Búðardalsá

Búðardalsá á Skarðsströnd
Eftir Brynjar Már Magnússon
Það eru ekki ýkja margir veiðimenn sem þekkja Búðardalsá. Hún birtist þeim fáu, sem aka Skarðsströndina, fyrirferðarlítil og nett þar sem hún liðast niður dalinn. Það er þó að breytast því að þessi litla, netta á hefur á síðustu árum verið með eina bestu meðalveiði á stöng á landinu. Síðasta áratuginn hefur hún verið að gefa síaukna veiði og síðustu tvö sumur hefur hún skilað yfir sex hundruð löxum. Það verður að teljast hreint út sagt frábært fyrir netta tveggja stanga á. Árið 2008 var algjört met en þá komu 677 laxar á land. Hefur hún verið gjöfulasta áin á Skarðs- og Fellsströndinni síðustu árin.
Á níunda og tíunda áratugnum var meðalveiði í ánni um 70 laxar á ári. Sveiflan frá 31 laxi til 146 laxa árið 1991 var algjört met. Veiðin á tíunda áratugnum var þó yfirleitt nær fimmtíu löxum. Árið 2001 nær hún aftur hundrað löxum og 2002 er nýtt met slegið, 158 laxar. Eftir það var nýtt met slegið nánast á hverju ári. Strax árið eftir fer hún í 258 laxa og eftir það yfir þrjú hundruð og þar yfir hefur hún verið síðan. Meðalveiði síðustu tíu ára er 316 laxar.

Búðardalsá er laxgeng eina tólf kílómetra, þó ekki af náttúrunnar hendi því að nokkur hundruð metra frá ósum er komið að ólaxgengum fossi, Arnarfossi. Í lok áttunda áratugarins var sprengd renna fram hjá honum og veglegur laxastigi gerður fram hjá öðrum fossi nokkuð hundrum metrum þar fyrir ofan, Sundafossi, sem er undir brúnni við þjóðveginnVi.ð það opnaðist möguleiki á að til yrði hin fínasta laxveiðiá. Fyrir fiskvegagerð var eingöngu um sárafáa veiðistaði að ræða, nokkra staði við Arnarfoss, sem enn í dag er mjög gjöfull veiðistaður en þó minna stundaður en áður, og tvo þar fyrir neðan. Núna eru um 40 merktir veiðistaðir í Búðardalsá og það eingöngu á neðstu sex kílómetrunum, sem er sá hluti árinnar sem hægt er að aka meðfram. Þó þarf að ganga hálfan kílómetra frá þar sem vegurinn endar upp í efsta merkta veiðistað, Svarfaðarhyl.
Fleiri breytingar hafa átt sér stað í Búðardalsá á undanförnum árum en aukning í veiði. Athyglisvert er að veiði hefur færst framar á sumarið en áður, ólíkt því sem virðist vera að gerast víðast hvar annars staðar. Þá hefur veiði dreifst á mun fleiri staði en áður. Það er gaman að velta því fyrir sér hvað valdi þessari veiðiaukningu síðasta áratuginn. Auðvelt væri að segja að það væri vegna seiðasleppinga en það getur tæpast verið þar sem seiðum hefur verið sleppt í ána áratugum saman. Þá hefur ekki verið sleppt í hana seiðum í tvö ár og samt var rosaleg veiði á síðasta ári. Það má því segja að áin sé orðin sjálfbær.
Það sem mestu hefur breytt er að fyrir um 10 árum ákváðu veiðiréttarhafar/leigutakar að breyta fiskvegunum við Arnarfoss og Sundafoss. Rennan fram hjá Arnarfossi var dýpkuð þannig að meira vatn færi um hana og laxinn ætti greiðari leið fram hjá honum. Fleygað var upp úr berginu fyrir ofan Sundafoss til að beina meira rennsli í gegnum stigann. Þessar aðgerðir auðvelduðu aðgengi laxins upp á efra svæðið og sköpuðu um leið víðáttumeira hrygningarsvæði. Getur maður leyft sér að vona að þessi veiði haldi sér? Manni hættir oft til að gera toppárin að einhverju viðmiði en flestar ár hérlendis sveiflast og oftar en ekki veiðist minna en vonast er til. Þegar veiðin fór yfir tvö hundruð laxa þótti það stórkostlegt og enn meiri var ánægjan þegar veiðin fór yfir þrjú hundruð. Við hverju er að búast í framtíðinni? Er hægt að gera ráð fyrir að veiðin verði eitthvað í líkingu við síðustu tvö ár eða eru þrjú til fjögur hundruð laxar líklegri? Gæti hún jafnvel dottið aftur niður í 30 laxa? Sem betur fer er ekki hægt að segja til um það hvernig veiðin verður á næsta ári eða eftir 10 ár.
