Til baka

Langá neðra svæði

Langá á Mýrum - veiðilýsing neðsta svæði

Eftir Runólf Ágústson

Langá á Mýrum rennur áhreppamörkum Álftanes- og Borgarhrepps í Mýrasýslu, úr Langavatni til sjávar í mynni Borgarfjarðar nokkru fyrir vestan Borgarnes. Áin er um 40 km að lengd en veiðanlegt svæði er um 20 km. Því er skipt í þrjú svæði og veiðileyfi seld á hverju fyrir sig. Alls er veitt á 12,5 stengur í ánni. Efsta svæðið, Langá - fjallið, er rómað fyrir náttúrufegurð og þar geta veiðimenn fengið leyfi fyrir hóflegt verð, framan af sumri a.m.k., en veiðivon er óneitanlega meiri þegar líður á. Þetta svæði nær frá ármótum Langár og Gljúfurár niður Grenjadal og niður fyrir Sveðju til bæjanna Litlafjalls og Grenja.

Miðsvæðið nær frá löndum Hvítsstaða og Stangarholts til landa Háhóls og Jarðlangsstaða. Þar eru margir góðir og þekktir veiðistaðir, svo sem Stangarhylur og Hvítsstaðahylur. Á undanförnum árum hefur Ingvi Hrafn Jónsson séð að mestu um sölu á þetta svæði. Neðsta svæðið og það sem hér er til umfjöllunar er síðan áin fyrir löndum Ánabrekku og Langárfoss sem eru tvær neðstu jarðirnar við Langá. Jóhannes, bóndi og veiðifélagsformaður á Ánabrekku, hefur aðallega með sölu á það svæði að gera. Neðsta svæðið hefur löngum verið gjöfulast og gjarnan veiðist þar um helmingur heildarveiðinnar í Langá. Á svæðinu er veitt á 5 stangir daglega, frá kl. 7-13 og 15-21, frá 15. júní til 14. september.

Svæðinu, sem er um 5 km langt, er yfirleitt skipt í 6 afmörkuð veiðisvæði, eitt fyrir hverja stöng og síðan eitt „frjálst svæði“ en þangað geta menn farið líki þeim ekki við sitt svæði. Veiðimenn „rótera“ niður ána á milli svæða á þriggja tíma fresti þannig að það tekur rúmlega dag að veiða allt svæðið. Þrátt fyrir að veiðisvæði þetta sé stutt og aðgengilegt þar sem hægt er að aka að flestum veiðistöðum þá er það engu að síður mjög fjölbreytt og skiptast á fossar, gljúfur og strengir í bland við breiður, kvarnir og rólega flugustaði þar sem áin líður hægt fram. Í eftirfarandi veiðilýsingu er farið niður ána og hefst ferðin við landamerki Ánabrekku og Jarðlangsstaða.

Svæði 5

Þar sem áin rennur af miðsvæðinu í lönd Ánabrekku og Langárfoss er lítil kvörn, Merkjakvörn. Þar var á árum áður góður veiðistaður en hin síðari ár hefur lítið veiðst á þessum stað sökum breytinga á rennsli árinnar. Skammt þar fyrir neðan skiptist áin í tvo ála og í þeim eystri eru þrír samhangandi staðir, með þeim bestu í ánni. Þar rennur áin með grasivöxnum túnbakka og heitir Túnstrengur efst, síðan Álfgerðarholtskvörn og neðan við hana Bakkastrengur. Þessir staðir, sem allir eru sérlega skemmtilegir flugustaðir, koma inn sem alvöruveiðistaðir um mánaðamótin júní/júlí og gerast æ betri eftir því sem líður á sumarið. Í ágúst eru þetta bestu staðirnir í ánni. Fiskurinn getur tekið meira og minna um allt, alls á um 200 metra kafla en gjöfulastir eru Túnstrengurinn, þar sem hann rennur inn í kvörnina, Álfgerðarholtskvörnin sjálf og Bakkastrengurinn á móts við lítinn skurð sem opnast í ána frá eystri bakkanum.

Glanni, sérstakur og fagur veiðistaður, er síðan neðst á svæði 5, á milli tveggja hárra kletta. Þar er lítil eyja í miðju árinnar og brot báðum megin. Laxinn tekur gjarnan á eystra brotinu, strengnum fyrir neðan það eða í djúpum hylnun þar fyrir neðan þegar strengirnir koma saman.

