Til baka

Hrútafjarðará og Síká

Hrútafjarðará og Síká

Eftir Karl Kristján Ásgeirsson Veiðifélag Hrútafjarðarár og Síkár og Þröst Elliðason Veiðiþjónustan Strengir ehf

Við Hrútafjarðará og Síká er löng hefð fyrir stangveiði. Leigutekjur fyrir ársvæðið bárust fyrst frá R.N. Stewart skoskum hershöfðingja sem leigði árnar á árunum 1936 til 1957. Herra Stewart var á undan sinni samtíð og var umhugað um íslenska náttúru og fór vel með laxastofn árinnar. Jafnframt var hann til ráðgjafar víðar á Íslandi við útleigu á veiðirétti og setningu veiðireglna. Í kveðjubréfi hans til Veiðifélags Hrútafjarðarár og Síkár hvatti hann m.a. til banns við maðkveiði og verndun hrygningastaða eftir 1. september ár hvert.

Fjölmargir veiðistaðir prýða vatnasvæðið sem sameiginlega er um 16 km að lengd og veitt með 3 stöngum og eingöngu á flugu.

Veiðimenn gista í veiðihúsi neðarlega við Hrútafjarðará án fæðiskyldu og er öll aðstaða þar fyrsta flokks og gott orð fer af því hve vel hefur tekist til í að halda þar gamla „sjarmanum“ og sögu árinnar. Veiðihúsið var upphaflega byggt um miðja síðustu öld en síðar verið stækkað og endurnýjað umtalsvert í nokkrum áföngum. Sérstaka athygli vekur stór arinn í stofu hússins sem hlaðinn var listilega af Sveini Kjarval syni Jóhannesar Kjarvals listmálara.

Hér verður farið yfir veiðistaði Hrútafjarðarár og Síkár en almennt má segja að flestir staðir á efri og miðhluta vatnasvæðisins halda sér að mestu óbreyttir á milli ára. Aftur á móti geta veiðistaðir á neðri hluta þess tekið miklum árlegum breytingum þar sem árnar renna í meira flatlendi og eyrum sem taka stöðugum breytingum. Byrjað verður efst í Hrútafjarðará og síðan í lokin farið yfir og niður með Síká.

Réttarfoss

Efsti hylur Hrútafjarðarár er nokkuð hár og ófiskgengur foss. Þessi staður geymir fiska allt tímabilið en er yfirleitt ekki hár í aflatölum. Best er að vaða yfir ána fyrir ofan Réttarstreng og yfir á eyri að vestanverðu og kasta þaðan upp í strenginn sem er austast. Fiskurinn getur bæði verið undir hvítfryssinu og í útfallinu.

Réttarstrengur

Staðurinn er besti veiðistaður árinnar. Fiskurinn getur verið alveg efst uppi í strengnum og niður með öllum strengnum og langt niður á breiðu ef mikið vatn er í ánni. Veitt er austanmegin og helstu staðir eru við og milli tveggja kletta sem skaga út úr berginu vestanmegin fyrir ofan strenginn. Mikið af laxi safnast oft saman í Réttarstreng er líður á sumarið og ljóst er að flutningur á löxum í mörg ár ofan við Réttarfoss er að gefa góðan árangur.

Pyttur

Þarna þarf að fara varlega. Fiskurinn stoppar stundum í göngu og best er að láta ekki sjá sig ofan á klettinum. Hægt er að læðast beggja vegna við fossinn og kasta af hnjánum í strenginn. Þarna geta legið stórir fiskar.

Gunnarshlaup

Er þar sem áin hvíslast fyrir neðan Pytt. Þarna er stundum fiskur í göngu en er yfirleitt lítið veiddur.

Réttarmelshylur

Í góðu vatni liggja fiskar stundum þar í göngu, viðkvæmur staður sem geymir ekki oft fisk.