Veiðimálastofnun hefur þó gert búsvæðarannsókn á Búðardalsá og samkvæmt niðurstöðu þeirra ætti áin að geta gefið 500 laxa meðalveiði. Reynist það rétt er ljóst að það verður áfram veisla á Skarðsströndinni. Þó nokkuð veiðist af tveggja ára laxi á hverju tímabili. 12-15 punda laxar eru tíðir gestir og alvörudrekar sjást líka, þó að þeir gefi sig sjaldnar. Fyrir nokkrum árum veiddist tuttugu punda hængur í Klapparrennu. Þrjátíu punda lax veiddist svo í klakveiði í Lambatanga sem veiðimenn höfðu barið augum allt sumarið. Stórt og gott veiðihús er í landi Hvalgrafa. Fjögur svefnherbergi og stór stofa. Það hefur því verið vinsælt fyrir fjölskyldur að fara til veiða í Búðardalsá.
Helstu veiðistaðir
Framan af er veiði meiri í neðri hluta árinnar (fyrir neðan þjóðveg) en þegar líður á sumar er meiri veiði á efri svæðunum. Þó er lax kominn snemma upp í Lambatanga og jafnvel alla leið upp í Svarfaðarhyl. Gjarnan er skiptingin þannig að önnur stöngin er fyrir neðan þjóðveg en hin fyrir ofan. Þrír veiðistaðir bera af hvað varðar fjölda veiddra laxa; Arnarhylur, Kvíslarfoss og Lambatangi. Sjávarhylur er neðsti staður í ánni, djúpur hylur undir hamri sem oft geymir mikinn fjölda af nýgengnum laxi sem þó stoppar þar stutt. Þetta er staður sem gefur kannski ekki marga laxa á hverju ári en er ákaflega fallegur veiðistaður og skilyrðislaust ber að staldra þar við.
Ein af mínum bestu stundum við ána var við Sjávarhylinn. Við vorum að koma úr Arnarhylnum í lok veiðidags og ætluðum að taka nokkur köst í Sjávarhylinn ef fiskur væri genginn í hann. Bílum er oftast lagt fyrir ofan Sjávarhylinn ef menn ætla í Arnarhyl svo maður lítur gjarnan við í Sjávarhylnum. Því er skemmst frá að segja að í honum voru tugir nýgenginna laxa sem steyptu sér á eftir flugunum í hverju rennsli og komu hausar upp í hvert skipti ef hitsað var. Engir gáfu sig þó en óskaplega var erfitt að rífa sig frá veiðum til að hætta í þetta skiptið.

Arnarhylur er í raun fjórir veiðistaðir, í það minnsta, hver ofan í öðrum. Áður en sprengt var fram hjá Arnarfossi var þetta efsti veiðistaðurinn, eins og áður sagði. Eftir það var hann áfram besti veiðistaðurinn í ánni. Þar til fyrir nokkrum árum var megnið af veiðinni tekið í þessum stöðum við Arnarhyl. Hann er enn gjöfull veiðistaður og gefur sjálfsagt mun fleiri laxa núna en á árum áður þó að hlutfall af heildarveiðinni hafi hríðfallið. Það er þó æði misjafnt hvort mönnum líkar við þessa staði.
Fyrir neðan sjálfan hylinn, þar sem fellur út af breiðunni, er þrenging þar sem oft liggur nokkuð af laxi. Þar er þó auðvelt að styggja laxinn. Undir berginu er lygn breiða og liggur stundum lax undir berginu, í dauða vatninu sunnan megin. Það er þó mjög misjafnt milli ára hvort laxar liggi þar. Í miklum vatnavöxtum rennur áin eins og beljandi jökulfljót þar fram af berginu. Áin getur vaxið hratt og mikið í miklum haustlægðum. Aðalveiðistaðurinn er þó uppi við bergið, í strengnum/rennunni. Liggja þar laxar beggja vegna í strengnum en þó meira sunnan megin. Það verður að viðurkenna að til eru aðgengilegri veiðistaðir. Misjafnt er hvernig menn veiða hann. Áður var hann oft veiddur ofan frá og ef lax tók þá klifruðu menn niður álstiga til að landa fiski neðar. Sá stigi hefur verið fjarlægður til koma í veg fyrir slys en oft voru miklir loftfimleikar stundaðir þarna ef stórir laxar tóku. Því erfitt er um vik að landa fiski ef menn veiða hann ofan frá. Flestir veiða þennan stað nú neðan frá. Þarna er alltaf lax og alveg út tímabilið. Hér koma flestir upp á maðkinn.
