiða hylinn frá norðurbakkanum, standa ofan við hann og kasta niður að grjótgarðinum. Legustaður laxanna er fyrir miðjum hyl, rétt ofan við grjótgarðinn. Einnig er hægt að veiða staðinn frá suðurbakkanum eða standa neðan við grjótgarðinn og kasta uppstreymis.
15. Gilfljót
Fyrir rúmum tveimur áratugum ákvað veiðifélagið, eftir ráðleggingu fiskifræðinga en án samþykkis landeiganda, að gera Gilfljót að betri veiðistað. Steingarður var settur efst í norðurkvíslina til að hækka yfirborð vatnsins. Eftir nokkur ár lækkaði vatnsyfirborðið og rennsli í suðurkvíslinni hvarf að miklu leyti. Þessi aðgerð gerði Gilfljót að verri veiðistað en göngufiskur stoppar þarna enn og veiðimaður ætti alls ekki að sleppa því að kanna staðinn í morgunsárið fyrri hluta sumars.
16. Klapparstrengur
Klapparstrengur var stundum nefndur Klettastrengur. Hann fellur meðfram klettanefi rétt áður en áin beygir til vesturs. Klapparstrengur liggur milli tveggja stórra steina. Best er að vaða ofan við steininn í miðri ánni, kasta vel á lygnuna og veiða allan strenginn niður í taglið. Lax liggur mest norðanmegin í skilunum milli strengsins og lygnunnar meðfram klettanefinu en einnig getur hann legið báðum megin í strengnum frá efsta hluta hans og niður fyrir klapparnefið. Klapparstrengur er afar skemmtilegur til fluguveiða og má veiða hann af báðum bökkum árinnar en betra er að veiða hann frá suðurbakkanum og minni hætta er að aðrir laxar fælist við löndun. Klapparstrengur er hrygningarstaður og er inni allt veiðitímabilið en mesta veiðin er frá opnun fram til loka júlímánaðar, aðallega þó að morgni og í laxagöngum.

Rétt ofan við Klapparstreng meðfram klettunum er nafnlaus veiðistaður, strengur sem liggur nær norðurbakka árinnar. Nafnið Klettastrengur fer vel við þennan veiðistað. Í góðum göngum fram eftir sumri er yfirleitt lax í strengnum, einkum fyrir hádegi. Þeir sem vilja veiða þennan streng, ættu að gera það áður en Klapparstrengur er veiddur, þannig að laxinn í strengnum fælist ekki. Lax getur legið ofarlega og rétt niður fyrir miðjan streng. Á báðum stöðum er botninn sleipur og vel grýttur. Mælt er með að nota göngustaf þegar Klapparstrengur og Klettastrengur eru veiddir, sérstaklega þegar mikið slý er í ánni.
17. Brúarstrengur
Brúarstrengur var þekktur veiðistaður þar til brúin á gamla þjóðveginum var rifin. Laxinn lá í strengnum við suðurbakkann, þá gjarnan í skugga sem myndaðist frá brúnni. Auðvelt var að skyggna þennan stað af brúnni og ef lax lá undir henni var það gjarnan merki um góðar göngur í ánni. Veiðin hefur horfið að mestu leyti úr Brúarstreng, líklega vegna þess að skuggann ber ekki lengur af brúnni og erfitt er að veiða þennan stað á flugu. Rétt ofan við Brúarstreng er nafnlaus strengur við suðurbakkann, þar sem laxinn stoppar stundum áður en hann gengur upp í Dulsa, einkum í miklu vatni. Veiði í þessum streng er skráð á Brúarstreng eða Dulsa.
18.-19. Dulsar
Dulsar er einn af þremur fossum árinnar, fornfrægur fyrir netaveiðar og almennt skemmtilegur veiðistaður. Hann var einn besti veiðistaðurinn í ánni áður en maðkaveiði var bönnuð. Hér er aðalstoppistaður göngulaxa í Laxá. Ævintýrin gerast enn í Dulsum allt veiðitímabilið en smám saman dregur úr veiðinni þegar laxagöngur hætta. Þegar dregur nær hausti birtast laxar aftur í Dulsum. Dulsar skiptast í þrjá veiðistaði. Efsta veiðistaðinn, Efri-Dulsa er hægt að veiða frá báðum bökkum eða norðanmegin frá fossbrúninni. Stór og djúp hola liggur frá suðurbakkanum út í miðja á en þar safnast laxatorfur fyrir áður en laxinn gengur smám saman upp í Stekkjarstreng. Nauðsynlegt er að nota sökklínu og túpur, jafnvel vel þyngdar, vegna iðunar í holunni. Þegar maðkaveiði var leyfð í Laxá fóru menn til veiða eldsnemma að morgni og veiddu mest í holunni fram undir hádegi. Þar verður oft mikið sjónarspil þegar laxar reyna að stökkva upp fossinn til að koma sér fyrir í Stekkjarstreng, sem er næsti veiðistaður fyrir ofan Dusla.

Mið-Dulsar er stríður strengur í miðri ánni og rennur úr Efri-Dulsum. Laxinn stoppar í lítilli holu neðst í strengnum. Hér má ná í 1-2 laxa snemma að morgni. Best er að veiða staðinn frá norðurbakkanum. Lax sýnir sig fljótlega ef veiðimaður skautar yfir staðinn með Sunray Shadow eða hitch. Neðsti staðurinn heitir Neðri-Dulsar. Lax getur legið í öllum hylnum en í göngum veiðist gjarnan mest í strengnum við norðurbakkann og niður alla skálina. Laxar stoppa þó oft neðst í skálinni.
Í eðlilegu vatni stoppar lax mest í Efri- Dulsum en í miklu vatni liggur hann oft í Neðri- Dulsum, ofarlega í strengnum við norðurbakkann og í skálinni við útfallið. Veiðivon er mest í Dulsum frá kl. 7 til 10, aðallega að morgni til og einnig á kvöldin. Göngulaxar virðast byrja að safnast fyrir seinni hluta dags og fram til morguns. Reynslan sýnir að þeir halda kyrru fyrir og engin hreyfing sést á laxi fyrr en rétt eftir kl. 7 að morgni.
