Fróðá

Fróðá
Eftir Jakob Hafstein
Fyrir 14 árum síðan leit ég Fróðá fyrst augum. Þetta var í septemberbyrjun og ég fór vestur til þess að aðstoða við sleppingu seiða. Að sjálfsögðu tók ég stöngina með, því aldrei var að vita nema maður fengi að renna. Ég man að slepping seiðanna gekk ágæta vel, þar sem hún var framkvæmd uppi á miðri Fróðárheiði, en ekki þótti mér nú vatnsmagnið mikið a.m.k. ekki á sleppingarstaðnum. En heldur rættist úr þegar ofan af heiðinni var komið, að vísu var ekki um neitt stórfljót að ræða þar sem Fróðá rann undir þjóðvegsbrúninni, en vel gat gengið í hana fiskur.
Mér er það ákaflega minnisstætt hvernig þessi litla og skemmtilega veiðiá tók á móti mér þennan fagra haustdag. Nýrunnin lúsug 9 punda hrygna tók fluguna mína í Klettsfljótinu eftir fá köst og fleiri synir og dætur árinnar áttu eftir að láta glepjast af flugunni minni þennan dag.
Þessi staður og þetta umhverfi tóku mig heljartökum strax í upphafi. Í norðrinu blasir Breiðafjörðurinn við, þar sem í bláma fjarlægðar má sjá Látrabjarg og Skor. Beint upp af Fróðárbænum rís síðan Fróðárheiðin með öllum sínum drauga- og huldufólkssögum, og yfir öllu drottnar Snæfellsjökull í öllu sínu veldi og geislar „lífslönguninni“ í allar áttir. Það segir Þórður á Dagverðará og ekki eitt andartak dreg ég það í efa. Á fáum stöðum líður mér jafnvel og vestur að Fróðá fer ég til þess að vera einn með sjálfum mér, fjölskyldu minni og vinum.
Fróðá er laxgeng u. þ. b. 6 km. Þar stöðvast för göngufisks af háum fossum, en upptök árinnar liggja miklu ofar, uppi á miðri Fróðárheiði, en þar stendur sæluhús rétt við veginn. Þetta hús sem ætlað er ferðalúnum til hvíldar og afdreps á sinn fasta sess í ævintýraheimi barna, sér í lagi meðan þau eru ung, því þar býr Lauga. Góð kona sem vakir yfir þeim er yfir heiðina fara, og ég er viss um að í einhverri ferðinni yfir heiðina hafa börnin séð Laugu gömlu bregða fyrir, slíkur er ævintýraljóminn kringum þetta sæluhús.
Allt þetta svæði, það er frá fossunum miklu og upp fyrir sæluhúsið, hefur verið notað fyrir seiðauppeldi og víst er um það að árangur hefur sýnt sig a.m.k. sum árin. Þarna fá seiðin frið til að alast upp, það eina sem varúðar þarf við, er að setja ekki of mikið af seiðum á þessa staði og með þeirri tækni sem hægt er að beita í dag til rannsókna, á að vera hægt að varast þetta atriði. En þó svo að veiðin hafi verið góð nokkur sumur á efsta svæðinu, upp við og neðan frá fossunum, þá er aðalveiðisvæði Fróðár fyrstu 3 km, frá sjó talið, upp að svokölluðum Jakobslónum, þar fyrir ofan breiðir Seljadalur úr sér og áin kemur þar meira og minna á hnullungsgrjóti næstu 2 km, með fáum eða engum veiðistöðum.
Þar fyrir ofan er síðan efsta svæðið sem kallað er, með mörgum laglegum veiðistöðum. Berghylur er skammt neðan við Jakobslónin. Þar hafa verið gerðar margar tilraunir til að betrumbæta og lagfæra hylinn, sem allar hafa mistekist, enda er Fróðá slík óhemja þegar mikil flóð koma í hana að með ólíkindum er. Eitt sinn var heljarlangt vírnet fyllt með grjóti, teinað saman svo úr varð fleiri tonna vírpylsa. Í næsta flóði lék áin sér að þessu eins um eldspýtu væri að ræða og lá við að kominn væri rembihnútur á pylsuna, þar sem hún lá upp í bakka eftir flóðið. Á hverju vori verður að gera ýmsar aðgerðir á ánni, bæði til að viðhalda veiðistöðum, laga þá til og svo hitt, að reyna að mynda nýja í von um að laxinn kunni þar vel við sig. Oft mistekst þetta, en smátt og smátt bætist við reynsla sem kemur til góða síðar meir.

