Til baka

Grímsá

Grímsá

Eftir Jón Þór Júlíusson

Ljósmyndir Einar Falur Ingólfsson o. fl.

Grímsá, ásamt Tunquá er með allra bestu laxveiðiám landsins. Grímsá er móðuráin og á upptök sín í Reyðarvatni og fyrstu kílómetrana fellur hún um nokkurt brattlendi í óbyggðum. Þar eru margir fossar en hin raunverulega laxveiðiá byrjar þegar sá neðsti þeirra fellur ofan í Lundareykjadal.. Fossinn heitir Jötnabrúarfoss og sannast sagna er óvíða fallegra við Grímsá en einmitt við foss þennan. Hann er þó ekki veiðisæll, þótt veiðilegur sé. Grímsá er öll 42 kílómetrar en laxgeng 32 kílómetra að fyrrgreindum Jötnabrúarfossi. Tunguá er alls 20 kílómetrar en aðeins laxgeng helming þeirrar leiðar en þar er Englandsfoss sem ekki hleypir laxi upp fyrir sig. Það kann nú að breytast þar sem fyrirhuguð er framkvæmd við laxastiga við Englandsfoss. Hér förum við yfir helstu veiðistaði Grímsár

Jötnabrúarfoss og Engjahylir

Efsti laxveiðistaður Grímsár er Jötnabrúarfoss og breiðan niður af honum. Þetta er allnokkru ofan við brúna yfir Grímsá hjá Oddsstöðum. Fossinn er þó alls ekki gjöfull þó að náttúrufegurð sé þar mikil og breiðan veiðileg. Í Jötnabrúarhyl sjá menn stundum og veiða stórar bleikjur sem eiga rætur að rekja til Reyðarvatns. Síðustu ár hefur hylurinn gefið þónokkra laxa og er vel þess virði að reyna við þá. Engjahyljirnir eru tveir og skulu menn nýta sér veiðikortið til að komast að þeim. Þeir leyna dálítið á sér að því leyti að báðir bakkar beggja eru grasi vaxnir. En þarna leynast laxar og hægt er að fá góða veiði í báðum hyljunum, einkum þegar líður á veiðitímann. Þá má einnig gera magnveiði.

Oddsstaðafljót

Oddsstaðafljót er nokkuð langur veiðistaður niður af ármótunum við Tunguá. Staðurinn er einn af betri veiðistöðum árinnar og safnast þar iðulega saman mikið af laxi. Ekki er óalgengt að staðurinn gefi um eða yfir hundrað laxa á vertíð. Fljótið er veitt af malareyrinni húsmegin og kastað upp að hærri grasbakkanum. Byrjað er ofarlega og veitt niður með þéttum köstum, enda getur lax verið þarna um allt. Neðarlega gengur lítið síki inn í grasbakkann, en afar góður tökustaður er rétt fyrir ofan það og síðan töluvert niður fyrir. Þarna er straumurinn búinn að hægja mjög á sér eftir ármótin og þykir henta vel að strippa fluguna ákveðið. Oddsstaðafljót á það til að „tæmast“ á stuttum tíma þegar rignir loks og skilyrði til að fara upp í Tunguá verða hagstæð.

Efstihylur

Áin rennur úr Oddsstaðafljóti í grunnum breiðum streng og út í næsta hyl sem heitir því villandi nafni Efstihylur. Forðum voru þar ármótin við Tunguá og þannig stendur á nafninu. Grasbakkinn hér er að sunnanverðu, en hann er lágur. Þarna er grjótgarður sem settur var til að forða landbroti. Veiðivon er alls staðar frá honum og niður fyrir endan á grasbakkanum og að öllu jöfnu er þetta mjög góður veiðistaður allan veiðitíman. Hin síðari ár hefur fiskur legið neðarlega í Efstahyl.

Tjarnarbrekkufljót

Var með gjöfulli stöðum hér áður fyrr en hefur heldur gefið eftir upp á síðkastið. Laxabakki Hefur fyllst af möl en vert er að gefa gaum neðsta hluta staðarins, þar sem áin dýpkar.

