Kjarrá

Kjarrá
Eftir Gunnar Sveinbjörnsson
Ljósmyndir:
Gunnar Sveinbjörnsson
Halldór Vilhjálmsson
Hans Kristjánsson
Kjarrá er efri hluti Þverár í Borgarfirði eða Stóru-Þverár, eins og áin var oft áður nefnd í heild, og samanstendur af Þverá, Litlu-Þverá, Örnólfsdalsá og Kjarrá. Vatnasvæði þetta er óumdeilanlega lengsta veiðanlega laxveiðisvæði Íslands, eða rúmir 80 km, og jafnframt með þeim lang fengsælustu. Upptök árinnar eru í vötnum inni á Tvídægru við Kvíslamót, sem eru steinsnar frá upptökuvötnum Miðfjarðaránna. Af Tvídægru rennur áin niður í Kjarrárdalinn og sameinast Krókavatnsá og Lambá á leið sinni til byggða um Örnólfsdal. Fyrir neðan býlið Guðnabakka sameinast Litla-Þverá ánni og rennur síðan áfram niður byggð og í Hvítá fyrir landi Hamraenda við Brennutanga.

Að þessu sinni látum við okkur nægja að fara með Kjarrá og lýsa helstu veiðistöðum og litríku umhverfi þessarar stórkostlegustu laxveiðiár inni á öræfum Íslands. Eins og vitað er, þá tóku Englendingar að stunda stangaveiði hér á landi fljótlega eftir síðustu aldamót og að sjálfsögðu hefur það ekki verið nein tilviljun að Kjarrá og Þverá urðu fyrst leigðar til stangaveiði af íslenzkum bergvatnsám. Þar hefur ráðið mikil fiskisæld og fagurt umhverfi, auk annarra kosta sem gera á aðlaðandi til stangaveiði. Enginn vafi er á því að góð umgengni og einstök sportmennska þessara manna og þeirra Íslendinga, sem fylgdu þeim við veiðarnar er undirstaða þess, hversu góðar laxveiðiár þær eru í dag.
Neðstu veiðistaðir í Kjarrá eru nefndir Selstrengir, sjálfsagt eftir Norðtunguseli og Síðumúlaseli, sem stóðu sitt hvorum megin árinnar, eigi all langt frá. Strengir þessir eru mjög fengsælir fyrri hluta sumars og hefur það orðið til þess, að veiðimenn efsta hluta Þverár hafa stundum óvart farið framhjá veiðimörkum við svokallaðan Gilbotn ofan Örnólfsdals. Fyrir nokkrum árum átti ég erindi við leiðsögumann við Kjarrá, sem þá var leigð af Svisslendingum; sé ég þá hvar einn íturvaxinn veiðimaður er að þreyta fisk í neðsta Selstrengnum. Greinilega hafði sá hinn sami villst yfir veiðimörkin af einhverjum veiðihvötum og af stríðni kallaði ég því til hans yfir ána: Hvort þeir væru að fá hann uppi í Kjarrá. Nú brást veiðimaðurinn hinn versti við og sagðist ekkert um það vita, hann væri að veiða í Þverá og þessi veiðistaður héti Gilbotn. Ekki gat ég látið hjá líða að kalla til hins þétta veiðimanns rétt nafn á veiðistaðnum og lét fylgja með að svæðið tilheyrði Kjarrá. Hinn þétti virtist vera farinn að spekjast og kallaði nú á móti, að þetta ætti ekki að koma mjög að sök, því þetta væri eini fiskurinn sem hann hefði sett í, í hylnum. Að þessu mæltu kvaddi ég, en benti honum á það um leið að hann skyldi nú breiða úlpuna sína aftur yfir fjóra væna laxa, sem reynt höfðu að ná frelsi og komnir undan þessari stóru flík að mestu.
Fyrir ofan Selstrengi verður flatlendi dalsins meira og ekki er um neina veiðistaði að ræða næsta kílómetrann, en þá tekur við hylur nefndur M-804, nafngift Borgnesinga, frá þeim tíma er þeir höfðu ána á leigu. Þessi hylur hefur verið að breytast mjög síðustu 20 árin og veiddist sæmilega í honum fram til ársins 1974, en þá urðu allmiklir jarðskjálftar á svæðinu og hálffylltist hylurinn af leir og grjóti úr brattri hlíðinni fyrir ofan. Síðastliðið sumar veiddist vel í þessum hyl, sem er sérlega skemmtilegur fluguveiðistaður. Undir háu barði, 200 metrum ofar, er gamall og frægur veiðistaður er Hambro heitir, nefndur eftir Charles Hambro, bankastjóra, sem mokveiddi þarna er hann og fleiri bankamenn fengu að renna í ánni í boði forsvarsmanna Íslandsbanka á sínum tíma. Þá tekur við strengur, er myndaðist við stóran stein er féll í ána við jarðskjálfta þá sem áður eru nefndir. Mikið straumkast er þarna og gefur þessi staður helst þegar lítið vatn er í ánni.