Eyrarnar — „frjálsa svæðið

Neðan við Glanna skiptir áin sér á ný í tvo ála. Í þeim vestari, sem rennur í stórri bugðu, fyrst í vestur en síðan í suðvestur og suður, eru fjórir veiðistaðir. Á eyrunum veiðist sjaldan að ráði fyrr en upp úr 10. júlí en þá fer fiskur að stoppa þar. Þetta svæði hefur orðið gjöfulla með hverju árinu sem líður og síðsumars er það með betri svæðum árinnar.

Efsti veiðistaðurinn, Fljótandi, er fallegur og kyrrlátur staður þar sem áin líður hægt fram á milli steina sem þrengja eilítið að henni. Í góðu vatni veiðist vel í Fljótanda og er staðurinn með skemmtilegri flugustöðum í ánni. Tökusvæðið er frá grjóti sem gárar vatnsyfirborðið, 5-8 metra ofan þrengslanna, niður um þau, u.þ.b. 20-30 metra. Þjótandi er nokkru neðar þar sem állinn sveigir tilsuðvesturs á ný fyrir klettótt horn. Þar veiðist þegar áin er lægri og straumur minni en við slíkar aðstæður er þetta gjöfull staður. Þannig má segja að þessir tveir veiðistaðir bæti hvor annan upp þar sem yfirleitt er góð veiðivon í öðrum hvorum þeirra. Besti tökustaðurinn í Þjótanda er í vestari straumkantinum, beint út af klettahorninu. Ótaldir eru hinir staðirnir tveir. Eyrarsund hefur gefið fáa fiska hingað til en í Selhólafljóti liggur oft lax.

Svæði 4

Af Eyrunum rennur áin að töluverðum flúðum eða aflíðandi fossi, Kattafossi, sem fellur ofan í gljúfur, Kattafossgljúfur. Á Kattafossbrúninni er öruggur morgunfiskur og því vinsælt að byrja veiðidaginn á svæði 4. Tökustaðurinn er á blábrúninni, við vesturbakkann er fiskurinn oft svo tæpt að við liggur að að sporðurinn standi fram af! Gljúfrin eru djúp ofan til en  grynnka neðar. Mest er veitt að neðanverðu en stundum þó einnig í strengnum undir fossinum. Best er að ganga inn í gljúfrin neðan frá og varast að styggja fiskinn en einnig er hægt fyrir þá fimustu að klöngrast niður gljúfurvegginn á einum eða tveimur stöðum ofar.

Úr gljúfrunum rennur áin í  stóran sveig undir klettavegg og kallast þar Bugurinn, dyntóttur staður þar sem stundum er allt blátt af laxi en stundum lítið sem ekkert. Bestu tökustaðirnir í Bugnum er að öllu jöfnu neðri hluti strengsins sem rennur úr gljúfrunum og síðan nokkru neðar á móts við rauða keldu sem seitlar niður bergið vestanmegin. Hallbjarnarbugur er neðan Bugsins en þar er veiðivon minni. Neðri mörk svæðis 4 er við nýju brúna þar sem vesturlandsvegurinn liggur yfir ána.

Svæði 3

Niður undan nýju brúnni er Símastrengur, góður staður í háu vatni. Þar, svona 100 metrum neðar, er Kerstapastrengur, niður af smábroti milli nokkurra stórra steina og Kerstapafljót, lygnan undir klettaveggnum þar niður af. Í Kerstapafljóti liggur fiskur allt sumarið, gjarnan stórlaxar sem helst taka á haustin. Skuggafoss og laxastigi við hann eru friðað svæði, afmarkað með rauðu striki á klöppinni.

Fyrir neðan foss heita Gjá og Renna ofan línu (friðað) en Ketill og Strengir neðan hennar. Við rauðu línuna í Rennunni er áin mjög þröng en víkkar síðan út í Ketilinn og rennur inn í Veiðifljótið í þrem strengjum sem kallast landsstrengur, miðstrengur og ystistrengur en af þeim dregur veiðistaðurinn nafn sitt. Strengirnir eru jafnan sá veiðistaður sem gefur næstflesta fiska í Langá. Mörkin milli veiðisvæða 3 og 2 liggja frá gulmáluðum áberandi steini, í hlöðnum garði vestanmegin neðst í Strengjunum, þvert yfir í botn Veiðifljótsins.