Neðri Gullberastaðastrengur.

Hefur verið með gjöfulustu stöðum á dalnum hin síðustu ár. Áin rennur með nokkrum hraða efst og liggur oft lax í hraða vatninu. Eins á þeim kafla er áin hægir á sér, síðsumars skal reyna fluguna með hægu strippi alveg niður á blábrot.

Friðriksgjafi

Hefur verið að lagast hin síðustu ár og er farinn að gefa laxa aftur.

Snartarstaðahylur

Þessi staður geymdi hér áður fyrr mikið af stórlaxi, þetta er einn af þeim stöðum sem er of lítið reyndur í dag. Stór grjót mynda ágætlega djúpan stað bæði fyrir ofan grjót og neðan.

Hólmastrengur (Svartibakki)

Mjög langur veiðistaður, í Hólmastreng eru þrír tökustaðir, efst þar sem áin kemur í bakkann, fyrir miðju og alveg neðst áður en áin fellur niður í Nafnlausan.

Nafnlaus

Staður sem hefur orðið til hin síðari ár. Mat kunnugra er að það sé einungis tímaspursmál hvenær þessi staður fer að gefa veiði.

Kotakvörn

Þá er komið að hinni víðfrægu Kotakvörn. Staðnum er þannig lýst: „Þarna rennur áin Í sveig meðfram grasbakka að norðanverðunni. Þetta er klassískur malarhylur sem er veiddur af eyrinni að sunnanverðu. Ofarlega er raflínustaur og neðan við hann er skurður sem gengur út í ána. Laxinn getur legið ofan við staurinn, en oftast er heitasti tökustaðurinn á móts við þar sem skurðurinn og hylurinn mætast. Best er að byrja köstin ofan við staurinn og vinna sig niður, og veiða alveg niður fyrir hornið. Á öllu þessu svæði er mikið um hnausa í botni og liggur laxinn ofan við þessa hnausa og utan í þeim. Hnausar þessir eru einmitt varasamir þegar lax hefur tekið og fer á flugferð um hylinn. Kotakvörn er feiknalega sterkur veiðistaður sem gefur að jafnaði um hundrað laxa á sumri.“

Garðafljótin

Garðafljótin eru tvö, það efra og neðra. Þetta eru góðir veiðistaðir en eiga það til að breytast á milli ára. Efra Garðafljóti er svo lýst: „Veitt er frá norðurbakkanum og kastað út að grasivöxnum moldarbakka. Meðfram bakkanum er nokkuð löng og djúp renna en í henni eru nokkrir torfuhnausar. Góður straumur er niður fyrir miðjan hyl. Besta tökusvæðið er neðan við miðjan hylinn þar sem hægir á rennslinu. Laxinn liggur frá miðjum hyl og allt niður að nefinu þar sem grasbakkanum sleppir. Þar fyrir neðan er yfirleitt ekki mikið af fiski. Staðurinn er einn af betri stöðum árinnar og hefur á undanförnum árum gefið á bilinu 50 til 100 laxa á sumri.“

Neðra Garðafljót er meðalgóður veiðistaður sem gefur að jafnaði 10 til 20 laxa yfir sumarið. Það tekur við af efri staðnum og er staðurinn veiðilegur með mörgum hnausum í botni. Lax getur tekið ofarlega og niður úr, allt niður undir eyri sem ýtt hefur verið upp til að koma í veg fyrir að áin flæmist þarna um eyrarnar.

Húsafljót.

Frá Garðafljótunum er stutt niður að stórri tungu sem er umlukin þekktum veiðistöðum. Húsafljót byrjar þar sem áin sveigir í vestur og síðan er Húsafljótsstrengur í beinu framhaldi. Áin er hér breið og misdjúp. Skvompur eru víða og lax getur verið hér og þar á all löngum kafla.

Skarðshylur.

Frekar ofarlega í hylnum er skarð í hærri bakkanum þar sem lækjarspræna rennur í Grímsá. Almennt er talið að lax veiðist ekki fyrir ofan umrætt skarð. Lax getur þó tekið víða þar fyrir neðan. Skarðshylur er mjög langur og gefst best að kasta að hnausum sem fallið hafa úr hærri bakkanum og lent í ánni. Laxinn liggur oft við þá. Best er að vindur blási þegar Skarðshylur er veiddur og ekki verra að það rigni líka.