Stokkur

Um miðjan Stokkinn stendur stórt grjót við austurbakkann. Milli þessa grjóts og lítils klapparnefs í vesturklöppinni myndast strengur og þar byrjar veiðistaðurinn Stokkurinn. Þennan efsta hluta Stokksins er best að veiða frá austurbakkanum. Ef menn koma vestan megin að er hægt að vaða yfir grunna strenginn mitt á milli stóra grjótsins og litla fossins. Þegar búið er að veiða sig niður að stóra nefinu þarf að fara aftur til baka, yfir og niður á sandeyrina vestan megin og veiða Stokksbrotið. Þeim stóru líður vel í Stokknum og er staðurinn sennilega sá staður í ánni sem skilar hvað hæstri meðalþyngd.

Stokkbrot

Það liggur alltaf fiskur í skilunum á Miklagili og Hrútafjarðará og hér þarf að fara varlega, stundum liggja fiskar í skilunum bara 2-3 metra frá landi. Hér veiða menn skilin vel og alveg niður á brot helst með yfirborðsflugu. Einnig liggur fiskur oft ofan á klöpp alveg við austurlandið. Einnig er gott að kasta upp í Stokkinn frá eyrinni – upp í skálar neðst í Stokknum sem halda alltaf fiski og erfitt er að veiða ofan frá nema ofan af klettinum og þá er hætta á að fiskur styggist.

Stekkur

Er mjó renna þar sem fiskur stoppar stundum áður en hann gengur upp í Miklagil. Þetta er erfiður staður að veiða á flugu og fáir laxar eru skráðir þarna í gegnum árin.

Miklagil

Þarna liggja oft fiskar þegar komið er fram á veiðitímabilið og vatnsbúskapur er góður. Þessi staður er fyrir neðan gljúfrið þar sem það þrengist. Fiskurinn liggur annað hvort í holu að norðanverðu fyrir neðan þar sem áin dreyfir úr sér eða sunnanmegin aðeins fyrir ofan brot. Best er að veiða staðinn af suðurbakkanum en það þarf að fara varlega.

Bæjarhylur

Þarna liggur fiskurinn yfirleitt vestan við strenginn á milli stórra steina, hann getur líka tekið talsvert ofarlega ef um göngufisk er að ræða og því er best að byrja ofarlega og færa sig niður. Þarna er yfirleitt fiskur allt tímabilið og hægt er að veiða þennan stað beggja vegna frá. Í miklu vatni getur fiskurinn legið talsvert langt niður eftir hylnum og jafnvel alveg niður á brot.

Surtarbolli 1, 2 og 3

Þetta eru allt frekar hraðir staðir með nokkuð miklum straumi og geyma yfirleitt ekki nema göngufisk þó hefur verið staðfest hryggning í efsta staðnum. Veitt er frá vesturbakkanum. Oft er gott að skyggja staðina af austurbakkanum áður til að sjá hvar fiskarnir liggja en það þarf að fara varlega til að styggja þá ekki því þetta eru litlir og viðkvæmir staðir.

Surtur

Þarna er yfirleitt fiskur allt tímabilið en það er bæði erfitt að sjá og veiða hann alla jafna. Eins getur verið erfitt að landa fiski í Surti því þarna eru háir klettaveggir beggja vegna árinnar og því betra að fara varlega og vera helst ekki einn við veiðar á þessum stað.

Surtarstrengur

Er lítill strengur við útfall úr Surti að austanverðu sem getur haldið fiski í miklu vatni. Það þarf að veiða staðinn frá vesturbakkanum.

Snasahylur

Þarna getur fiskur legið alveg frá hvítfryssi og niður eftir strengnum og fer dálítið eftir vatni hvar hann heldur sig. Þarna geta legið fiskar allt tímabilið og eins stoppar fiskur gjarnan í göngu.

Stapahylur

Er hár klettur sem skagar út í ána að vestanverðu. Þarna geta legið fiskar þegar kemur fram á tímabilið og eins í vatnavöxtum. Gefur samt yfirleitt ekki mikla veiði og það getur verið erfitt að veiða þennan stað því hann er frekar lygn.

Einbúi

Einbúi er klettur sem stendur úti í ánni. Tökustaðir geta verið út af klettinum þar sem strengurinn myndast og einnig fyrir neðan klettinn. Fiskar geta líka legið í strengnum alveg niður undir klettavegginn að vestanverðu og einnig við klettinn sem skagar út í ána fyrir neðan hann.