Runki er sá veiðistaður sem flesta laxa hefur gefið sem eru fyrir neðan veiði húsið við Víghól, frá því veiði hófst í ánni, þó skal nefna: Rönnustrengi, sem eru mitt á milli Hambro og Runka og allt of fáir veiðimenn kasta fyrir lax í. Runólfur hét sá góði veiðimaður sem Runki er nefndur eftir og var hann bóndi í Norðtungu áður fyrr og segir sagan að hann hafi aldrei þurft lengra að fara inn eftir ánni til að ná því magni sem hann sóttist eftir Runki er með afbrigðum þægilegur fluguveiðistaður og sérlega skjólgóður staður enda umluktur bröttum hlíðum og þá einkum að sunnan, og hafa margir svitadropar runnið af veiðimönnum á leið upp brattann með þungar laxabyrðar.

Frá Runka og næstu sjö kílómetra upp dalinn að veiðistað sem Wilson heitir og nánar verður getið um síðar, rennur áin ýmist í gljúfrum, sem eru brött og djúp, eða á milli hárra, aflíðandi hlíða. Sérstaklega er bratt niður að ánni sunnanmegin, en norðanmegin er aftur á móti mjög mýrlent og illfært yfirferðar. Undir bröttum hömrum rétt ofan við Runka er Hornhylur, fallegur og gjöfull.
Steinsnar ofar tekur við strengur og hylur er nefndur er eftir mjög röggsömum eftirlitsmanni árinnar, Valdimar Jónssyni, er aðsetur hafði á Víghól eftir 1930. Hann vann það þarfa verk, meðal annars, að góma þekkta veiðiþjófa og fá þá dæmda, sem ekki var algengt í þá daga. Kippkorn fyrir ofan Valdimar er Hnitbjargarhylur, gjöfull og fallegur, en ekki stundaður af veiðimönnum sem skyldi. Nú nálgumst við Prinsessurnar þrjár, sem eru fallegir hylir í djúpu gljúfri, hver upp af öðrum. lllfært er á milli þessara veiðistaða niðri í gljúfrinu, en sannarlega þess virði að klöngrast á milli, því þetta eru skemmtilegir veiðistaðir og gefa oft allvel, þó sérstaklega Mið-Prinsessan.
Rétt fyrir ofan Efstu-Prinsessu er góður veiðistaður, sem lætur lítið yfir sér og er kenndur við Eyjólf Jóhannsson frá Sveinatungu, betur þekktur sem Eyjólfur í Mjólkurfélaginu. Eyjólfur var sagður mjög sporléttur og ötull veiðimaður og fylgdi það sögunni, að honum hefði einum manna tekist að veiða alla ána, frá Störum og niður að Ornólfsdal á einum og sama deginum, en samt veitt vel.
Nú taka við sjálf Gljúfurgöngin sem er þröngur og djúpur hylur efst, en breiðir síðan úr sér fyrir ofan Eyjólfsflúðir. Þetta er ákjósanlegur og gjöfull staður fyrir maðkadorgara. Fyrir ofan Gljúfurgöngin breiðir áin allmjög úr sér og má heita veiðistaðalaus næstu átta hundruð metrana, en þá tekur við fallegur og stór hylur með sérstæðum litbrigðum og er því nefndur Grænhylur. Þessi hylur, sem er sá neðsti af svokölluðum heimahyljum, en svo nefnast einu nafni veiðistaðirnir í gljúfrunum umhverfis veiðihúsið við Víghól. Grænhylur er mjög eftirsóttur veiðistaður og hefur gefið vel undanfarin ár, eða eftir að hætt var að keyra yfir vaðið fyrir ofan, að gamla Víghólsveiðihúsinu, sem brann í júlí 1975, eftir að hafa gegnt góðu hlutverki í u. þ. b. 50 ár. Þarna er eitt fallegasta og stórbrotnasta umhverfi í öllum Kjarrárdalnum; þó er sjálfur Víghóll ekki svipur hjá sjón eftir að stór hluti hans hrundi í áðurnefndum jarðskjálftum.

