Hörðudalsá

Hörðurdalsá
Eftir Jóhann Sigurðarson
Í Hörðudalsá eru 36 merktir veiðistaðir og er því af nógu að taka þegar spurt er um uppáhaldaveiðistaði. Undirritaður hefur stundað veiði í Hörðudalsá í um 10 ár. Ég hef því lent í ýmsu og veitt ána við hin fjölbreytilegustu skilyrði. Hörðudalsá á það til að breyta sér á nokkrum stöðum í vorleysingum og því er jafnan tilhlökkun að hefja veiðar í byrjum sumars og uppgötva nýja veiðistaði. Ég nefni hér til sögunnar 10 veiðistaði sem hafa skemmt mér og mínum í gegnum árinn og byrja efst í Vífildal sem er efsta veiðisvæði Hörðudalsár.

Veiðistaður 33
Fallegur hylur við brúna við bæinn Víðidal. Þessi hylur lætur ekki mikið yfir sér en hér hef ég oft lent í fallegri veiði. Það sem gerir þennan hyl skemmtilegan er að Jafnvel þótt maður skyggni hann vel (sem maður á auðvitað ekki að gera) og sjái engan fisk getur fiskur leynst víða undir steini. Þarna hef ég átt frábærar stundir með börnunum mínum þar sem þau veiddu sínar fyrstu bleikjur á flugu, þarna er og gott aðgengi að ánni.
Veiðistaður 29
Árið 1993 kom ég til veiða í Hörðudalinn, þá lítt kunnugur á þessum slóðum og hitti þar fyrir veiðimenn sem við áttum að taka við af. Spurði ég nú frétta af aflabrögðum og báru menn sig vel, síðan var hnykkt út með því að þeir hefðu séð lax einn sérkennilegan í ánni, nánar tiltekið á veiðistað 24, en það sem hafði vakið athygli þeirra var að hann var með hvítan blett á hausnum. „„Þú verður að reyna að veiða þennan fisk,“ sögðu veiðimennirnir að skilnaði. Á tilskildum tíma hófum við fjölskyldan nú veiðar og var byrjað í veiðihyl no. 29 sem er fallegur hylur undir smá klettasnös. Ágæta bleikjuveiði var þar að hafa. Sem ég er að landa einni bleikjunni verður mér litið á bak við stein rétt við landið. Liggur ekki laxinn með blettinn þar og bíður eftir mér og það var í raun mjög auðvelt að fá hann til þess að bíta á. Hófst nú glíman við að landa honum og svo góður var ég með mig að ég varð auðvitað að leyfa öllum í fjölskyldunni að taka svolítið á honum. Þegar ég svo ætlaði að landa laxinum reif hann sig auðvitað lausan eftir allar aðfarir fjöldskyldunnar. En þessi viðureign var vel þess virði þótt blettalaxinn væri frjáls ferða sinna
Veiðistaður 25
Þetta er fallegur spegill sem geymir yfirleitt ekki marga fiska en þar veiddi ég mína fyrstu fiska á þurrflugu. Það er ógleymanlegt með öllu að sjá bleikjuna koma upp í yfirborðið og hremma fluguna. Þó ekki væri nema til að rifja þetta upp kem ég alltaf við á þessum fallega veiðistað þegar ég er þarna á ferð. Þar eru veiðistaðir ekki merktir en neðarlaga í ánni (við brúna yfir Laugá), rétt áður en Laugá sameinast Hörðudalsá, á ég mér leynistað og hef það fyrir sið að stoppa við brúna og hlaupa út og kasta nokkur köst og oftar en ekki hef ég verið heppinn og sett í fisk en þannig er það líka með allt veiðisvæði Hörðudalsár að oft gefur það góða raun að veiða á milli merktra veiðstaða. „Leitið og þér munið finna“ er regla sem á vel við á þessu veiðisvæði.
Veiðisstaður 23
Langur og flottur hylur þar sem Laugá sameinast Hörðudalsá. Þar veiddist fyrir nokkru 23 punda lax sem prýðir nú veiðihúsið. Þarna var ég eitt sinn sem oftar við veiðar en ekki hafði nú gengið alltof vel þann daginn. Með okkur voru vinahjón okkar og í því tilfellinu var konan veiðimaðurinn á heimilinu. Við gáfumst nú upp í bili og fórum heim í veiðihús að undirbúa grillið. En veiðikonan varð eftir. Eftir dágóða stund kemur hún upp í veiðihús með blautt hárið en fisklaus. „Hvað kom eiginlega fyrir?“ var spurt. Jú, það stökk lax beint fyrir framan nefið á henni og skvetti á hana og sagði hún að hann hefði verið svo stór að hún hefði ekki þorað að vera þarna ein á ferð.
Veiðistaður 21
Fornfrægur veiðistaður og til margra ára einn sterkasti staður árinnar. Fyrir nokkrum árum breytti áin sér á þessum slóðum og spilltist þá veiðistaðurinnnokkuð en það stendur allt til bóta og víst er að ekki mun líða á löngu að þessi rómaði veiðistaður nái fullum styrk eftir smávægilegar framkvæmdir. Við þennan veiðistað er hægt að dunda sér góða stund. Því þarna safnast oft gríðarlega mikið af fiski. Þessi veiði staður er skammt frá veiðihúsi og því að aðgengilegur.

Laugará
Einn er sá staður í Laugará sem ég held mikið upp á en það er efst í gljúfrunum. Þangað er gaman að koma, þó sérstaklega síðsumars. þegar bleikjan er búin að koma sér fyrir. Þá skil ég veiðigræjurnar eftir í bílnum og legst fram á bergið og skoða niður í þetta fallega fiskabúr, gert af náttúrunnar völdum, og skoða bleikjuna svamla um í hrigningarhugleiðingum og fátt er skemmtilegra en að ligga þarna á maganum og tína ber upp í sig og njóta náttúrunnar.

Veiðistaður 16-18
Þessir veiðistaðir og svæðið á milli þeirra geta verið mjög öflugir en þó breytilegir á milli ára, þetta er það svæði sem gefið hefur hvað mesta veiði hin síðari ár. Þarna landaði ég mínum fyrsta laxi úr Hörðudalsá. Það sem var hvað skemmilegast við þá töku var að laxinn beinlínis kom upp úr ánni og hremmdi fluguna mína (Rauðan Frances). Á þessu svæði er hægt að dunda sér daglangt.
Veiðistaður 1
Þetta er fyrsti eiginlegi veiðistaður árinnar sem gjarnan er heimsóttur, þó sérstaklega snemmsumars. Þarna virðist bleikjan fyrst stoppa almenninnilega og oft er hægt að fá góða veiði þarna ef maður hittir á þegar fiskurinn er að ganga í ánna. Að upplifa það að sjá fiskinn koma í ána jafnast alveg á við að veiða hann, þetta getur verið ótrúlegt sjónarspil, fiskurinn gárar um alla á og krían sveimar allt um kring. Þá þarf ekki að standa með stöng úti í á, bara að verða vitni að þessu sjónarspili fullnægir mér því eftir því sem árin færast yfir er það ekki veiðimagnið sem skiptir máli heldur gæðin og að upplifa náttúruna á þennan hátt. Sá veiðimaður sem getur stillt veiðinni í hóf og opnað skilningarvit sín fyrir því sem er að gerast í náttúrunni í kringum hann fær það margfalt til baka og kemur sæll og betri maður heim.