Ullarhvammshylur

Strengur fyrir neðan fjárhúsin á Óspaksstöðum þar sem klettaveggur myndar þrengingu í ánni. Þarna eru oft fiskar í göngu og gott að veiða þennan stað ásamt Kvörn og Búrhyl.

Kvörn

Kvörn er fremur lítill veiðistaður með frekar hröðum straumi en þarna liggja oft fiskar í göngu og því þarf að fara varlega og passa að kasta vel á undan sér til að styggja ekki fiskinn.

Búrhylur

Þennan stað þarf að veiða að vestanverðu því áin rennur undir háum hamravegg að austan. Ofarlega í staðnum getur fiskurinn legið í rennu en helsti tökustaður er 1-3 metrum fyrir aftan rennuna og eins getur fiskur legið talsvert langt niðureftir staðnum í miklu vatni. Þarna getur verið gott að kasta aðeins inn á sylluna efst í staðnum og láta fluguna birtast snöggt yfir laxinum. Þessi staður geymir fiska allt tímabilið.

Sírus

Þarna liggur göngufiskurinn uppi í rennunni á milli klettanna þannig að það er best að byrja að kasta á strauminn fyrir ofan. Síðan geta fiskar legið á dýpi á milli og fyrir aftan klettana og síðan í straumnum alveg niður á brot allt sumarið. Það er hægt að veiða þennan stað utan rennunnar fyrir ofan kletta beggja vegna árinnar. Varast ber þó að fara upp á klettinn en það er hægt að smokra sér inn á hann og út á litla malareyri að neðanverðu til að ná að kasta allan staðinn að austanverðu. Síðan er hægt að vaða yfir Hrútafjarðará fyrir ofan Sírus og einnig á brotinu fyrir neðan til að veiða hann hinum megin og eins til að fara niður í næsta veiðistað Rauðamelshyl. Athugið að í streng fyrir neðan útfallið úr Sírusi geta fiskar líka legið í göngu og miklu vatni.

Rauðamelshylur

Þarna getur fiskur legið undir klettinum að austan og því er best að veiða þennan stað frá vesturbakkanum. Það getur verið erfitt að veiða þarna sökum hringstreymis en fiskar geta líka legið aftar og þá er oft komið gott rennsli á fluguna. Gefur ekki marga laxa en er þekktur stórlaxastaður og sérstaklega á haustin.

Mjóihylur

Gefur yfirleitt fáa fiska en þó vert að reyna hann. Staðurinn er veiddur af austurbakkanum og er nokkuð auðlesinn.

Merkjastrengur

Einstaka sinnum má finna lax á pallinum en aðalstaðurinn er flott renna meðfram klettunum á austurbakkanum. Mjög góður göngustaður og þarna getur líka fiskur legið allt tímabilið.

Bálkur

Best er að byrja að veiða austan megin frá. Á göngutíma getur fiskur legið efst í strengnum. Rétt fyrir ofan klapparhornið er svo lítil vík í klöppinni sem gott er að kasta nokkrum köstum á. Sjálfur hylurinn byrjar svo einum metra ofan við klapparhornið. Þar er djúpur hylur með miklu stórgrýti undir strengnum. Það fer svo eftir vatnsmagni hvað fiskur liggur langt niður á breiðuna.

Þegar búið er að veiða strenginn er gott að fara yfir brúna og niður á eyri vestan megin og veiða rennu sem liggur meðfram háa austurbakkanum og niður undir brúna. Mest af fiski í rennunni er 5-10 metra fyrir neðan brú en hann getur legið alveg niður á klettahornið í miklu vatni og jafnvel niður á brot er áin er að sjatna eftir flóð.

Brúarstrengur

Brúarstrengur getur haldið fiski í göngu þegar vatnsbúskapur er góður og er veiddur af austurbakkanum.