20. Stekkjarstrengur
Stekkjarstrengur er rétt ofan við Dulsa undir brúnni við þjóðveg 1. Stekkjarstrengur er nefndur eftir gömlum tóftum sem veiðimenn héldu að væru leifar af gömlum fjárstekk. Fróðir menn telja þó að líklega sé hér um að ræða rústir af gömlu mjólkurbúi sem var lagt af rétt eftir 1900. Stekkjarstrengur heldur laxi allt veiðitímabilið. Í göngum liggur hann ofarlega og sunnanmegin við strenginn móts við sefið en þegar líða tekur á sumar og fram á haust getur hann legið fyrir miðju þar sem áin breiðir úr sér og niður á brotið. Síðustu ár hefur veiði verið góð allt frá byrjun veiðitíma og fram á haust.
21. Bakkastrengur
Bakkastrengur er hinum megin við brúna, ofan við Stekkjarstreng. Lax liggur í strengnum út frá girðingarhorninu á norðurbakkanum. Rétt er að skoða þennan stað þegar veiði er lokið í Stekkjarstreng. Þarna er lax meginhluta veiðitímans og nauðsynlegt er að fara varlega að staðnum. Flestir veiða norðanmegin af grasbakkanum en betra er að vaða yfir ána og veiða staðinn frá suðurbakkanum. Annar strengur, nafnlaus, er rúmum 100 metrum ofan við Bakkastreng. Þar er landfastur hólmi og lítil kvísl sem getur verið þurr en aðskilur hólmann frá norðurbakkanum. Göngufiskur stoppar þarna stundum og ekki sakar að taka eina umferð með flugunni og byrja veiðar í strengnum rétt ofan við hólmann.
22. Ullarstrengir
Ullarstrengir byrja strax neðan við Ullarfoss og skiptast í tvo veiðistaði. Strengirnir neðan við Ullarfoss halda stundum göngufiski en neðst, þar sem áin rennur út úr gilinu og breiðir úr sér, er aðalveiðistaðurinn sem heldur laxi allan veiðitímann . Efst er vík við norðurbakkann og við efri hluta hennar fellur áin fram af smá klöpp og myndar tvo meginstrengi þar sem áin þrengist. Göngulax liggur jafnan ofarlega í strengnum við norðurbakkann og niður undir hann miðjan. Stóru strákarnir liggja þó oftar í rólegu vatni við sefið út frá suðurbakkanum en staðbundinn lax getur legið um allan hylinn. Best er að vaða aðeins út í víkina ofan við veiðistaðinn, veiða báða strengina og fikra sig síðan niður á brotið sem er neðst í víkinni. Frábær staður fyrir hitch og stripp með smáum flugum en í efsta hluta norðurstrengsins reynist betur að nota stærri flugu og sökkva henni.
23. Ullarfoss
Áin skellur fram af fossbrúninni í tveimur stríðum strengjum sem renna saman við útfallið úr hylnum í þröngum skorningi. Strengurinn við norðurbakkann heldur fremur laxi en sá syðri og lax liggur jafnan sunnanmegin í honum frá miðju að útfallinu en þar geta laxar einnig legið upp við norðurbakkann. Strengurinn er stuttur og til að fá betri tökur er best að kasta flugunni út í lygnuna milli strengjanna, sökkva henni og draga hana um strenginn og að landi. Göngulax stoppar þarna oft dágóða stund en þegar líður að hausti er laxavon minni.
24. Ullarfossbrún
Rétt ofan við fossbrúnina norðanmegin við miðju er djúp og stór hola. Göngulaxar liggja í útfalli holunnar, einkum að morgni. Einstaka lax veiðist þó í holunni þegar líður á sumarið og á haustin þegar laxar eru í leit að hrygningarsvæðum.

25. Ullarhorn
Efst í Ullarhorni er klöpp sem þrengir að ánni og rennur í stríðum streng meðfram suðurbakkanum þar til áin byrjar að breikka. Við klapparhaftið, þar sem strengurinn byrjar, er dýpi og lygnara vatn finnst meðfram klöppinni. Göngulax og stóru strákarnir liggja oft þarna. Megintökustaðurinn er í strengnum, mest þó í holunni fyrir honum miðjum. Flugur nr. 8-10 eða litlar túpur reynast vel og gott er að leyfa flugunni að sökkva áður en hún er dregin um strenginn.
26. Ullarbreiða
Ullarbreiða liggur í smá beygju rétt ofan við Ullarhorn. Sunnanmegin meðfram grasi grónum bakka rennur hægur strengur sem heldur laxi, einkum þegar mikið vatn er í ánni. Mesta veiðivonin er í beygjunni nálægt suðurbakkanum. Hægur straumur rennur meðfram bakkanum og meiri hraði í miðri ánni gerir það að verkum að betra er að kasta skáhallt að bakkanum til að hægja á flugunni.
28. Fluguhylur
Fluguhylur er án efa einn skemmtilegasti fluguveiðistaðurinn í Laxá. Að sunnanverðu er grasi gróinn bakki sem endar við skálina með móbakkanum í kverkinni þar sem áin beygir til vesturs. Við norðurbakkann er keyrt fram af háum bakka og bílnum lagt á melnum þar sem hann endar. Neðan við bílastæðið er hár bakki sem lækkar þegar neðar dregur. Veiðimaður gengur út á malareyrar við norðurbakkann og hæfilegt er að byrja köstin ofarlega þar sem hylurinn byrjar að myndast. Lax getur legið meðfram öllum suðurbakkanum en mesta veiðivonin er frá miðju hyls og niður í beygjuna. Í miklu vatni liggur lax stundum ofarlega við suðurbakkann. Áin þrengist eilítið þar sem norðurbakkinn nær aðeins lengra út í ána. Þar fyrir neðan eru steinar úti í miðri ánni og frá þeim stað og niður að beygjunni liggja laxar oft í miðhlutanum við steinana sem eru í kafi. Hæfilegt er að byrja að draga fluguna milli bakka rétt áður en áin þrengist og alveg niður að beygjunni. Við þessar aðstæður er oft best að kasta skáhalt niður strenginn. Fluguhylur er viðkvæmur ef engin eða lítil gára er á yfirborði vatnsins. Þarna gefur vel að nota smáar flugur eða hitch. Vanir veiðimenn vaða út í ána en halda sig samt sem næst eða við norðurbakkann og kasta flugunni þétt upp að suðurbakkanum. Ráðlagt er að ganga ekki á bakkanum hvorki við veiðarnar eða þegar veiðimaður fer upp úr hylnum.
