Til baka

Blanda

Blanda

Eftir Stefán Pál Ágústsson

SVÆÐI 1

Svæði 1 í Blöndu nær frá neðstu veiðimörkum við ós árinnar og upp að Ennisflúðum, alls um 2,5 kílómetrar að lengd. Þrátt fyrir að svæðið sé fremur stutt ber það vel fjórar stangir því að veiðin er með afbrigðum góð. Ekki eru nema 11 merktir veiðistaðir á svæðinu en sjaldnast eru veiddir fleiri en 5 til 6 staðir í hverju holli, fæstir vilja yfirgefa Dammana og Breiðuna til að prófa eitthvað nýtt.

Bílastæði er við svæðið á suðurbakkanum og er ekið gegnum hesthúsahverfi Blönduósinga til að komast að því. Þaðan tekur við stutt rölt niður að á og er komið niðar að Dammi að sunnan. Þessi veiðistaður er með allra bestu veiðistöðum á landinu og hreint frábær til maðkveiða en einnig geta menn gert góða veiði á flugu. Spúnn er bannaður í Dammi sem og Breiðu. Þarna breiðir Blanda örlítið úr sér eftir eftir þröngt rennsli frá Ennisflúðum en þrengist svo aftur fyrir neðan Damm. Í Damminum eru aðstæður þannig að frá bakka og nokkra metra út er ekki nema rúmlega hnédjúpt vatn í meðalrennsli en síðan endar sú klöpp og dýpkar þar snögglega.

Eftir klapparkantinum er gott að renna maðki því að segja má að nánast hver einasti lax sem gengur í Blöndu og Svartá hafi þar viðkomu. Þarna gefur verið afar straumþungt og því gildir að sakka vel og halda maðkinum niðri við botn. Sé vatn í meðallagi má oft finna lax ofan á klöppinni og sést hann vel áður en menn ganga niður í Damm. Þá er upplagt að kasta fyrir hann flugu áður en maðkinum er rennt. Neðst á klöppinni grynnist kanturinn nokkuð og þar liggur gjarnan lax sem er í góðu færi við flugu, rauð Frances-túba eða Sunray Shadow á sökkenda virka mjög vel á þennan blett.

Fyrir ofan Damminn á suðurbakka er svokölluð Hola sem getur verið mjög gjöful sé hæfilegt vatnsmagn í ánni. Þar feta menn sig niður að ánni skömmu eftir að göngupallinum sleppir og veiða með maðk í flestum tilfellum. Þar er stutt milli bakka og mikill straumur en úti í ánni er mikið bjarg sem áin hvelfist yfir og sunnan megin eru steinar við bakkann. Best gefur að slaka maðki niður að þessum steinum og halda honum þar því að mikið af laxi gengur þeim megin upp og þeir stoppa jafnan við þessa steina. Eins má reka í lax með því að sakka vel og renna maðki út fyrir frambjargið sjálft í miðjunni.

Fyrir ofan göngubrúna, sem er rétt fyrir ofan Holuna, er svo svokallaður Spítali rétt neðan Ennisflúða. Þar er öll veiði bönnuð en það hefur stundum ært óstöðugan að sjá laxatorfurnar bunka sig þar upp.

Neðan Damms er svo Breiðan og þegar veitt er af þessum bakka er talað um Breiðu að sunnan. Fyrir henni miðri og eftir henni endilangri gengur gjá sem grynnist svo út niðri við brotið. Að sunnan er botninn heil klöpp sem er nokkuð sundurskorin og getur því verið varasamt að fara út að gjá nema menn þekki ágætlega til eða áin sé þeim mun hreinni svo að menn sjái til botns. Oft veiðist vel af bakkanum sjálfum, sérstaklega ofan til, þar sem lax liggur oft í klapparskorunum sé þokkalegt vatn í ánni. Sé það fullreynt er sjálfsagt að fikra sig út á klöppina og veiða við gjábarminn og niður á brotið, rétt fyrir ofan brotið er helsti tökustaðurinn á Breiðunni að sunnan.

Að norðan veiða menn sömu staði, Damm að norðan (Bugur) og Breiðu að norðan. Farið er yfir göngubrúna fyrir ofan Holu og gengið niður að Dammi. Sá staður er reyndar slakari en sá sem er að sunnan. Þó koma þar oft gríðarlega öflugar göngur og menn hafa oft gert afar góða veiði þar. Gengið er að ánni undir klettinum og veitt meðfram klöppinni sem er þar fyrir neðan. Fyrir miðri klöpp er lítil skora eða bolli þar sem lax staldrar gjarnan við. Sést þessi staður greinilega þar sem brýtur aðeins á honum. Þessi skora er helsti tökustaðurinn í Dammi að norðan en einnig má oft setja í laxa meðfram klöppinni og þá helst ofarlega og utan með.