Kletthylur

Lax getur legið í öllum strengnum og alveg niður á brot, allt eftir vatni. Í meðalvatni liggur laxinn þó helst rétt neðan við hornið á klöppinni og niður að grjóti á miðri breiðunni sem brýtur á.

Hamarshylur

Þarna er best að byrja efst því göngufiskur getur auðveldlega legið mjög ofarlega. Síðan getur fiskur legið víða í strengnum en þarna er grjót í botninum sem fiskurinn skýlir sér við. Það þarf að veiða þennan stað alveg þar til hann fer að grynnast í útenda fyrir neðan þar sem Ormsáin rennur út í. Sagan segir að í Hamarshyl hafi verið dreginn stærsti lax sem veiddur hefur verið í Hrútafjarðará en það gerði breti að nafni Greenwood og vó laxinn 30 pund.

Klapparhylur

Hefur ekki haldið fiski í mörg ár.

Torfeyrarhylur

Þarna hefur lítið veiðst undanfarin ár en fiskur getur leynst við stóra steina sem eru úti í strengnum.

Engjabakki

Staðurinn hefur gefið vel hin síðari ári og getur lax legið alveg frá harðastreng og niður fyrir hornið á grasbakkanum og alveg niður á breiðu. Aðal tökustaðurinn fer aðallega eftir vatni og þessi staður breytist nokkuð á milli ára. Hér getur orðið vart við bleikju þegar fer að hausta.

Garðshylur

Þessi staður var nokkuð góður þegar áin rann að vestan og beygði til austurs og myndaði streng við garðinn. Þarna geta fiskar í göngu stoppað og það er vel þess virði að eyða nokkrum köstum á hann því hann getur breyst milli ára og dottið inn og út.

Langhólmahylur

Þessi staður hefur ekki haldið fiski undanfarin ár en er þó verðugur þess að skoða hann því á þessu svæði getur áin breytt sér milli ára.

Hrútastrengur

Þegar áin grefur sig inn í bakkann og myndar hæfilegt dýpi getur verið skemmtilegt að veiða þennan stað en getur líka alveg dottið út.

Ármót

Ármót Síkár og Hrútafjarðarár voru til margra ára einn af betri veiðistöðum árinnar. Á undanförnum árum hefur strengurinn færst vestar og staðurinn orðið grynnri og því ekki haldið fiski. Á þessum slóðum er áin aftur á móti breytileg frá ári til árs og því getur þessi staður komið inn aftur og þess vegna ættu menn að fylgjast með honum og prófa annað slagið. Er þá hægt að setja í lax alveg frá streng efst og langt niður á breiðu.

Háeyrarhylur

Háeyrarhylur er klárlega einn af betri veiðistöðum árinnar og heldur fiski allt tímabilið en þó sérstaklega fyrri hluta sumars og ef vatn er í minna lagi. Þarna þarf að byrja ofarlega og getur lax legið mjög langt niður eftir hylnum. Einnig er von á bleikju neðantil í hylnum. Nýlega var allur bakkinn grjótvarinn austanmegin og virðist laxinn halda sér nokkuð víða við grjótkantinn.

Staðartunguhylur

Þessi staður hefur breyst talsvert frá því hann var hvað bestur en vert er að gefa honum gaum og skanna og jafnvel eyða nokkrum köstum á hann því þarna liggur oft fiskur við steina sem eru þarna á botninum þar sem dýpið er mest.

Símahylur

Þarna grefur áin sig inn í bakkann að vestanverðu og myndar stundum nægt dýpi til að lax stoppi þarna.

Landengishylur

Þessi hylur myndaðist þegar áin rann að mestu að austanverðu og getur mögulega komið inn aftur verði breyting á rennsli árinnar. Þessi staður gaf vel og hélt fiski allt tímabilið þegar hann var upp á sitt besta.

Maríubakki

Misgóður á milli ára og heldur frekar fiski þegar vatn er lítið. Getur samt verið blár af laxi í verstu þurrkum. Heitustu punktarnir eru neðra hornið á vík í miðjum grjótgarðinum og alveg aftast á grjótgarðinum þar sem grasbakkinn byrjar.