Ferjupollur

Eiginleg veiðivon er varla fyrr en undan Skálpastöðum þar sem Ferjupoll er að finna. Fyrrum fékkst þar eitthvað aðeins en eftir að vinnuvélar ýttu upp garði og þrengdu farveginn er þarna prýðisgóður veiðistaður. Ferjupolli er þannig lýst: „Í veiðistaðnum eru tvær grjótbryggjur ofarlega við norðurlandið. Á lygnunni fyrir ofan efri bryggjuna mótar fyrir stórum steini. Fiskar liggja oft við þennan stein og þarf löng köst til að ná til þeirra. Jafnframt getur fiskur verið í stútnum ofan við efri bryggjuna. En aðal veiðistaðurinn er út af efri bryggjunni og niður að þeirri neðri. Framan við efri bryggjuna eru ljósir klapparstokkar í botninum og milli þeirra leynist oft mikið af fiski.“

Grafarhylur (og Hrosshylur)

Grafarhylur er næstur og sannarlega fornfrægur veiðistaður. Óhætt er að segja að hann sé ekki allra. Áin er þarna breið og afar hæg. Oft er mikið af laxi í Grafarhyl og talið nauðsynlegt að vindur blási til að fiskur fáist til að hreyfa sig eftir agni. Áður fyrr var veiðikofi á bakkanum en hann sprakk í ofsaveðri veturinn 2015. Hyldjúp renna er í miðjum hylnum. Það þarf af þeim sökum að kasta langt því að laxinn er að mestu í þessari rennu. Kasta þarf yfir rennuna og draga fluguna hratt yfir hana. Þetta er all nokkur kafli og leiðinlegt að vaða á drullubotni. Þegar mikið er af laxi í Grafarhyl sést stundum til laxa stökkvandi ofan við beygjuna. Þar standa tveir steinar upp úr og fleiri eru í kafi. Í kring um þetta grjót liggja laxar gjarnan og þar er veiðivon.

Fyrrum var Grímsárlaxinn miklu stórvaxnari heldur en hina seinni áratugi. Þá voru margir veiðistaðir í Grímsá beinlínis annálaðir fyrir stórlaxa og var Grafarhylur þar alls ekki síðastur á lista. Björn Blöndal segir frá því að erlendur veiðimaður sem hann þekkti til hafi á einum degi veitt í Grafarhyl fjóra laxa sumarið 1933 og var sá minnsti þeirra 8 punda og sá stærsti 23 punda. Björn segir líka frá því að neðri hluti Grafarhyls sé mikil hrygningarslóð. Það hafi hann sjálfur séð er hann fór ána á ís fyrir margt löngu. Hann hafi þá séð mörg hrognabú í botni að vetrarlagi. Sumarið 1983 veiddist einn stærsti lax seinni ára í Grímsá. Sá var skráður 28 pund og veiddist í Hrosshyl, sem er nafnið á hinu mikla flæmi sem tekur við af Grafarhyl.

Stekkjarstrengur og Klöpp

Næstir koma tveir keimlíkir veiðistaðir, Stekkjarstrengur og Klöpp. Þeir eru keimlíkir þar sem hvorugur taldist til góðra veiðistaða uns grafan var sett Í ána og ýtt var upp görðum til að þrengja rennslið. Stútur með spegli ofan við garðana og síðan grýttir strengir niður með eru einkenni beggja veiðistaða og þeir halda laxi og gefa vel. Veiðist í báðum frá stút og niður strengina. Víða er grjót upp úr eða í kafi og þarf að kemba þetta vandlega og reyna við hvern stein. Síðan liggur fiskur furðu langt niður breiðurnar, sérstaklega þegar haustar og vatn er yfir meðallagi.