29. Laxholtsbreiða
Laxholtsbreiða er langur og lygn hylur. Hann nær frá stóra steininum viðsuðurbakkann og endar í skál rétt ofan við sýslumannsbrúna. Laxholtsbreiðan er viðkvæm í logni, rétt eins og Fluguhylur. Þá gildir einnig hér að veiðimaður á ekki að veiða hylinn frá bakkanum og betra er að standa út í ánni þétt við norðurbakkann. Lax getur legið um alla breiðuna. Fyrst er að kasta á suðurbakkann í lítinn streng aðeins neðan við stóra steininn. Áin þrengist síðan aðeins þar sem smá malareyri við norðurbakkann nær út í ána. Þar er hægur strengur sem liggur frá norðurbakkanum út í miðja á. Lax liggur stundum í ofarlega í strengnum nálægt bakkanum. Eftir yfirferðina á þessum streng er rétt að kasta aftur á suðurbakkann frá miðju hylsins og alveg niður að útfallinu úr breiðunni. Mesta veiðivonin er neðar í hylnum, annar við vegar við suðurbakkann út frá stóra trénu og hvíta staurnum og hins vegar í skálinni neðst í hylnum. Léttar línur, stripp með litlum flugum eða hitch reynist oft vel þegar lítil eða engin gára er á hylnum.
30. Móhylur
Móhylur, næsti staður fyrir ofan Laxholtsbreiðu, liggur í U-beyju og þar fyrir neðan beygir áin til vesturs. Hylurinn er best varði veiðistaðurinn fyrir veðri og vindum og jaldan sést gára á yfirborði vatnsins nema í hvassri suðvestanátt. Þess vegna er hylurinn viðkvæmari en allir aðrir veiðistaðir í ánni. Hann byrjar efst í efri beygjunni þar sem hægur strengur rennur í áttina að suðurbakkanum. Lax getur legið um allan strenginn. Best er að standa alltaf á sama staðnum ofan við strenginn og vinna sig niður hann með löngum köstum, alveg niður að suðurbakkanum. Sé gára á Móhyl er rétt að vinna sig niður að næstu beygju en þetta svæði heldur síður laxi. Eftir næstu beygju fellur áin úr hylnum í streng sem liggur niður miðja ána þar til hún beygir aftur til vesturs. Mesta veiðivonin er frá efsta hluta strengsins og niður í beygjuna. Litlar dökkar flugur, hitch og léttar línur gefa mestu veiðivonina.
31. Móstrengur, 32. Laxahylur og 33. Reiðhólshylur
Hægt er að keyra að Reiðhólshyl á góðum jeppa. Slóðinn er illfær minni jeppum og þá er betra að ganga, enda stuttur spölur að veiðistöðunum. Ekið er yfir ána fyrir neðan Svartabakka og á eyrarnar sem liggja að hylnum. Veiðimaður stendur sunnanmegin neðst á eyrunum og kastar yfir strenginn þétt að norðurbakkanum og aðeins niður fyrir hornið þar sem áin beygir til vesturs. Þegar veiði er lokið í Reiðhólshyl fer veiðimaður yfir á norðurbakkann og gengur niður að Laxahyl. Líklega ber hann ekki nafn með rentu þar sem ekki fara miklar sögur af veiði þar en í góðu vatni er rétt að kasta fyrir göngulax frá norðurbakkanum. Móstrengur er göngustaður og er veiddur frá norðurbakkanum. Göngulax getur legið í öllum strengnum en mest veiðivon er fyrir miðjum streng. Þessum stað eiga menn ekki að sleppa. Hann geymir oft göngulaxa fram eftir miðju sumri. Stærri flugur og litlar túpur gefa best.
34. Svartibakki neðri
Í beygjunni fyrir neðan Svartabakka er hár móbakki. Sumir veiðimenn kölluðu þennan stað Svartabakka neðri. Göngulaxar veiddust oft þarna seinni hluta síðustu aldar en staðurinn er orðinn grynnri í dag og fáar sögur fara af veiði þarna síðustu árin. Hjalti Þórarinsson læknir flutti gamlan svartan vegavinnuskúr á norðurbakkann við Messuveg, nefndi hann Glæsibæ og staðsetti hann rétt ofan við veiðistaðinn. Glæsibær endaði lífdaga sína eftir tveggja áratuga notkun þegar slökkvilið Blönduósbæjar tók brunaæfingu í boði eigandans.
35. Svartibakki
Svartibakki dregur nafn sitt af svarta háa bakkanum sem er í beygjunni ofan við sjálfan hylinn. Grasbakkar eru báðum megin við hylinn en fyrir miðju hans eru sandeyrar. Svartibakki er veiddur frá norðurbakkanum. Hylurinn byrjar þar sem hái bakkinn endar og áin beygir til vesturs. Efst í hylnum rennur stríður strengur frá norðurbakkanum og út í miðja á. Göngulax liggur jafnan efst í strengnum en staðbundinn lax getur legið frá þeim stað þar sem hann rennur í átt að suðurbakkanum og niður með grasbakkanum að sunnan þar til hylurinn endar. Stangaveiði í Svartabakka var mikil fram á áttunda áratug en þá dró verulega úr henni en síðustu árin er hann að koma inn aftur. Kjörinn veiðistaður fyrir hitch og stripp með smáum flugum en þar sem strengurinn fellur í hylinn er betra að veiða með þyngri og stærri flugum.