Nú er komið að Víghólskvörninni, sem er mjög góður veiðistaður fyrri hluta sumars. Hér fyrir ofan tekur hver veiðistaðurinn við af öðrum, misjafnlega góðir eftir árstíma og vatnsmagni árinnar. Beint niður af nýja Víghólsveiðihúsinu, í djúpu gljúfri, er Langidráttur. Úr honum eru dregnir margir laxar á hverju sumri og það sem gerir hylinn sérstaklega skemmtilegan er að hann gefur jafna veiði allt sumarið. Í þessum fallega hyl liggja oft mjög stórir laxar og hvetja svo sannarlega veiðimenn til dáða, þegar þeir silfurfagrir byrja að stökkva fyrir neðan þá sem standa á gljúfurbrúninni. Árið 1940 veiddi Björn Ólafsson, fyrrverandi ráðherra, 35 lbs. hæng í hylnum, sem sennilega er stærsti fiskur, sem veiddur hefur verið í ánni.
Fyrir ofan stórgrýttar, straumharðar flúðir tekur við veiðistaður sem heitir Spegill og ber nafnið með rentu, því hann er yfirleitt spegiltær. Hylur þessi er viðkvæmur, en gefur þeim sem að honum fara með gát oft góða veiði. Síðustu þrír hylir á heimasvæðinu eru Hellgate, Olnbogahylur og Steward. Allvel veiddist oft í þessum hyljum, en veiðimenn verða að þekkja þá mjög vel, til þess að árangur náist. Veiði hefur dvínað mjög síðustu ár á þessum slóðum.
Ekki er hægt að skilja við heimasvæðið án þess að minnast á nýja Víghólsveiðihúsið, sem stendur sunnan megin árinnar, upp af Langadrætti. Án efa er þetta eitt alglæsilegasta veiðihús á Íslandi og öllum sem að því standa til sóma. Rúmum kílómetra fyrir ofan veiðihúsið eru tveir mjög góðir hylir, en það eru Réttarhylur og Neðri-Johnson, en á milli þessara gjöfulu og skemmtilegu veiðistaða eru tveir þokkalegir strengir, sem oft veiðist í, þegar fiskur er í göngu, en það eru Neðri- og Efri-Kosningastrengur.

Hundrað metrum fyrir ofan Neðri-Johnson tekur við Efri-Johnson, mjög skemmtilegur fluguveiðistaður, en viðkvæmur og í mikilli birtu færir laxinn sig upp í hylinn, eða réttara sagt strenginn, og einnig í grýtta pytti fyrir ofan, sem nefnast Syllur. Hér fyrir ofan tekur við rúmur hálfur annar kílómetri af veiðilausum grynningum, fyrir utan Brúarhyl, sem er skammt fyrir ofan Syllurnar, en er lítið veiddur. Nú tekur við hinn ágæti hylur Wilson, sem er mikill hylur og með afbrigðum skemmtilegur fluguveiðistaður.
Frá Wilson og upp að neðsta veiðistað á svokölluðum Gilsbakkaeyrum eru u. þ. b. tveir kílómetrar, að mestu grynningar, fyrir utan hinn gamla veiðistað, sem Eyjólfsfljót heitir, en þarna mun Eyjólfur í Mjólkurfélaginu hafa veitt vel áður fyrr.
Ingimar „heitir neðsti veiðistaður — Gilsbakkaeyranna. Hann einkennist af kletti úti í ánni og veiðist oft mjög vel niður af honum. Nú er ekki lengur ekið eingöngu á bökkum árinnar sunnan megin, heldur er farið með henni sitt hvorum megin og eru vöðin mjög breytileg og ættu veiðimenn að fara yfir þau með varúð, a.m.k. í upphafi veiðitímans. Þarna og næstu sjö kílómetra fyrir ofan rennur áin á flatlendi og eru veiðistaðir heldur tilþrifalitlir, þar til komið er að þremur mjög góðum og eftirsóttum veiðistöðum, sem taka hver við af öðrum. Sá efsti og besti er Ólafía, en þar mun hafa veiðst annar stærsti laxinn í ánni árið 1942, og vó hann 34 lbs. Hylurinn tekur við af tveimur aðalstrengjum árinnar á þessum slóðum, undir lágum bakka og eru tökustaðir margir. Meðalveiði í þessum eina hyl síðastliðin tíu ár mun vera um 80 laxar á ári.

