Til baka

Langá efsta veiðisvæðið

Efsta veiðisvæði Langár á Mýrum

Eftir Halldór P. Snæland

Efsta svæði Langár á Mýrum er algjör perla til fluguveiða. Þar er hún talsvert vatnsmeiri en á laxveiðisvæðinu neðar í ánni því þarna rennur hún sameinuð Gljúfurá í Borgarfirði. Veiðisvæðið nær frá miðlunarstíflu við upptök árinnar við Langavatn og u.þ.b. 3.5 km niður að Heiðasundafossi rétt ofan Ármótafljóts sem er efsti veiðistaður hins almenna veiðisvæðis. Á árunum frá um 1900 til 1940 var þetta svæði aðallega veitt af Englendingum sem komu til að stunda laxveiðar á neðri svæðum Langár, en fóru síðan nokkrum sinnum á sumri til bleikju- og urriðaveiða í efsta hluta árinnar. Þetta er fagurt og friðsælt veiðisvæði sem hentar einstaklega vel til fluguveiða og þarna ætti aldrei að nota annað agn. Í dag eru u.þ.b. 25 virkir veiðistaðir á svæðinu, en víst er að þeir verða fleiri þegar veiðiálag eykst.

Fjöldi veiðistaða er á svæðinu sem hver er öðrum fegurri og veiðilegri. Á efsta hluta svæðisins, það er að segja frá upptökum við stíflu, rennur áin í gegn um hraun og myndar mjög fallega strengi og hylji sem geta verið mjög gjöfulirá fallega bleikju og nú á síðari árum einnig lax. Þegar hrauninu sleppir, taka við miklar og fallegar breiður þar sem áin rennur hæg við gróna bakka og myndar fallega strengi út frá töngum sem teygja sig út frá vesturbakkanum. Þá tekur við hálfgerð veiðileysa, þar sem áin breiðir úr sér á milli hrauns á vesturbakkanum og fjallshlíðará þeim eystri. Að vísu er oft hægt að setja í vænar bleikjur á breiðunni stóru, út frá mynni Sandvatns á vesturbakkanum. Þá veður maður út í miðja á og kastar flugunni jafnt til beggja handa á meðan gengið er hægt niður hana miðja, þar til hún tekur að þrengjast aftur og straumurinn þyngist er við nálgumst fallegan veiðistað sem hefst ca. 100 m ofan við fossinn. Þá er veitt alveg niðurá bláfossbrún og best er að standa að þvi að vestanverðu.

Þar fyrir neðan skiptast á stríðir strengir og fallegir hraunhyljir sem flestir halda fiski. Taka skal fram að um þetta fagra veiðisvæði hefur verið farið mjög mjúkum höndum í áratugi. Á árum áður voru þetta heimkynni stórra urriða og bleikju. Þarna veiddust urriðar allt upp í 9-10 pund og hafa heyrst sögur af þeim ennþá stærri og ekki var óalgengt að landa bleikjum af stærðinni 5-7 pund. En þá var enginn lax á svæðinu.

Nú er urriðinn horfinn og bleikjunum hefur snarfækkað þrátt fyrir veiða-sleppafyrirkomulag. Nú hefur laxinn tekið sér þarna bólfestu og dafna seiðin einstaklega vel vegna góðra uppeldisskilyrða og mikils ætis. Þetta er etv. að verða verðmætasta uppeldissvæði laxaseiða fyrir Langá. Við væntanlega veiðimenn þessa gqullfallega svæðis segi ég að lokum, góða veiði, gangið vel um og njótið þið vel.

Veiðisaga

Mín fyrsta upplifun af efsta svæðinu var fyrir um það bil 45 árum þegar ég fór með föður mínum, Pétri Snæland, og Friðrik Þorsteinssyni húsgagnasmið upp að upptökum Langár. Þeir voru þá eigendur að jörðunum Litla-Fjalli og Grenjum ásamt öðrum góðum mönnum. Astæðan fyrir þessari för var sú að kanna átti aðstæður til smíða á vatnsmiðlun fyrir Langá sem svo varð að veruleika nokkrum árum síðar. Þetta var um miðjan september og kalt í veðri eins og stundum getur orðið þarna að haustlagi. Eg hafði tekið með mér kaststöngina mina með Ambassador-hjólinu og 20 punda svartri, ofinni línu eins og mikið var notuð í þá daga.

Á meðan pabbi og Friðrik voru að kanna aðstæður í ósnum beitti ég maðki og kastaði einu kasti efst í ósinn, út að klöppinni við austurlandið. Beitan hafði ekki fyrr snert vatnið en eitthvað skrímsli tók beituna og æddi út á vatn. Ég horfði forviða á rúlluna á hjólinu mínu snúast hraðar en ég hafði áður séð hana gera og vissi að ég átti bara tvo kosti um að velja áður en línan á hjólinu tæmdist og ævintýrið væri á enda. Annaðhvort var að reyna að hægja á rúllunni með þumlinum og ná að stöðva fiskinn eða hann mundi bara alls ekki stoppa heldur draga mig á stað með sér þvert yfir vatnið. En sem betur fór tókst mér að stöðva hann áður en línan kláraðist. Viðureignin við þennan fisk stóð í ca. hálfa klst. og ég sá hann aldrei fyrr en rétt fyrir löndun. Þetta var urriðahængur, 9 pund að þyngd, og ákaflega stuttur og sver. Þessi viðureign er mér einhver sú minnisstæðasta á minum veiðiferli.

Einnig rennur mér seint úr minni ein af mjög mörgum veiðiferðum með sonum mínum á sama veiðisvæði. Þetta var fyrir um það bil 10-12 árum síðan. Veður var eins og best varð á kosið, sól og logn og vakandi fiskur úti um allt. Ég ætla ekki að orðlengja frásögnina neitt heldur segja frá því að í lok dags höfðum við veitt 52 bleikjur af þyngdinni 2-6 pund. Þegar við vorum að dást að aflanum um kvöldið sló allt í einu þögn á hópinn þegar annar sona minna spurði: „Heyrðu, pabbi, hvað ætlum við svo að gera með allan þennan fisk?“ Á þessari stundu var það ákveðið að svona ætluðum við ekki að haga okkur aftur. | dag njótum við veiðanna ekki síður en áður, en höfum aðeins einn eða tvo fiska með heim í soðið, vitandi það að þeir sem við slepptum aftur í ána bíða okkar þar til síðar.

Sjá allar lýsingar
Sjá allar lýsingar