36. Hitaveitustrengur og 37. Hitaveita
Hitaveitustrengur liggur neðan við hitaveiturörið. Laxar liggja rétt neðan við rörið, annars vegar neðan við steininn í miðri ánni og hins vegar við suðurbakkann, þar sem beygja er á grasbakkanum. Hitaveitan er lygn breiða ofan við hitaveiturörið. Tveir hægir strengir renna í breiðuna, annar meðfram suðurbakkanum og hinn rennur að norðurbakkanum. Lax getur legið í norðurstrengnum við og neðan við steinana. Neðarlega við suðurbakkann er djúp lítil hola sem lax liggur oft í seinni hluta sumars og á haustin. Ofan við Hitaveitu er nafnlaus veiðistaður. Áin þrengist aðeins þar sem grasbakkinn að sunnanverðu gengur aðeins út í ána. Ofan við þrenginguna er lítill malarhólmi. Froða er á yfirborði vatnsins við suðurbakkann og í henni liggur oft göngulax en þegar líður að hausti er þarna lítil veiðivon.
39. Krókhylur
Krókhylur er efsti veiðistaðurinn í landi Hjaltabakka og var áður kallaður Bakkakvörn, sem var stytting á Hjaltabakkakvörn. Hylurinn er neðan við nýja veiðihúsið og margir erlendir veiðimenn kalla hann Homepool. Laxar liggja á mörgum stöðum í hylnum allan veiðitímann. Veiðimaður kemur sér fyrir út í ánni ofan við hylinn og fer síðan yfir á eyrarnar við suðurbakkann. Tveir meginstrengir renna í hylinn og koma saman ofarlega við norðurbakkann. Milli strengjanna er lygna og við enda hennar er vinkilbeygja við norðurbakkann. Lax liggur báðum megin í strengnum og þessi blettur er einn af skemmtilegri stöðum fyrir hitch í ánni.
Næsti tökustaður er í strengnum sem rennur með norðurbakkanum. Í bakkanum er lítil skál og veiðimaður kastar flugunni inn á lygnuna í skálinni og dregur hana að landi. Lax getur einnig legið inn að miðjum hylnum út frá skálinni. Þar fyrir neðan er stór steinn út frá norðurbakkanum. Lax liggur oft rétt neðan við steininn, oftar í hæga strengnum milli steinsins og norðurbakkans. Í efri og neðri hluta Krókhyls reynist best að nota hitch eða stripp með smáum flugum. Þó má stækka flugurnar ef góð gára er á yfirborði vatnsins. Oft er hægt að gera góða veiði milli kl. 8 og 10 á kvöldin, sér í lagi þegar lax gengur í ána.
41. Hnjúkakvörn og 42. Neskvörn
Hnjúkakvörn liggur í sveigju með grasbakka að norðanverðu og malareyri að sunnan. Neðsti hluti kvarnarinnar var áður fyrr einn af betri stöðum í ánni. Nú veiðist einstaka göngulax í kvörninni þegar vatnsyfirborð hækkar í ánni en síðustu áratugina hefur þar verið lítil sem engin veiði þegar líður að hausti. Neskvörn liggur í beygjunni milli Sauðanesskvarnar og Hnjúkakvarnar. Áður fyrr var þar oft mjög góð veiði en hún hvarf alveg í lok síðustu aldar. Í miklu vatni er þó ekki úr vegi að reyna eina yfirferð í báðum kvörnunum, einkum fyrri part sumars.
43. Kvarnarhorn
Kvarnarhorn liggur niður af útfallinu úr Sauðaneskvörn og þar sem móbakkinn endar að norðanverðu. Hægur strengur rennur úr Sauðaneskvörn yfir í Kvarnarhorn. Lygna er milli strengsins og norðurbakkans. Laxinn liggur oft norðanmegin í strengnum eða í hægu vatni við lygnuna. Veiðimenn standa á suðurbakkanum, kasta yfir á lygnuna og veiða strenginn að landi. Góður staður fyrir hitch og smáflugur.
44. Sauðaneskvörn
Sauðaneskvörn hefur í ómunatíð verið einn af betri veiðistöðum í Laxá. Kvörnin liggur í boga frá Flæðistreng niður að Kvarnarhorni. Veiðimaður stendur á suðurbakkanum á malareyrum og byrjar veiðar fan við strengina sem renna í kvörnina og kastar flugunni þétt upp að norðurbakkanum. Laxar liggja mest ofarlega í strengnum við norðurbakkann og út frá stóra steininum sem er neðarlega í beygjunni við norðurbakkann. Lax getur einnig legið niður alla kvörnina frá stóra steininum, aðallega þegar mikið er af laxi eða nægt vatn í ánni. Kvörnin er hrygningarstaður og heldur laxi allt veiðitímabilið. Hún er viðkvæm, einkum í sólskini og norðanátt. Veiðimenn hafa oft veitt vel seinni part dags þegar sól hverfur af vatnsyfirborðinu eða í sunnanátt og rigningu. Sauðaneskvörn hefur breyst töluvert síðustu áratugi, þar sem áin er að grafa sig inn í móbakkann að norðanverðu. Áður fyrr rann hún í þremur kvíslum og ummerkin sjást enn í landinu, þar sem tvær kvíslar hafa þornað upp. Sauðanes á land beggja vegna árinnar eftir að sátt náðist þar um milli eigenda Holts og Sauðaness fyrir merkjadómi Húnavatnssýslu árið 1920.