Strengirnir

Áhöld eru um það hversu margir þeir eru og er talað um allt frá þremur og upp í fimm. Oftast er talað um Efsta Streng, Mið Streng og Neðsta Streng en þeir sem vilja brjóta þetta meira upp telja Efsta Streng tvískiptan og þann neðsta einnig. Látum hér fylgja lýsingu leiðsögumanna á svæðinu. „Strengirnir í Grímsá eru í hópi þekktustu veiðistaða á íslandi og eru þeir veiddir frá suðurlandinu.

Efsti Strengur er talinn skiptast í tvo strengi. Byrjað er í hvítfyssinu og þar rétt fyrir neðan eru steinar í botninum sem gefa laxinum skjól. Fiskar liggja þó helst undir klöppinni handan strengsins. Þegar kastað er á efsta strenginn er vert að reyna að hægja sem mest á rennsli flugunnar. Neðan við miðja rennuna er sagt að strengur tvö taki við. Þar er nokkuð djúp gjá sem þrengist í einskonar skeifu þegar neðar dregur. Fiskurinn getur bæði legið í gjánni en einnig getur hann legið upp í kantinum handan straumsins. Staðurinn geymir ætíð nokkuð magn af fiski og iðulega leynast þar stórir laxar.

Mið Streng er best að veiða ofan frá. Staðið er ofan við staðinn og kastað löngum köstum til þess að ná sem hægustu rennsli á fluguna. Í strengnum ofarlega eru tveir steinar sem laxinn liggur alltaf við. Þegar neðar regur eru stokkar og rásir sem geyma fiska. Staðurinn er í sjálfu sér samfellt veiðisvæði en fara þarf varlega að og veiða allt niður á brotið þar sem fellur úr strengnum. Seinni part dags og á kvöldin þurfa veiðimenn að fara sérstaklega varlega því að þá eru þeir með sólina í bakið og kastast þá skugginn út á ána ef þess er ekki gætt.

Neðsti strengur skiptist í tvo hluta. Í efri hlutanum eru rásir og liggur laxinn vanalega neðst í þeim. Neðsti veiðistaðurinn í Strengjunum er þar sem áin breiðir úr sér og hluti hennar fellur í átt að norðurlandinu. Þar liggur laxinn á grynningunum. Nokkuð löng köst þarf til að ná á tökustaðina og gott er að vippa línuna upp í strauminn til að hægja á rennsli hennar, ella er hætta á að straumurinn hrífi hana of hratt fram hjá löxunum. Í miklu vatni flytur fiskurinn sig frá útfallinu til norðurs og leggst neðst í Strengina og liggur þá gjarnan út af steini neðst í þeim.

Mið Strengur er einn gjöfulasti taður árinnar í mörg ár. En varlega verður að fara, svo að laxinn styggist ekki. Nærri neðst í Mið Streng er oft besti tökustaðurinn. Við norðurlandið er eins og sveigmynduð bergbrún, sem aðeins fer í kaf í flóðum. Neðst á móti sveig þessum er mjög oft hægt að fá fisk á flugu. Þar er stór steinn í botni. Best er að kasta línunni þvert og með litlum baug nærri stangartoppnum. Laxinn tekur stundum rétt fyrir ofan steininn en oftast rétt fyrir neðan hann. Neðsti Strengur er grynnstur af Strengjunum. Hann er oft mjög góður þegar talsvert vatn er í ánni. En lakari í þurrkasumrum.“

Stærsti lax sem náðst hefur á land úr Grímsá veiddist forðum í Mið Streng. eitthvað um 32 íslensk pund.

Lækjarfoss

Hann er enginn foss, heldur strengur meðfram klöpp rétt ofan brúar neðan Fossatúns. Þetta er veiðilegur strengur þar sem lax getur legið alveg frá hvítfyssi og niður á brot. Þetta er líka góður veiðistaður flest sumur. Víða er grjót sem ýmist stendur upp úr eða ólgar af, eða er bara til staðar í botni og er laxinn við þetta grjót. Aðalatriðið hér er að kemba þétt og er það ekki lengi gert því að staðurinn er ekki langur. Hins vegar er nokkuð langt út á brotið þegar þangað kemur og sumum finnst því betra að veiða þennan stað með tvíhendu.