Fyrir neðan Ólafíu tekur við Svanastrengur, en hann hefur nær eyðilagst vegna mikils bakkahruns. Aftur á móti stoppar laxinn meira í Svanafljóti, sem er fyrir neðan, nú síðustu ár og er veiði þar með ágætum. Nokkur hundruð metrum fyrir ofan Ólafíu er allgóður veiðistaður, er Svörtu rollur heitir. Síðastliðið ár breyttist þessi veiðistaður nokkuð og hefur færst neðar og nær sameinast gömlum veiðistað er Sigurðarhylur heitir. Frá þessum veiðistað og næstu þrjá kílómetra upp Gilsbakkaeyrar ættu menn að ganga með ánni, því á þessari leið eru margir veiðistaðir, en mjög breytilegir frá ári til árs.
Svörtusteinar heitir næsti veiðistaður eftir að af Gilsbakkaeyrum er komið og ber staður þessi nafn sitt með rentu. Ótal svartir steinar undir háum bakka skjóta kollinum upp úr ánni, en á milli þeirra leynist lónbúinn. Maðkadorgarar ættu að vera vel birgir af önglum og girni, því festur eru þarna miklar, en vel þess virði að renna. Rétt fyrir ofan Svörtusteina er góður veiðistaður, sem lætur lítið yfir sér sunnan megin árinnar og fara margir veiðimenn fram hjá honum. Þessi veiðistaður heitir Gatið og veiðast þar oft mjög vænir laxar. Þegar ég kem á þennan stað dettur mér alltaf í hug saga sem leiðsögumaður við ána sagði mér einu sinni. Hann hafði verið beðinn að sjá svo um að aldraður útlendingur, sem aldrei hafði veitt fisk á stöng áður, ætti að veiða lax á flugu. Veiðikennslan byrjaði við Svörtusteina og með aðstoð tókst veiðimanninum að festa í laxi, sem sleit 16 lbs. girni, eftir nokkra viðureign og góða tilsögn! Síðan var sett Í annan lax, en allt fór á sama veg og var nú ákveðið að renna í Gatið. Þolinmæði leiðsögumannsins var á þrotum, er hér var komið og var hann nú ákveðinn í því að láta þann gamla halda næsta laxi. Meðan farið var á milli hylja tókst honum að festa 25 lbs. girni, maðkaöngul og svo maðk sem geymdur hafði verið í veiðivestinu, á flugulínuna. Leiðsögumaðurinn kemst nú á undan þeim gamla að Gatinu og lætur línuna detta í hylinn og setur strax í lax, slakar síðan vel út línu og réttir veiðimanninum stöngina með þeim orðum að nú ætti hann að draga línuna hægt inn. Loksins æpti veiðimaðurinn: „Fiskur! Fiskur!“ og eftir langa og stranga viðureign lá 18 Ibs. hængur á bakkanum og flugan komin aftur á sinn stað á girnið. Sjálfsagt hafa margar veiðisögur verið sagðar um þennan fyrsta „flugu“-lax, en eitt er víst, að báðir félagarnir héldu glaðir heim að Víghól.
Frá Gatinu er hægt að aka yfir grýttan farveg rúman kílómetra, að albesta og skemmtilegasta veiðistað árinnar, Neðra-Rauðabergi. Á þeirri leið eru tveir góðir veiðistaðir og heitir sá neðri, sem er betri, Koddi og hinn efri Spenastrengur, í honum veiðist aðallega fyrri hluta sumars. Neðri-Rauðabergshylur líggur undir þverhníptu bergi sunnan megin árinnar. Rauðleit litadýrð bergsins og hvítur úðafoss, sem steypist fram af berginu ofanverðu, gera þennan stað mjög aðlaðandi. Á einu og sama veiðitímabili hefur veiði úr þessum hyl komist yfir tvö hundruð laxa og er það sennilega heimsmet.

Fyrir ofan Neðra-Rauðaberg taka við flúðir og breiðir áin mjög úr sér, en þrengist síðan er ofar dregur. Ekki er hægt að aka lengra meðfram ánni og þurfa því veiðimenn að vera vel útbúnir til "göngu og laxburðar. Næsti veiðistaður sem komið er að heitir Bikkja, djúpur hylur, sem liggur undir bergi norðan megin árinnar. Ekki veiðist mikið í þessum hyl, en þó helst í byrjun veiðitímans.