45. Flæðistrengur
Flæðistrengur endar ofan við brotið þar sem áin fellur í Sauðaneskvörn. Neðsti hluti hans endar sunnanmegin þar sem grasbakkinn endar. Hægt er að veiða hylinn frá báðum bökkum en mælt er með að veiða frá norðurbakkanum. Mesta veiðivonin er neðarlega í hylnum rétt ofan við útfallið í Sauðaneskvörn. Lax liggur mest í lygnunni við
suðurbakkann og neðarlega fyrir miðri breiðunni.
46. Engjalækur
Engjalækur dregur nafn sitt af litlum læk sem rennur út í veiðistaðinn norðanmegin. Þar rétt fyrir ofan eru stór grjót sem stýra vatnsrennslinu og mynda bogalagaðan streng. Einstaka sinnum grípur lax agnið efst í strengnum en mesta takan er fyrir miðjum streng.
47. Runki
Við fyrstu sýn gætu margir veiðimenn gengið fram hjá Runka en hann heldur vel göngulaxi fram eftir sumri. Við norðurbakkann eru eyrar sem þrengja ána og meðfram þeim liggur stríður strengur í miðri ánni. Stóri steinninn við norðurbakkann markar efri mörk Runka og lax getur tekið fluguna rétt neðan við steininn og niður allan trenginn en liggur þó mest norðanmegin í strengnum rétt ofan við neðri endann á eyrinni. Í miklu vatni stoppar lax þó sjaldan í Runka. Runki er nefndur eftir Runólfi Runólfssyni sem veiddi þar vel rétt eftir að stangaveiði hófst í ánni. Stórar flugur, minni túpur og Sunray Shadow reynast vel í Runka.
48. Langhólmi
Í ómunatíð hefur enginn lax komið á land úr Langhólma og vanir veiðimenn sleppa því að bleyta færið á þessum stað.
49. Holtskörn
Holtskvörn er rétt ofan við Langhólma. Kvörnin er veidd frá norðurbakka árinnar. Þar er klapparnef og fram af því rennur stríður strengur niður með suðurbakkanum. Sunnanmegin við strenginn er lítil vík með rólegu vatni. Reynslan sýnir að gott er að kasta flugu yfir í víkina og draga hana yfir strenginn. Þá er best að standa í miðri ánni ofan við strenginn. Stærri laxar liggja oft sunnan megin í strengnum, enda er meira dýpi þar en annars staðar í kvörninni. Þegar líður á sumarið leggjast laxar þó gjarnan í lygnara vatn á breiðunni fyrir neðan strenginn. Tökustaðir á breiðunni eru annars vegar við og sunnan megin við stóran stein í miðri ánni og hins vegar í hægum streng við suðurbakkann sem liggur niður að steininum, rétt ofan við útfallið úr kvörninni. Þegar kastað er í strenginn reynist betra að nota stærri flugur eða túpur en á breiðunni er rétt að nota minni flugur, hitch eða stripp.
50. Bakkasteinn
Bakkasteinn er rétt neðan við útfallið úr Klapparkvörn og dregur nafn sitt af stórum steini sem liggur við norðurbakkann. Þarna er lítil hola sem lax stöðvar í og hægt er að veiða staðinn frá báðum bökkum.
51. Klapparkvörn
Klapparkvörn er skemmtilegur veiðistaður og var einn af betri veiðistöðum í ánni fyrir úreldingu virkjunarinnar. Tvö atriði eru meginástæða fyrir minni veiði í kvörninni síðustu árin. Annars vegar hefur aukið vatnsmagn ofan við rafveituskurð auðveldað löxum að komast á efri svæði árinnar og hins vegar fylltist kvörnin af grjóti þegar áin ruddi sig vorið 2016. Klapparkvörn dregur nafn af tveimur klöppum við norðurbakkann, annars vegar klöpp efst í kvörninni og hins vegar fyrir miðjum veiðistaðnum. Nokkir veiðimenn kölluðu staðinn áður fyrr Neðri-Rafveitustreng, líklega vegna þess að hann er í beinu framhaldi af Rafveitustreng. Við efri klöppina myndast stríður strengur sem liggur niður að þeirri neðri en lygn vík er milli strengsins og grasbakkans. Neðan við neðri klöppina breiðir áin úr sér og kvörnin endar í lygnu vatni rétt ofan við Bakkastein.
Eyrarnar við suðurbakkann eru tilvalinn löndunarstaður fyrir lax. Klapparkvörn er best að veiða þannig að fyrst er vaðið út í ána ofan við efri klöppina ogflugu kastað yfir strenginn í lygna vík sem liggur niður að neðri klöppinni. Síðan er vaðið yfir á eyrarnar við suðurbakkann og kastað á neðri hluta kvarnarinnar. Fluga fer mun betur í vatninu þegar kastað er frá syðri bakkanum. Töluverð hætta er á að styggð komi á laxana ef kvörnin er veidd frá norðurbakkanum. Dökkar smáar flugur hafa reynst vel í neðri hlutanum, t.d. Black Doktor, Evening Dress, Colly Dog og Frances. Þegar strengurinn milli klappanna er veiddur er ekki úr vegi að nota stærri flugur, hitch eða Sunray Shadow.
52. Rafveitustrengur
Máltækið ,,oft liggur fiskur undir steini“ kom sér vel þegar maríulaxinn veiddist í Rafveitustreng fyrir tæpum 60 árum. Tólf ára gutti fékk nýju Hardy-stöngina að láni frá föður sínum og henti út í neðsta hluta Rafveitustrengsins, nokkrum metrum ofan við Klapparkvörn. Hann ákvað að renna maðkinum í lítinn streng sem lá milli tveggja steina. Eftir dágóða stund nartaði eitthvað kvikindi í maðkinn og þá kom sér vel að hafa heyrt að auðveldara sé að ná laxi á land ef hann er magagleyptur. Eftir smá bið ogaði kvikindið fast í færið og þá tók sá stutti vel á móti. Foreldrarnir veifuðu, líklega af fögnuði að mati veiðimannsins og ákafinn varð svo mikill að stöngin bognaði enn meira. Þá var veifað eins og menn ættu lífið að leysa og sá skilningur læddist að hjá veiðimanninum að hann væri allt of linur við laxinn. Hann ákvað því að taka hraustlega á móti laxinum. Með kengbogna stöngina gekk sá stutti á land og stuttu seinna lá spriklandi 18 punda hrygna á árbakkanum. Þá kom föðurleg ábending. ,,Á að brjóta nýju Hardy stöngina mína drengur?“ Svo mörg voru þau orð og sá stutti stóð álútur og skömmustulegur en seinna náði hann að brosa sínu breiðasta þegar hann gaf ömmu sinni laxinn í soðið. Rafveitustrengur liggur frá rafveituskurði niður að Klapparkvörn og var einn samfelldur veiðistaður en síðustu áratugina fara fáar sögur af veiði í strengnum. Helsta veiðivonin er í neðri hluta hans fyrir miðju strengsins.