Stutt er frá Berghyl og þangað sem gljúfrið byrjar, sem reyndar nær allar leiðir niður undir Fróðarbæinn. Gljúfrinu er í tali manna skipt í tvennt, það efra og neðra og liggur skiptingin um laxastiga sem byggður var kringum 1960. Segja má að gljúfrin séu einn samfelldur veiðistaður, frá efsta að neðsta stað, fallegir hylir, strengir og svo óteljandi smáholur þar sem laxinn gjarnan gín við agni.
Efsti staður gljúfranna heitir Brún. Alveg magnaður veiðistaður, fyrst og fremst gerður til maðkveiði, en vel má veiða þar á flugu, að vísu ekki með löngum köstum, heldur aðeins að láta fluguna skoppa á mörkum hvítflyssisins og tæra vatnsins. Það er ekkert smámál að sjá allt í einu laxhaus koma upp úr vatninu og rífa í sig fluguna og ég er ekki frá því að þeir sem þetta hafa reynt, heyri snörl þegar flugan hverfur í laxkjaftinn, þrátt fyrir fossa og flúðir allt í kring, kyrjandi söng árinnar. Það er alls ekkert gamanmál ef lax þýtur niður úr Brúninni, heldur grafalvarlegt, því neðan við er fljúgandi strengur u.þ.b. 150 m langur sem endar í Bláhyl og niður að laxastiganum eru nokkrir ágætir veiðistaðir, Múlafoss, Rennur, Bliki, Mosastrengur. Þessir staðir hafa allir sín sérkenni og náttúran er undur fögur þarna í gljúfrinu, þar sem skiptast á magnþrungnar klettamyndanir og friðsælar lyngbrekkur.

Í júlímánuði, á aðalgöngutímanum, er neðra gljúfrið fengsælast, og flest sumur veiðist fyrsti laxinn í Grjóthyl, sem er fyrsti staður fyrir neðan laxastigann. Þar fyrir neðan koma Stallarnir, sá efri og sá neðri, síðan Holurnar, sú efri og sú neðri, Hornstrengur, Nasi, Blástrengur, Kvarnir, Klettafljót og Klettsstrengur og þar opnar sig gljúfrið, enda skammt heim í hús. Raunar má segja að allsstaðar megi eiga von á laxi í gljúfrinu, milli veiðistaðanna með nafni má finna smáholur og strengi sem veiða má í.
Það er varla meira en mínútu gangur frá húsinu að Bæjarhylnum og Höfuðdagshylurinn er þar rétt fyrir neðan, en hann myndaðist á Höfuðdaginn fyrir nokkrum árum þegar stórflóð kom í Fróðá. Steinsnar frá liggur þjóðvegurinn til Olafsvíkur og við brúna er oft á tíðum lax að fá þegar laxinn er að ganga, og það er skemmtilegt og spennandi að horfa ofan af brúnni þegar laxinn slokrar í sig beitunni. Frá brú ofan að Fróðárvaðli rennur Fróðá mikið til á eyrum, þetta svæði þarf yfirleitt að lagfæra á hverju ári til þess að Fróðá renni þar í einum farvegi. Nokkrir veiðistaðir eru á þessari leið s.s. Spegill, Engjahylur, Eyrarfljót og Eyrarkvörn, en almennt má segja um þetta svæði að þar sé lax að fá fyrst og fremst á göngutíma.
Nú blasir við Fróðárvaðall en um hann fer laxinn áður en hann gengur í ána. Það er furðulegt, en jafnframt stórkostleg sjón að sjá boðana af laxatorfu fara um vaðalinn og leita upp í ós Fróðár, skjótast að lokum upp frekar grunnt vatn og hverfa upp í Fljótið, sem er neðsti veiðistaðurinn í Fróðá sjálfri. Þegar labbað er eftir Fróðárrifinu í átt til Haukabrekkuhöfða, en þar er útrennsli Fróðárvaðals í hafið, er vissara að vera á varðbergi gagnvart kríunni, en af henni er nóg á þessum stað. Þessi fallegi og mikli veiðifugl lítur veiðimanninn hornauga, því margir ungar leynast þarna á milli steina, næstum því ósýnilegir fyrir mannlegu auga.