Strax fyrir ofan er straumhart ker þar sem hringiða myndast. Það er góður veiðistaður en óaðgengilegur. Annaðhvort þarf að veiða hann ofan af klettinum eða vaða niður rennuna sem er óráðlegt. Sum árin hefur verið einhver slæðinguar afbleikju fyrir neðan Arnarhyl en hún er frekar smá. Eitthvað hefur borið á nokkuð vænum sjóbirtingi og hef ég séð þá upp að efri stiganum. Fyrir ofan rennuna er ker uppi við bergið norðan megin þar sem alltaf er lax. Þar er hringiða og ætli menn að veiða þann stað verður að veiða hann ofan frá eða ofan af berginu.
Kvíslarfossar eru rétt fyrir ofan Arnarfoss og fellur úr hylnum fyrir neðan fossinn í Arnarfoss og rennuna. Kvíslarfoss hefur síðustu árin verið gjöfulasti staðurinn í ánni. Rétt eins og Arnarhylur er Kvíslarfoss sniðinn fyrir maðkveiði. Vissulega er hægt að veiða þá báða með flugu en fluguveiðimenn stoppa styttra við á þessum stöðum. Hlutfall maðkveiddra laxa í Búðardalsá er hátt. Neðri hluti árinnar hentar frekar til maðkveiða en fluguveiða, þó svo að sjálfsögðu sé hægt að veiða alla staði með flugu. Hér er hægt að lenda í gríðarlegri veiði og suma daga koma hér tugir laxa á land.
Klapparstrengur og Klapparhylur eru að koma aftur inn sem gjöfulir veiðistaðir en veiði þar datt niður um tíma. Klapparhylur er viðkvæmur staður sem auðvelt er að styggja þar sem vel sést ofan í hann og þar með sést veiðimaðurinn vel einnig. Í Klapparstreng liggur fiskur undir berginu sunnan megin og niður af horninu. Fyrir nokkrum árum náðist þar tuttugu punda hængur sem nú sómir sér vel á vegg.
Gilmói er fyrsti staður fyrir ofan brú, skemmtilegur og gjöfull fluguveiðistaður. Þetta er fyrsti staður fyrir ofan laxastigann og stoppar lax þarna eftir að hafa gengið stigann. Stundum liggja þarna tugir laxar sem bruna svo upp í Lambatanga eftir stutta pásu. Alltaf má eiga von á laxi á þessum stað. Á miðri breiðunni er grjót sem lax liggur fyrir neðan.
Milli Gilmóa og Lambatanga eru nokkrir staðir sem stundum gefa lax. Tveir staðir eru rétt fyrir ofan Gilmóa sem maður kastar í þar sem maður er kominn á staðinn. Sjálfur fer ég ekki í þá tvo sem eru nær Lambatanganum nema ég fari gangandi úr Gilmóanum í Lambatangann. Þeir hafa aldrei skilað mér neinu og ég hef aldrei séð lax í þeim.
Lambatangi er djúpur dammur sem endar í grunnri breiðu. Þar liggur mikill fjöldi laxa nánast allt tímabilið. Þegar komið er að staðnum hvíldum liggur laxinn niðri á breiðunni en færir sig svo í damminn ef styggð kemur að honum. Þarna liggja oft hundruð laxa. Þessi staður er ekki eins gjöfull og mætti halda miðað við fjölda laxa sem liggja þar, þó að vissulega skili hann drjúgu. Menn eru oft fullþaulsetnir þarna þar sem fiskmergðin er mikil og mjög sýnileg. Það þarf vissulega átak til að yfirgefa veiðistað þar sem maður sér kannski á þriðja hundrað laxa liggja og þar af fjölda stórlaxa. Maður hefur oft skemmt sér við að fylgjast með svakalegum drekum þarna en fyrir nokkrum árum veiddist þarna 30 punda fiskur í klakveiði um haustið. Þarna þarf líka að hafa í huga að það ert ekki bara þú sem sérð laxinn, hann sér þig líka. Menn þurfa því að fara varlega að honum og taka á sig smákrók til að styggja hylinn ekki strax. Best er að reyna þarna skamman tíma í senn. Taka kannski einn, tvo laxa og hvíla staðinn. Koma svo aftur eftir klukkutíma, eða tvo, og reyna aftur.

Breiðan er skemmtilegur flugustaður en það sama verður ekki sagt um damminn. Laxinn liggur það djúpt, og straumur er það þungur, að erfitt er að koma flugu til hans þó að menn reyni þyngdar túpur. Um hundrað metrum ofan við Lambatanga er Kastalahylur og um hundrað metrum þar fyrir ofan er tilbúinn veiðistaður þar sem menn gera stundum góða veiði.