53.-54. Ausuhvammur
Þegar farið er í Ausuhvamm er keyrt niður með rafveituskurðinum þar til slóðinn endar. Ausuhvammur er rétt ofan við bílastæðið og hefur komið sterkur inn eftir úreldingu Laxárvatnsvirkjunar. Segja má að hann hafi tekið við hluta af veiðinni sem gjarnan var áður fyrr í Klapparkvörn og Rafveitustreng. Ausuhvammur samanstendur af tveimur veiðistöðum. Efri staðurinn er neðan við girðinguna sem kemur hornrétt á norðurbakka árinnar. Þar fellur áin fram af klapparnefi og skiptist í tvo strengi. Þegar lax er í hylnum liggur hann ofarlega eða í miðjum syðri strengnum. Neðri staðurinn er gjöfulli. ér hefur myndast nýr staður milli rafveituskurðarins og efri staðarins. Þar byrjar áin að breiða úr sér og í miðjum staðnum er ljós skál sem lax liggur í allan veiðitímann.
55. Mánafossstrengur
Mánafossstrengur liggur niður með norðurbakka árinnar frá útfalli Mánafoss og rúma 50 metra niður eftir ánni. Áður en veiðimaður veiðir Mánafoss er rétt að taka stutta yfirferð í Mánafossstreng.
56. Mánafoss
Þegar veiðimaður kemur að Mánafossi í dag blasir við vatnsmikill og tignarlegur foss í skemmtilegu umhverfi. Þegar virkjunin var í fullum rekstri var vatnsmagn í Mánafossi um 1/3 af heildarvatnsmagni árinnar þar sem 2/3 hluti fór í gengum rafstöðina og þaðan aftur í Laxá í gegnum rafveituskurðinn. Botn árinnar er erfiður yfirferðar neðan við Mánafoss vegna stórgrýtis og þegar líður fram á sumar er botninn oft þakinn slýi. Veiðimaður ætti alltaf að notast við staf eða vera með aðstoðarmann þegar vaðið er í eða yfir ána neðan við fossinn.
Mánafoss fellur fram af fossbrúninni í tveimur bunum meðfram stóru klapparhafti í miðri ánni. Strengurinn við norðurbakkann heldur fiski betur en sá syðri og laxar eru við bununa norðanmegin þegar þeir reyna við fossinn. Eftir að veiðimaður lýkur veiði í Mánafossstreng er best að veiða þennan stað. Veiðimaður tekur sér stöðu út í lyngu vatni við norðurbakkann og kastar flugunni beint upp eftir strengnum inn í hamrana, bíður í smá tíma meðan flugan er að sökkva og strippar hana hratt niður strenginn. Á sama stað geta góðir veiðimenn kastað flugu yfir á breiðuna undir syðri strengnum en betra er að kasta flugu fyrir neðan breiðuna og veiða uppstreymis. Margir velja þó að vaða út á fossbrúnina og kasta hefðbundið á hylinn en einnig er hægt að vaða yfir ána til að veiða breiðuna frá suðurbakkanum. Stórar flugur, minni túpur og flottúpur reynast best þegar kastað er á vatnið neðan við fossinn en á breiðunni er betra að nota minni flugur eða hitch. Að sögn fróðra manna er mesta veiðivonin þegar vindur kemur að norðvestan beint í áttina að fossinum eða í rigningu. Einn veiðistað vantar að nefna en hann er sunnan megin ofan á brún Mánafoss. Þar er lítil hola sem lax stoppar gjarnan í eftir að hann fer upp fossinn. Þarna var oft veitt á maðk en staðurinn er frekar óskemmtilegur til fluguveiða.
57. Mánaskál
Fyrir ofan Mánafoss er látlaus grunnur veiðistaður. Þessi staður hélt illa löxum en eftir að vatnsmagn jókst eru þeir byrjaðir að sjást þarna aftur. Staðurinn er viðkvæmur, einkum í mikilli birtu og hægviðri.
58.-59. Nautafljót
Nautafljót skiptist í tvo veiðistaði með grótgarði sem liggur þvert yfir ána. Áður fyrr var meiri veiði í neðri staðnum en þegar vatnsmagn jókst aftur veiðist betur í efri staðnum. Efri staðurinn liggur frá bakkanum þar sem áin beygir til vesturs og rennur í hylinn. Laxar liggja í strengnum við suðurbakkann niður í áttina að grjótgarðinum en mesta vonin er efst í lítilli skál við suðurbakkann. Þeir veiðimenn sem vaða út í hylinn til að kasta á suðurbakkann ættu að hafa göngustaf meðferðis eða styðja sigvið veiðifélaga þar sem botninn er illa grýttur og sleipur. Fyrir neðan grjótgarðinn er neðri staðurinn í Nautafljóti. Þrír meginstrengir renna í ána og lax getur legið í þeim öllum. Veiðimaður tekur sér stöðu ofan við grjótgarðinn og kastar fyrst á hægan streng við norðurbakkann. Lax getur legið frá efsta hluta strengsins meðfram bakkanum og alveg niður að beygjunni á honum. Því næst er kastað á miðstrenginn en þar liggja laxar hlémegin báðum megin við strenginn og út frá taglinu á honum. Þegar þessari yfirferð er lokið er rétt að kasta á lygnuna út frá tagli strengjanna. Ofan við Nautafljót er kominn nýr veiðistaður sem þekkist á tveimur stórum steinum í miðri ánni.