Næsti kílómetri árinnar er nær samfellt veiðisvæði og skal fyrst nefna fallega strengi, Neðri- og Efri-Smalastrengi, sem gefa oft mjög góða veiði. Mið-Rauðaberg er næsti veiðistaður og hafa veiðimenn oft ekki áttað sig á hvar lax liggur í þeim streng. Rétt er að geta þess að lax fæst oft í strengjum fyrir neðan og ofan þennan stað. Þar sem áin beygir til suðurs rétt fyrir ofan, er fallegur hylur, sem heitir 1930, en þar mun hafa veiðst mjög vel Alþingishátíðarárið. Þessi hylur gefur oft vel þegar lítið vatn er í ánni.
Steinsnar fyrir ofan 1930 er Grjóthylur, sem sjaldan er rennt í, því þarna rétt fyrir ofan blasir við mjög fallegur, gjöfull og skemmtilegur veiðistaður, Efra-Rauðaberg. Ármót Lambár og Kjarrár eru hér ekki alllangt frá og fyrir neðan ármótin eru tveir skemmtilegir pyttir, sem heita aðeins G.G. og M.A., eftir þeim heiðursmönnum Gunnari Guðjónssyni og Magnúsi Andréssyni. Oft kemur mikill framburður af smágrjóti og möl úr Lambá, þar sem áin rennur þvert á Kjarrá og þegar vatn minnkar Í ánni myndast þarna fyrirstaða. Við þessar aðstæður veiðist oftast mjög vel í G.G. og M.A. Fyrir ofan ármótin myndaðist oft hola, sem Ólapyttur neðri heitir, eftir Ólafi Kjartanssyni, sem lengi var umsjónarmaður með vatnasvæðinu hér áður fyrr og á ég margar góðar endurminningar um ferðir okkar með ánni frá þeim árum. Það var í verkahring Óla að lagfæra ármótin og fór þá lax fljótlega að taka í Ólapytti og næsta hyl fyrir ofan, sem Sigurhylur heitir.

Armót Krókavatnsár og Kjarrár eru hér rétt fyrir ofan. Krókavatnsá er ekki laxgeng, því hár foss er rétt fyrir ofan ármótin. Hér fyrir ofan er áin orðin mjög vatnslítil og lítil veiðivon upp að næsta veiðistað, sem er um kílómetra ofar, en það er fallegur og oft laxmikill hylur, sem Aquarium heitir. Yfirleitt er ekki farið lengra upp með ánni til veiða, nema að veiðimenn hafi hesta til afnota og þá fyrri hluta veiðitímans, því hér fyrir ofan, næstu tólf kílómetra, er aðal hrygningarsvæði árinnar og hafa leigutakar yfirleitt ekki leyft veiðar á þessum efsta hluta, eftir að komið er fram í ágúst. Á þessu svæði rennur áin lygn í niðurgröfnum farvegi, með leirbotni. Bestu veiðistaðirnir eru Neðstu- Starir og svo Svartistokkur, sem ætti að vera friðaður allan veiðitímann.
Ott hafa fundist ummerki eftir veiðiþjófa á þessu svæði, en nú er fylgst nær daglega með ánni úr flugvél og hafa þessir óráðvöndu menn hætt iðju sinni. Vel er viðeigandi, að ljúka þessari lýsingu Kjarrár, með ljóði eftir hinn kunna laxveiðimann og náttúruunnanda Jakob V. Hafstein, sem heitir Þverárljóð.
Lax um Þverá þeytist
þýtur hyljagöng.
Drengir kampakátir
kyrja gleði-söng.
Með maðk og flugu fríða
og fallega veiðistöng
gaman er að vera á Víghól
vorkvöldin löng.
Veiðin tekst þér varla
í vatnsleysi og vl,
því laxinn tæpast tekur
er titrar geislaspil.
Betra er því að bíða
unz breytir eitthvað til.
Og þá skulum við reyna að renna
í Rauðabergshyl.
Lax á bakka liggur,
leik er hætt um sinn.
Fannst þér ekki fengsæll
og fallegur strengurinn?
Ýrir ögn úr skýjum
og úði vætir kinn.
Nú er gott að vera á Víghól,
vinurinn minn.