Breiðan að norðan er talsvert frábrugðin Breiðunni að sunnan. Þar er botninn sendinn og auðvelt að vaða — helst er það efst á breiðunni þar sem klöppin er ber og ekki sandur á henni. Hér er oft lax ofan á breiðunni sjálfri og sjálfsagt er að veiða sig út að gjánni og veiða síðan niður að broti og veiða þá varlega meðfram brotinu. Menn þurfa þó að gæta sín á gjábarminum því að neðarlega á breiðunni er hola við barminn sem nefnd er Aschman-hola eftir kappsömum veiðimanni sem gekk ofan í hana hvað eftir annað — helst tvisvar á vakt. Í þessari holu missa menn fótanna og geta jafnvel flotið niður eftir ánni.

Fyrir utan þessa fimm staði er vert að minnast á Skerið sem er neðan Breiðu að norðan, en strengirnir þar geymt geta talsvert af laxi, og Kríuhólma að sunnan sem er vel þess virði að prófa sé treg veiði á Breiðunni. Kleifardammurinn getur líka haldið fiski í sæmilegu vatni sem og Hrútey. Sumarið 2011 er eingöngu leyft að veiða með flugu á Breiðunni, flugu og maðki í Damminum en allt agn er leyfilegt neðan brots á Breiðu. Kvóti er einnig settur í fyrsta skipti og er hann 12 laxar á dagstöngina. Veiðihús fyrir svæði 1 er við Hólabæ í Langadal og nefnist Hólahvarf en þar er full þjónusta og öll aðstaða hin besta.

SVÆÐI 2

Svæði 2 í Blöndu er um margt einkennilegt veiðisvæði en oft er mikið af laxi þar. Stórir hlutar svæðisins henta mjög vel til hrygningar og hefur seiðaþéttleiki verið góður þar þegar mælt hefur verið. Ætla má að mikið af laxi haldi til á svæðinu en einnig eru laxar á ferð í gegnum svæðið og upp í Svartá eða efri svæði Blöndu. Mesta skráða veiði af svæðinu er rúmir 600 laxar laust fyrir síðustu aldamót en á síðustu 15 árum hefur veiði sveiflast frá 600 löxum og niður fyrir 100 í lökustu árum. Erfitt er að segja hverju þetta sæti, hvort vorflóð hafi spillt veiðistöðum og nýir ekki fundist í staðinn eða hvort laxinn sé hreinlega horfinn af svæðinu. Ekki hafa fróðir menn mikla trú á því síðastnefnda þar sem laxgengd hefur aukist verulega á undanförnum árum og hrygningarskilyrði eru góð á svæðinu. Svæðið er hins vegar mjög stórt, um 25 kílómetra langt, og áin vatnsmikil og þvi getur verið erfitt að finna laxinn þó hann sé í talsverðu magni. Þó meðalrennsli sé oftast á milli 30 og 40 rúmmetrar á sekúndu í Blöndu yfir sumartímann (fram að yfirfalli) er rennslið ekki jafnt kvölds og morgna. Ekki er einungis að vatnshæð breytist heldur einnig allt straumlag í hyljum — m.ö.o. má segja að Svæði 2 í Blöndu sé stundum tvær mismunandi ár, fyrir og eftir hádegi. Alla jafna er mun minna rennsli fyrir hádegi en eftir hádegi og verða menn því að forma sér veiðiáætlun eftir því.

Fyrir hádegi, í minna vatni, reynist oft best að sækja grimmt á stóru og djúpu breiðurnar sem víða má finna. Þarna má nefna Braggabreiðu, Strjúgsstaðabreiðu og Holtastaðabreiðu eins er Víkin djúpur og mikill hylur sem heldur alltaf laxi — en best er að veiða þann að vestan megin frá (af eyrinni), hinir staðirnir eru veiddir þeim megin sem komið er að þeim. Aðrir staðir, sem vert er að gefa gaum á morgunvakt, eru að sjálfsögðu Svarthylurinn og Kvíslamótin — en þar er alltaf fiskur. Vaðstrengur, Hólmahorn og Eyjarendi — oftast eru þessir seinni tveir einfaldlega nefndir Auðólfsstaðir — eru alla jafna sterkari í meira vatni en vel þess virði að taka eitt rennsli.