Hjalti Þórarinsson læknir var einu sinni við veiðar í Nautafljóti og sannreyndi nafngift staðarins. Í einu kastinu hélt hann að flugan væri föst í gróðri og kippt i vel í til að losa hana en ekkert gerðist og hann kippir enn betur og þá heyrðist hávært baul fyrir aftan hann þegar flugan losnaði. Hann lítur við og sér mórauðan bola koma á harðahlaupum. Hjalti var mikill íþróttamaður og í stað þess að bíða eftir bola tók hann til fótanna og stuttu síðar stóð hann lafmóður á hinum bakkanum og horfði á bola krafsa með framfótunum í jörðina.
60. Krókur og 61. Svartibakki efri
Krókur er að mótast sem veiðistaður og einstaka sinnum sést þar lax þó að enn sem komið er fari litlar sögur af veiði. Í Svartabakka efri er meiri veiðivon og þar liggur lax í hægum straumi við norðurbakkann.
62. Tumi
Tumi er nefndur í höfuðið á Tuma Tómassyni fiskifræðingi. Staðurinn liggur í smá lægð og er vel varinn fyrir veðri og vindum. Auðvelt að styggja laxa í Tuma ef gengið er fram á árbakkann, einkum í logni eða hægum vindi. Í miklu vatni grípur lax stundum í flugu mjög ofarlega í hylnum, jafnvel í beygjunni ofan við skurðendann í norðurbakkanum. Í venjulegu vatni liggja laxar mest í neðri hluta hylsins og mesta veiðivonin er í suðurkverkinni rétt ofan við grjótgarðinn. Veiðimaður veður út í ána, stendur nálægt norðurbakkanum, kastar flugunni þétt að suðurbakkanum og veiðir hylinn þannig alveg niður að grjótgarðinum. Annar góður legustaður laxa er við nokkur stórgrýti neðarlega fyrir miðjum hylnum, rétt ofan við grjótgarðinn. Smáar flugur, tvíkrækjur 12-14 hafa reynst best í Tuma, einkum þegar lítil eða engin gára er á vatnsyfirborðinu.
63. Nafnlaus
Mitt á milli Tuma og Skotta er nýlegur veiðistaður. Lax liggur í strengnum sem rennur með norðurbakkanum. Taki lax ekki við fyrstu yfirferð er best að halda áfram á næsta veiðistað.
64. Skotti
Skotti er tilbúinn veiðistaður með grjótgarði sem liggur þvert yfir ána. Afar lítil veiðivon er á lygnunni ofan við grjótgarðinn en gæti þó gefið töku í miklu vatni. Tveir meginstrengir falla fram af grjótgarðinum yfir í lygna breiðu við suðurbakkann. Lax liggur mest á milli strengjanna, oftar sunnanmegin í strengnum við norðurbakkann. Flestir standa ofan við grjótgarðinn og veiða báða strengina og að lokum breiðuna við útfallið úr hylnum en einnig er hægt að taka sér stöðu neðan við hylinn og veiða uppstreymis og strippa fluguna. Hér er meiri veiðivon ef notaðar eru stórar flugur 6-10, hitch, Sunray Shadow eða flottúpur, en það sakar ekki að byrja á minni gerðinni.
65. Línufljót
Línufljót er nýr veiðistaður fyrir ofan Skotta, rétt ofan við raflínuna sem liggur á ská yfir Laxá. Þessi staður var ekki inni fyrr en aukið vatnsmagn kom á efri hluta árinnar. Tveir strengir falla í hylinn, stríður strengur við suðurbakkann og rólegur við norðurbakkann. Reynslan sýnir að veiðivon er betri þegar veitt er frá suðurbakkanum. Þá er best að standa í syðri strengnum og kasta að norðurbakkanum. Laxinn liggur í strengnum við norðurbakkann í hægu vatni, jafnvel mjög ofarlega og niður að stóra steininum við útfallið úr fljótinu. Í miklu vatni liggja laxar neðarlega í fljótinu út frá stóra steininum. Smáar flugur, t.d. Evening Dress, Black Doctor, Black eyed Prawn eða Frances, hitch og stripp gefa jafnan bestu veiðina á þessum stað.
66. Laxapollur
Laxapollur liggur meðfram suðurbakkanum nokkru fyrir neðan bílastæðið og skiptist í tvo veiðistaði. Efri staðurinn liggur nálægt suðurbakkanum. Göngulax getur legið um allan strenginn en laxavon er minni þegar líður á sumarið. Neðri staðurinn er frekar grunnur en heldur laxi allt sumarið. Hann þekkist af stórum steini sem liggur nálægt suðurbakkanum. Veiðimaður stendur nálægt norðurbakkanum, byrjar köstin aðeins ofan við stóra steininn og veiðir síðan breiðuna neðan við og út frá steininum. Neðri hlutinn er viðkvæmur í logni og hægum vindi. Léttar línur, litlar flugur, stripp eða hitch gefur vel, einkum í hægum vindi eða logni.
68.-74. Langhylur
Langhylur er án efa besti veiðistaður í efri hluta árinnar. Hann er um 800 metra langur hylur og er skipt í sex veiðistaði, þó að allur hylurinn sé nánast eitt samfellt veiðisvæði. Langhylur liggur í lægð og er vel varinn fyrir vindi af náttúrunnar hendi. Þó að töluverður vindur sé í norðanátt við neðri hluta árinnar og á Blönduósi getur verið logn eða hægur vindur við Langhyl. Veiðivon í Langhyl er háð veðri og vindum. Afar erfitt er, ef ekki ómögulegt, að veiða staðinn í logni og sólskini. Við slíkar aðstæður verða laxar fljótt varir við veiðimenn ef gengið er á bökkum árinnar og má þá oft sjá heilu laxatorfurnar synda fram og til baka um hylinn.