Ósasvæðinu má skipta í þrjá aðskylda veiðistaði, Óshyl efst, þá Ósflúð og neðst Ósbrún. Allt eru þetta góðir tökustaðir og best er að veiða þarna á fjörunni, því hrein undantekning er af lax tekur þarna á aðfallinu. Þarna rétt fyrir ofan, í vaðlinum sjálfum, er renna, nokkuð djúp. Þar er oft hægt að fá sprellfjöruga sjóbleikju sem stundum tekur grimmt. Mest af bleikjunni er kringum pundið og fátt er betra en að setjast til borðs og fá nýja soðna bleikju með kartöflum og smjöri.
Réttu ári eftir að ég fór mína fyrstu för vestur að Fróðá, keyptu faðir minn og 9 aðrir sómamenn þennan stað. Það kom því af sjálfu sér að ég yrði meira eða minna viðloðandi þennan stað uppfrá því. Faðir minn var stjórnarformaður félagsins frá upphafi til dánardægurs og var ávallt vakandi yfir velferð staðarins og félagsins og æði oft ræddum við saman um það, hvernig best væri að standa að viðhaldi og eflingu fiskræktarinnar í Fróðá. Ég kallaði hann oft „gamla úlfinn“ þegar við vorum saman á veiðum, og við vorum oft við Fróðá saman sem og annarsstaðar, annað hvort tveir einir, en oft líka með góðum vinum. Hann var frábær veiðifélagi, ávallt miðlandi um veiðiskapinn og náttúruna sem í kringum var og það var furðulegt hvað hugsanir okkar fóru oft saman þegar við vorum á róli á árbökkunum, sér í lagi þegar því var velt fyrir sér hvar helst væri veiðivon. Kannski ekki nema von, því ég var ekki hár í loftinu þegar hann tók mig með í fyrsta veiðitrúinn.
Þegar ég lít til baka og leita í sjóði minninganna, er mér minnistæð ferðin sem við fórum vestur þrjú saman, við tveir og móðir mín. Þetta var sumarið 1974. Fróðá var í lágmarki eftir mikla þurrka, við höfðum frétt af laxatorfu í ósnum sem var treg að fara upp Í ána vegna vatnsleysis, svo að veiðihorfur voru kannski ekki þær allra bestu. Þegar við ókum niður Fróðárheiðina að norðan verðu sáum við að krappar öldur voru á Fróðárvaðlinum, það hafði skipt úr norðan átt í sunnan stinningskalda með sólfari og laxinn var byrjaður að sulla sér upp í Fróðá, beint í vindáttina. Þetta voru dásamlegir dagar, með rokveiði, mest stórlax, og heima í húsi tók móðirin og eiginkonan á móti okkur, brosgleiðum og hreyknum eftir vaktina, með uppdekkað borð hlaðið dýrustu krásum.
Allt fullkomnaðist síðan um kvöldið, þegar setið var með „kaffibollann“ þreyttir og lúnir og spjallað um atburði dagsins og hvernig staðið skyldi að hlutunum næsta dag. Út um norðvesturgluggann horfðum við á sólina setjast og óskuðum þess að geta sagt og látið rætast. Sól, stattu kyrr, slík var fegurðin.

Dvölin er hér alltaf góð,
eins þótt gráni heiðarslóð,
eða rigni í Fróðá flóð
og fjúki um haf og skörð,
en best þá sólin letrar ljóð
lífs á þessa jörð.
(Úr Fróðárljóðum eftir J. V. Hafstein eldri)