Vaðstrengur er veiddur af báðum bökkum (farið yfir á bátnum). Á öllum þessum stöðum gefur vel að hafa tommulanga (eða minni) túpu undir og sökkenda, spúnn og maðkur ganga einnig vel á þessa staði. Eftir hádegi hefur rennsli oftast aukist og verða veiðimenn því að bregðast við og endurskoða áætlunina samkvæmt því. Eftir því sem rennsli eykst verða sumir staðir betri og betri, hér má nefna Kláf og Kapalbreiðu, Engjabreiðu og Laxhyl. Eins má ekki gleyma Ennisholunni — neðsta stað á svæði 2. Ennisholan er rétt fyrir ofan Ennisflúðirnar og laxastigann og reynslan sýnir að mest af laxinum gengur upp stigann seinnipart dags. Gjöfulasti tíminn í Ennisholunni er á milli 18.00 og 20.00 í sæmilegu vatni.

Fyrir utan þessa staði eru svo Svarthylurinn, Kvíslamótin, Vaðstrengur og Auðólfsstaðir alltaf sterkastir þegar vatnsmagn er umtalsvert. Eins má minnast á Vonina þegar líður á seinni vaktina (milli kl. 18 og 19) og er þá farið niður hjá bænum Köldukinn á vestari bakkanum. Þar er hægt að keyra niður að Kapalbreiðu (sem er í raun Kláfur að vestan) og dóla sér niður með ánni í átt að Voninni — þó verður að labba síðasta spölinn. Þegar fiskur er að ganga fyllist þessi hylur oft af laxiaxinn á svæði 2 er ekki gjarn á að sýna sig og ættu menn því ekki að örvænta þó að þeir sjái ekki mikið líf— laxinn er þarna, það er víst. Svæðið er 25 kílómetra langt og þar eru fjölmargir staðir aðrir en þeir sem hér eru taldir upp og margir þeirra vel þess virði að reyna við. Það verður að segjast að maður er aðeins hikandi við að nefna bara þessa 15-20 staði, því það er hætta á að menn einblíni bara á þá og láti hina eiga sig. Á svæðum 2 og 3 í Blöndu eru engar hömlur á agni aðrar en þær sem í lögum eru, það er sumsé heimilt að beita maðki, spún og flugu á þessum svæðum. Bestu spúnarnir eru hinir hefðbundnu Toby-spúnar (ABU original), bæði svartir og silfraðir, einnig hefur Devonin reynst ágætlega og hinir norsku Salamander-spúnar — sem nú eru því miður ekki framleiddir lengur. Best er að nota þá í þyngdum 18-24 gr — við mælum ekki með þyngri spúnum (nema menn vilji vera stanslaust í botnfestum). Maðkur gefur líka vel og best hefur gefið að fara sparlega með sökkurnar, bara rétt nóg til að sökkva til botns. Að þverkasta maðki gefur oft góða raun og þá er sérstaklega mikilvægt að ofþyngja ekki með sökkunum.

Fluguveiði í Blöndu er stórskemmtileg og gefur ekki síður en maðkur eða spúnn. Í langflestum tilfellum er notast við flotlínu með sökktaum en einnig má bregða y hitchtúbunum undir við og við. Oftast verða túbur fyrir valinu og þá gjarnan í stærðum 1 til 1,5 tomma að lengd. Þær túbur sem alltaf ættu að vera í Blönduboxinu eru rauð og svört Frances, þýsk Snælda og Sunray Shadow — þess utan er algengt að sjá Black Sheep og Silver Sheep, Black and Blue, Pool Fly og ýmsar aðrar sérviskutúbur. Eftir að litur eykst í ánni gefur best að hafa annaðhvort svartar flugur eða appelsínugular — þessir litir virðast vekja mest viðbrögð í jökullitnum. Tvíhenda er þægilegt verkfæri á svæði 2 í Blöndu, en ekki bráðnauðsynleg, þokkalegir kastarar geta auðveldlega látið einhenduna nægja. Ekki er sérstakt veiðihús fyrir svæði 2 en veiðimenn geta fengið inni í Hólahvarfi.

SVÆÐI 3

Svæði 3 er um margt líkt svæði 2 en að sama skapi eru þessi svæði einnig frábrugðin hvort öðru í veigamiklum atriðum. Á svæði 2 liðast áin niður til sjávar nokkurn veginn á jafnsléttu og ekki mikið um brot og strengi. Svæði 3 er hins vegar að mestu leyti í gljúfri og því straumþyngra og þar má sjá strengi og brot. Að mörgu leyti er það auðlesnara svæði en tvisturinn. Svæði 3 er er oftast aðeins litaðra en svæði 2 þar sem Svartá rennur í Blöndu á milli þessara tveggja svæða. Hér gildir þó hið sama og á hinum neðri svæðunum, rennsli og vatnshæð eru oftast minnst að morgni en aukast svo jafnt og þétt yfir daginn. Svæðið er 11,5 kílómetra langt og er veitt á þrjár stangir.