Hörgshylur

Hörgshylur er ekki með bestu veiðistöðum árinnar, en hann er magnaður fyrir augað og ekki endilega allur þar sem hann er séður. Ef kíkt er ofan af brúnni liggja laxar oft í dálítilli rauf í klöppinni að vestan, til hliðar við mesta straumkastið. Oft og iðulega eru býsna stórir laxar þar og þeir eru ekki líklegir til að taka. Það hefur þó átt til að gerast og þá komið á óvart. Þarna er örsjaldan kastað því að tiltrúin er ekki mikil. Kannski ættu menn að reyna þarna oftar. Enn fremur liggja laxar oft neðst í hylnum og þar setja menn stundum í laxa. Gott er að koma auga á þá ofan af brúnni og mæla köstin. Sjóbirtingur kann vel við sig í Hörgshyl og leggst iðulega töluvert af honum þar.

Viðbjóður

Í Viðbjóði liggur laxinn með klettinum og alveg niður að broti. Töluvert löng köst þarf til og skal forðast að ganga of nærri brotinu. Staðurinn hefur gefið mjög vel síðustu sumur og margir hafa mikið dálæti á hylnum því að laxinn á það til að sýna sig rækilega þegar hann hremmir fluguna. Gárubragðið fer sérstaklega vel í Viðbjóði.

Móbergshylur

Þessi hylur er mjög dyntóttur. Oft fer enginn þangað í langan tíma en svo er kíkt í Móbergshyl og þá fæst góður afli, væntanlega vegna þess að staðurinn er vel hvíldur.

Svartistokkur

Nú er komið að fornfrægum veiðistað sem gefur raunar minna en áður. Hann gefur þó og hefur á sér orðspor sem stórlaxastaður. Hann hefur hins vegar breyst í áranna rás þrátt fyrir að renna um þröngan klettastokk. Áin sem sagt þrengist og fellur ofan í Svartastokk sem er gjá rétt ofan við veiðihúsið. Fyrrum fór áin ofan í stokkinn í tveimur strengjum og var þá afar góður tökustaður þar sem þeir mættust. Síðan mátti heita að fiskur gæti tekið niður allan stokk. Þarna er veitt frá báðum bökkum en þægilegra frá norðurbakkanum, klöppin þar er lægri og skornari. Að sunnan er gjarnan prílað niður í klettaskúta og veitt þaðan. Nú til dags ganga menn oft varlega á klettinum að sunnan og kasta nokkuð niður fyrir sig ef þeir vilja láta reyna á veiðilíkur í ofanverðum Svartastokki. Er það til vandræða ef glíma þarf við lax sem er stærri en smálax.

Nú til dags er annars mest veitt í Svartastokki alveg neðst af grasbakka þar sem klöppin að sunnan endar og kastað yfir um að klapparnefi. Þar virðist liggja talsvert af laxi og getur hann tekið vel.

Stórlaxaflöt og síðan Heimaflöt.

Þetta eru eiginlega samhangandi veiðisvæði. Á Stórlaxaflöt fellur kvísl til norðurs og er veiðistaðurinn aðallega þvert yfir brotið og eltir fiskur oft frá brotinu yfir alla breiðuna og er oft boðinn kyngimagnaður. Þessi staður á það til að gefa vel í ljósaskiptunum, en ella helst ef vindur gárar yfirborðið. Þarna liggja bæði laxar og birtingar og einnig á Heimaflötinni.

Laxfoss

Laxfoss er án vafa frægasti veiðistaður Grímsár. Lýsingar sem Björn J. Blöndal og aðrir á fyrri tímum eiga þó varla við lengur nema að litlu leyti því að veiðistaðnum hefur verið breytt nokkuð með gröfum hin seinni ár, en hlaðið hefur verið upp verklegum görðum frá suðurlandinu og langt út í á til að beina ánni í einum streng niður Þingnesstrengi þar fyrir neðan. Laxfoss er mjög mikilfenglegur staður og gefur oft vel á göngutíma laxins. Til að komast að veiðistaðnum er farið yfir ána á göngubrú út í Miðberg og niður stiga þar. Vaðið er út á mjóa klettasyllu alveg fram í fryssið. Mörgum finnst glæfralegt að standa á klettasyllunni í fryssinu en það er nauðsynlegt til að geta veitt útjaðar strengsins. Strengurinn er veiddur með stuttum köstum til að byrja með, en síðan eru köstin lengd. Æskilegt er að fara varlega og ekki æskilegt að vaða lengra niður eftir en að klettarana sem nefndur er Krókodíll. Neðan við strenginn sést blár blettur en þar er djúpt ker. Laxinn tekur sjaldan í kerinu þótt hann sjáist oft stökkva þar.