Svæði 2

Úr Strengjunum rennur áin um Veiðifljót í U-beygju á Breiðuna, frægasta og rómaðasta veiðistaðinn í ánni. Breiðan hefur allt frá því að Englendingar hófu stangaveiði í Langá um síðustu aldamót verið talin besti veiðistaðurinn í ánni. Um hana hafa verið skrifaðar greinar í erlend veiðitímarit og af henni hafa verið málaðar myndir. Góð regla er að hefja veiði á Breiðunni með því að læðast að eystri bakkanum og renna niður með honum, því þar liggja oft fiskar hálfan til einn metra frá landi sem styggjast auðveldlega. Síðan er kastað á Breiðuna sjálfa, fyrst efst í bugðuna, út á móts við garðinn en síðan veitt allt niður á brotið. Tveir stórir steinar eru á miðri Breiðu, undir þeim og í straumnum milli þeirra er jafnframt góður staður. Þegar þessu er lokið ganga menn yfir gömlu brúna og fiska frá garðsendanum hinum megin. Varast ber að vaða yfir Breiðuna þvera eða upp fyrir hana því þessi veiðistaður er sérstaklega viðkvæmur og geri menn slíkt er borin von að nokkuð veiðist næstu klukkutímana.

Myrkhylur er dimmur og djúpur hylur neðan Breiðu ofan gömlu brúarinnar. Strengurinn niður í hann er veiddur frá báðum bökkum. Neðri-Breiðan er neðan brúarinnar, þar veiðist oft vel á vorin þegar mikið er í ánni en þegar vatnið sígur, sem oft gerist síðsumars, heldur sá staður tæplega fiski.

Svæði 1

Hornið tekur við af Neðri-Breiðunni þar sem áin mjókkar vegna klapparhorns sem gengur út í hana frá austurbakkanum. Þetta hefur löngum verið góður veiðistaður, sérstaklega snemmsumars. Hornið, líkt og Neðri- Breiðan, þolir þó vatnsleysi illa. Fiskur getur tekið mjög víða á Horninu, eftir því hve hátt er í ánni.

Dyrfljót, þar fyrir neðan er aftur á móti staður þar sem vatnshæð skiptir ekki eins miklu máli, er fjórir strengir sem falla af brotinu, neðst í Horninu, út í djúpan breiðan hyl. Fiskur tekur í strengjunum og á milli þeirra. Í brotinu sjálfu er smábolli, líklega ekki nema rúmur fermetri, þar sem oft liggja einn eða tveir tökufiskar. Sorglega oft finna veiðimenn þennan bolla þegar þeir vaða brotið tilað renna í Dyrfljótið og detta í hann!

Þegar flóð er í ánni og fiskur í göngu veiðist gjarnan alveg neðst í Dyrfljótinu, á brotinu fyrir ofan Krókódiílinn. Sá staður er einn þriggja samhangandi veiðistaða þar sem oft veiðist ótrúlega mikið af laxi á skömmum tíma, sérstaklega dagana í kringum stórstraum en þá kemur hver gangan af annarri upp Sjávarfoss inn í hyljina með mislöngu stoppi. Krókódill er úfinn strengur sem liggur með lágum klettabakka austanmegin árinnar. Yfirleitt tekur fiskur best ofarlega í strengnum.

Úr Krókódílnum rennur áin í Holuna, svolítinn pytt þar sem fiskur tekur grimmt í göngu en nokkra lagni þarf til að veiða hana þar sem fiskurinn tekur aðallega á smábletti fremst í smá hvitfyssi sem þar er. Úr Holunni rennur áin í sjó út Fossbreiðu og niður Sjávarfoss. Stundum veiða menn í hálfsöltu vatninu fyrir neðan foss. Þar er laxinn þó viðkvæmur og tekur sjaldnast þótt menn sjái þar gjarnan hundruð laxa synda um í torfum á fjörunni þegar fiskurinn safnast saman og bíður þess að flóðið geri fossinn færan.

Sjá allar lýsingar
Sjá allar lýsingar