Neðsti staður, Bæjarhólar, hefur oft verið fengsælasti staðurinn á svæðinu, laxinn liggur gjarnan beint niður undan eyraroddanum — í dauðafæri fyrir rauða Frances. Skurður gefur einnig oftast góða veiði og gjarnan neðst á staðnum (Skurðsendi) og er sá staður veiddur austan megin frá. Skurður er efsti veiðistaður á svæðinu og þurfa menn því að keyra rúma 11 kílómetra þar á milli. Á leiðinni er um að gera að stoppa við Lynghólma en þar liggur lax oftast tiltölulega nálægt landi. Gott er að miða við raflínustaurinn á bakkanum, byrja að kasta rétt fyrir ofan hann og veiða sig niður um 50 metra.

Blöndudalshólar eru annar ágætur staður með fallegri breiðu — en farið er niður í gilið austan megin frá. Í kringum Blöndubrúna má einnig setja í laxa, bæði fyrir ofan og neðan, en veiðistaðir breyta sér oft á milli ára á neðri hluta svæðisins.

SVÆÐI 4

Svæði 4 í Blöndu var lengi vel falinn fjársjóður en er nú orðið að því veiðisvæði sem hvað mest ásókn er í. Svæðið afmarkast af stíflunni við Reftjarnarbungu að ofanverðu og útfalli virkjunar að neðanverðu. Ekki rennur jökulvatn um þennan gamla farveg Blöndu heldur er þetta lítil dragá sem í renna Refsá, Rugludalsá og fleiri sprænur. Fram að yfirfalli er vatnið blátært og áin viðkvæm en að sama skapi mjög gjöful.

Segja má að svæðið sé eins frábrugðið hinum svæðum Blöndu og hægt er, lítil og tær á sem hentar fullkomlega fyrir smáfluguveiði og gárutúbur. Svæðið er um 27 kílómetra langt frá stíflu að útfalli, en flestir láta sér nægja að veiða frá ármótum Rugludalsár og nið ur (10,5 km), og er veitt á þrjár stangir. Sumarið 2011 er eingöngu leyfð fluguveiði frá 10. júlí og fram að yfirfalli (komi til þess) og sleppiskylda á laxi sem nær 70 cm að lengd og yfir.

Frá Rugludalsá og niður eru margir veiðistaðir, bæði merktir og ómerktir, en vilji menn veiða þá alla er eina leiðin að láta keyra sig upp á Eyvindarstaðaheiði og ganga niður að ármótum og veiða sig niður á við. Fyrir ofan Eldjárnsstaði (næsti bær við veiðihúsið að Eiðsstöðum) er enginn vegur né slóði að ánni og verða menn því að láta sig hafa það að ganga upp dalinn eða láta keyra sig upp á heiði.

Á neðra hluta þessa svæðis (frá útfalli og upp að Hvítaneshyl) er mun betra aðgengi þó að ekki sé alls staðar hægt að keyra alveg að hyljum og stundum er svolítið brölt frá bíl að á. Á þessu svæði eru fjölmargir skemmtilegir hyljir sem vert er að gefa gaum og getur veiðin verið hreint með ólíkindum. Ekki eru mörg veiðisvæði á landinu sem njóta viðlíka vinsælda og þetta svæði þrátt fyrir að það geti verið erfitt yfirferðar og skýrist það væntanlega af aflasæld á svæðinu en einnig sækja menn í kyrrðina uppi á dal.

Undanfarin ár hefur veiðin verið frá 350-450 laxar á sumri. Stundum hefur einungis verið veitt í 40 daga þar sem svæðið verður illveiðanlegt við yfirfall. Þess eru þó dæmi að Blöndulón fari af yfirfalli og þá getur verið gaman nokkrum dögum seinna þegar svæðið hefur hreinsað sig. Bærinn á Eiðsstöðum hefur verið gerður upp og hefur þjónað sem veiðihús á svæði 4 flest undanfarin ár en þar er svefnpláss fyrir 78 manns. Húsið er laust við íburð en er mjög hentugt sem veiðihús.

Sjá allar lýsingar
Sjá allar lýsingar