Meðan Laxárvatnsvirkjun var í fullum rekstri þótti oftar betra að veiða hylinn frá norðurbakka árinnar en eftir að rekstri hennar var hætt og vatnsmagn þrefaldaðist í hylnum er betra að veiða hann frá suðurbakkanum. Í hægum vindi er best að nota smáar flugur, léttar línur og láta fluguna reka eða draga hana hægt inn. Þegar það gengur ekki hefur einnig gefist vel að nota hitch eða stripp. Í miklum vindi geta myndast öldur á Langhyl. Þá er betra að nota stærri flugur eða flottúpur. Töluverður gróður er í hylnum þegar líða fer á sumarið. Í Langhyl er best að nota flotlínu, jafnvel í dýpstu hlutum hylsins, til að forðast festur í gróðri.
Hliðið er neðsti veiðistaðurinn í Langhyl og er beint á móti bílastæðinu þar sem menn vaða gjarnan yfir á suðurbakkann þegar farið er í efri hluta Langhyls. Þarna er hrygningarstaður og á haustin má oft sjá hreiður laxa í miðri ánni beint út frá bílastæðinu. Þeir sem kjósa að veiða Langhyl af suðurbakkanum vaða oft beint yfir hrygningarsvæðið, án þess að kasta fyrir lax. Líklega er það vegna þess að veiði er afar lítil þarna fram eftir sumri en þegar hausta dregur sakar ekki að kasta flugunni áður en vaðið er yfir á suðurbakkann.

Lænan er næsti veiðistaður fyrir ofan Hliðið. Þar er breiða sem liggur á milli tveggja þrenginga. Mesta veiðivonin er neðst og efst á breiðunni og yfirleitt fyrir miðjum hylnum. Fróðir menn telja að betra hafi verið að veiða þennan stað frá suðurbakkanum fyrir úreldingu Laxárvatnsvirkjunar en eftir að vatnsmagn jókst er talið betra að veiða frá norðurbakkanum.
Skráin er rétt ofan við Lænuna og liggur hún á milli tveggja beygja. Efst í henni er vað sem liggur skáhalt frá kverkinni í suðurbakkanum yfir að horninu við beygjuna á norðurbakkanum. Skráin er besta svæðið í Langhyl og lax er á öllu svæðinu, þó mest fyrir miðju. Best er að byrja veiðar rétt ofan við efri beygjuna og veiða allt svæðið alveg niður að neðri beygjunni. Laxar liggja mest frá miðri ánni og að norðurbakkanum. Oft myndast sefrönd nálægt norðurbakkanum og lax liggur báðum megin við sefið.
Einn veiðifélagi setti í lax sem lá norðanmegin við sefið. Takan var þvílík að honum brá illilega og stuttu seinna lá línan í 90° vinkil þegar laxinn synti upp ána meðfram sefinu og allt varð fast. Ég sagði honum að labba niður bakkann, rétta línuna af og toga fast. Hann gerði það eftir smá múður en eftir korters baráttu landaði hann 19 punda feng, 15 punda hrygnuog 4 pundum af slýi. Skeggið er næsta svæði fyrir ofan Skrána. Þar breiðir áin úr sér og þrengist aftur rétt rúmum hundrað metrum fyrir ofan. Lax getur verið á allri breiðunni en mesta veiðivon er við norðurbakkann í og rétt neðan við efri þrenginguna. Veiði hefur aukist töluvert á þessu svæði eftir úreldingu virkjunarinnar.
Lykillinn er efsta svæðið í Langhyl. Hrygningarsvæði er í efri hluta Lykilsins og þar fyrir ofan. Minni veiðivon er á þessu svæði eftir að vatnsmagn jókst í Langhyl. Efst í hylnum út frá norðurbakkanum eru nokkrir stórir steinar þar sem lax liggur, eða eins og sagt er, „þar liggur oft fiskur undir steini“. Nú kveðjum við Langhyl og höldum á efsta svæði árinnar.
Veiðistaðir 75-85
Fyrir ofan Langhyl og upp að stíflueru nokkrir veiðistaðir og smáholur sem laxar halda til. Þeir koma á þetta svæði um eða eftir miðjan júlí. Enginn slóði er á efsta svæði árinnar frá Laxárvatnsstíflu niður að Langhyl. Því er kjörið að skutla veiðimanni upp að stíflu og láta hann veiða rétt rúmlega kílómeters svæði niður að Langhyl. Víðihólmi er efsti staðurinn í ánni, kenndur við stóra hólmann neðan við stífluna í Laxárvatni. Áin rennur í tveimur kvíslum meðfram hólmanum og lax heldur til ofarlega í strengnum í syðri kvíslinni. Ármót eru neðan við Víðihólma þar sem kvíslarnar koma aftur saman. Þegar veiði er lokið á þessum stöðum er rétt að kasta á nokkrar holur áður en komið er að Hornhyl. Svíndælingavað var áður merkt á eldri veiðikort sem veiðistaður en rétt ofan við vaðið er kröpp beygja þar sem áin beygir til vesturs. Þar hefur myndast nýr veiðistaður sem fékk nafnið Hornhylur. Hægt rennsli er í hylnum og mesta dýpið er við suðurbakkann. Lax liggur frá horni suðurbakkanns og upp með bakkanum. Laxinn er styggur á þessum stað og litlar flugur eða hitch reynast best einkanlega í hægum vindi og sólskini.
Fyrir neðan Hornhyl eru Austurbakki, Flati og Baunavað sem vert er að reyna. Veiðistaðir á þessu svæði eru enn að breytast og nýir að koma í ljós eftirað aukið vatnsrennsli kom á efri hluta árinnar. Með þessum orðum læt ég staðar numið með veiðistaðalýsingu um Laxá á Ásum.