Þingnesstrengir

Á meðan áin flæmdist um allar jarðir til Lambaklettsfljóts hétu Þingnesstrengir að vísu sama nafni en um góðan veiðistað var ekki að ræða nema af og til og fór eftir rennslinu hverju sinni. Eftir að ánni var veitt í einn farveg þar niður breyttist rennslið gersamlega og síðustu árin hafa Þingnesstrengirnir tveir verið með allra sterkustu veiðistöðum Grímsár en, líkt og Laxfoss, helst snemmsumars og fram á hásumar á meðan mestu göngurnar standa yfir.

Klapparhorn skagar út í Grímsá frá norðurbakkanum þar sem þrengingin byrjar og Þingnesstrengirnir taka við. Oft er lax og birtingur efst á því broti á talsverðu dýpi en niður allan efri strenginn er mikil og góð veiðivon, best þó miðja vegu á móts við klöpp á norðurbakkanum og yfir að garðinum. Þar fyrir neðan er einnig góð veiðivon, alveg niður á brot. Neðri strengurinn er fjarri því jafn góður þó að hann gefi stundum laxa.

Lambaklettsfljót

Þessi staður er einn af fornfrægu veiðistöðunum í Grímsá og fyrrum einn af þeim bestu í ánni en breyttist talsvert við uppbyggingu Þingnesstrengjanna. Hugsanlega varð sú uppbygging til þess að fiskur stoppaði minna í Lambaklettsfljóti. Veiðistaðurinn er þó góður enn en veiðin sveiflast mikið milli ára og er hún frá fáeinum fiskum upp í kannski fimmtíu sum sumur þegar best lætur. Ofarlega í strengnum sem fellur í fljótið eru tveir steinar og milli þeirra er oft göngufiskur sem er alltaf líklegur.

Niður strenginn og út á breiðu er alls staðar veiðivon, síst þó þegar komið er niður á djúpa lygnuna. Þar er þó að sama skapi alltaf jafn gaman að horfa á laxahópana ofan af klettinum. Það verða menn þó að gera af stökustu varúð, því að laxinn er fljótur að koma auga á menn þar ef ekki er varlega farið. Fyrrum var þetta mikill stórlaxastaður og í gömlum sögum Björns J. Blöndal er greint frá laxi úr Lambaklettsfljóti sem var eigi veginn, en þótti tröllvaxinn.

Þar fyrir neðan Grímsá sveigir til norðurs rétt neðan við Lambaklettsfljót. Þar á beygjunni er gamalfrægur staður sem heitir Hólmavaðskvörn. Hún þekkist af klapparoddum sem ganga þar út í ána. Kvörnin er tvískipt og efri hlutinn vænlegri til veiðiskapar. Þarna er veiðin þó aðeins svipur hjá sjón nú til dags miðað við hve mikið af laxi lá þarna fyrrum. Hólmavaðskvörn var frægur staður og lifir nú á fornri frægð, hvað sem síðar verður.

Það sama má segja um Langadrátt sem tekur við af Hómavaðskvörn. Hann má muna sinn fífil fegurri, enda var hylurinn áður bæði lengri og dýpri heldur en í seinni tíð. Þar fyrir neðan er lítið veitt. Þar heitir Skuggi þar sem Grímsá mætir Hvítá. Þar er veiðistaður sem er leigður út sér, eins og títt er um vatnaskil bergvatnsáa og jökulvatna.

Sjá allar lýsingar
Sjá allar lýsingar