Tundra

Þessi staður myndaðist fyrir nokkrum árum þegar árfarvegur neðan Maríubakka fylltist af möl og áin tók að færast austur fyrir sandeyrina. Í miklum vatnavöxtum fór þarna á bólakaf Toyota Tundra jeppi og vorið eftir veiddist þarna fyrsti laxinn og dregur veiðistaðurinn nafn af þessum atburði. Þarna er veitt frá sandeyrinni og getur laxinn legið alveg efst í hylnum og niður eftir honum þar sem dýpið er mest.

Dumbafljót

Neðsti skráði veiðistaður árinnar en þarna veiðast allnokkrir laxar á hverju ári og þá er yfirleitt um lax á göngu að ræða. Þarna gætir sjávarfalla og því getur verið breytilegt hvar laxinn heldur sig en það getur verið allt frá því þar sem sandeyrin endar og niður fyrir dýpið sem er út af læk (Grjótá) sem rennur út í að austanverðu. Þarna er besti bleikjustaður árinnar og silfraða geldbleikjan gengur gjarnan upp í þennan poll til að „afvatna“ sig.

Síká

Svartifoss

Svartifoss er efsti veiðistaður í Síká. Laxinn liggur undir straumnum í landgrunni við útfallið. Mikilvægt er að fara ekki of nálægt útfalli, þá kemst styggð að laxinum og hann syndir út í dýpið. Vaðið er snemma yfir og kastað frá vesturbakkanum upstream yfir straumbandið austanmegin við klöppina. Best er ef flugan nær að lenda yfir fjær straumbandinu, straumurinn tekur línuna og myndar U úr línunni og færir fluguna að laxinum. Byrja þá á hægu/löngu eða hröðu/stuttu strippi eftir vatni og aðstæðum.

Gránes

Þarna liggur fiskur oft fyrir neðan klett sem skagar út í ána að austanverðu. Fara verður varlega og byrja helst að veiða staðinn að ofanverðu áður en farið er upp á klettinn. Fyrir neðan klettinn eru nokkrir pollar þar sem fiskur heldur sig gjarnan.

Valþúfuhylur

Er skemmtilegur staður þegar áin er í góðu vatni. Hægt er að vaða ofan frá Gránesi og veiða polla á undan sér niður að Valþúfuhyl en nauðsynlegt er að fara gætilega því áin er frekar stórgrýtt á þessari leið. Þegar komið er niður að hylnum er best að kasta að vestanverðu og yfir í hylinn sem er að austanverðu.

Kothylur

Gefur fáa fiska en vert að prófa nokkur köst eða skyggja hann varlega.

Húsahylur

Sama og Kothylur og gefur helst fisk í góðu vatni.

Þrastarbreiða

Frekar auðlesinn staður sem veitt er af vesturbakkanum og getur haldið fiski.

Svartihylur

Þarna geta laxar legið í strengnum og dýpinu fyrir aftan, gefur sjaldan fisk.

Brúarhylur

Heldur alltaf fiski. Fiskurinn er yfirleitt aftarlega í straumnum við klettinn að vestanverðu og getur líka verið fyrir neðan gömlu brúna í miklu vatni. Frekar erfiður staður að veiða og alltaf hætta á að styggja fiskinn ef ekki er farið varlega.

Tumadalshylur

Er skemmtilegur staður þar sem best er að vaða yfir ána fyrir ofan eða neðan staðinn og veiða hann frá austurbakkanum. Fiskurinn er yfirleitt við klöppina að vestanverðu eða jafnvel neðar í miklu vatni.

Dalshylur

Dalshylur er neðsti veiðistaður Síkár og þarna getur verið all nokkuð af laxi. Áin gengur inn í landið og myndar eins konar skeifu í landslaginu og beygir þar aftur til vesturs þannig að veiðistaðurinn myndar eins konar spurningarmerki. Fiskurinn getur haldið sig alveg frá því þar sem áin rennur inn í skeifuna og alla leið undir háum bakkanum þangað til rennur út úr staðnum og spurningarmerkið endar.

Sjá allar lýsingar
Sjá allar lýsingar