Nokkru ofar er Svartibakki. Þar er langur, hár moldarbakki sunnan megin og strengur meðfram honum. Þegar lengra er haldið upp með ánni er komið að stað sem ber það frumlega nafn „Bílastæðið“. Ekki leggja menn bílum þó úti í ánni heldur er tilbúið bílastæði við veginn. Þar hefur verið flutt stórt grjót í ána sem rennur þarna uppi við háan malarkamb. Við grjótið liggur oft lax.
Tilbúnir veiðistaðir eru nokkrir á efra svæðinu og gefa misvel milli ára. Undarlegasti veiðistaðurinn er í neðsta vaðinu og gefur hann nokkra á hverju ári. Þar hefur grjót verið sett í ána rétt ofan við vaðið, þar sem lax liggur oft. Merkilegt nokk þá gefur hann stundum skömmu eftir að búið er að keyra yfir vaðið. Varla er hægt að styggja hyl meira en með því að aka yfir hann, skyldi maður ætla.
Þá skulu menn hafa það í huga að það er þess virði að kasta á ómerkta veiðistaði. Lax getur legið við öll grjót og gera margir góða veiði með því að reyna víða. Þetta á kannski sérstaklega við þegar ofar dregur. Fyrir ofan vaðið eru margir skemmtilegir fluguveiðistaðir. Þar hefur þó vatnsmagn meira að segja en neðar og í þurrkum halda margir þeirra ekki fiski. Í góðu vatni eru þetta þó skemmtilegustu staðirnir í ánni að mínu mati. Þessir staðir eru farnir að detta inn mjög fljótlega á tímabilinu ef vatnsstaða er góð.
Milli fyrsta og annars vaðs eru Gil og Ármót (þar sem Hvarfdalsá sameinast Búðardalsá) sem skilyrðislaust á að prufa. Þeir gefa þó nokkra laxa á hverju ári. Milli annars og þriðja vaðs er einn merktur staður en sá gefur fáa laxa á hverju ári.

Eftir 1. september er veiði óheimil fyrir ofan þriðja vaðið. Fyrir þann tíma ættu menn þó endilega að prófa þessa staði. Þarna eru nokkrir merktir veiðistaðir sem menn ættu endilega að reyna. Svarfaðarhylur er efsti merkti staður. Ekki er hægt að aka alla leið að honum og þarf að ganga nokkur hundruð metra eftir að slóðinn endar. Þetta er staður sem getur geymt þó nokkuð af laxi. Fallegur og nokkuð djúpur staður sem gefur nokkra laxa á hverju ári. Sárafáir leggja leið sína upp fyrir Svarfaðarhyl en áin er laxgeng nokkra kílómetra í viðbót upp að fossi. Ræður því væntanlega að þar á eftir þarf að ganga og þegar fullt er af fiski neðar leggja menn síður á sig göngu upp á hið óvænta. Sjálfur hef ég aldrei farið alla leið upp að efsta fossi. Þess ber þó að geta að þeir sem hafa lagt á sig að ganga þetta hafa ekki uppskorið neina stórveiði. Sjálfsagt gengur ekki mikið af fiski upp á þennan hluta árinnar fyrr en á haustin þegar vatnsmagnið eykst í ánni en þá er þessu svæði lokað fyrir veiði. Mín skoðun er sú að leyfa eigi laxinum að eiga þetta sem sitt griðasvæði. Það skilar sér þá í enn betri hrygningu.
Ernir og laxar
Mikil veisla hefur verið í veiðinni í Búðardalsá á síðustu árum. Hefur hún á síðustu árum verið meðal bestu laxveiðiáa á Íslandi ef miðað er við veiði per stöng. Svo mikill hefur atgangurinn verið að eitt sinn stökk lax beinlínis á mig og í annað skipti var rangur lax háfaður í löndun. Holl hafa veitt 60 laxa á tvær stangir. Merkilegt nokk þá er hægt að komast í veiði þarna án þess að það kosti mann nýra. Reyndar er ekki svo hlaupið að því að komast þar að því að sömu aðilar halda sínum hollum þar árum saman og ekki er mikið laust. Hér eru veiðimenn í ríki arnarins sem vitjar oft gesta í dalnum. Ég hef oft komist ótrúlega nálægt þeim og því full ástæða til að vera með myndavél á sér öllum stundum.
Stundum slær á algera þögn í dalnum. Allir fuglar þagna skyndilega. Þá er örn yfirleitt ekki langt undan. Fálkar og smyrlar hafa líka sýnt sig. Eitt sinn, þegar við ókum upp að veiðihúsinu, beið smyrill á girðingarstaur á heimreiðinni. Hann hreyfði sig ekki þó að keyrt væri alveg upp að honum og stoppað, stillti sér upp fyrir myndatöku og hvarf svo á braut.
